Chelsea – Everton 4-0

Mynd: Everton FC.

Ancelotti sneri aftur á sinn fyrrum heimavöll, Stamford Bridge, í fyrsta skipti þegar Everton lék við við Chelsea kl. 14:00 í dag. En það reyndist ekki gleðiefni fyrir hann.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Holgate, Sidibé, Bernard, Davies, Gomes, Gylfi, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Stekelenburg, Baines, Mina, Iwobi, Walcott, Moise Kean, Gordon.

Everton pressaði stíft frá upphafi en Chelsea menn yfirvegaðir og unnu sig nokkuð auðveldlega úr pressunni. Chelsea menn höfðu verið nokkuð brokkgengir undanfarið og maður vonaðist til að þetta væri einn af þessum slöku dögum hjá þeim, en það var sko aldeilis ekki. Fyrri hálfleikur var líkt og Everton hefði spilað í Europa League á fimmtudegi og mótherjarnir hvílt. Því að leikmenn virkuðu hálf þungir og sofandahátturinn allsráðandi. Allt gekk hins vegar upp hjá Chelsea, sem unnu alla 50/50 bolta.

Fyrsta færið kom á 6. mínútu, þegar Chelsea komust í skyndisókn, þegar Willain komst inn fyrir hægra megin. Sendi fyrirgjöf fyrir mark á Mason Mount sem náði þrumuskoti á mark af stuttu færi, sem Pickford varði glæsilega.

Það reyndist viðvörun sem Everton hefði betur tekið mark á því innan við tíu mínútum síðar var Mason Mount búinn að skora. Fékk sendingu inn í teig með bakið í markið, sneri sér hratt við og þrumaði inn við nærstöng. 1-0 fyrir Chelsea.

Willain komst svo í dauðafæri upp við mark þegar hann náði að stinga sér inn fyrir Holgate en aftur varði Pickford vel.

En á 21. mínútu náðu Chelsea að tvöfalda forystuna þegar Pedro komst inn fyrir vörnina. Leit út fyrir að vera mögulega hárfínt rangstæður en endursýning sýndi að hann var alveg á línunni og inn fyrir komst hann — og renndi boltanum framhjá Pickford. 2-0.

Richarlison náði að stela boltanum af Zouma á 26. mínútu og bruna fram. Náði að senda frábæran bolta í hlaupaleiðina hjá Calvert-Lewin, sem komst upp að marki með varnarmann í bakinu. Þurfti bara að renna boltanum framhjá markverði — og gerði það en framhjá markinu líka. Hefði átt að gera betur þar.

2-0 í hálfleik. Vonandi að Ancelotti nái að stokka þetta upp því þetta var skelfilegur fyrri hálfleikur þar sem ekkert gekk upp.

Walcott kom inn á fyrir Bernard í hálfleik, en sá síðarnefndi hafði orðið fyrir hnjaski undir lok fyrri hálfleiks. Walcott fór þar með á vinstri kantinn og Gylfi færði sig yfir á þann hægri.

En Chelsea menn héldu uppteknum hætti og skoruðu þriðja markið á 51. mínútu. Willain skoraði það með langskoti utan teigs. Fékk óáreittur að stilla boltanum upp og þruma inn. 3-0.

Fjórða mark þeirra kom eftir hornspyrnu, sem Giroud potaði inn eftir sofandahátt í vörninni.

Everton hafði ekki náð að ógna mikið í leiknum en það var einn og einn séns. Richarlison náði utan teigs skoti á mark strax í kjölfarið á markinu, en markvörður sló boltann til hliðar.

Moise Kean kom þá inn fyrir Davies.

Willain komst aftur í dauðafæri á 56. mínútu þegar hann náði skoti innan teigs af nokkuð stuttu færi, en aftur varði Pickford glæsilega.

Ungliðinn Anthony Gordon kom svo inn á fyrir Calvert-Lewin á 75. mínútu.

Everton fékk tvö ágæt færi á 76. mínútu eftir aukaspyrnu. Það fyrra fékk Richarlison þegar boltinn barst til hans inni í teig fyrir miðju marki en þvagan náði að blokkera skotið. En í sömu sókn sendi Sidibé Walcott inn fyrir með frábærri sendingu en markvörður náði að kasta sér á fyrirgjöfina þar sem Richarlison var í góðri stöðu til að pota inn.

Og þannig fór það, 4-0 niðurstaðan. Eins gott að menn rífi sig upp á ra**gatinu í næsta leik.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Sidibe (6), Keane (6), Holgate (6), Digne (6), Bernard (5), Davies (5), Gomes (5), Gylfi (5), Calvert-Lewin (6), Richarlison (6). Varamenn: Walcott (5), Kean (5), Gordon (5).

9 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Mér sýnist á þessum fyrstu mínútum að okkar menn séu ekki klárir slaginn. Mikið af slæmum sendingum og eitthvað bölvað einbeitingarleysi í gangi. Held að þetta sé að fara að enda mjög illa, spái 4-0.

  2. Ari S skrifar:

    30. min. liðnar. 2-0 Þetta er ekki búið. Spái 2-2

  3. þorri skrifar:

    Þetta er ömurlegur fyrrihalfleikur.Vonandi lagast þetta í seinnihálfleik.Og þetta endar ílla ef þetta lagast ekki

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta er bara vandræðalegt.

  5. Gunnþór skrifar:

    Hélt að það væri búið að ná nýjum lægðum í léleg heitum en þetta sló öllu við 😡😡😡🤬

    • Ari S skrifar:

      Jákvætt er að núna sá Ancelotti þetta kristaltært, núna er ekki hægt að gabba hann lengur……. 😉

      Ég sé ekki betur en að við verðum að vinna næsta leik til að rífa okkur upp á ný.

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Skil ekki af hverju Digne kom aftur inn í liðið í staðinn fyrir Baines. Hann hefur ekki verið upp á marga fiska á þessu tímabili og Baines var búinn að spila vel eftir að hann kom inn í liðið.
    Sidibe var hræðilegur, Gylfi lítið skárri, Gomes slakur, Walcott sást varla, Keane og Holgate í ruglinu frá upphafi, Bernard komst aldrei í gang, DCL slappur og Digne lélegur. Richarlison var sá eini af útileikmönnum Everton í dag sem amk reyndi að gera eitthvað. Davies sást ekki fyrr en honum var skipt út af og ég græt ekkert þó hann spili aldrei aftur fyrir Everton, hræðilega ofmetinn leikmaður.
    Það er stórt verkefni sem bíður Brands og Ancelotti í sumar.
    Það þarf að losna við sem mest af ruslinu sem Walsh og Koeman keyptu og fá betri menn í staðinn og það verður hægara sagt en gert því flestir þeirra eru á háum launum og með langa samninga, en vonandi tekst að losna við einhverja.

    • Orri skrifar:

      Ég sá sem betur fer ekki leikinn ,en ég er sammála þér varðandi leikmanna málin.

    • Gunnþór skrifar:

      Hárrétt Ingvar leikmenn opinberuðu sig í dag og það verður mikið verk í sumar að endurnýja leikmanna hópinn vonandi verðum við farnir að geta eitthvað eftir 3 til 5 ár.