Liverpool – Everton 1-0

Mynd: Everton FC.

Stórleikur þriðju umferðar FA bikarsins var viðureign Everton og Liverpool á Anfield.

Uppfært 15:06: Kopp gerir níu breytingar á sínu liði, og nýi bakvörðinn þeirra, Minamino, fær eldskírn í sínum fyrsta leik – derby slag. Þetta verður eitthvað.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Mina, Holgate, Coleman, Walcott, Schneiderlin, Gylfi, Sidibé, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Stekelenburg, Baines, Michael Keane, Delph, Bernard, Davies, Moise Kean.

Everton var með góð tök á leiknum frá upphafi — Liverpool meira með boltann án þess að skapa mikið og oft eins og þeir vissu ekki alveg hvað þeir ættu að gera með boltann. Everton mun beittara lið í fyrri hálfleik, mjög direct og opnuðu oft vörn Liverpool upp á gátt.

Everton var ekki langt frá því að skora strax á 6. mínútu þegar Gylfi sendi frábæra stungu á Walcott sem tímasetti hlaup sitt frábærlega. Varnarmaður náði að trufla Walcott nógu mikið til að hann missti boltann frá sér en Calvert-Lewin þá mættur og þrumaði að marki. En markvörður Liverpool náði að verja með fætinum. Frákastið beint á Sidibé sem átti þrumuskot í varnarmann.

Gylfi var aftur að verki á 12. mínútu þegar hann átti frábæra aukaspyrnu inn í teig sem Holgate skallaði að marki – enginn að dekka hann, en markvörður varði aftur.

Fyrsta tilraun Liverpool á mark kom á 20. mínútu þegar Lalana reyndi skot af löngu en hátt upp í stúku.

Aftur voru Liverpool menn stálheppnir á 27. mínútu þegar Sidibé setti Walcott upp hægri kant og hann sendi frábæran bolta inn í teig, beint á Richarlison sem náði góðu viðstöðulausu skoti á mark en aftur varði markvörður.

Lalana svaraði fyrir Liverpool með skoti – aftur langt upp í stúku.

En stuttu síðar fékk Calvert-Lewin dauðafæri þegar Walcott náði hárri fyrir mark. Calvert-Lewin vantaði bara hársbreidd í að ná fríum skalla á mark.

Liverpool svaraði með skoti framhjá frá Jones. Aldrei hætta.

Everton fékk því næst tvö færi í röð, fyrst skalli Mina eftir hornspyrnu frá Gylfa en rétt framhjá (markvörður í skógarhlaupi). Svo skot frá Calvert-Lewin en einnig rétt framhjá.

Liverpool fékk loks almennilegt færi á 41. mínútu þegar Origi náði skoti á mark, sem breytti um stefnu af Holgate og virtist ætla inn við fjærstöng en Pickford varði meistaralega. Hefði hvort eð er ekki talið því Origi var rangstæður.

Richarlison fékk skallafæri upp við mark rétt fyrir lok hálfleiks en náði ekki góðum skalla.

0-0 í hálfleik. Liverpool klárlega fegnara liðið að komast í markalaust hlé. Hefðu auðveldlega getað verið þremur til fjórum mörkum undir.

Everton byrjaði seinni hálfleik með færi eftir hornspyrnu þegar boltinn barst til Schneiderlin sem var utan teigs en skaut rétt yfir.

Liverpool svöruðu með skoti af löngu færi en Pickford kastaði sér á það og greip.

En Liverpool náðu undirtökunum í seinni hálfleik og færi Everton hættu að líta dagsins ljós. Voðalega lítið að frétta frá sókn Liverpool líka, aðallega skot af löngu færi.

Ancelotti reyndi að brjóta þetta upp með tvöfaldri skiptingu á 63. mínútu: Delph og Moise Kean inn á fyrir Gylfa og Coleman.

Sidibé þar með færður í hægri bakvörð, Richarlison á vinstri kant og Walcott á þann hægri. Kean í framlínuna.

En á 71. mínútu gerðist það að Curtis Jones átti ótrúlegt skot að marki, smellhitti boltann utan teigs og smurði honum inn við samskeytin – sláin inn. Mark upp úr engu. Týpískt.

Bernard inn á fyrir Walcott á 79. mínútu og Richarlison þar með færður af vinstri kanti yfir á hægri.

Liverpool menn héngu á boltanum eins og þeir gátu eftir markið og Everton náði ekki að skapa sér almennileg færi eftir þetta. Moise Kean fékk eitt hálffæri, en reyndi hjólhestaspyrnu. Alltaf að reyna að gera þetta svo flókið.

1-0 tap fyrir Liverpool því staðreynd. Svona fer þetta oft þegar menn nýta ekki yfirburðina í fyrri hálfleik og færin sín.

22 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Vonandi að menn mæti brjálaðir til leiks, sýni þessu rauða hyski enga virðingu og spili óhræddir til sigurs……þá eigum við kannski séns. Annars er ég alls ekki bjartsýnn.

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Ef við vinnum ekki þennan leik gegn algeru varaliði liverpool, þá er það algjör skömm og hneysa.

  2. Eirikur skrifar:

    Þetta er pínnlegt á að horfa.

  3. Gestur skrifar:

    Er þetta ekki C lið hjá Liverpool, nú sést vel hvað Everton er með lélegt lið. Og Gylfi hvað varð um hann?

  4. Gunnþór skrifar:

    Hámark niðurlægingunar er náð, ætla ekki að tjá mig meira að svo stöddu.

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Af hverju kom þetta bara ekkert á óvart??

  6. Ari G skrifar:

    Gleðilegt ár! Fyrri hálfleikur var ágætur en seinni hálfleikur var hrein hörmung það lélegasta sem ég hef séð frá Everton þetta tímabil. Vonandi tekst Ancelotte að rífa upp liðið 2 lélegir leikir í röð.

  7. Erlingur skrifar:

    Akkuru var Gylfi ekki á miðjunni? Aljör yfirburðarmaður þegar hann spilar

  8. Erlingur skrifar:

    Ancelotte mun byggja liðið upp í kringum Gylfa

  9. Ari S skrifar:

    Það er eitt jákvætt við þennan leik. Þarna sá Ancelotti hvernig liðið okkar getur verið lélegt. Niðurlægingin frekar mikil og hver einasti leikmaður var slakur. Áhrif Duncan farin og mikið verk framundan hjá Ancelotti. Kær kveðja og gleðilegt ár félagar.

  10. Diddi skrifar:

    jæja, það tók snilling eins og Ancelotti ekki nema þrjá leiki að fatta hverskonar ruslleikmenn við höfum sankað að okkur. Gylfi sem íslenskir svokallaðir sparksérfræðingar hafa alltaf haldið fram að sé ekki spilað í réttri stöðu hjá Everton. Hann er nú búinn að spila flestar stöður sem eru í boði framan við vörn. Varla hafa menn ætlað að setja hann í vörnina eða markið. Pickford sem hefði aldrei verið í liðinu ef hann væri ekki ofmetinn Englendingur og segir mikið um hverskonar markmenn landsliðið þeirra hefur úr að velja. Keane annar ofmetinn enskur leikmaður. Sjúkraþjálfaraæfingpúðinn Delph „leiðtoginn“ sem hefur leikið rúma 200 leiki á sínum 14 ára atvinnumannsferli, það var þá maður sem við þurftum. Og svona má lengi telja. En það er gott að það er kominn maður í brúna sem hefur aðra skoðun á því hvað er nothæft í deild hinna bestu. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með Ancelotti en óttast að hann fari þegar eitthvað stærra lið komi eftir honum nema að það sé rétt sem sumir heimildarmenn segja að hann hafi verið narraður til okkar á geðveikum launum og ekki getað sagt nei. Það segir líka ýmislegt um ruglið á liðinu að nokkrir reyndir leikmenn kenna taktíkinni hjá Ancelotti um tapið á anfield. Það sýnir bara hversu veruleikafirrtir þeir eru og kannski einmitt hvers vegna þeir hafa ekki verið að performa fyrir fyrri stjóra. En þeir komast ekki upp með neitt múður hjá svona kalli 🙂 Gleðileg vonandi mörg ár 🙂

    • Orri skrifar:

      Ég er sammála vini mínum á Hūsavīk,það er búið að kaupa og kaupa leikmenn undanfarin ár og skipta um stjórna trekk í trekk og hver er uppskeran jú að mínu mati algjör häðung bæði fyrir klúbbnum og okkur semfylgjum liðinu.Nú held ég að það sé kominn alvöru maður í brúna hjä okkur sem ljósar sig við alla farþegana og verslað alvöru leikmenn því miður hafa margir af þeim leikmönnum sem hafa verið keyptir undanfarin är verið vægarsagt mjög léleg kaup.nú eru spennandi tímar framundan hjä okkur.

  11. Gunnþór skrifar:

    Eins og alltaf er ég sammála Didda vini mínum

  12. Gunnþór skrifar:

    Sjáið laun leikmanna þetta er alveg galið.

  13. Ómar Ásgeirsson skrifar:

    Hversvegna þarf Ancelotti að erfa gerpi eins og Duncan Ferguson inn í þjálfarateymi sitt? Ancelotti er einn virtasti þjálfari heims og þarf ekki á honum að halda.hann þarf að fá frítt spil.Duncan var með martines,koeman,og silva væntanlega til að efla baráttuanda í liðinu, hvernig gekk það?aldrei gat hann neitt í fótbolta nema að tuddast og fautast, fulltrúi fyrrverandi ofmetinna leikmanna og klíku í klúbbnum sem þarf að hreinsa út. Það er eitthvað mikið að innanhúss hjá félaginu. Óvænt stiga söfnun í desember hefur ekkert með Duncan að gera sem þjálfara, eitt af stærstu liðum Bretlands var komið í fallsæti í deildinni

  14. Elvar Örn skrifar:

    Fréttir liðinnar viku hafa snúist um það að eldri menn Everton hafi svarað harkalega fyrir sig í klefanum eftir leik. Aðrar fréttir hafa verið það hverja Everton ætli að kaupa og selja í janúar glugganum.
    Ancelotti svaraði þessu ansi vel á blaðamannafundi og sagði allar þessar fréttir bull og vitleysu.
    Það var engin leiðindi frá leikmönnum í klefa eftir leik né á æfingasvæði félagsins í kjölfarið. Fréttir í held af leikmönnum líklegir til að koma eru rangar einnig að sögn Ancelotti.
    The Sun og Mirror búa til helling af fréttum sem aðrir eftir og þar með talið íslenskir fjölmiðlar því miður.
    Ég hvet menn til að horfa á þetta vital við Ancelotti og anda aðeins inn og styðja liðið í næsta leik.
    Að tapa gegn B liði Liverpool í FA bikarnum er líkt og að tapa úti gegn Millwall. Sigur hefði bara verið eðlilegur hlutut og ekkert meira en það.
    Deildin í seinustu 6 eru 3 sigrar 2 jafntefli og eitt tap og þar mótherjar eins og Chelsea, Man Utf, Man City og Arsenal og fyrirfram hefðu menn ekki spáð því. Everton hefur klifið töfluna og vonandi heldur það efram því það er stutt í 6 sæti en það er líka stutt í 16 sæti en með Ancelotti í brúnni þá er engin ástæða til að panica og þegar á líður þá mun hann ná meira út úr liðinu. En það er líka ljóst að hann vill fá nýja menn inn sem henta hans leik og er ég viss um að hann fái bæði tíma og peninga til að búa til sitt lið.
    Annars er viðtalið við Ancelotti hér:
    https://youtu.be/GlO6_sSxpTc

  15. Teddi skrifar:

    Já ótrúlegt að sjá fjölmiðla hér á skerinu, sem maður hélt að væru „í lagi“, copy/translate/paste bullið í bresku gulu pressunni.

  16. Orri skrifar:

    Sæll Teddi.Er málið hjá okkur ekki bara það að viljum bara jákvæðar fréttir af Everton en okkur er ekki vel við neikæðar fréttir að Everton þä eru margir fūlir og fara fýlu.Við verðum að þola bæði mótlæti og meðbyr.

  17. Teddi skrifar:

    Kannski.

    Neikvæðar fyrirsagnir selja líka betur, þ.e.a.s., fá meiri lestur. (a.k.a. clickbaits)