Werder Bremen – Everton 0-0 (vináttuleikur)

Mynd: Everton FC.

Síðasti vináttuleikurinn fyrir fyrsta leik í ensku var í dag kl. 13:00. Mótherjinn Werder Bremen á þeirra heimavelli.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Mina, Coleman, Delph, Gomes, Bernard, Gylfi, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Steklenburg, Lössl, Holgate, Walcott, Tosun, Mirallas, Schneiderlin, Davies, Foulds, Gordon.

Marco Silva stillti upp sterku liði, líklega liðið sem hann sá fyrir sér að myndi hefja fyrsta leik í ensku Úrvalsdeildinni. Fyrri hálfleikur fínn og liðið leit nokkuð vel út. Leikmenn litu út fyrir að vera í góðu formi, vörnin þétt og náði vel saman, miðjan vinnusöm og boltinn gekk vel á milli manna enda fékk liðið nokkur færi. Bernard og Calvert-Lewin kannski þeir einu sem virkuðu hálf slakir í fyrri hálfleik. Fyrir vikið var sóknin helst til bitlaus.

Sem dæmi um það þá kom Calvert-Lewin sér í fína stöðu tvisvar á fyrstu þremur mínútunum. Fékk fyrst færi upp við mark en varnarmaður náði að pota boltanum út af. Seinna færið var skotfæri utan teigs, eftir skyndisókn en markvörður varði.

Strax í kjölfarið fór Delph út af meiddur, líklega tognaður. Vonandi bara varúðarráðstöfun en ekki eitthvað alvarlegt. Schneiderlin inn á í staðinn. Alltaf vont þegar menn heltast úr lestinni á undirbúningstímabilinu.

Bremen menn fengu flott færi á 12. mínútu þegar Bernard átti slæma sendingu aftur sem þeir komust inn í. Sóknarmaður þeirra komst upp að teig hægra megin, náði föstu skoti af löngu færi yfir á fjærstöng, framhjá Mina en Pickford náði að verja hann vel í horn. Besta færi Werder Bremen í fyrri hálfleik.

Everton átti að fá víti á 20. mínútu þegar varnarmaður Werder Bremen fékk boltann í hendina inni í teig, eftir viðskipti við Richarlison. Höndin á honum mjög hátt uppi, alls ekki í náttúrulegri stöðu. En ekkert dæmt.

Gylfi vann svo horn á 22. mínútu og Digne sendi háan bolta inn í teig. Smá darraðadans þar en boltinn endaði hjá Richarlison upp við mark. Hann gerði vel í að ná að snúa og ná skoti en markvörður varði með fæti. Frákastið fór beint til Mina, inni í teig, sem þrumaði í bakið á varnarmanni. Frákastið fór svo til Bernard sem lúðraði boltanum yfir markið.

0-0 í hálfleik.

Walcott kom inn á fyrir Richarlison í hálfleik og hann tók sér ekki langan tíma til að komast í takt við leikinn. Walcott og Gylfi sköpuðu frábært færi fyrir þann fyrrnefnda þegar þeir tóku nettan þríhyrning inni í teig en skot frá Walcott upp við mark blokkerað af varnarmanni.

Werder Bremen fengu tvö færi í kringum 60. mínútu. Það fyrra skot úr aukaspyrnu, sem Pickford varði auðveldlega. Það seinna dauðafæri inni í teig sem Pickford varði glæsilega.

Tosun kom inn á fyrir Calvert-Lewin á 72. mínútu og hann var varla kominn inn á þegar Walcott átti fínt færi. Var á auðum sjó utarlega í teignum og fékk boltann (frá Bernard að ég held). Skotið hins vegar varið af markverði.

Leikurinn opnaðist nokkuð á þeim tímapunkti og Werder Bremen svöruðu með dauðafæri upp við mark, sem Pickford varði glæsilega. Gerði sig breiðan og stoppaði skotið. Pickford með flottan leik í dag.

Everton fékk svo skyndisókn þar sem Digne og Bernard léku listir sínar upp vinstri kantinn sem endaði með því að Bernard setti Digne inn fyrir vörnina upp við mark. Davy Klassen hins vegar mættur til að bjarga á línu, af öllum mönnum.

Tvöföld skipting á 82. mínútu þegar Davies kom inn á fyrir Gylfa og Mirallas fyrir Bernard.

Everton gerði harða hríð að marki Werder Bremen í lokin. Tosun átti skot sem var vel varið til hliðar. Frákastið til Coleman og samherji hans náði svo að koma boltanum aftur inn í teig. Í þetta skiptið há sending sem Tosun skallaði til Gomes. Sá þrumaði að marki og var næstum búinn að skora þar sem boltinn breytti um stefnu af varnarmanni en markvörður rétt náði að verja.

Lokatölur því 0-0. Tímabilið hefst eftir örfáa daga með leik við Crystal Palace á útivelli.

3 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    Skoraði liðið ekki heil 2 mörk á undirbúningstímabilinu!!!

  2. Ari S skrifar:

    Takk kærlega fyrir þetta, Finnur 🙂 0-0 eru flott úrslit í æfingaleik á undirbúningstímabilinu.