Everton – Cardiff 1-0

Mynd: Everton FC.

Hápunktur Íslendingaferðar okkar á Mekku fótboltans var þegar Everton tók á móti Cardiff núna á laugardaginn kl. 15:00. Meistari Sigurgeir Ari sá um skýrsluna í fjarveru ritara, sem var á pöllunum á Goodison Park.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Mina, Keane, Coleman, Gana, Gomes, Bernard, Gylfi, Walcott, Richarlison.

Varamenn: Stekelenburg, Baines, Zouma, Tosun, Davies, Calvert-Lewin, Lookman.

Gefum Ara orðið …

Leikur Everton og Cardiff í dag byrjaði eins og við var búist, Everton meira með boltann og þannig var þetta allan hálfleikinn.  Frekar rólegur hálfleikur og fyrsta sem ég man eftir var máttlaust skot Richarlison á 29. mínútu.  Everton nánast alltaf með boltann og stuttu eftir það komst Gomes í gegn frá hægri og átti fast skot í hliðarnetið.  Svona svipað og Kanchelskis gerði í minningunni en þetta var ekki hættulegt færi.  Síðan átti hann annað skot á 32. mínútu en framhjá.  Everton fengu aukaspyrnu á 40. mínútu og tók Gylfi hana og þá kom langbesta og hættulegasta færi sem okkar menn fengu í fyrri hálfleiknum.  Richarlison einn og óvaldaður fyrir opnu marki en hitti höfðinu ekki á réttan stað á boltanum og auðvelt fyrir markmann Cardiff að höndla.  Besta færið sem Everton fékk í fyrri hálfleiknum.

Gomes verður bara betri og betri með hverjum leiknum og hann virðist ákveðinn í að skora mark í þessum leik enda maðurinn með mikið sjálfstraust og er búinn að finna gleðina á ný að eigin sögn. Gleðina við að spila fótbolta.  Lék laglega á varnarmann Cardiff og og átti flotta fyrirgjöf en því miður var enginn leikmaður í blárri skyrtu í teignum og ekkert varð úr.  Markmaður Cardiff fékk að líta gula spjaldið á 43. mínútu fyrir að tefja og rétt undir lok fyrri hálfleiks féll Digne í vítategnum en það var öxl í öxl og ekkert dæmt.

Gomes, maður leiksins hingað til.  Kæmi ekki á óvart að hann myndi skora í seinni hálfleik.

0-0 í hálfleik.

Aron Einar átti fyrstu spyrnu seinni hálfleiksins en eftir tíu sekúndur þá náði Everton boltanum og missti hann fljótlega aftur… svona byrjaði sá síðari í dag.

Theo Walcott fór útaf á 50. mínútu í smá aðhlynningu en kom fljótlega inná aftur.  Og á 59. mínútu átti hann gott skot sem var varið en á eftir kom Gylfi okkar Sigurðsson og skoraði mark fyrir Everton.

Staðan því orðin 1-0 fyrir okkar menn og útlitið ansi gott.  Stuttu síðar þá kom hár bolti í teiginnn og Harris leikmaður Cardiff fór aðeins í Pickford sem lenti mjög illa og virtist vera meiddur en sem betur fer þá stóð hann upp og hélt áfram leik.

Þetta leit ansi illa út í sjónvarpinu og þarna fékk fólk að sjá úr hverju Jordan Pickford er gerður, sannkallaður stálgaur þessi leikmaður.

Cardiff sóttu aðeins meira eftir markið hjá okkar mönnum og það er greinilegt að Aron Einar og félagar gefast ekki upp baráttulaust.  Brotið var á Coleman en frekar lítil snerting og hann hélt áfram en missti síðan boltann… kom síðan með dýfuhandahreyfingar í átt að dómaranum eins og hann væri að spyrja… „átti ég að láta mig detta?“  Dómarinn hristi hausinn enda atvikið lítið sem ekkert.

Ademola Lookman kom inn á fyrir Theo Walcott eftir að sá síðarnefndi hafði verið aðeins skárri í síðari hálfleiknum heldur en þeim fyrri.  Skondið atvik sem að eflaust fáir hafa tekið eftir var þegar Gylfi reyndi að leika á Aron Einar en Aron tók af honum boltann… ekkert múður hérna… gæti Aron hafa sagt…

Bernard fór útaf fyrir Tosun sem fór í fremstu línu og Richarlison færði sig á vinstri kantinn.  Á 82. mínútu sólaði Lookman sig í gegnum um miðja vörnina hjá Cardiff og átti skot á markið en laglega varið hjá markmanninum.  Glæsilega gert hjá Lookman og ljóst er að þarna er á ferðinni mjög góður leikmaður.  Hann þarf meiri leikreynslu og verður bara betri og betri með hverri mínutunni sem maður sér hann.  Hefur að sjálfsögðu alltaf verið efnilegur en núna er hann að koma til og líklegast fær hann byrjunarliðssæti á næstunni.

Gylfa var síðan skipt útaf á 93. mínútu og Kurt Zouma kom inná.  Cardiff pressaði vel síðustu mínúturnar en vörnin hélt.  1-0 sigur Everton í dag og fjórði sigurinn í röð á Goodison Park.

Svo mörg voru þau orð. Við þökkum Ara kærlega fyrir skýrsluna.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Keane (8), Gomes (8), Sigurdsson (9), Walcott (7), Digne (8), Mina (7), Gueye (7), Bernard (8), Coleman (7), Richarlison (7). Varamenn: Lookman (7), Tosun (6). Cardiff menn með 7 á línuna (þmt. Aron), nema einn með 8 og einn með 6. Gylfi að sjálfsögðu maður leiksins.

25 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Bernard fór útaf fyrir Tosun sem fór í fremstu línu og Richarlison færði sig á vinstri kantinn. Á 82. mínút sólaði Lookman sig í gengum um miðja vörnina hjá Cardiff og átti skot á markið en laglega varið hjá markmanninum. Glæsilega gert hjá Lookman og ljóst er ða þarna er á ferðinni mjög góður leikmaður. Hann þarf meiri leikreynslu og verður bara betri og betri með hverri mínutunni sem maður sér hann. Hefur að sjálfsögðu alltaf verið efnilegur en núna er hann að koma til og líklegast fær hann byrjunarliðssæti á næstunni. Gylfa var síðan skipt útaf á 93. mínútu og Kurt Zouma kom inná. Cardiff pressaði vel síðustu mínúturnar en vörnin hélt. 1-0 sigur Everton í dag og fjórði sigurinn í röð á Goodison Park.

  • Ari S skrifar:

   Þetta átti að koma með … Finnur setur þetta á réttan satð bráðum.. kv. Ari

 2. Ari S skrifar:

  Það er eins og við manninn mælt, grafarþögn á síðunni. Enda hefur gengið vel upp á síðkastið. Everton heldur hreinu og vinnur leik þá er varla hægt að væla mikið er það?

  Kær kveðja, Ari.

  • Orri skrifar:

   Sæll Ari.Ég er ánægður með stigin 3 sem í boði voru.Mér hefur nú fundist vera algjör þögn hér á síðuni þegar liðið er að tapa leikjum sínum þetta komment verður númer 18 en þegar að illa gengur hjá okkur eru þau kanski 5,en sigur er sigur en okkar bíður erfitt prógram um næstu helgi.

 3. Finnur skrifar:

  Allir í útlöndum. 😉

  • Ari S skrifar:

   Spurning um að telja upp hverjir eru með í för… eru það fleiri en þið, Finnur og Halli? kv. Ari. 🙂

 4. RobertE skrifar:

  Fylgdist með textalýsingunni á meðan ég horfði á leiðinlegasta leik umferðinnar sem var ManUtd vs Palace, Everton virkaði mun betra liðið og átti sigur skilið. 6.sætið er staðreynd og vona ég að leikmennirnir haldi því.

 5. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta var óþægilegt í restina en hafðist, þökk sé peysunni hans Gests.

  • Ari S skrifar:

   Vörnin hjá okkur er búin að vera nokkuð solid í síðustu leikjum og þetta var því ekki eins erfitt og í fyrra t.d. 🙂 Það er frábært að hafa þrjá svona sterka miðverði eins og Zouma, Mina og Keane… nei fimm! ef ég tel með þá Holgate og Jagielka sem eru fínir líka en aðeins aftar í röðinni… 🙂

  • Gestur skrifar:

   Já þetta rétt slapp og það var mjög gaman að hitta Gylfa eftir leik.

 6. Ari G skrifar:

  Flottur sigur hjá Everton að vísu horfði ég ekki á leikinn. Gylfi valinn bestur fékk 9 í einkunn. Stórkostleg kaup hjá Marco Silva. Richarlisson frábær, Digne flottur, Mína góður, Comes frábær, Bernard flottur, Zouna flottur.

  • Ari S skrifar:

   ÉG persónulega skil ekki alveg hvers vegna gylfi hefur veirð valinn bestur því það var að mínu mati Gomes. En Gylfi var mjög góður og stóð fyrir sínu nema þegar hann reyndi að leika á Aron Gunnar en tókst ekki. Hann á að mínu mati að fá 8 en Gomes 9. kv. Ari S.

   En svona er þetta, aldrei allir sammála sem er bara gott mál.

 7. Teddi skrifar:

  Horfði á megnið af leiknum í óbeinni kl.18:55 á einni af stöðvum Sýn.
  Fínasti sigur og mjög gott að geyma fleiri skoruð mörk þangað til 2 des. Feginn fyrir hönd þeirra sem ferðuðust til Goodison að Gylfi var á réttum stað til að klára 3 stig, alltaf ömurlegt að lenda á markalausum leik.
  #takkGylfi

 8. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Gylfi var mjög góður í leiknum og kannski skiljanlegt að hann var valinn maður leiksins, en ég hefði valið Gomes, hann var frábær. Everton verður að gera allt sem þeir geta til að kaupa hann næsta sumar.

  • Ari S skrifar:

   Sammála, Ingvar. Everton verður að gera allt (sem þeir geta) til að kaupa hann.

 9. Eyþór skrifar:

  Það er frábært að fá sigurleik í afmælisgjöf
  og ekki skemmir það fyrir að Gyllfi skoraði.

 10. Finnur skrifar:

  Gomes í liði vikunnar að mati BBC:
  https://www.bbc.co.uk/sport/football/46337526

 11. Einar Gunnar skrifar:

  Okkar menn að koma sterkari inn, hrósa sigra yfir minni spámönnum, og þá er að herja á liðin í næstu sætum. Næsti leikur mun gefa okkur góða vísbendingu um hvers sé að vænta á þessari leiktíð.

  • Orri skrifar:

   Sæll Einar.Þarna er ég þér sammála við þurfum að ná stigum af liðunum sem eru ofar en við.Frumraunin ef svo má segja er um helgina þar sjáum við úr hverju menn eru gerðir það er bara að vona það best.

 12. GunniD skrifar:

  Þurfum að halda þessu sæti. Varla raunhæft að komast ofar.

 13. Teddi skrifar:

  Skemmtilega öðruvísi prjónatilþrif hjá Patreksfirðingnum.

 14. Finnur skrifar:

  Í dag lærði ég þá skemmtilegu staðreynd að þessir tveir harðjaxlar, sem hér eru í einhverri frægustu senu kvikmynda síðari tíma, ….
  https://www.kbxmedia.cz/data/clanky/640x400x1/creed-2-rocky-se-znovu-postavi-legendarnimu-protivnikovi.jpg
  … eru báðir stuðningsmenn Everton! Gaman að því! 🙂