AS Monaco – Everton 1-0 (vináttuleikur)

Mynd: Everton FC.

Everton átti vináttuleik í dag við Monaco en flautað var til leiks klukkan 16:00 í dag. Ritari missti af fyrri hálfleik vegna anna en umfjöllunin um seinni hálfleik fylgir.

Þegar litið er aftur, sýnist manni á Twitter sem markverðasta sem gerðist í fyrri hálfleik var að Stekelenburg varði víti (sjá myndskeið) á 26. mínútu eftir brot hjá Gibson inni í teig. Og Coleman var óheppinn að skora ekki á 36. mínútu eftir flott færi (sjá myndskeið).

Uppstillingin í seinni hálfleik: Stekelenburg í markinu, varnarlínan: Digne, Gibson, Kean og Coleman. Davies og Gomes á miðjunni, Bernard á vinstri kanti, Gylfi í holunni, Walcott á hægri, Niasse frammi.

Fyrsta færi seinni hálfleiks kom á 53. mínútu eftir hornspyrnu Everton. Ungliðinn Gibson fékk frían skalla á mark utarlega í teignum en skallinn ekki nógu fastur. Michael Kean fékk eiginlega alveg eins færi aðeins þremur mínútum síðar en sá skallabolti fór í jörðina og skoppaði næstum því yfir markvörð, sem bjargaði sér rétt svo með því að slá boltann yfir slána. Þrumuskot frá Davies fylgdi í kjölfarið en framhjá marki.

Sjaldgæft færi hjá Monaco leit dagsins ljós á 61. mínútu, eftir aukaspyrnu utan af velli hægra megin. Stekelenburg ætlaði að láta boltann fara framhjá fjærstöng, en þar var mættur sóknarmaður Monaco sem náði ekki til boltans. Hefði annars getað potað inn.

Oumar Niasse var næstum búinn að skora með ótrúlegum hætti á 63. mínútu þegar hann fékk stungusendingu inn fyrir vörnina. Hann virtist vera á leiðinni í grasið með varnarmann í bakinu en náði einhvern veginn hælspyrnu í neðanverða slána og út. Óheppinn að skora ekki.

10 skiptingar fylgdu í kjölfarið hjá Monaco, allir nema markvörðurinn út af og ferskir leggir inn á. Everton búið að spila á sömu mönnunum að mestu í 65 mínútur en þeir höfðu þrátt fyrir það í fullu tré við fersku leikmenn Monaco, og eiginlega gott betur.

Lucas Digne átti frábæra tilraun á mark eftir hornspyrnu frá Gylfa á 66. mínútu en Digne tók boltann í fyrstu snertingu og þrumaði honum…. hárfínt framhjá skeytunum!

Mark Everton kom loks á 74. mínútu þegar Oumar Niasse sendi háa sendingu (mögulega deflection) á Coleman sem var alveg upp við mark og Coleman skallaði inn (og fékk eiginlega hnefann á markverði í andlitið í kjölfarið).

1-0 fyrir Everton og Marco Silva skipti þá McCarthy inn á fyrir Gylfa. Stuttu síðar kom Mirallas svo inn á fyrir Bernard.

Monaco fengu hálffæri eftir að Gomes hleypti þeim í boltann aftarlega á velli, en sóknarmaður Monaco skaut nokkuð langt framhjá.

Adineran kom svo inn á fyrir Gomes á 82. mínútu.

Everton fékk frábært færi í skyndisókn á 87. mínútu þegar Oumar Niasse náði boltanum í sókn Monaco og var fljótur að hugsa og sendi á Mirallas. Hann var snöggur að komast inn í teig og gat skotið en var óeigingjarn og sendi til hliðar á Walcott sem var og betra færi og þrumaði framhjá varnarmanni og markverði… en í lappirnar á varnarmanni á línu. Óheppinn að skora ekki.

Tom Davies fékk frábært færi rétt undir lok leiks, náði föstu skoti sem fór í sveig í neðanverða slána og út. Markvörður átti engan séns og bara spurning um nokkra millimetra og boltinn hefði verið inni.

1-0 lokastaðan. Coleman með sigurmarkið. Sigurinn aldrei í hættu og hefði auðveldlega getað verið stærri enda Everton með nokkra yfirburði á vellinum.

Hægt er að sjá nokkrar klippur úr leiknum á Twitter síðu Everton.

Næsti vináttuleikur er á miðvikudaginn kl. 17:45, gegn Wigan á útivelli.

5 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Bernard gefur flota sendingu frá hægri kanti yfir á vinstri kant þar sem að Digne tekur við boltanum og lagar hann (sendir) og gefur á Niasse sem að gerir vel og chippar boltanum yfir til COLEMAN sem að skallar boltanum í markið en lendir við það á markmanni Monaco og liggur eftir…….en bara í smá stund…

    Monaco 0 Everton 1 rúmelga 75 mín liðnar

  2. Ari S skrifar:

    Sigur, Monaco 0 Everton 1

  3. Georg skrifar:

    Fínn leikur hjá okkar mönnum. Hefðum vel getað skorað fleiri. Coleman í upplögðu færi í fyrri hálfleik, Niasse líka. Svo átti Niasse ævintýranlega tilraun með hælnum í stöngina og Walcott klúðraði dauðafæri eftir góðan undirbúning frá Mirallas. Geggjað skot a lofti frá Digne rétt framhjá og skot í slá frá Davies í lokin. Ekki vantaði færin hjá okkar mönnum í dag.

  4. Finnur skrifar:

    Þetta var flottur síðari hálfleikur (sem var það eina sem ég sá) og Everton liðið leit út fyrir að vera í góðu formi, þó ekki sé mjög langt liðið á undirbúningstímabilið. Það verður frábært að fá Richarlison, Gana, Mina og fleiri í hópinn.

  5. Diddi skrifar:

    Vonandi tekur ekki 6 mánuði að hrista liðið saman eins og í fyrra. Eina liðið sem þurfti 7 mánaða unirbúningstímabil 😪😪