Arsenal – Everton 2-0

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Zouma, Kenny, Davies, Gueye, Richarlison, Gylfi, Walcott, Calvert-Lewin.

Varamenn: Stekelenburg, Baines, Holgate, Schneiderlin, Bernard, Lookman, Tosun.

Flott byrjun á leiknum hjá Everton. Sjálfstraustið gott og virkuðu hungraðari og sterkari á köflum, héldu bolta vel og náðu vel saman. Fljótir í háa pressu á Arsenal án bolta.

Strax á 2. mínútu átti Dominic Calvert-Lewin að koma Everton yfir þegar Davies fann hann á auðum sjó á hægri kanti og hann komst einn inn í teig en gerði ekki nógu vel á móti Cech, sem kom út á móti honum. Hefði kannski getað sent á Richarlison sem var á auðum sjó vinstra megin, en Calvert-Lewin hikaði eitthvað og lét Cech ná að loka markinu.

Nokkrum mínútum síðar opnaði Everton aftur vörn Arsenal upp á gátt með flottu samspili, en Walcott dæmdur rangstæður í aðdragandanum.

Arsenal komust í dauðafæri á 11. mínútu þegar boltinn barst til Bellerin sem náði skoti af stuttu færi, en Pickford varði vel.

Richarlison átti flott skot að marki rétt utan teigs, eftir hraða sókn Everton en Cech varði í horn. Richarlison var ekki hættur því aftur átti hann tilraun á 28. mínútu en í þetta skiptið framhjá marki.

Everton fékk aukaspyrnu á 30. mínútu rétt utan teigs og tók Digne hana. Náði flottu skoti á mark sem Cech þurfti að slá yfir slána og gefa Everton horn.

Stuttu síðar náði Gylfi svo að setja Walcott inn fyrir með frábærri sendingu inn fyrir vörnina á 38. mínútu en Cech kom út á móti honum og lokaði vel.

Síðustu mínútur fyrri hálfleiks voru erfiðar áhorfs þar sem Arsenal náðu sterkri pressu og nokkrum hættulegum sóknum. En Everton fékk flott færi eftir skyndisókn og Richarlison náði skoti af stuttu færi sem Cech rétt náði að slá yfir.

Arsenal menn hefðu í raun ekki getað kvartað yfir því að lenda undir í fyrri hálfleik, enda Everton að koma sér í góð færi, voru skipulagðir og með gott leikjaplan. En enn einu sinni kemur Cech Arsenal til bjargar.

0-0 í hálfleik.

Það þurfti undramark til að brjóta ísinn og það gerðist því miður röngu megin. Lacazzette með sveigskoti innan teigs alveg upp í vinkilinn, algjörlega óverjandi fyrir Pickford. Að sjálfsögðu tilkynnti þulurinn að Lacazzette hafi verið við það að vera skipt út af þegar markið kom. En aðeins örfáum augnablikum síðar komust Arsenal í 2-0 með kláru rangstöðumarki. Línuvörður í góðri aðstöðu til að sjá að markaskorarinn var langt langt fyrir innan en ekki kveikt á perunni hjá þeim línuverði greinilega. Mjög ósanngjarnt að lenda 2-0 undir, eftir annars fína frammistöðu enda var Arsenal liðið búið að vera mjög ósannfærandi fram að mörkunum.

Keane var svo óheppinn að skora ekki á 70. mínútu eftir frábæra aukaspyrnu frá Gylfa á fjærstöng sem Keane náði að skalla á mark. Cech þurfti að hafa sig allan við til að kasta sér niður og verja alveg niður við marklínu.

Calvert-Lewin og Walcott út af fyrir Bernard og Tosun á 72. mínútu og sá síðastnefndi náði skoti á mark sem Peter Cech varði, enn á ný. Stórleikur hjá honum í dag.

En fleiri urðu færin ekki… 2-0 lokastaðan. Sú markatala gefur þó ranga mynd af frammistöðunni í dag. Everton fékk nóg af færum til að vinna þennan leik oftar en einu sinni ef ekki hefði verið fyrir Cech. Ljósu punktarnir klárlega að ógnunin er miklu meiri og spilamennskan betri þegar Richarlison og Walcott eru á köntunum en þegar annan þeirra vantar. Það og að nú hefur liðið ekki fengið á sig mark úr föstu leikatriði í tveimur leikjum í röð. Getur verið að þeir séu að ná tökum á svæðisvörninni?

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Kenny (6), Keane (6), Zouma (6), Digne (6), Gueye (6), Davies (6), Sigurdsson (6), Walcott (7), Calvert-Lewin (6), Richarlison (7). Varamenn: Bernard (5), Tosun (6). Maður leiksins: Petr Cech, eins og við var að búast.

11 Athugasemdir

 1. RobertE skrifar:

  Tom Davies fyrirliði, þetta verður eitthvað.

 2. Diddi skrifar:

  loksins fær Dominic séns sem striker. Spái að hann skori tvö í dag 🙂

 3. Einar Gunnar skrifar:

  Jæja, ég farinn að ryksuga.

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta seinna mark átti auðvitað aldrei að fá að standa og fyrra markið hefði í raun bara átt að vera sárabótarmark fyrir rassana.

 5. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég hata Petr Chech!!!🤬🤬🤬🤬🤬🤬

 6. Gestur skrifar:

  Og Everton hrapar niður stigatöfluna, allt eins og áður. Þetta verður fallbarátta í vetur og ekkert að breytast.

 7. Gunnþòr skrifar:

  Það er bara of mikið að hafa 3 kjúlla inná því miður á meðan staðan er þannig verðum við í vandræðum.

 8. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Sorgleg óheppni hjá okkar mönnum í dag, það sást best á því að markvörður þeirra var maður leiksins. Hann hefði trúlega ekki verið það ef við ættum alvöru framherja sem veit hvar markið er.

 9. Ari G skrifar:

  Góður leikur Everton nema ein stór mistök sköpuðu fyrra mark Arsenal. Seinna markað er svo auðljós rangstæða skil ekki hvernig línuvörðurinn og dómarinn skyldu ekki sjá þetta. Everton mjög óheppnir að tapa þessum leik og mér finnst ósanngjarnt að gagnrýna byrjun Everton óheppni og meiðsli hafa elt Everton hingað til. Já við þurfum alvöru framherja héld að best væri að prófa að setja Richarlison sem fremsta mann og setja Lookman á vinstri kantinn prófa það. Fannst enginn standa uppúr.

%d bloggers like this: