Everton – Man City 0-2 (FA bikar)

Mynd: Everton FC.

Í kvöld var komið að átta liða úrslitum FA bikarsins þegar Everton tók á móti Manchester City á Goodison Park. 

Maður fór í þennan leik með nákvæmlega engar væntingar til úrslita enda Everton með hálf laskað lið að mæta væntanlegum Englandsmeisturum sem eru búnir að vera á hvínandi siglingu. Hjá þeim er valinn tugmilljóna punda maður í hverju rúmi og sigurganga þeirra í öllum keppnum virðist óstöðvandi. Þeir eru með nógu gott lið til að ekki bara stinga af í ensku deildinni heldur eru þeir langt komnir í bæði Meistaradeild Evrópu (átta liða úrslit), Deildarbikar (úrslit) og eftir sigurinn á Everton í kvöld í fjórðungsúrslit. 

Hjá Everton var Rodriguez enn frá vegna meiðsla og markvarðarstaðan jafnframt mikill hausverkur því hvorki Pickford né Robin Olsen voru í hóp í dag. Það kom því í hlut markvarðar U23 ára liðsins Joao Virgínia að verja mark Everton gegn Manchester City.

Gengi Everton á heimavelli í deild hafði verið arfaslakt undanfarið, það var ekki hægt að orða það öðruvísi. Ef frá er talinn 1-0 sigur gegn Southampton í byrjun mars hafði Everton ekki unnið heimaleik í deild síðan fyrir jól (!), þegar þeir lögðu Arsenal að velli 2-1. Síðan þá höfðu þeir tapað fyrir West Ham, Newcastle, Fulham, Man City, West Brom og nú síðast gegn Burnley (og gert jafntefli við Leicester). Maður huggaði sig við það að þetta var þó bikarleikur því Everton hafði fyrir þann leik unnið þrjá síðustu bikarleiki á heimavelli: 5-4 sigur á Tottenham, 3-0 sigur á Sheffield Wednesday og 2-1 sigur á Rotherham.

Ancelotti lagði upp með 3-5-2 með Digne og Coleman sem væng-bakverði og Gylfa í holunni:

Uppstillingin: Virgínia, Godfrey, Holgate, Mina, Digne, Coleman (fyrirliði), Allan, Gomes, Gylfi, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Leban, Tyrer, Broadhead, Keane, Davies, Iwobi, John, Nkounkou, Onyango. 

Kalt mat á þessari uppstillingu er sú að Everton mætir til leiks með þá leikmenn sem eru heilir í þennan leik, sem þýðir að 6 af 9 varamönnum á bekknum eru kjúklingar úr unglingaliðinu — sem líklega aðeins allra hörðustu stuðningsmenn myndu geta sagt til um hvaða stöðu spili á velli dags daglega. City menn mættu með nokkuð sterkt lið og svakalegt stórskotalið á varamannabekknum:

Uppstillingin: Steffen, Zinchenko, Ruben Dias, Laporte, Walker, Gundogan, Fernandinho, Bernardo Silva, Foden, Jesus, Sterling.

Varamenn: Ederson, John Stones, Rodri, De Bruyne, Torres, Mendy, Mahrez, Cancelo, Aguero.

Maður horfir á þennan bekk og hristir bara hausinn. BBC höfðu á orði fyrir leik að leikmennirnir á bekknum hjá City myndu líklega ganga inn í flest byrjunarlið í deildum Evrópu, sem segir ákveðna sögu um stærðina á verkefninu sem framundan var.

En, það getur allt gerst í fótbolta og við vonuðum að Ancelotti hefði einhvern ás upp í erminni til að núlla út City mennina. Margir hafa reynt en afar fáum tekist.

En þá að leiknum:

City menn settu fljótt sterka pressu á Everton, sem fyrir vikið féllu niður í þétta flata fimm manna vörn sem erfitt reyndist fyrir City að brjóta á bak aftur.

City menn við stjórnvölinn samt en engin almennileg færi að líta dagsins ljós. Richarlison reyndi einu sinni hjólhestaspyrnu inni í teig en boltinn yfir mark. Engin hætta. 

Besta færi hálfleiksins kom eftir hornspyrnu frá Digne sem Mina skallaði á mark en varnarmaður þeirra skallaði burt af línu. Þar hefði Everton átt að komast yfir en City menn sluppu með skrekkinn. 

0-0 í hálfleik. 

Fyrsta almennilega færi City kom á 58. mínútu þegar Sterling var á auðum sjó í vítateignum miðjum og fékk sendingu. Reyndi að setja hann út við stöng hægra megin en Joao Virgínia varði glæsilega – fingurgómarnir og út af við stöng. Geggjuð varsla.

Phoden átti skot rétt framhjá stöng vinstra megin stuttu síðar en Virgínia alltaf með þetta. 

Everton varðist afar vel og það var ljóst að City þyrfti eitthvað deflection mark eða eitthvað sambærilegt suckerpunch til að skora og þeir fengu það þegar Virgínia varði skot í þverslá. Boltinn út aftur, beint á Gundogan sem skallaði í autt netið. Smá heppnisstimpill á þessu.

Iwobi inn á fyrir Holgate í kjölfarið og leikurinn opnaðist töluvert við þetta en City menn náðu að gera út um leikinn skömmu síðar með skyndisókn. Spurning um hættuspark í aðdragandanum en ekkert dæmt. Kevin De Bruyne komst inn fyrir varnarlínuna og skoraði framhjá Virgínia, en De Bruyne hafði komið inn á stuttu áður. 

0-2 sigur City staðreynd og þeir fara áfram í fjögurra liða úrslit.

6 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta gæti orðið ljótt. Vonum bara það besta.

  • Ari S skrifar:

   Í fyrri hálfleik hefur leikurinn eiginlega verið eins og ég bjóst við. Þ.e. M.C. hefur verið meira með boltann. Útkoman samt 0-0 og Everton leikmenn varist vel og ekki gert mistök. Andinn í liðinu virðust vera nokkuð góður ég meina baráttuandinn. Virginia virðist vera öruggur verið á réttum stað og hefur nokkrum sinnum komið við boltann. Ég hef von um sigur, segi til mótvægis við Ingvar. Þetta gæti orðið flott 🙂

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Gaman að sjá að menn lögðu sig alla fram og gáfust ekki upp fyrirfram en þegar upp var staðið þá áttum við aldrei séns eftir að city setti í þriðja gír.

  • Ari S skrifar:

   Gjörsamlega frábærar fréttir fyrir félagið og okkur stuðningsmenn alla…. 🙂