West Brom – Everton 0-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti á Hawthorns völlinn til að takast á við West Brom í kvöld en þeir eru enn í bullandi fallbaráttu í næst-neðsta sæti, með Fireman Sam við stjórnvölinn. Þeir komu skemmtilega á óvart í leiknum og voru mjög sprækir, en sköpuðu sér ekki mikið af færum — eitt í upphafi sem var glæsilega varið hjá Pickford og eitt í blálokin sem var dæmt af vegna rangstöðu. Richarlison, hins vegar, tryggði Everton sigurinn með skallamarki og er núna búinn að skora 5 mörk í jafn mörgum leikjum.

Uppstillingin: Pickford, Digne (fyrirliði), Holgate, Keane, Godfrey, Doucouré, Gomes, Iwobi, Bernard, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virgínia, Tyrer, Nkounkou, Allan, Onyango, Gylfi, Broadhead, King.

Sem sagt, Allan, Gylfi, King og fimm (!) kjúklingar á bekknum. En þá að skýrslunni:

Everton hafði byrjað síðustu tvo leiki á undan á því að skora snemma leiks en það snerist næstum við í þessum leik, því West Brom menn fengu frían skalla eftir háa fyrirgjöf strax í upphafi leiks. Frábær sending og frábær skalli en Pickford átti geggjaða vörslu ofarlega við samskeytin vinstra megin. 

West Brom menn greinilega vel stemmdir fyrir leikinn og náðu hvað eftir annað vel saman og sköpuðu usla í og við teig Everton, en ekki kom markið. Everton aðallega í skyndisóknum sem enduðu með rangstöðu hjá Richarlison.

Erfitt að horfa upp á þetta lengi vel, því West Brom menn áttu svo auðvelt með að komast framhjá okkar mönnum. 

Bæði lið áttu skot að marki, sitt hvorum megin við 20. mínútu, en í bæði skiptin breytti boltinn um stefnu og hefði getað farið hvert sem er, en í staðinn dró úr kraftinum og auðvelt fyrir markvörð að verja. 

Calvert-Lewin setti Richarlison inn fyrir vinstra megin og hann náði flottu skoti á mark sem varnarmaður West Brom náði að kasta sér fyrir og breyta stefnu boltans rétt yfir mark. 

Það virtist lifna aðeins yfir Everton við þetta og Calvert-Lewin fékk stuttu síðar geggjað færi, alveg óvænt, þegar boltinn breytti um stefnu og skoppaði inn í teig, akkúrat fyrir hlaupaleið hans. Calvert-Lewin þurfti bara að leggja hann fyrir sig og setja framhjá markverði en skotið í lappirnar á markverði. 

0-0 í hálfleik. 

West Brom menn áfram sprækir í seinni hálfleik en færin létu á á sér standa áfram, báðum megin.

Allan kom svo inn á fyrir Iwobi á 57. mínútu og Gylfi fyrir Doucouré á 64. mínútu. 

Fyrsta verk Gylfa var að leysa Digne af í hornspyrnu og þá breyttist þetta aldeilis. Sú hornspyrna var slök (of laus) en boltinn barst aftur til Gylfa sem tók hann á lærið, lagði hann fyrir sig og sendi beint á kollinn á Richarlison, sem var alveg upp við mark og skallaði inn. 0-1 fyrir Everton!

King kom inn á fyrir Bernard á 84. mínútu. Stuttu síðar kenndi Holgate sér meins í læri. Everton komið með þrjár skiptingar og því þurfti hann að harka það af sér og spurning hvort það komi þeim í koll.

Og það virtist ætla að gera það, því West Brom menn skoruðu mark í uppbótartíma sem var dæmt af þeim. Línuvörður flaggaði rangstöðu en endursýning sýndi að málband þyrfti til að skera úr um það. Sem betur fer dæmdi VAR okkar mönnum í vil og sigurinn þar með í höfn. 

Ekki fallegasti sigurinn en þriðji sigurleikurinn í röð í höfn og þriðji leikurinn sem þeir halda hreinu. Fínt veganesti inn í næsta leik. 

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Holgate (7), Keane (7), Godfrey (7), Digne (7), Doucoure (6), Gomes (7), Bernard (6), Iwobi (5), Richarlison (8), Calvert-Lewin (6). Varamenn: Allan (7), Sigurdsson (7). West Brom menn í 6um og 7um. Maður leiksins: Richarlison.

Everton lyfti sér við þennan sigur upp í fjórða sætið, upp fyrir West Ham, Liverpool og Chelsea (en þau tvö síðarnefndu eigast við þegar þetta er skrifað).

6 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Þetta fer 0-2 fyrir Everton. Gott að vera á undan Ingvari með spá.

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Það væri nú alveg týpískt fyrir Everton að finna einhverja leið til að tapa þessum leik, en það má alls ekki gerast.
  Fyrri hálfleikur ekkert spes, vonandi verður sá seinni betri og okkar menn taka öll stigin og fjórða sætið, þó ekki sé nema þar til seinna í kvöld.

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Finnst við þurfa annað mark til að vinna þetta.

  • Ari S skrifar:

   Ég hélt það líka og mikið vorum við heppnir þarna í lokin. En Diagne var rangstæður, það fór ekki á milli mála. en naumt var það.

 4. Ari G skrifar:

  Flottur baráttusigur. Gylfi hefur oftast verið góður í vetur allavega þegar hann spilar sína stöðu. Richarlison hefur greinilega vaknað til lífsins aftur undanfarna leiki. Sumir leikmennirnir eru greinilega orðnir þreyttir enda er spilað mjög stíft svo Ancelotte þarf greinilega að skipta leiktíma milli fleiri leikmanna. Finnst að hann mætti prufa að nota King meira til hvers var hann annars keyptur? Bernard og Iwobi heilla mig ekki lengur t.d. var Iwobi mun betri fyrr í vetur hefur greinilega misst sjálfstraustið og Bernard er algjörlega búinn að vera. Héld að Everton þurfi bara að kaupa 2 leikmenn í sumar hægri bakvörð og hægri vængmann og kannski sóknarmann fer eftir hvað skeður með Moise Kean vonandi kemur hann aftur til baka verður örugglega frábær leikmaður.

Leave a Reply

%d bloggers like this: