Arsenal – Everton 3-2

Everton átti leik við Arsenal í dag, klukkan 16:30.

Uppstillingin: Pickford, Baines (fyrirliði), Mina, Holgate, Sidibé, Iwobi, Schneiderlin, Delph, Gylfi, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn : Stekelenburg, Keane, Coleman, Gomes, Davies, Bernard, Kean.

Everton fékk aukaspyrnu í blábyrjun leiks og náði að skora upp úr því. Óskabyrjun á leiknum eftir aðeins 49 sekúndur. Aukaspyrnan var utarlega á hægri kanti og sendi Gylfi boltann háan inn í teig. Einhver darraðadans þar leiddi til þess að David Luiz fékk boltann í öxlina, ofanverða og boltinn barst þaðan til Calvert-Lewin sem tók hjólhestaspyrnu og þrumaði inn. 0-1 fyrir Everton.

Aubameyang komst stuttu síðar inn fyrir vörn Everton vinstra megin en Sidibé var fljótur til baka að blokkera skotið. Endursýning sýndi að Aubameyang var líklega rangstæður hvort eð er.

Everton fékk gott færi á 9. mínútu eftir skyndisókn þegar Richarlison setti Iwobi inn fyrir hægra megin, en skotið frá honum rétt utan við samskeytin fjær.

Everton virtist vera með góð ráða auðveldlega við að halda spili Arsenal í skefjum en á 27. mínútu náðu Arsenal menn að jafna leikinn eftir sendingu utan af vinstri kanti. Geggjuð há fyrirgjöf sem sóknarmaður þeirra þurfti bara að pota framhjá Pickford í markinu. Staðan orðin jöfn, 1-1.

Við markið breyttist leikurinn skyndilega þar sem Arsenal menn skiptu um gír og gáfu í. Everton spilaði háa varnarlínu og Aubameyang nýtti sér það til að fara illa með Sidibé. Fékk langa stungusendingu frá David Luiz og tók á sprettinn gegnum vörn Everton og renndi boltanum framhjá Pickford. 2-1.

En undir lok fyrri hálfleiks náði Everton að jafna og aftur kom markið eftir fast leikatriði. Sidibé vann hornspyrnu og Baines sendi háan bolta inn í teig. Sá var hreinsaður út í teig, til Gylfa sem kinksaði á skotinu — skaut í jörðina og þaðan hár bolti inn í teig. Þar stökk Mina hæst og skallaði í átt að marki og Richarlison annaðhvort potaði inn eða truflaði markvörð nógu mikið til að hann missti boltann undir sig og inn. Ekki viss hvort var — en það gildir einu. Markið stendur eftir sem áður og Everton búið að jafna leikinn. 2-2.

Örfáum augnablikum síðar flautaði dómarinn til loka fyrri hálfleiks.

Seinni hálfleikur byrjaði með látum, líkt og sá fyrri en í þetta skiptið kom það í hlut Arsenal að skora á upphafsmínútunum. Aubameyang fékk háa sendingu af hægri kanti Arsenal og skallaði í hliðarnetið. 3-2 fyrir Arsenal.

Það vantaði algjörlega allt urgency hjá Everton í seinni hálfleik og Ancelotti brást við með því að gera tvöfalda skiptingu á 59. mínútu: Gomes (!) inn á fyrir Schneiderlin og Bernard fyrir Iwobi. Ótrúlegt að sjá Gomes á vellinum aftur svo stuttu eftir ökklabrotið.

Og sú skipting var ekki langt frá því að bera strax ávöxt þegar Bernard stal boltanum af bakverði Arsenal og gaf á Calvert-Lewin sem var í færi og skaut en markvörður varði vel.

Everton fékk algjört dauðafæri á 71. mínútu eftir að Bernard sendi háa fyrirgjöf inn í teig sem Richarlison skallaði niður á Calvert-Lewin sem var óvaldaður alveg upp við mark (Xaka spilaði hann réttstæðan) en á einhvern ótrúlegan hátt náði markvörður Arsenal að verja af point blank range.

Richarlison var næstur til að komast í gott færi þegar hann fékk sendingu inn í teig (eða kannski var það skot sem hann stoppaði?) og komst í skotfæri vinstra megin en markvörður kom út á móti og varði með fætinum. Skömmu síðar fann Richarlison Calvert-Lewin inn í teig en Calvert-Lewin náði ekki að stýra boltanum í netið.

Delph var tekinn af velli á 82. mínútu og Moise Kean kom þá inn á. Gylfi þar með færður af kantinum og á miðjan völlinn við hlið Gomes.

Arsenal menn höfuðu ekki haft mikið fram að færi eftir mark sitt en komust óvænt í færi á 85. mínútu eftir smá vandræðagang í vörn Everton. Arsenal menn komust inn í sendingu Pickford á Gylfa en skot frá sóknarmanni þeirra fór í neðanverða slána og út.

Fimm mínútum bætt við og þegar rétt um helmingur þeirra var liðin komst Calvert-Lewin í algjört dauðafæri eftir horn sem Sidibé tók fljótt. Bernard náði utan af hægri kanti hárri sendingu inn í teig sem Calvert-Lewin skallaði rétt framhjá stönginni. Markvörður rótarskotinn á línunni og gat bara horft framhjá boltanum sigla framhjá. Ótrúlegt að Calvert-Lewin skyldi ekki ná að jafna þar og það sást á honum að hann vissi alveg hversu dýrt þetta myndi reynast.

Því að örskömmu síðar flautaði dómari til loka leiks og 3-2 sigur Arsenal því staðreynd. Það væri gaman að sjá expected goals tölfræðina í þessu leik því Everton átti fleiri færi og fleiri skot á rammann en Arsenal og það á þeirra heimavelli. Bara óheppnir að klára þetta ekki.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Sidibe (6), Holgate (6), Mina (6), Baines (7), Delph (6), Schneiderlin (6), Gylfi (6), Iwobi (6), Richarlison (7), Calvert-Lewin (8). Varamenn: Gomes (6), Bernard (6).

4 Athugasemdir

 1. Gunni D skrifar:

  Ágætis byrjun………

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Grautfúlt að tapa þessum leik og eiginlega bara okkar eigin klaufaskap að kenna. Okkar menn fengu ágæt færi til að skora fleiri mörk en það hafðist bara ekki og þar sem vörnin okkar er ennþá frekar gjafmild og Arsenal með ágætis sóknarmenn þá var ekki að sökum að spyrja.
  Gaman að sjá Gomes aftur.

 3. Elvar Örn skrifar:

  Horfði á leikinn aftur og það er ljóst að Sidebe á sökina á öllum mörkum þeirra, því miður. Sóknarlega vorum við góðir og óheppnir að skora ekki fleiri mörk og þá sérstaklega Calvert Lewin. Everton með 17 tilraunir að marki en Arsenal 13 segir breytinguna á liðinu. Svekkjandi tap en fínn leikur hjá Everton. Sigur gegn United bætir upp þetta tap.

 4. Elvar Örn skrifar:

  Sorry, fyrsta mark er Iwobi að kenna

%d bloggers like this: