Hajduk Split vs Everton

Mynd: Everton FC.

Annað kvöld (fimmtudagskvöld) er komið að síðari leik Everton við Hajduk Split, sem er leikur sem kemur til með að ráða úrslitum um það hvort Everton kemst í riðlakeppni Europa League.

Everton er með 2-0 forskot eftir fyrri leikinn á heimavelli en nú þarf liðið að ná hagstæðum úrslitum á erfiðum útivelli í Króatíu. Við sáum hversu erfiðir stuðningsmenn þeirra voru í fyrri leiknum og þetta og þetta lofar ekki góðu varðandi framhaldið.

Þar sem Everton fékk ekki á sig mark í fyrri leiknum stendur liðið nokkuð vel að vígi og mögulegt að við komum til með að sjá nokkra leikmenn á jaðrinum fá að spreyta sig. Eitt mark frá Everton myndi líklega gulltryggja þetta því mörk á útivelli telja tvöfalt ef jafnt er og þá þarf Hajduk að skora fjögur mörk og treysta á að Everton skori ekki fleiri mörk í leiknum. En það má lítið út af bera því ef Hajduk skorar fyrsta markið er allt í einu komin spenna í viðureignina. Stjóri Hajduk sagði að lið hans komi til með að sækja grimmt, enda hafa þeir engu að tapa, og þetta gæti því orðið skemmtilegur markaleikur!

Stóru fréttirnar fyrir leikinn voru þær að Rooney fékk símtal frá landsliðsþjálfara Englands, Gareth Southgate, sem ætlaði að tilkynna Rooney að hann ætlaði að velja hann í enska landsliðið en Rooney sagði honum að hann gæfi ekki kost á frekari þátttöku. Þetta kemur rétt svona þegar pressan var að aukast verulega á Gareth Southgate að hafa Rooney með, enda hefur Rooney byrjað tímabilið afar vel. Hann hefur nú skorað mark í báðum deildarleikjum Everton á tímabilinu (City og Stoke) og verið valinn maður leiksins í báðum tilfellum. Og í millitíðinni lagði hann upp mark fyrir Gueye í 2-0 sigri á Hajduk.

Það er eftirsjá að Rooney í landsliðinu en þetta eru mjög góðar fréttir fyrir Everton þar sem hann ætlar að einbeita sér fyrst og fremst að því að gera vel fyrir Everton það sem eftir er. Mögulega skiptir hann um skoðun síðar, en við njótum fullra krafta hans á meðan.

Klaassen og Sandro verða hins vegar ekki með annað kvöld og sömu leikmenn eru á langtímalegunni og áður (Funes Mori, Coleman og Bolasie). Að auki er ekki búist við því að McCarthy eða Barkley verði orðnir heilir fyrir leikinn. Líkleg uppstilling… tja. Schneiderlin er líklega ekki í banni fyrir en í næsta leik þannig að hann er pottþétt að fara að spila. Grunar að Martina taki hægri bakvörð fyrir þennan leik og Holgate verði settur á bekkinn. Einhverjar breytingar verða líklega gerðar vegna leikjaálags, en ef við hunsum það er líkleg uppstilling: Pickford, Baines, Jagielka, Keane, Martina, Gueye, Schneiderlin, Davies, Gylfi, Rooney, Calvert-Lewin. En svona eftir á að hyggja þá er ekki ólíklegt að Baines, Jagielka og/eða Rooney verði hvíldir.

Hjá Hajduk er sóknarmaðurinn Franck Ohandza tæpur en hans staðgengill, Ahmed Said, sem skoraði þrennu á dögunum er heill.

Leikurinn er í beinni á Ölveri kl. 19:00 á morgun!

Minnum líka á ykkar tækifæri til að leggja inn spurningu til að spyrja Gylfa Sigurðsson. Sjá hér.

2 Athugasemdir

  1. marino skrifar:

    voru það fleiri enn eg sem feingu gæsahuð þegar gylfi kom inna a moti city 🙂