Wolves – Everton 1-2

Mynd: Everton FC.

Everton átti leik við Úlfana í kvöld á útivelli vitandi það að með sigri kæmust okkar menn aftur upp í Meistaradeildarsæti — upp fyrir Tottenham, Manchester City og Southampton og vera jafnt á stigum við Leicester í þriðja sæti.

Það var ekki laust við að maður væri hálf smeykur við leikinn í kvöld, þrátt fyrir sigur í síðasta leik því spilamennskan hafði fram að því verið í ákveðinni lægð frá því að Everton vann sannfærandi sigur á þremur sterkum liðum í röð (Chelsea, Leicester og Arsenal). Eftir það fylgdu fjórar slakar frammistöður (þrátt fyrir tvo sigra) og við vonuðum að spilamennskan myndi batna í þessum leik, sem hún og gerði og ekki skemmdi fyrir að Everton tók öll þrjú stigin í leiknum.

Ekki var uppstillingin til þess gerð að róa taugarnar fyrir leik, en það voru fjórir (!) miðverðir og einn bakvörður en enginn framherji í uppstillingunni í kvöld. Calvert-Lewin var ekki einu sinni í hóp og Tosun og Richarlison einhverra hluta á bekknum. Annars var þetta svona:

Uppstillingin: Pickford, Digne, Mina, Keane, Godfrey, Holgate, Davies, Gylfi (fyrirliði), Doucouré, Iwobi, Rodriguez.

Varamenn: Olsen, Coleman, Kenny, Bernard, Gomes, Gordon, Richarlison, Tosun.

Ákefð i leik Everton frá upphafi. Gott að sjá það. Sýndist liðið stilla upp í 4-4-2 með Godfrey og Holgate í bakvarðarstöðunum, Digne á vinstri kanti og Iwobi á hægri. Eitthvað skiptust menn á að taka að sér framlínuhlutverkið: Gylfi, Rodriguez og Richarlison og jafnvel Gomes undir lokin.

Everton uppskar mark snemma leiks. Rodriguez gaf yfir til vinstri á Digne sem var inni í teig vinstra megin en hann sendi út í teig aftur þar sem Iwobi kom á hlaupinu frá hægri kanti og fékk óáreittur að sneiða boltann framhjá varnarmanni og markverði, alveg út við stöng. 0-1 fyrir Everton!

En Úlfarnir jöfnuðu á 14. mínútu þegar Godfrey slökkti á sér og gleymdi að dekka sóknarmann á fjærstöng, sem fékk sendingu og stýrði boltanum inn. Úlfarnir voru ekki langt frá því heldur að komast yfir tveimur mínútum seinna þegar þeir náðu skoti að marki en Pickford náði að kasta sér niður og verja glæsilega. Hann vann fyrir kaupinu sínu í dag.

Iwobi komst í mjög gott skotfæri inni í teig eftir frábæra stungu frá Rodriguez en skotið slakt. Hefði átt að gera betur þar. Þar með voru færi fyrri hálfleiks upptalin.

1-1 í hálfleik. Nokkuð jafnt á öllum tölum, nema að Úlfarnir með aðeins fleiri skot (en samt svipaður fjöldi sem rataði á mark). 

Ekkert að frétta lengi vel í seinni hálfleik og engin teljandi færi eða neitt mikið þess virði að minnast á í raun. Það helsta markverða var að Gomes kom inn á fyrir Davies á 64. mínútu og Richarlison inn á fyrir Gylfa á 76. mínútu. 

Og þeir tveir komu með kraft og innblástur inn í leikinn og þá fóru hlutirnir að gerast. Everton fékk mjög stuttu síðar horn frá hægri (frá okkur séð) sem Rodriquez tók en Úlfarnir náðu að hreinsa út úr teig. Gomes var þá fljótur að hugsa og sendi aftur háan bolta inn í teig frá vinstri og þar stökk Keane manna hæst og skallaði inn. Afmælisbarn gærdagsins — ekki amalegt „afmælisgjöf“ frá honum til okkar. 1-2 fyrir Everton á 77. mínútu og það reyndist sigurmarkið!

Úlfarnir svöruðu með aukaspyrnu á 84. mínútu þar sem boltinn fór í utanverð samskeytin hægra megin. Ekki amaleg tilraun en fleiri urðu færin í raun ekki. Everton lokaði á allt sem Úlfarnir reyndu og þeir áttu engin svör. Coleman kom inn á fyrir Rodriguez undir lokin og Richarlison fékk hálffæri — maður á móti manni — en tókst ekki að nýta sér það. 

En Everton sigldi þessu í höfn og tók þrjú stig í kvöld og komst upp í fjórða sætið fyrir vikið. Sigurinn í raun aldrei í hættu.

Eftir á að hyggja vill maður, svona heilt yfir, náttúrulega alltaf sjá frábæra spilamennsku en það er ánægjulegt að sjá liðið — þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum fimm leiki í röð af spilamennsku sem er kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir — ná samt að sigra í þremur af þeim fimm leikjum. Við fúlsum ekki við því. Og það þrátt fyrir að hafa í kvöld ekki neinn eiginlegan framherja í uppstillingunni og setja vinstri kantara (Richarlison) þangað undir lokin. 

En það eru batamerki á spilamennskunni og stigin þrjú eru í höfn, sem hvort tveggja er mjög mikilvægt og við getum borið höfuðið hátt eftir kvöldið. Fjórða sætið tilheyrir Everton í augnablikinu sem er núna með fleiri sigurleiki en Liverpool eftir 17 leiki. Það er alls ekki leiðinlegt.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Holgate (7), Mina (7), Keane (8), Godfrey (7), Digne (8), Doucoure (7), Davies (7), Iwobi (7), Gylfi (5), James (7). Varamenn: Gomes (7), Coleman (6).

Maður leiksins að mati Sky Sports var Michael Keane. Úlfarnir með þrjár sjöur í einkunn en aðrir lægra (þar af þrír með 5).

Skelli hér að gamni inn í lokin formtöflunni í boði transfermarkt.com:

14 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Richarlison var tæpur fyrir þennan leik og DCL meiddur það útskýrir væntanlega af hverju DCL er ekki í hópnum og Richarlison á bekknum.
  Finnst svolítið skrýtið að Tosun skuli ekki fá sénsinn í byrjunarliðinu en það er kannski bara af því að hann er drasl. Mér finnst eiginlega skrýtnari að það skuli ekki vera einhver kjúklingur eins og td Simms á bekknum.
  Annars líst mér ekkert of vel á þetta og er ansi hræddur um að þetta verði erfiður leikur sem við töpum 3-1.

 2. Gunni D skrifar:

  Skil ekki hvað er fínt við að spá okkar mönnum tapi:-)

 3. Halli skrifar:

  Það hefur bara eitt lið unnið fleiri leiki en okkar menn og Everton unnið fleiri leiki en nagrannar okkar eftir 17 umferðir.

 4. Ari G skrifar:

  Flottur sigur. Núna hlýtur Everton að selja Cent Tosun að vera seldur. Það hentar ekki Gylfa að spila sem sóknarmaður alveg týndur í leiknum en honum er vorkunn fékk aldrei boltann til að ógna markinu. Samt fannst mér góð bárátta í liðinuog ótrúlegt en satt þá var Iwobi hættilegasti í sókninni og Digne spilar sem vængmaður sem hentar honum greinilega vel. Fannst vörnin standa sig frábærlega nema í markinu. En mér fannst samt Doucoure og Ben Godfrey bestu leikmenn Everton sáið þið hraðann á Ben algjörlega stórkostlegur leikmaður bestu kaup Everton í sumar ekki spurning og ennþá svona ungur. Doucoure er ótrúlegur vinnuhestur út um allan völl hefði gefið þessum 2 9 í einkunn.

 5. Eirikur skrifar:

  Frábær 3 stig það er það sem við tökum út úr þessum leik.
  Og síðan að sjálfsögðu uppstillinginn á liðinu sem að hlýtur að þíða að framtíð Chenk Tosun endar núna.
  Er samt ansi hræddur um að við hefðum fengið dæmda á okkur vítaspyrnu í uppbótartíma þegar Mina setur framhandleggin í höfuðið á leikmanni Wolves sem var að skalla að marki ef að þetta hefði verið á móti Lpool eða Manu. Og í raun í endursýningu hefðu við verið ósáttir með að fá ekki víti við svona brot og hugsanlega rautt spjald. Enn það verður eitthvað að mæta góðu liði Aston Villa um helgina.

 6. þorri skrifar:

  Góðan daginn félagar það var svo sem í lagi hjá okkar mönnum.En hafið þið séð eða lesið um að leikur okkar manna á móti Aastonvilla sé búið að festa þann leik á sunnudaginn

 7. Elvar Örn Birgisson skrifar:

  Flottur sigur og 9 dagar í næsta leik en eftir það er rosalega þétt program. Ótrúlega lítur vörnin okkar betur út. 4 flottir miðverðir sem taka að sér að leysa af bakverði með frábærum árangri. Ancelotti að gera frábæra hluti verð ég að segja. Rosalega margir leikmenn sem hafa bætt sig verulega seinustu vikur.

  Svo virðist sem Everton ætli að selja í janúar og ekki að kaupa fyrr en í sumar. Ef það er skoðun Ancelotti og Brands þá er ég sáttur við það.
  Spurning hve hátt við getum náð. Evrópu sæti er vonandi lágmarks niðurstaða en hver veit nema að við náum meistara deildar sæti eins og deildin er að spillast núna.

  Það er eins og að taktik Ancelotti I þessum leik hafi ruglað Wolves í sínum aðgerðum sem er rosalega sterkt. Fyrsta árið finnst mér hann hafa verið að prufa ýmislegt sem maður sjálfur hafði ekki trú á og sumt mistekist en annað bara alls ekki. Svakalega er gaman að fylgjast með Everton í dag.

 8. Ari G skrifar:

  Everton að fá vonandi sóknarmann frá Bayern Zirkzee 19 ára mjög fjölhæfur sóknarmaður einn sá efnilegasti í dag. Gott mál. Einn farinn til leigu til Blackburn. Gott fyrir Everton að fá smá frí núna með alla þessa leikmenn meidda en það byrjar stífl prógramm í lok janúar vonandi sleppur það enginn Evrópakeppni truflar Everton.

 9. þorri skrifar:

  getur einhver sagt mér hvenar bikarleikurinn hjá everton er

 10. þorri skrifar:

  takk núna þá 24 jan

 11. þorri skrifar:

  Góðan daginn félagar hvað seigir í kvöld er möguleiki að vina bikarinn hjá okkar mönnum annað kvöld hvað haldi þið. Ég bara held það

Leave a Reply

%d bloggers like this: