Félagaskiptaglugginn

Mynd: Everton FC.

Félagaskiptaglugginn er opinn til kl. 16:00 þann 8. ágúst þannig að það er skammur tími til stefnu til að styrkja liðið. Ensku félögin fá reyndar aukinn frest (til kl. 18:00) til að klára kaup, þeas. ef þau ná að senda ákveðið útfyllt eyðublað um kaupin fyrir frestinn. En það ætti allavega að vera ljóst fyrir kvöldmat hvort liðsstyrkur berst.

Þessi þráður er til að halda utan um staðfest kaup og sölur sem og slúður, ef þið rekist á eitthvað. Endilega hafið samband í kommentakerfinu ef eitthvað vantar í upptalninguna.

Maður átti annars hálfpartinn von á (miðað við fréttir undanfarna daga) að eitthvað myndi verða tilkynnt í dag (miðvikudag) en svo var ekki. Rifjum upp hvað hefur gerst hingað til…

Út: Funez Mori (sala), Rooney (sala), Klaassen (12M), Williams (lán), Mirallas (lán), Robles (samningur útrunninn), Tarashaj (lán), Onyekuru (lán), Garbutt (lán), Robinson (lán), og eitthvað af samningum við ungliða kláruðust.

Inn: Richarlison (35M), Digne (18M),  Virgina (kaupverð ekki gefið upp).

Mán kl. 23:50  Brasilíski landsliðs-miðjumaðurinn Bernard var sagður á leið í læknisskoðun hjá Everton. Síðar kom svo í ljós að hann mætti ekki fyrr en á miðvikudag og fengi því ekki læknisskoðun fyrr en á fimmtudagsmorgni þannig að félagskiptin yrðu kláruð rétt fyrir lok gluggans. Bernard yrði, ef af verður, dýrasti leikmaður í sögu Everton sem kæmi á frjálsri sölu en hann kostaði Shakhtar Donetsk um 40M punda á sínum tíma.
Mið kl. 12:00  Middlesbrough eru sagðir hafa boðið einhvers staðar á bilinu 12-15M punda í Yannick Bolasie.
Mið kl. 19:03  Skv. NSNO er búið að klára kaupin á Yerry Mina frá Barcelona fyrir um 20M punda. Maður trúir því þegar maður sér það því útkoman úr þeim félagaskiptum hefur hingað til virst breytileg eftir vindátt. NSNO sögðu einnig að Everton væri á höttunum eftir miðjumanninum Andre Gomez hjá Barcelona og Badou N’Diaye hjá Stoke.
Mið kl. 23:25  Þó nokkrir miðverðir hafa einnig verið orðaðir við Everton, til dæmis Marcus Rojo og Kurt Zouma (að láni, sjá hér), og fleiri.
Mið kl. 23:38  Hinn tvítugi varnarmaður, Callum Connolly, er sagður vera á leið til Wigan að láni.
Fim kl. 09:00  Skv. frétt í Liverpool Echo mun Everton ekki kaupa einn einasta leikmann í viðbót í þessum glugga… fyrir U23 ára liðið, það er að segja…
Fim kl. 09:10  Skv. frétt á NSNO vill Leeds fá Mo Besic til liðs við sig og Liverpool Echo segja að Everton vilji fá 6M punda fyrir hann. Sky Sports segja hins vegar að hann sé á leiðinni til Middlesbrough á láni.
Fim kl. 10:24  Skv. frétt á Sky Sports er Yerry Mina við það að skrifa undir.
Fim kl. 10:32  Sky Sports segja nú að forsvarsmenn Barcelona séu á Englandi til að klára félagaskipti Yerry Mina og að Mina sé í læknisskoðun á Spáni (til að spara tíma).
Fim kl. 11:11  Skv. Sky Sports er Lookman ekki á leiðinni frá Everton í þessum glugga.
Fim kl. 12:44  Sky Sports segja að sala á Mo Besic til Middlesbrough fyrir 6M punda sé yfirvofandi. Spurning hvort það þýði að Andre Gomes verði keyptur fyrir lok gluggans.
Fim kl. 13:09  Everton tilkynnti í dag um þriggja ára framlengingu á samnings Callum Connolly og Kieran Dowell.
Fim kl. 14:00  Aðeins tveir tímar til stefnu (plús smá frestur ef næst að skrá útfyllt eyðublöð fyrir kl. 16:00)!
Fim kl. 14:23  Fréttaritari Sky Sports var hjá Finch Farm og sagði að enn væri beðið staðfestingar á kaupum á Yerry Mina, Bernard og Andre Gomes. Sjáum hvað setur!
Fim kl. 14:54  Skv. Sky Sports er Everton við það að klára lánssamning á miðverði Chelsea, Kurt Zouma.
Fim kl. 14:57  Sky Sports hafa það eftir Telegraph að Everton sé enn á eftir Marcus Rojo hjá United.
Fim kl. 15:00  Aðeins klukkutími til stefnu!
Fim kl. 15:02  Þetta virðist vera að gerast með Bernard! Búinn að skrifa undir og fá atvinnuleyfið, verður kynntur á næsta klukkutímanum, segja þau hjá Sky Sports.
Fim kl. 15:40  Sky Sports segja nú að tryggt sé að Bernard verði leikmaður Everton í lok dags og að Everton hafi unnið kapphlaupið um Yerry Mina. Ekkert staðfest þó ennþá og meiri óvissa um Andre Gomes.
Fim kl. 15:45  STAÐFEST! Sky Sports segja að Everton sé búið að tilkynna Bernard! Og það passar: Sjá Twitter færslu. Bernard skrifar undir fjögurra ára samning.
Fim kl. 15:55  Eftir aðeins fimm mínútur lokast glugginn. Eftir það hefur Everton tvo tíma til að klára hálfkláruð félagaskipti sem send var inn tilkynning um fyrir lok gluggans.
Fim kl. 15:55  Hmm… Barcelona voru að staðfesta sölu á Yerry Mina til Everton… Sky Sports segja að kaupverðið sé 27.2M punda en gæti náð upp í 28.5M.
Fim kl. 16:00  …og glugginn er hér með lokaður! Nú er bara að sjá hvort einhver hálfkláruð félagaskipti ná í gegn á næstu tveimur tímum! Enn er beðið fregna af öðrum sem orðaðir hafa verið við Everton. Einna líklegastir þykja Kurt Zouma og Andre Gomes, líklega báðir á láni.
Fim kl. 16:04  Barcelona var að tilkynna lán á Andre Gomes til Everton! Lánsverðið er sagt vera 2M punda.
Fim kl. 16:29  Talsmenn knattspyrnusambands Englands segja að eftir sé að afgreiða félagaskipti 10 leikmanna og að í öllum tilfellum sé að minnsta kosti annað liðið í Úrvalsdeildinni.
Fim kl. 16:35  Mo Besic er ekki á leiðinni til Middlesbrough eftir allt saman. Ekki tókst að ná endum saman þar.
Fim kl. 16:44  Bíddu! Þetta er ekki búið! Everton er að reyna að klára lánssamning við Kurt Zouma fyrir kl. 18:00!
Fim kl. 18:00  Glugginn er formlega lokaður þegar kemur að kaupsamingum. Enn er þó hægt að selja/lána í neðri deildir og út fyrir landsteinana. Við bíðum enn frétta af því hvort náðst hafi að klára lánssamning á Kurt Zouma.
Fim kl. 18:26  Sky Sports eru ekki búnir að gefa Kurt Zouma upp á bátinn þannig að hver veit nema einn í viðbót bætist í hópinn!
Fim kl. 19:02  STAÐFEST! Everton var að staðfesta kaupin á Yerry Mina og Andre Gomes. Ekkert heyrt af Kurt Zouma.
Fim kl. 20:21  Sky Sports sögðu að það sé möguleiki að félagaskipti Kurt Zouma hafi náð að klárast en við fáum ekki fréttir af því fyrr en á morgun.
Fös kl. 10:10  Enn er beðið fregna af Kurt Zouma af/á. Engar fréttir um það á Sky Sports eða BBC en Mogginn segir að breskir fréttamiðlar staðfesti að Zouma muni koma. Sjáum hvað setur…
Fös kl. 12:52  Marco Silva sagði að lánssamningurinn við Kurt Zouma sé að mestu kláraður. Athyglisvert…
Fös kl. 13:00  STAÐFEST! Everton var að staðfesta lán á Kurt Zouma frá Chelsea.

Og þar með er þetta líklega komið! 🙂 En við munum uppfæra þessa frétt þegar meira er vitað. Endilega látið vita ef þið heyrið eitthvað.

Eftir lok gluggans getur Everton (og önnur ensk lið) áfram selt og lánað leikmenn á meginlandi Evrópu (til loka mánaðar ef okkur skjátlast ekki) en næsti gluggi opnar á miðnætti á nýársdag.

65 Athugasemdir

 1. Orri skrifar:

  Er ekkert að frétta hjá okkur ???????????????????????

 2. Georg skrifar:

  Bernard verður kynntur innan stundar.

  Svo er Yerri Mina í læknisskoðun í Barcelona, staff frá Everton flaug yfir til að flýta fyrir og er hann þessa stundina í læknisskoðun og verið að ganga frá lausum endum. Þetta er beint frá SkySports.

  Ef við klárum þessa 2 í dag þá er ég bara nokkuð sáttur með þennan glugga. En maður er aldrei rólegur fyrr en maður sér þetta endanlega staðfest. Bernard er allavega 100% og Mina virðist vera nokkuð pottþétt líka.

  http://www.skysports.com/watch/video/sports/football/teams/barcelona/11466818/mina-having-everton-medical

 3. Georg skrifar:

  Einnig er talað um að Everton sé að reyna fá Andre Gomes miðjumann Barcelona og eru viðræður í gangi þar. Við erum allavega með staffið til að fara með hann í læknisskoðun ef það gengur eftir.

 4. Diddi skrifar:

  þolinmóður Orri, verðum að vera það. En í guðanna bænum ekki Drinkwater, PLEASE !

  • Orri skrifar:

   Sæll félagi.Það verður kanski eitthvað sterkara en water ef þetta gengur allt eftir.

   • Diddi skrifar:

    Það varð hjartastopp hjá sumum Leicester aðdáendum þegar Claude Puel djókaði með Harry Maguire myndi fara til manutd fyrir leikinn á morgun. En bætti svo við, bara í nokkra klukkutíma af því að hann þyrfti að spila leikinn 🙂

  • Orri skrifar:

   Nú er ég að skilja sammála þér.

 5. Georg skrifar:

  Kieran Dowell og Callum Connolly voru að gera nýja 3. ára samninga við Everton. Það er það eina sem er staðfest í dag. Annars bíður maður spenntur eftir að sjá (staðfest!) á nýjum leikmönnum.

 6. RobertE skrifar:

  Besta sem ég hef séð lengi að Cuco Martina sé farinn til Boro

  • Diddi skrifar:

   ekki viss um að Elvar verði ánægður með þetta, hann sá stundum (einstaka sinnum) eitthvað við Martina sem minnti á að hann væri knattspyrnumaður 🙂

   • RobertE skrifar:

    Ég sparkaði einu sinni í bolta, þá er ég knattspyrnumaður.

   • Elvar Örn skrifar:

    Hehe Diddi. Martina er í engu uppáhaldi hjá mér en mér fannst menn dæma hann áður en hann tók þátt í fyrsta leiknum. Spilaði ansi marga leiki illa en var samt að spila úr stöðu (öfugum kanti) og ef hann spilaði vel (fáir leikir) þá fékk hann samt útreið.
    Digne og Baines eru miklu betri leikmenn og vildi ég frekar sjá Garbutt fá séns heldur en Martina. Þannig að Diddi, ég er sko no fan of Martina.

    • Diddi skrifar:

     kom nokkuð fram að þú værir rosa fan, var samt of gott til að láta þetta bara liggja 🙂 Fyrirgefðu Finnur 🙂

 7. Georg skrifar:

  Nýjustu fréttir herma að Everton sé búið að ná samkomulagi við Chelsea um að fá Kurt Zouma að láni út leiktíðina.

 8. Diddi skrifar:

  Bernard kominn klár samkv. official síðunni okkar 🙂

 9. Finnur skrifar:

  Tvö skemmtileg komment af BBC síðunni (frá lesendum):

  Noel: I like Yerry Mina, he has the height and bulk that is more suited to the Premier League than La Liga! …and more ominous for Man Untied fans that Mina chose Silva over Mourinho!

  Lillian: Yessss Everton on form, at this rate they will sign everyone. I think Pogba will help, try him

 10. Einar G skrifar:

  Jæja drengir verður maður ekki að taka tappa úr flösku í kvöld? Þrenna hjá okkar mönnum…

 11. RobertE skrifar:

  Rosalegur gluggi, Mina, Gomes og Bernard, hefði ekki hatað að fá Rojo líka. Núna bara vona að þeir spili vel saman og rústi þessari deild.

 12. GunniD skrifar:

  Unnum við þennan glugga, eða er þetta svipað flopp og í fyrra?

 13. Ari G skrifar:

  Ég er hissa hvað það gengur illa að losna við leikmenn. Hvað með Bolasie, Besic, Scheiderlein. Flott með þessi kaup Mina og Bernard en af hverju Gomes eigum við ekki nóg af miðjumönnum veit svo lítið um hann er hann þess virði? Héld að það voru mistök að kaupa ekki Ben Gibson hefðum getum losnað 2-3 til Middlesbro í staðinn. Ég vill halda Besic en selja Bolasie og Schneiderlein fyrst Gomes er kominn líka. Hægt að selja Schneiderlein til Frakklands og Bolasie einhvers staðar.

  • Diddi skrifar:

   ég er ekki hissa þó að enginn vilji hirða þetta ofborgaða rusl sem er á launaskrá hjá okkur, heppnir ef við náum að lána eitthvað af þessu út og selja það svo á niðursettu verði seinna. Glugginn í fyrra var nú ekki gæfulegur.

 14. Elvar Örn skrifar:

  Hvað finnst mönnum um þennan glugga, þá aðallega þá menn sem komu inn.
  Þar helst þá Richarlison, Digne, Bernard, Mina og Gomez?

  Finnur, Ari, Georg, Diddi, Gunnþór, Róbert, Einar, Orri, Halldór, Halli, Ingvar og co., hvað segið þið. Væri gaman að fá nokkra punkta um hvern leikmann og ekki verra ef menn gefa hverjum manni einkunn sem spá fyrir næsta season.

  Ég skal byrja:
  Með betri gluggum sem ég man eftir. Erfitt að meta marga þessara manna þar sem aðeins Richarlison hefur leikið í ensku úrvalsdeildinni.
  Richarlison 9
  Digne 8
  Bernard 8.5
  Mina 7.5
  Gomes 6

  • Finnur skrifar:

   Ég á erfitt með að gefa einstaka félagaskiptum einkunn þar sem ég held ég hafi aldrei séð þessa leikmenn spila og veit því lítið sem ekkert um þá. Horfi greinilega ekki nógu mikið á fótbolta. 🙂

   Richarlison fær þó 9 þar sem ég hef séð nokkuð til hans og ég ætla að láta freistast að gefa Mina 8.5, líklega vegna þess að hann á örugglega eftir að bæta vörnina það mikið (sem segir ákv. sögu um stöðu miðvarðanna okkar). Digne gef ég 8 en ég hef ekki hugmynd um hversu vel Bernard og Gomes eiga eftir að reynast enda eiga þeir eftir að þurfa langan aðlögunartíma — Gomes sérstaklega því hann er meiddur í augnablikinu.

   En ég gef Brands og Silva háa einkunn fyrir framtakið því það er allavega verið að kaupa í réttar stöður og búið að gera atlögu að því að stinga á verstu kýlin: Einn (mögulega tveir) miðverðir, vinstri bak, vinstri kantari og miðjumaður. Það hefði verið geggjað að fá sterkan slútara líka, en Róm var ekki brennd á einum degi, eins og maðurinn sagði. 🙂

   Þeir leikmenn sem keyptir voru voru þeir sem maður var einna spenntastur fyrir af þeim nöfnum sem nefnd voru — leikmenn á jaðrinum í landsliði heimsmeistara Frakka og Brasilíu, þar af þrír frá Barcelona. Ekki amalegt.

   Hvort þeir eigi eftir að spjara sig í ensku deildinni er ekki nokkur leið fyrir mig sem áhugamann að segja til um.

  • RobertE skrifar:

   Jæja, ekki það að ég hafi fylgst með þessum leikmönnum í gegnum þeirra fótboltaferil þá verð ég að segja að þessi gluggi kom manni smá á óvart og fyllir mann af von sem ég hef ekki fundið síðan Lukaku kom og Ferguson skellti sér í þjálfarateymið. Þessi leiktíð mun vonandi verða góð fyrir okkur stuðningsmenn, eina sem ég hef áhyggjur af er að liðið nái ekki að stilla sig saman með marga nýja leikmenn, ætli stigin komi ekki þegar leiktíðin er hálfnuð og Everton endar í top 8, spái þeim samt í 5.sæti.

   Richarlison – Stóð sig vel með Watford, vona að hann standi sig betur með Everton, okkar vantar mann sem skorar í hverjum leik og er ógnandi þegar hann fær boltann.
   Digne – Franskir fótboltamenn hafa alltaf átt erfitt með ensku deildina finnst mér, Saha var eins og hann væri með beinþynningu, alltaf meiddur, Newcastle er með sína sögu af frönskum leikmönnum, Emmanuel Petit skoraði ekki mörg mörk á sínum enska ferli, en auðvitað gefum við drengnum séns á að spila og sjá hvað hann getur, líka fínt að fá vinstri bakvörð sem er ekki Cuco Martina.
   Bernard – kom á frjálsri sölu, þetta getur þýtt að hann sé ekki nógu góður eða að hann nái ekki vel við aðra leikmenn fyrst að hann fékk ekki annan samning hjá Shakthtar, en auðvitað getur það líka verið rangt hjá mér, vona að hann sanni sig.
   Mina – hefði frekar verið til í Mikka 😉 Er mest spenntur fyrir honum, risastór varnarmaður sem ætti að éta alla skalla í teignum og skora í öllum hornspyrnum sem Everton fær.
   Gomes – Erfitt að koma sér í Barcelona liðið en honum tókst það í nokkra leiki, skoraði meira að segja, ekki allir sem skora fyrir Barcelona þegar Messi og Suarez eru þar. Held að þessi leikmaður muni spila nokkuð vel og vona ég að hann og Gylfi nái að spila vel saman.
   Zouma – Held að Everton gæti jafnvel spilað með þriggja manna vörn, þrátt fyrir að hann sé frá Frakklandi þá komst hann næstum í hóp fyrir Rússland 2018 (var á standby), ef að vörnin heldur þá er top 4 raunhæft markmið.

 15. Diddi skrifar:

  mér finnst nú í lagi áður en menn fara að setja í gang annan spáleik að birta spár manna fyrir síðasta tímabil eða eru menn eitthvað ragir við það. En ég skal spá: Fyrir það fyrsta þá virðast þessir menn Brands og Silva hafa verið með plan og yfirsýn yfir það sem þurfti að gera, ólíkt snillingnum (að sumra mati) Walsh og draumaþjálfaranum Koeman. Digne þekki ég ekkert og á ekki von á því að hann taki sætið af Baines alveg með det samme en vonandi verður hann frábær, því get ég ekki gefið honum einkunn. Ricarlison er góður og mjög fljótur með flottar hraðabreytingar og ég gef honum 9. Bernard vona ég að verði fínn en þekki hann ekki og hann er ekki mjög sterklegur en vona að hann komi inn í þetta með stæl. Hann er ekki búinn að leika mikið síðustu mánuði en ég hef von um að hann verði frábær og gef honum 9. Mina ber ég miklar væntingar til og hann fær 8.5 en helst vildi ég að Zouma kæmi inn með honum svo við losnuðum við Keane. Það er akkúrat ekkert varið í Gomez þannig að ég gef honum 6. En fyrir það eitt að hafa ekki náð að landa góðum markaskorara þá gef ég Silva og Brands ekki nema 8 🙂

  • Elvar Örn skrifar:

   Ansi líkt minni spá Diddi enda ertu apaköttur 🙂
   Vona að menn læri af seinustu leiktíð og skelli ekki þessum mönnum beint í liðið eins og þá var gert.
   Richarlison byrjar klárlega en aðrir líklega ekki. Samt væri ekki vitlaust að gefa Mina strax séns miðað við frammistöðu varnar á undirbúningstímabilinu.
   Digne mun koma rólega inn í stað Baines og Bernard þarf meiri tíma en getur leyst af Richarlison og Walcott a köntunum tel ég þegar með þarf.
   Það sama má segja um Gomez sem hefur verið 2 ár hjá Barcelona, það ætti þó ekki að taka langan tíma fyrir hann að leysa af Schneiderlin eða Davies, tel það alveg klárt.
   Liðið er klárlega að styrkja sig í mörgum stöðum sem þurfti styrkingu.
   Svo er styrkur að halda Lookman líka.

   • Diddi skrifar:

    kæmi mér reyndar ekkert á óvart að Bernard kæmi í stað Gylfa og það yrðu endalok þess ágæta drengs 🙂

    • Orri skrifar:

     er eitthvert lið að spá í Gylfa ???????????????????????

    • Elvar Örn skrifar:

     Gylfi verður flottur í vetur, ég er alveg viss um það. Held að Dowell muni leysa hann eitthvað af og jafnvel Bernard. Finnst breiddin hafa aukist og vonandi treystum við minna á umgliðana því mér fannst þeir ekki bæta hópinn í fyrra.
     Bara 2 dagar í fyrsta leik sem er á útivelli gegn Wolves sem er bara tough challenge.
     Strákar, það er ekkert að því að óska eftir að menn gefi þessum kaupum einkunn, hvað er í gangi eiginlega?
     Eru menn kannski hikandi að spá í fyrsta leik liðsins líka?
     Ég spái honum 1-1 en vonast auðvitað eftir sigri. Skori Everton fyrsta markið þá tel ég að við vinnum leikinn.

  • Orri skrifar:

   Ég tek undir með þér Diddi það væri gaman að sjá hvernig menn spáðu liðinu fyrir síðustu leiktíð.

  • Finnur skrifar:

   Átta spár bárust fyrir síðasta tímabil, sem var „hvaða lið enda í efstu sjö sætunum“. Einn spáði Everton réééétt svo í Champions League sæti en aðrir voru mest þremur sætum frá réttri niðurstöðu. Róbert og Eiríkur komust næst því að hafa þetta rétt en þeir spáðu Everton 7. sæti. Allir sem sendu inn spá voru með meistarana rétta (City). Veit ekki hversu nytsamlegt þetta er í umræðunni, en þetta eru niðurstöðurnar.

   • RobertE skrifar:

    Vissi fyrir seinasta season að Everton yrði bara lala lið, ég ætla að gerast svo grófur að spá 5.sæti núna.

   • Diddi skrifar:

    ég spáði 8. sæti, fyrirgefðu Finnur 🙂

    • Finnur skrifar:

     Meinarðu „spái“?

     Ég sá enga spá frá þér á umræðuþræðinum fyrir ári…

     • Diddi skrifar:

      minnti að það hefði verið við sömu færslu en sé núna að það er 30 ágúst í færslu „félagaskipti opinn þráður“ fyrirgefðu Finnur en spá engu að síður 🙂

     • Finnur skrifar:

      Já, þegar það innlegg í umræðuna kom var Everton búið að spila 5 leiki og sat í 12. sæti, nýbúnir að tapa sannfærandi fyrir Chelsea. Glugginn var um það bil að loka (klukkutími eftir eða eitthvað) og Everton ekki verið orðað við neitt stórt nafn í framlínuna í stað Lukaku, sem ég held að hafi komið flatt upp á ansi marga.

      Enda sagði ég orðrétt fyrir síðasta tímabil: „allar spár eru fáránlegar fyrr en ljóst er hvernig liðin verða skipuð, sem verður ekki ljóst fyrr en að nokkrum leikjum liðnum og þá er þetta þegar farið að skýrast svo mikið að spárnar eru ekki spennandi lengur.“

      Ég held að allir þeir sem sendu inn spá hefðu endurskoðað afstöðu sína (til lækkunar) þegar ljóst var að ekki næðist í eftirmann Lukaku.

     • Diddi skrifar:

      vorum við ekki að spá fyrir um stöðuna í deildinni, það voru bara búnir 3 leikir af 38 þegar þetta var og ekki ljóst þá frekar en 11. ágúst hvort við fengjum einhvern fyrir Lukaku en attlæ, það eru svo sem engir hrikaleg verðlaun fyrir þetta 🙂

 16. Ari G skrifar:

  Mér finnst allt of snemma að gefa nýju leikmönnunum einkunn sem maður þekkir varla. Svo ég ætla að bíða aðeins lengur með það. Héld samt að þetta séu allt mjög góð leikmannakaup þótt ég hafi efasemdir um Gomez en fyrst hann var hjá Barcelona hlýtur hann að geta eitthvað. Allavega skal ég raða leikmönnunum í röð eftir hvernig þeir standa sig en alls ekki einkunn finnst það ekki tímabært. 1. Richarlison 2. Mina 3. Bernard 4. Digne 5. Zouma ef hann kemur annars Gomes. Ætla að bíða með að spá í hvaða sæti Everton lendir í.

  • Elvar Örn skrifar:

   Gætum þurft að bíða til morguns með það hvort lán á Zouma frá Chelsea hafi gegnið í gegn.

 17. Gestur skrifar:

  Það má ekki gera of miklar væntingar með þessa nýju menn, þeir þurfa heldur betur að sýna okkur hvað þeir geta eftir þennan ömulega glugga í fyrra sumar , þar sem Everton keypti af mikið af lélegum fótboltamönnum. Richarlison var keyptur á alltof mikinn pening og á aldrei eftir að standast væntingar, Digne þarf nú ekki að gera mikið til að laga vinstri bak, Bernard velur að koma til Everton og það veldur mann hugarangri sennilega hefur hann gabbað alla og fengið ofurlaun en vonandi spilar hann meira en Andy van de sem var hjá okkur. Mina vakti athygli vegna þess að hann skoraði mörk á HM en ekki fyrir varnaleik en vonandi lagast það. Gomes, skil ekkert í þessum lántökum. Ég held að Everton eigi eftir að strögla og lenda í 11 sæti.

 18. Elvar Örn skrifar:

  Yerry Mina er nr 13
  Bernard er nr 20
  Gomes er nr 8

 19. Georg skrifar:

  Ég er mjög ánægður með þennan glugga. Þvílíkur lokadagur að fá Bernard, Mina og Gomes.

  Að fá Richarlison, Digne, Bernard, Mina og Gomes er gríðarlega sterkt. Við erum að tala um leikmenn sem eiga allir að styrkja liðið.

  Menn hræðast mikið eftir gluggann í fyrra en fyrir mína parta þá eru þetta allt mjög spennandi leikmenn og gaman að sjá hverslags leikmenn Silva er að fá til félagsins. Leikmenn með mikla tækni, sendingargetu og hraða.

  Menn eru eitthvað hissa á lánssamningi okkar á Gomes hér að ofan, en ég skil það mjög vel, okkur vantar meiri breidd á miðjuna og að fá leikmann sem hefur spilað Benfica, Valencia og Barcelona finnst mér mjög jákvætt. Hann var frábær hjá Valencia 2014-2016 og var keyptur til Barca af þeim sökum.

  Það má samt alveg búast við því að það taki nokkrar vikur að koma þessu leikmönnum inn í liðið og er ég sammála Elvari að við eigum ekki að henda þeim öllum beint í liðið. Taka einn og einn inn í byrjunarliðið og leyfa þeim að koma inn á í leikjum.

  Af þessum leikmönnum mun Richarlison pottþétt byrja inn á gegn Wolves, svo er spurning hvort Silva hafi Digne eða Baines í vinstri bakverði í fyrsta leik.

  Þetta er liðið sem ég tel að Silva byrji gegn Wolves

  ——————-Pickford———-
  Coleman-Jagielka-Keane-Digne/Baines
  —————-Gana——————
  ————-Sneiderlin———–
  Walcott——————-Richarlison
  ——————Gylfi————-
  —————-Tosun—————-

  Bernard, Mina og Gomes munu eflaust ekki byrja enda er ekki víst hvort þeir nái æfingu fyrir leikinn. Ég tel að Mina komi inn í byrjunarliðið í næsta leik og jafnvel Bernard.

  Get ekki beðið eftir að veislan byrji á laugardag.

  • Elvar Örn skrifar:

   Andre Gomes er meiddur og um 3 vikur í að hann verði leikfær.

   • Finnur skrifar:

    Grunar að það séu meira en þrjár vikur í að við sjáum Gomes í keppnisleik þar sem hann þarf bæði tíma til að jafna sig af meiðslum sínum, koma sér í form og læra að vinna með það sem Silva er að leggja upp með. Það tekur meiri tíma en þrjár vikur.

    Bernard er meira spurningamerki því hann á að vera heill en hef ekki hugmynd um leikformið, enda náði hann engum leik með Everton á undirbúningstímabilinu…

    Held að Silva gefi þeim báðum góðan tíma til að verða klárir í sinn fyrsta leik (nema meiðsli annarra krefjist þess). Það gerir þeim lítinn greiða að henda þeim inn áður en þeir verða klárir.

 20. Einar G skrifar:

  Svona fyrir þá sem hafa áhyggju af stöðu Gylfa þá er hér skemmtilegt viðtal og grein við Silva sem birtist í Liverpook Echo.
  https://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/inside-track-marco-silvas-everton-15013289

 21. Georg skrifar:

  Kurt Zouma er nánast frágengið varðandi 1. árs lánssamning. Silva var að segja þetta núna live á blaðamannafundi.

  Hægt að hlusta á blaðamannafundinn hér:

 22. Elvar Örn skrifar:

  Ég veit ekki betur en Didda guilty pleasure hann Cuco Martina sé enn í Everton en ég tel hann jafnvel skárri en Jonjoe Kenny sem backup fyrir Coleman í hans réttu stöðu í hægri bak. Áhugavert.

 23. Elvar Örn skrifar:

  Kurt Zouma er staðfestur til Everton á láni frá Chelsea í eitt ár.
  Svakalega flott að ná þessu svona undir lokin.

  Staðfest hér:
  http://www.evertonfc.com/news/2018/08/10/zouma

 24. Georg skrifar:

  Veislan heldur áfram. Flott að auka breiddina í miðvarðarstöðunni. Leikmaður sem er með reynslu úr ensku úrvalsdeildinni.

 25. Elvar Örn skrifar:

  Marco Silva um Lookman:

  MS: „Of course, @Alookman_ is in my plans. He’s an important player for our squad. I know the speculation but I’ve analysed his quality and now is our moment to develop him. He is our present and our future.“

  Að auki sagði hann eftirfarandi í viðtalinu:
  He is a player who went on loan for 5-6 months last season and he was happy there, now its our moment to make him happy here.

  Djöfulli ánægður með þetta.

 26. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég er nokkuð kátur með gluggann hjá okkur……Ok ég er að ljúga, ég er hæstánægður með hann. Ef við hefðum náð öðrum sóknarmanni þá hefði þetta verið fullkomið. Nú er bara að vona að Silva nái að stilla hópinn vel saman og þá verður þetta gott tímabil.

  • Elvar Örn skrifar:

   Ingvar, ef þú ert ánægður þá erum við ánægðir 🙂
   Ef Diddi er líka sáttur þá erum við super sáttir 🙂

   • Ari S skrifar:

    Lewandowski kemur til okkar í Janúar. Sjáum svo til næsta sumar…

    En annars er ég super sáttur við gluggann, annað er ekki hægt. Ég sjálfur man ekki að hafa séð mikið af þesum leikmönnum í leik en það sem ég hef lesið og það sem ég hef séð (eins mikið og það er að marka) á Youtube er bara nokkuð gott 🙂

    Þeir fá allir 7 í einkunn (af því að það bar einvher um einkunir), Brands fær 9 og silva fær 7.

    Þeir sem fá 7 vil ég að standi sig í vetur (Silva fær samt hækkun upp á einn þ.e. 8 fyrir blaðamannafundinn í dag.)

 27. Gunnþòr skrifar:

  Bara að stilla væntingavísitöluna í hóf þetta lofar góðu en ekkert meira en það. Þetta verður strögl fyrstu mánuðina að slípa þetta saman. ÁFRAM EVERTON.

  • Ari S skrifar:

   Já ég er sammála þér með væntingavísitöluna.

   Ef það er eitthvað sem hægt er að læra af síðasta tímabili í sambandi við væntingar þá er það að þörf er á að lækka væntingavísitöluna eins og þú réttilega segir Gunnþór.

   Kær kveðja, Ari.

   ps. Ég verð að vinna á morgun en næ síðari hálfleiknum heima í stofu.

   • Finnur skrifar:

    Skemmtilegt innlegg frá Róberti (komment sem barst fyrir ekki svo löngu en er hér nokkuð töluvert að ofan) og ég er líka sammála síðustu ræðumönnum (Ingvari, Gunnþóri og Sigurgeiri Ara). Elvar hlusta ég nú ekki einu sinni á lengur, enda alltaf í ruglinu! 😉 Fyrirgefðu, Diddi! 🙂

    En svona grínlaust þá á ég á ekki von á mikið breyttu liði í fyrsta leik — og ég var (þegar planið var gefið út) mjög vonsvikinn að sjá Úlfana í fyrsta leik. Og það á útivelli, því þetta verður drulluerfiður leikur. Að öðru leyti ætti leikjaplanið að reynast gott í byrjun.

    Það þarf hins vegar að lágmarki einhverjar vikur til að nýju mennirnir nái að stilla almennilega saman strengina við restina. En vonandi verður byrjunin á tímabilinu góð. Krossum fingur.

 28. Finnur skrifar:

  En við erum öll að missa sjónar á augljósustu spurningunni…

  Hver er næsti leikmaður inn á morgun, hjá Everton? 🙂

 29. Ari G skrifar:

  Bjartir tímar framundan hjá Everton. Meira segja fótbolti.net spáir Everton 7 sætinu sem hafa ekki verið hliðhollir okkur. Alltaf sama sagan 6 stóru liðin spáð áfram á topp 6. Ég ætla að vera svakalega bjartsýnn núna að spá Everton 4-6 sætinu til að brjóta upp 6 liða múrinn enda væntingar ekki miklar það er bara miklu betra. Núna er bara að taka upp bjartsýnina aftur og horfa fram á veginn til upprisu stórliðs Everton næstu árin.

 30. Eirikur skrifar:

  1. Man.City
  2. Liv.pool
  3. Man.U
  4. Tottenham
  5. Everton
  6. Chelsea
  7. Arsenal

  Og gott gengi í öðrum hvorum bikarnum, vonandi FA.

 31. Finnur skrifar:

  Stundum kemur þessi spurning upp… Af hverju taka félagaskipti hjá Everton svona langan tíma? Þessi grein tilgreinir eina ástæðu: þetta er svolítill póker á stundum… and sometimes you need to call Barcelona’s bluff…

  http://www.skysports.com/football/news/11671/11473461/marcel-brands-explains-why-everton-had-to-wait-for-yerry-mina-and-andre-gomes-signings

  Í þessu tilfelli var Barcelona augljóslega að reyna að okra á leikmanninum, með þá von að Brands og Silva væru svo desperate að þeir myndu gefast upp fyrst. En Everton beið bara í staðinn þangað til Barcelona menn gáfu sig og líklega spöruðust einhverjar millur við það.

%d bloggers like this: