Arsenal – Everton 0-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætir til London til að takast á við Arsenal á þeirra heimavelli kl. 19:00 í kvöld. Öll lið bíða í ofvæni eftir því að áhorfendur verði leyfðir aftur á völlunum, en stemningin verður extra skrýtin í kvöld utan vallar þar sem stuðningsmenn Arsenal hópuðust saman og mótmæltu kröftuglega. Helsta umkvörtunarefnið náttúrulega tilraunir Kroenke, eiganda Arsenal — og fleiri eigenda (sem nú ganga undir nafninu „greedy six“), til að stofna Evrópska ofur(græðgis)deild.

Þær fréttir bárust fyrir leik að hvorki Aubameyang né Lacazette væru í hópi Arsenal manna, þar sem þeir væru frá vegna veikinda (sá fyrrnefndi) og meiðsla (sá síðarnefndi). Þetta eru kærkomnar fréttir fyrir Everton menn því þessir tveir leikmenn hafa skorað fjögur af síðustu 6 mörkum Arsenal í þremur leikjum þeirra gegn Everton. Án marka þessara manna hefði Everton fengið 7 stig af 9 mögulegum.

Sigur í kvöld myndi senda afar sterkt merki um að Everton ætli að berjast af öllum krafti til loka tímabils um sæti í Meistaradeildinni. Hópurinn er smám saman að ná fyrri styrk þar sem farið er að létta yfir meiðsladeildinni en Calvert-Lewin kemur inn í byrjunarliðið aftur, ásamt Gomes. Þetta lítur því þannig út:

Uppstillingin: Pickford, Digne, Holgate, Godfrey, Coleman (fyrirliði), Allan, Gomes, Rodriguez, Gylfi, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Olsen, Nkounkou, Mina, Broadhead, Delph, Davies, Iwobi, Bernard, King.

Óvenjufáir kjúklingar á bekknum og því ber að fagna (með fullri virðingu fyrir ungliðunum — og fiðurfénaðinum) en það er til merkis um að það sé að rofa til í meiðsladeildinni og ekki seinna vænna.

BBC vildi meina að Ancelotti myndi spila 4-3-3 með Gylfa og Richarlison sitt hvorum megin við Calvert-Lewin, en Gylfi endaði á að spila vinstra megin á miðjunni og Rodriguez meira miðsvæðis. 

Arsenal menn byrjuðu betur og settu smá pressu á vörn Everton, sem hélt vel. Arsenal menn meira með boltann (circa 60-40 í prósentum talið) en sáralítið að gerast í sókn Arsenal. Fyrsta færið kom á 13. mínútu þegar Gylfi og Digne náðu vel saman á vinstri kanti og Digne sendi frábæran bolta fyrir, beint á Calvert-Lewin en varnarmaður Arsenal náði að trufla hann nóg til að skallinn endaði framhjá marki. Tveimur mínútum síðar reyndi Digne aftur fyrirgjöf frá vinstri, sem breytti um stefnu af varnarmanni og markvörður Arsenal þurfti óvænt að hafa fyrir því að verja.

Fyrsta færi Arsenal á 18. mínútu, skot á mark innan teigs — en beint á Pickford sem varði auðveldlega.

Everton fékk frábært færi á 29. mínútu þegar Allan sendi stungusendingu á Richarlison sem lék á varnarmann Arsenal inni í teig og kom sér í skotfæri. Skotið hins vegar varið af markverði Arsenal og boltinn hefði fallið vel fyrir Calvert-Lewin ef hann hefði bara verið aðeins aftar — en hann var kominn aðeins of nálægt marki.

Everton fékk aukaspyrnu á 39. mínútu, nokkuð utan teigs en samt skotfæri fyrir Gylfa. Aukaspyrnan beint á mark en í ofanverða slána og út af. Heppnin með Arsenal þar.

0-0 í hálfleik. Arsenal menn líklega sáttari með þá stöðu á þeim tímapunkti Engin breyting á liðunum í hálfleik.

Everton byrjaði seinni hálfleik af krafti og náði flottu þríhyrningaspili upp hægri kanti sem endaði með því að Coleman sendi lágan bolta inn í teig, beint á Gylfa sem náði skoti á mark en í varnarmann og út af.

Á 52. mínútu dæmdi John Moss svo víti þegar Richarlison rétt snerti með tánni stroffið á sokknum á sóknarmanni Arsenal, sem að sjálfsögðu henti sér strax niður og rúllaði í grasinu eins og stunginn grís. Algjör leikaraskapur en VAR tók málið til skoðunar og komst að þeirri niðurstöðu að leikmaður Arsenal hefði verið hárfínt rangstæður í undirbúninginum. Everton slapp með skrekkinn þar — eða leikmaður Arsenal fyrir dýfy. Við fáum ekki að vita það en maður lifandi hvað ég elska VAR!

Arsenal menn fengu skotfæri innan teigs eftir aukaspyrnu á 64. mínútu þegar Granit Xhaka var óvaldaður en hann skaut boltanum í jörðina og langt framhjá.

Gomes var svo skipt út af strax í kjölfarið, fyrir Delph á 65. mínútu og það tók Delph ekki nema þrjár mínútur að næla sér í gult spjald. Klárlega ryðgaður eftir meiðsli og að hafa lítið fengið að spila undanfarið. En, leikformið kemur ekki nema með því að spila.

Í millitíðinni reyndu Arsenal menn skot af löngu færi en Pickford var vel á verði og varði í horn.

Á 77. mínútu komst Everton yfir með marki sem skrifast algjörlega á markvörð Arsenal. Everton hafði átt erfitt í sóknartilburðunum í seinni hálfleik en komust í skyndisókn. Richarlison fór illa með Xhaka, sem var mættur í vinstri bakverði, og komst upp að endamörkum. Enginn til að gefa á, hins vegar, þannig að hann reyndi bara skot, tja… eða sendingu fyrir mark af stuttu færi — ekki viss. Boltinn fór hins vegar í hælinn á Leno, markverði Arsenal, og þaðan inn. Boltinn var ekki á leiðinni í markið eftir snertingu Richarlison, þannig að markið skráist sem sjálfsmark á markvörðinn. VAR skoðaði aðdragandann — hvort að Richarlison hefði verið rangstæður, en komst að þeirri niðurstöðu að markið væri löglegt. Fólk kvartar yfir því að fá ekki að fagna mörkum út af VAR. Við hins vegar fögnuðum öll tvisvar — einu sinni þegar markið var skorað og aftur þegar það var staðfest af VAR.

Lítið að gerast næstu 10 mínútur en Rodriguez var svo skipt út af fyrir Tom Davies og örskömmu síðar fór Richarlison út af fyrir Mina. Tími til að loka sjoppunni. 

Arsenal menn fengu eitt loka-tækifæri til að jafna á síðustu mínútunni þegar Martinelli, upp við endamörk, komst óvænt í færi og reyndi að pota framhjá Pickford en Pickford vel á verði. Arsenal menn reyndu allt til að jafna, settu meira að segja markvörðinn, Leno, í sóknina inn í teig, en tókst ekki.

Everton tók þar með þrjú stig á útivelli gegn Arsenal. Ekki fallegasti sigurinn, en sanngjarn var hann, miðað við færin sem sköpuðust. Afraksturinn fínn á útivelli hjá Everton, þar með talið þrjú stig á útivelli gegn Tottenham, þrjú í kvöld gegn Arsenal, þrjú á útivelli gegn Liverpool og City leikurinn eftir. United menn þurftu að gera sér að góðu eitt stig eftir markaleik, 3-3 á Old Trafford. 10 stig af 12 mögulegum stigum hingað til á útivelli gegn the Greedy Six. Geri aðrir betur.

Enn aðeins þrjú stig í Meistaradeildarsætið og lítið eftir af tímabilinu! Það getur allt gerst.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (7), Godfrey (7), Holgate (6), Digne (7), Rodriguez (7), Allan (7), Andre Gomes (6), Richarlison (7), Calvert-Lewin (7), Gylfi (7). Varamenn: Delph (5).

Maður leiksins að mati Sky: Richarlison.

10 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta var allt í lagi fyrri hálfleikur en ekkert meira en það. Vonandi verður seinni betri.

 2. Finnur skrifar:

  Eins og segir í laginu… „Geeetum við feeengið að… horfa á fleiri útileiki?“

  Flottir sigrar gegn Tottenham, Arsenal, Liverpool og að auki stig gegn United þar sem Everton komst yfir í upphafi. City svo í lok tímabils þegar þeir verða búnir að vinna deildina og farnir að hugsa um sumarfrí — aldrei að vita hvað gerist.

  • Gunni D skrifar:

   Ekki gleyma Leicester.

   • Finnur skrifar:

    Heyrðu, mikið rétt! Og ég skoðaði þetta í aðeins víðara samhengi líka því árangurinn á útivelli gegn liðunum sem eru (akkúrat núna) í topp 10 sætum deildarinnar er eftirtektarverður:

    ? stig vs City (eftir að spila útileikinn)
    1 stig vs United
    3 stig vs Leicester
    0 stig vs Chelsea
    ? stig vs West Ham (eftir að spila)
    3 stig vs Liverpool
    3 stig vs Tottenham
    (Everton í 8. sæti)
    3 stig vs Leeds
    3 stig vs Arsenal

    Þannig að þegar 7 leikjum af þessu 9 leikjum er lokið er Everton komið með 16 stig af því 21 stigi sem var í boði. Það gerir 76% stigahlutfall — og það í þeim leikjum sem við teljum oft erfiðastu leikina. Að auki vann Everton Chelsea heima og sigruðu Arsenal bæði heima og heiman. Tottenham menn voru svo stálheppnir (rán um hábjartan dag) að lenda ekki í því líka en gerðu sér að góðu 1 óverðskuldað stig út úr tímabilinu úr viðureignum við Everton — og töpuðu bikarleik fyrir okkar mönnum þar að auki.

    Ef þetta er það sem koma skal þarf ekki að breyta mörgu til að Everton fari að láta til sín taka í baráttunni um Meistaradeildarsæti. Trúi ennþá ekki hvernig Crystal Palace menn náðu einu stigi gegn mönnum, til dæmis. Líklega verða öfgarnar aðeins minni í báðar áttir (mögulega færri sigrar gegn top 10 en fleiri á móti gegn neðri hlutanum).

    En svo er þetta ekki búið í ár heldur (þó það verði erfitt að ná Chelsea).

 3. Eirikur skrifar:

  Loksins 3 stig sem var gott og ágætis barátta í liðinu. Enn þessi fótbolti er orðinn þvæla, engum refsað fyrir endalausar dýfingar.
  VAR í millimetra pælingum öllum til ama, peninga græðginn kominn rækilega upp á yfirborðið og við fyrir neðan Livp í töflunni 🙁

 4. Arig skrifar:

  Flottur baráttusigur. Varnarleikurinn mjög góður og Godfrey besti leikmaður Everton bestu kaup tímabilsins. Gylfi héldur áfram að spila vel og James R er skemmtilegasti leikmaður Everton verst hvað hann meiðist oft. Lewin var algjörlega týndur í þessum leik. Richarlisson alltaf að mjög duglegur leikmaður en vantar að klára færin sín betur. Everton voru mjög heppnir að vinna þennan leik en eiga það örugglega inni eftir klaufaleg jafntefli gegn Crystal Palace og Tottenham. Núna bíður maður spenntur eftir sumrinu hverjir koma og hvað skeður með Moise Kean. Geri engar vonir um topp 4 en kraftaverkin geta þau allaf skeð en þá þarf Everton að spila mun betur.

 5. Finnur skrifar:

  Pickford í liði vikunnar að mati BBC:
  https://www.bbc.co.uk/sport/football/56892835

 6. þorri skrifar:

  Vilja menn spá fyrir kvöldið. Er kanski ölver að sína leikinn í kvöld Ég vil heima sigur og ekkert annað,

 7. Gunni D skrifar:

  Hvenær er hinn leikurinn við Aston Villa?

Leave a Reply

%d bloggers like this: