Everton – Arsenal 2-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Arsenal í dag á Goodison Park í 14. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar og sáu fram á að ná 2. sæti í deild með sigri, tímabundið allavega. Arteta og Arsenal menn hafa verið undir mikilli pressu, enda árangur þeirra afleitur í deild á tímabilinu og ekki hjálpaði þeim í dag að Gabriel og Xhaka voru í leikbanni og Aubameyang var ekki einu sinni í hópnum.

Góð vinnusemi í dag skapaði hins vegar flottan — og alltof sjaldgæfan — sigur Everton gegn Arsenal, sem eru í 15. sæti eftir tapið en Everton í öðru sæti. Vandræði Arteta og Arsenal halda því áfram en við horfum upp töfluna.

Uppstillingin: Pickford, Godfrey, Keane, Mina, Holgate, Davies, Iwobi, Doucouré, Gylfi, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Olsen, Lössl, Nkounkou, Kenny, Coleman, Bernard, Gordon, Branthwaite, Tosun.

Everton með góð tök á leiknum frá upphafi, meira með boltann en lítið um færi báðum megin. Michael Keane með ágætis skot á mark af nokkuð löngu færi á 15. mínútu en Leno í markinu feginn að sjá það fara rétt framhjá stöng. Ekki amaleg tilraun.

Á 21. mínútu komst Everton yfir. Iwobi, fyrrum Arsenal maðurinn, sendi háan bolta fyrir sem Calvert-Lewin skallaði að marki. Boltinn líklega farið röngu megin við stöng ef varnarmaður Arsenal hefði ekki sparkað honum inn. 1-0 fyrir Everton.

Arsenal fengu frábært færi á 25. mínútu þegar sóknarmaður þeirra fékk skotfæri – var á síðum sjó og hefði átt að ná allavega almennilegu skoti að marki en lúðraði honum framhjá.

En á 32. mínútu gaf Tom Davies klaufalegt víti þegar hann sparkaði í sóknarmann Arsenal í hreinsun. Davies búinn að vera frábær fram að því. Pepe á punktinn og skoraði örugglega. Jafnt, 1-1.

Rétt fyrir lok hálfleiks náði Calvert-Lewin frábæru skoti á mark. Alveg upp í samskeytin vinstra megin en Leno varði glæsilega. Gylfi tók hornið og sendi háan bolta inn sem Mina skallaði inn!

2-1 fyrir Everton og þannig var það í hálfleik.

Arsenal menn byrjuðu seinni hálfleik af krafti og fengu fínt færi snemma í seinni hálfleik sem endaði með skoti í stöng og út frá David Luiz. 

Everton fengu tvö færi í röð í kjölfarið. Fyrra færið var há fyrirgjöf frá vinstri á Calvert-Lewin, sem náði ekki að stýra boltanum á mark. Það seinna öllu betra þegar Calvert-Lewin vann skallaeinvígi og kom Richarlison inn fyrir vörnina (með flottri fyrstu snertingu, tökum það ekki af honum). Richarlison komst alla leið inn í teig og sendi lágan bolta út í teig, sem Iwobi hefði skorað auðvelda úr – ef hann væri aðeins fljótari og hefði komið sér í stöðu fyrr.

Gylfi skapaði frábært skallafæri fyrir Keane á 76. mínútu eftir háa aukaspyrnu Gylfa inn í teig, en Keane náði ekki að skalla boltann í dauðafæri. Gæti reyndar hafa verið rangstæður en reyndi ekki á það. 
Iwobi var óheppinn að skora ekki á 80. mínútu þegar skot frá honum að marki breytti um stefnu. Markvörður kominn í hitt hornið en boltinn fór því miður út af. 

Iwobi fór út af fyrir Coleman stuttu síðar og tók Coleman við fyrirliðabandinu. 

Fimm mínútum bætt við og Ancelotti gerði tvöfalda skiptingu í uppbótartíma: Kenny og Tosun inn fyrir Richarlison og Calvert-Lewin. Tveir bakverðir þar með inn á fyrir sóknarmenn, pínu spes. 

Arsenal lagði allt kapp á að jafna leikinn og náðu frábæru skoti á mark af stuttu færi og Pickford þurfti að taka á honum stóra sínum til að verja, sem hann gerði glæsilega! Tryggði Everton þar þrjú stig.

Everton þar með komið upp í annað sæti, um sinn allavega.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Holgate (7), Keane (8), Godfrey (7), Mina (8), Iwobi (6), Doucoure (7), Davies (6), Gylfi (8), Richarlison (8), Calvert-Lewin (8).

Arsenal menn með afar slakar einkunnir, einn með 7 (Saka), restin með fimmur og sexur — og tveir með fjóra í einkunn.

Dominic Calvert-Lewin hins vegar valinn maður leiksins.

5 Athugasemdir

  1. Ari G skrifar:

    Aftur frábær sigur hjá Everton. En Everton spiluðu ekkert sérstaklega vel í dag en varnarleikurinn stóð samt áhlaup Arsenal nema skógarferð Pickford. Meðalmennskan allsráðandi.

  2. Jón Ingi Einarsson skrifar:

    Virkilega gaman að horfa á síðustu þrjá leiki. Okkar maður að stimpla sig aftur inn í byrjunarliðið. Vonandi verður framhald á þessu. Gaman að vera komnir í 2. sæti þó það standi kannski ekki lengi yfir.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Frábær sigur en ég verð að segja að ég hefði orðið brjálaður ef þessi leikur hefði tapast eða orðið jafntefli, svona miðað við gengi Arsenal upp á síðkastið.
    Ég er sammála Ara með að frammistaðan var ekkert sérstök en það þykir nú víst styrkleikamerki að vinna án þess að spila vel. Vonandi heldur þetta svona áfram.

  4. Finnur skrifar:

    Gylfi í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/55400945

  5. Elvar Örn Birgisson skrifar:

    Hvern grunaði eftir niður sveiflu að Everton myndi vinna Chelsea, Leicester og Arsenal. Er ekki eðlilegt að taka Man Utd á morgun í kjölfarið?

    Næstir í deildinni eru Sheffield United úti og Man City heima.
    Svo mikilvægt að tapa ekki gegn City verð ég að segja og miðað við top 6 sem við höfum unnið fram til þessa þá segi ég why not.

    Miðað við fjölda manna meidda þá er liðið að standa sig frábærlega.
    Varnarlínan er orðin ótrúlega flott og Coleman og Digne eftir að koma inn.
    City og Brentford komnir áfram í Carabao Cup og líklega verða Tottenham þar einnig,,,, ásamt Everton vonandi.

    Það verður einnig áhugavert að sjá hvort Everton kaupi 1 eða 2 leikmenn í Janúar eða bíði eftir sumar glugganum, hvað halda menn um það?

    Vonandi góður dagur á morgun til að starta jólunum.