Everton U23 eru Englandsmeistarar!

Mynd: Everton FC.

Tvö efstu liðin í Úrvalsdeild U23 ára liða áttust við í kvöld á Goodison Park — Everton U23 og Brighton U23. Ljóst var fyrir leik að sigur myndi tryggja Everton Englandsmeistaratitilinn og að jafntefli myndi ekki hjálpað Brighton mikið, þar sem þeir þurftu sigur.

Uppstillingin: Joao Virginia, Ryan Astley, Brendan Galloway, Nathangelo Markelo, Morgan Feeney (fyrirliði), Lewis Gibson, Josh Bowler, Dennis Adeniran, Fraser Hornby, Bassala Sambou, Nathan Broadhead.

Varamenn: Matthew Foulds, Mateusz Hewelt, Anthony Gordon, Alex Denny, Manasse Mampala.

Leikurinn í járnum frá upphafi. Hvorugt lið vildi tapa leiknum en Brighton í erfiðari stöðu, því jafntefli myndi nánast gera út um möguleika þeirra. Og þeirra staða batnaði ekki um miðbik fyrri hálfleiks þegar Josh Bowler skoraði með flottu skot, rétt utan teigs, í hornið vinstra megin niðri. 1-0 fyrir Everton.

Brighton áttu eitt hættulegt færi eftir hornspyrnu þar sem varnarmaður Everton hreinsaði á línu, en að öðru leyti ógnuðu þeir ekki mikið. Everton mun hættulegra lið í fyrri hálfleik.

1-0 í hálfleik.

Brighton mættu einbeittir til leiks í seinni hálfleik, án þess þó að skapa sér almennileg færi. Everton liðið aðeins seinna af stað en betri færin áttu Everton í seinni hálfleik.

Josh Bowler var ekki langt frá því að bæta við marki snemma í seinni hálfleik með skoti utan teigs en boltinn breytti um stefnu af varnarmanni og sleikti utanverða vinstri stöngina.

Everton hefði einnig átt að bæta við marki eftir dauðafæri Josh Bowler, sem náði skoti á mark innan teigs en varnarmenn Brighton köstuðu sér fyrir og blokkeruðu.

Nathan Broadhead fékk svo algjört dauðafæri á að bæta við marki á 64. mínútu, eftir frábæra stungusendingu frá varnarmanni Everton utan af kanti. En Broadhead, einn á móti markverði, með vinstri bakvörðinn nokkuð langt frá sér, lét verja frá sér og varnarmaður (hægri bakvörður?) náði að hreinsa á línu áður en boltinn rúllaði í markið. Besta færi leiksins.

Brighton fengu svo vítaspyrnu þegar 9 mínútur voru eftir. Ekkert við því að kvarta — brot innan teigs. Það leit út fyrir að Everton væri að kasta þessu frá sér en sóknarmaður Brighton hrasaði í hlaupinu og lúðraði boltanum bæði háttt og til hægri við markið. Engin hætta, sem betur fer. Eini almennilega færi Brighton í seinni hálfleik.

Everton sigldi þessu þar með í höfn og með sigrinum náði liðið að tryggja sér Englandsmeistararatitil U23 ára liða en þetta er í annað skiptið sem þeim tekst það á þremur árum. Til hamingju með það! Framtíðin er björt!!

2 Athugasemdir

  1. Orri skrifar:

    Til hamingju Everton.

  2. Ari S skrifar:

    Glæsilegt hjá okkar mönnum. Til hamingju 🙂 vonandi sjáum við einn eða fleiri komast í aðalliðið á næstu árum.

%d bloggers like this: