Leeds – Everton 1-2

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Leeds í kvöld á heimavelli þeirra síðarnefndu kl. 19:30. Fyrri leikur þessara liða á tímabilinu var ótrúlega líflegur og hefði staðan getað verið 5-5 í hálfleik en þegar uppi var staðið reyndust Leeds sigurvegararnir á aðeins einu marki. Nú var hins vegar komið komið að okkar mönnum að hirða stigin þrjú sem þeir gerðu með nokkuð sannfærandi hætti — fyrir utan smá skort á einbeitingu í upphafi seinni hálfleiks. Sjötta sætið var í boði fyrir Everton (þar sem West Ham vann sinn leik í kvöld) — og Everton þáði það með þökkum og á nú tvo leiki til góða að auki á önnur lið. Með sigri í þeim báðum tæki liðið fjórða sætið af Liverpool, sem töpuðu (aftur) á heimavelli fyrir liði í fallbaráttunni.

Uppstillingin: Olsen, Digne, Mina, Godfrey, Holgate, Doucouré, Gomes, Gylfi (fyrirliði), Iwobi, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Keane, Coleman, Nkounkou, Delph, Davies, Bernard, James, King.

Sem sagt, Pickford er frá vegna meiðsla eins og greint var frá. Keane og Coleman hvíldir í vörninni og James Rodriguez sömuleiðis (á miðjunni) — allir á bekknum þó. Að öðru leyti nokkurn veginn eins og við var búist.

Fjörug byrjun á leiknum. Everton byrjaði leikinn vel, náðu fínum tökum á miðjunni nokkuð snemma og uppskáru mark. Gomes sendi langan bolta fram á Digne sem gerði vel, aðþrengdur, að ná að klobba bakvörðinni í sendingu fyrir mark alveg út við hliðarlínu. Leit út fyrir að vera vonlaust en varnarlína Leeds sofandi og Gylfi stakk sér inn fyrir og potaði inn. 0-1 fyrir Everton! 

Calvert-Lewin átti svo skot rétt utan teigs niður í hægra horn á 12. mínútu en ekki nægilega fast og markvörður varði. Leedsararnir svöruðu með skoti utan teigs sem Olsen sló til hliðar. 

Aloski hjá Leeds náði flottu viðstöðulausu skoti utan teigs á 19. mínútu, beint eftir hornspyrnu, en boltinn í utanverða stöng og út.

Leeds menn fengu ódýra aukaspyrnu á 24. mínútu og náðu skalla að marki. Calvert-Lewin náði næstum að breyta stefnu boltans yfir mark en Olsen þurfti að gera vel til að slá hann yfir, sem hann gerði. 

Everton með þrjú hálffæri í kjölfarið sem hefðu getað gefið mark/mörk en alltaf annaðhvort dæmt brot eða skotið vel framhjá. Engin svör frá Leeds, sem virkuðu hálf ráðalausir. 

Á 42. mínútu tók Gylfi horn frá vinstri (frá Everton séð) og sendi háan bolta fyrir mark, eins og honum er einum lagið. Godfrey reyndi að skalla á mark en fékk boltann í öxlina og þaðan barst hann á fjærstöng þar sem, að sjálfsögðu, var Calvert-Lewin mættur og skallaði inn af stuttu færi. 0-2 fyrir Everton. Eini leikmaðurinn í sterkustu fimm deildum Evrópu með fleiri skallamörk en Calvert-Lewin (með 9 skallamörk) frá byrjun síðasta tímabils er Lewandowski með 12.

Þannig stóðu leikar í hálfleik. 

Everton byrjaði seinni hálfleik á að hleypa Leeds inn í leikinn. Voru of lengi að hreinsa út úr teig, smá darraðsdans en svo endaði það með poti frá Leeds manni yfir á félaga sinn sem skaut í gegnum klofið á Godfrey og inn. 1-2. Smá skortur á einbeitingu og óþarfa mark upp úr engu. 

Á um 55. mínútu átti Everton að fá víti þegar boltinn fór í útrétta hendina á varnarmanni Leeds, fyrir neðan ermi. En ekkert dæmt.

Þrisvar í sömu sókn á 62. mínútu gerðu Leeds harða hríð að marki Everton. Olsen þurfti að hafa sig allan við að verja, fyrst skot af löngu færi, svo tvö af stuttu en hann stóðst það próf með sóma.
Bamford, hjá Leeds, átti svo skalla nálægt marki á 72. mínútu, en í ofanverða slá og út af. 

Richarlison fór svo út af fyrir Keane á 80. mínútu. 
Everton hefði átt að gulltryggja sigurinn á 85. mínútu þegar Doucouré stal boltanum at Leeds manni og komst í skyndisókn á yfirtölu (með þrjá á tvo þar sem hann hafði Gylfa og Calvert-Lewin með sér). Frábær sending á Calvert-Lewin setti hann inn fyrir vinstra megin en markvörður kom vel út á móti og lokaði á hann. 

Á lokamínútunum kom Joshua King inn á fyrir Iwobi og Davies inn á fyrir Gylfa. 

Úrslitin hins vegar stóðu og Everton þar með upp í sjötta sætið með þessum úrslitum. Verðskuldaður 1-2 sigur á í kvöld. 

Einkunnir Sky Sports: Olsen (8), Godfrey (7), Mina (7), Holgate (7), Digne (7), Iwobi (7), Doucoure (6), Gomes (6), Gylfi (7), Richarlison (6), Calvert-Lewin (7). Robin Olsen valinn maður leiksins.

Everton þar með búið að tryggja sér 16 af síðustu 18 mögulegum stigum í deild á útivelli. Ekki slæmt.

8 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég held að úrslitin í þessum leik ráðist aðallega af því hvaða Everton lið mætir inn á völlinn. Ef þeir verða í sama gír og um helgina þá vinnur Leeds 4-0, ef hins vegar menn mæta klárir þá gætum við jafnvel unnið…….eða tapað á einhverju suckerpunch marki sem væri auðvitað alveg týpískt.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Seinni hálfleikur byrjaður og okkar menn enn inni í búningsklefa.

  3. Ari S skrifar:

    Frábær leikur. Fín úrslit og geggjuð þrjú stig. Var Olsen að stimpla sig inn sem markmaður nr. 1 ?

  4. Ólafur skrifar:

    geggjaður sigur risa 3 stig okkar menn í ruglinu í byrjun seinni hálfleiks fá á okkur klaufalegt mark en vá hvað Olsen er geggjaður markvörður svo miklu betri en Pickford vona að hann verði valinn nr. 1

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Stórskemmtilegur leikur fyrir hlutlausa en fyrir mig var þetta frekar taugatrekkjandi.
    Olsen, Godfrey, Doucoure og Gomes voru frábærir í kvöld og erfitt að gera upp á milli þeirra en ég ætla að velja Olsen. Hann bjargaði stigunum með frábærum vörslum í leiknum.

  6. Ari G skrifar:

    Frábær fyrri hálfleikur. Gylfi var frábær sérstaklega í fyrri hálfleik vel hann mann leiksins. Mina og Olsen voru líka frábærir. Gomes var næstum því búinn að gefa mark og Holgate var klaufi í markinu. Doucoure og Godfrey voru líka mjög góðir. Hinir ok.

  7. Finnur skrifar:

    „Well, I’ve never felt more like singing the blues…“

  8. Elvar Örn Birgisson skrifar:

    Mo Besic er í 25 manna hópi Everton rest of the season. Áhugavert.