Brighton – Everton 0-2

Mynd: Everton FC.

Þriðji deildarleikur Everton er í dag, laugardag kl. 14:00, en þá mæta okkar menn á Amex Stadium til að takast á við Brighton. Þeir hafa byrjað nýja tímabilið afar vel og eru með fullt hús stiga eftir 2-1 sigur á Burnley og 2-0 sigur á Watford. Sátu þeir fyrir vikið í 4. sæti eftir síðustu umferð. Everton með fjögur stig í 7. sæti, eftir sigur og jafntefli.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Holgate, Coleman (fyrirliði), Allan, Doucouré, Gray, Townsend, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Lonergan, Nkounkou, Branthwaite, Kenny, Gomes, Iwobi, Gordon.

Líklega hefðbundin 4-4-2 uppstilling. Gbamin missir af leiknum vegna einhvers tann-vesens og Yerry Mina einnig vegna „höggs“ (e. knock). Athygli vekur að enn á ný er enginn James Rodriguez sjáanlegur og líkurnar á því að hann hafi spilað sinn síðasta leik aukast dag frá degi en glugginn lokar von bráðar. Sjáum hvað setur. En þá að leiknum…

Brighton menn voru mun meira með boltann í fyrri hálfleik og létu boltann ganga vel. Everton menn, um leið og boltinn tapaðist, tóku mjög stífa pressu á leikmenn Brighton. Gáfu þeim lítinn tíma til að athafna sig og fyrir vikið voru Brighton menn yfirleitt bara að reyna langskot á markið. Náðugur dagur hjá Pickford í markinu en ekki eitt skot frá Brighton rataði á rammann í fyrri hálfleik.  Everton átti klárlega betri færin í fyrri hálfleik.

Townsend átti fyrsta færið, skot rétt utan teigs alveg við D-ið. Skotið var lágt, alveg út við hægri stöng, en markvörður gerði vel og kastaði sér á það og sló í horn.

Markvörður Brighton lenti undir pressu frá Richarlison á 30. mínútu og sendi beint á Townsend. Townsend sendi fljótt fram á Doucouré sem var í ákjósanlegri stöðu til að skjóta inni í teig (og reyndar líka framlengja á Gray vinstra megin í teig) en skotið, sem fór framhjá markverði, fór því miður yfir markið. Hefði átt að gera betur þar.

Richarlison náði að senda stungusendingu inn á Coleman sem splundraði vörn Brighton. Coleman komst upp að endamörkum hægra megin og reyndi lágan bolta fyrir mark á Calvert-Lewin, sem kom á hlaupinu upp að marki, en boltinn fór aftur fyrir Calvert-Lewin. 

Á 40. mínútu komst Everton í skyndisókn og náðu að brjóta ísinn. Allan gerði vel að sjá hlaupið hjá Demarai upp völlinn (aðeins vinstra megin við miðju) og sendi langan bolta á hann frá eigin vallarhelmingi. Demarai Gray brunaði upp völlinn með boltann og Webster, varnarmaður Brighton, þorði ekki að koma of nálægt honum, þannig að Gray skaut bara að skoraði framhjá Sanchez.

Allan gerði aftur vel á 44. mínútu þegar hann komst að teig hægra megin, sá hlaupið hjá Calvert-Lewin inn í teig fyrir aftan sig og sendi hælsendingu á hann. Calvert-Lewin reyndi skot í fyrstu snertingu en rétt framhjá.

Everton með verskuldaða 0-1 forystu í hálfleik, þrátt fyrir að hafa verið mun minna með boltann.

Ein breyting á liði Brighton í hálfleik (Veltman inn) og þeir byrjuðu seinni hálfleik af krafti með sterkri pressu á vörn Everton. Uppskáru aukaspyrnu á 50. mínútu og náðu sínu fyrsta skoti á rammann, sem Pickford varði. Frákastið hins vegar út í teig þar sem Brighton menn lúrðu og hefðu getað potað inn ef Doucouré hefði ekki náð að hreinsa.

Þetta hefði getað verið ákveðinn vendipunktur í leiknum en í staðinn, á 55. mínútu, nældi Coleman sér í vítaspyrnu þegar hann komst inn fyrir Veltman, (vinstri bakvörð Brighton sem hafði komið inn á í hálfleik) og felldi hann.

Richarlison heimtaði að fá að taka vítið en Calvert-Lewin hafði betur á endanum og setti boltann örugglega niðri í vinstra hornið. Markvörður kastaði sér í rétt horn en náði ekki að verja. Richarlison missti sig pínu yfir því að fá ekki að taka vítið, en virkaði allt saman hálf kjánalegt.

Brighton menn svöruðu með því að skipta Lallana út af fyrir Wellbeck og þeir náðu loks skoti á rammann úr opnu spili í kjölfarið en Pickford vel á verði og varði.

Á 69. mínútu þurfti Calvert-Lewin að fara út af vegna meiðsla. Virkaði minniháttar, gekk óstuddur af velli og nær vonandi að hrista það af sér í landsleikjahléinu. Iwobi skipt inn á fyrir hann.

Everton náði að vængstífa mávana á suðurströndinni sem fyrir vikið sköpuðu lítið í sóknarleik sínum. Skipulagður varnarleikur kom í veg fyrir almennileg færi frá Brighton og Everton nýtti sér skyndisóknir óspart til að reyna að koma fleiri höggum á Brighton.

Í einni slíkri komust Iwobi og Richarlison upp völlinn, sem endaði með því að Richarlison komst inn í teig hægra megin og reyndi skot á nærstöng, en framhjá marki. Skotið alls ekki nógu gott og því lítil hætta.

Strax á eftir fylgdi önnur skyndisókn frá Everton þar sem Doucouré komst inn í teig, eftir að Gray hafði sett hann upp kantinn með flottri sendingu. Doucouré hótaði skoti og hleypti þar með miðverðinum, sem kom á mikilli siglingu, framhjá sér en breytti svo bara um stefnu og fékk að skjóta óáreittur innan teigs. Sanchez í markinu varði hins vegar glæsilega.

Gomes inn á fyrir Gray á 81. mínútu og átti ágæta spretti. Hjálpaði til við að loka plássi á miðjunni og átti 2-3 skot á mark að auki.

Á 88. mínútu hefði Everton svo getað fengið víti þegar varnarmaður togaði í höndina á Richarlison og kom í veg fyrir að hann kæmi sér í færi þegar fyrirgjöfin kom, en dómari ekki sammála. Ekki ósvipað vítinu sem Calvert-Lewin fékk í síðasta leik.

Það kom þó ekki að sök, því Everton sigraði Brighton í dag 0-2.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (8), Holgate (7), Keane (7), Digne (7), Townsend (7), Doucoure (7), Allan (7), Gray (8), Richarlison (6), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Iwobi (6), Andre Gomes (6).

Maður leiksins: Seamus Coleman.

18 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Hvar í ósköpunum er Godfrey?? Mig grunar að það sé verið að selja hann, vona að það sé ekki tilfellið. Keane mun örugglega gera eitthvað heimskulegt í dag eins og hann er vanur, amk í síðustu leikjum og það mun kosta okkur tap. Þetta fer 2-0 fyrir Brighton.

  • Ari S skrifar:

   Ein áberandi breyting miðað við liðið í fyrra en þeir virðast vera hættir að senda stöðugt á Jordan Pickford og berjast og pressa sjálfir…

   2-0 sigur okkar manna í dag, það er stundum gaman að hgafa rangt fyrir sér Ingvar er það ekki? kv. Ari

   • Ingvar Bæringsson skrifar:

    Það er stundum mjög gaman, eins og í dag.
    Frábær frammistaða og á köflum alveg stórkostleg spilamennska.
    Mér fannst Allan maður leiksins hjá Everton í dag.

 2. Ari S skrifar:

  Flooooott mark frá Gray 🙂

  Fyrir ykkur stuðningsmenn sem eru enn í fýlu út í ráðningu Benitez þá er ég einna ánægðastur hversu líflegur hann er á hliðarlínunni… 🙂

 3. AriG skrifar:

  Frábær leikur hjá Everton. Enginn varnarmistök. Allan var stórkostlegur besti maður vallarins. Ingvar Godfrei lenti í sóttkví eða varð veikur af covid ekki viss þess vegna spilar hann ekki. Gray sennilega kaup sumarins. Lewin var eitthvað týndur í þessum leik en flott víti hjá honum. Richarlison má fara mín vegna ef Paris borgar 85 millur fyrir hann fer rosalega í taugarnar hjá mér flottur leikmaður en vandræðagripur. Mikið er ég feginn að losna við Ancelotte hleypur í burt við fyrsta tækifæri og mjög feginn að fá Benitez mér er skítsama þótt hann var þjálfari Liverpool áður finnst það barnalegt að vera á móti honum vegna þess. Aðalatriðið er að hann er góður stjóri og liðið virkar vel saman.

  • Ari S skrifar:

   Það hefur heyrst að 120 millur séu nefndar. Það sem Richarlison gerði í dag var fáránlegt. Hann hefur gert þetta áður. Hann átti samt fínan leik og þarf nauðsýnlega að komast í frí, það er klárt. Hvort það verður frí frá okkur alveg kemur í ljós á næstu dögum. Everton keypti hann á 50 millur (held ég) og það verður settur mjög há upphæð á hann eins og ég sagði í byrjun, ef hann fer.

   • Ari S skrifar:

    120 milljón evrur vill Everton fá fyrir Richarlison. Sem er í raun fínt af því að við þurfum ekkert að selja hann.

    • Ari S skrifar:

     …ég meinti fínt að setja verðmiðann svona hátt því við þurfum ekki að selja.

 4. Finnur skrifar:

  Hverjir eru þrír bestu leikmenn Everton, að ykkar mati, miðað við frammistöðuna eftir þessa fyrstu þrjá leiki deildarleiki?

  Ég myndi segja: Gray, Allan, Calvert-Lewin.

  • Ari S skrifar:

   Gray, Allan og Iwobi.

   • Ari S skrifar:

    Annars þegar ég hugsa þetta betur þá er ég sammála þér Finnur… Gray, Allan og DCL… En það er sérstaklega gaman að sjá hvað Benni (we’re on first name basis) virðist ná út úr Iwobi 🙂

  • Elvar Örn Birgisson skrifar:

   Sammála með Gray og Allan en mér fannst Holgate alveg magnaður og fær sjaldan hól þó hann spili vel.
   Flottur leikur í dag heilt yfir og staðan góð fyrir landsleikjahlé.
   Verður gaman að sjá hverjir koma inn en búast má við að James og Kean fari frá klúbbnum. Bara 3 dagar eftir af glugganum svo mikið gæti gerst næstu daga.
   Everton gæti náð mörgum stigum í næstu þremur leikjum sem eru lið í neðri helming deildar.
   Iwobi hefur komið hrikalega á óvart og hefur átt þátt í ansi mörgum mörkum hjá Everton í byrjun leiktíðar.

 5. þorri skrifar:

  sælir félagar að mínu dómi þú var allt liðið mjög gott mér fanst engin skara neitt fram úr. svo finst mér frábært að sjá Benitez hvernig hann stjónar liðinu.

 6. Finnur skrifar:

  Andros Townsend í liði vikunnar að mati BBC:
  https://www.bbc.com/sport/football/58330317

 7. þorri skrifar:

  Sælir félagar hafið þið einnhvejar fréttir þá nýjar af okkar mönnum.Hafið þið eitthvað lesið ensku miðlana. enska er ekki góð hjá mér .er eitthvað að gerast hjá Gylfa