Man City vs Everton

Mynd: Everton FC.

Annað kvöld (mánudagskvöld) kl. 19:00 er komið að leik Everton á útivelli við Manchester City. Þetta er fimmti keppnisleikur Everton, sem er (sem stendur) á fjögurra leikja sigurgöngu með markatöluna 5-0. En prógrammið kemur til með að þyngjast til muna héðan í frá: City úti, Hajduk Split úti, Chelsea úti, Tottenham heima og svo United úti.

Leikurinn við City er risastórt verkefni fyrir Everton en City er það lið sem langflestir spekingar spáðu Englandsmeistaratitli enda voru þeir með sterkt lið á síðasta tímabili og hafa eytt hæstu fjárhæðunum allra liða í leikmenn fyrir tímabilið. Þeir enduðu í þriðja sæti á síðasta tímabili og helst vandræðagangur í vörninni sem kom í veg fyrir frekari framgang þeirra. Þeir áttu í mestu erfiðleikum með að takmarka fjölda þeirra færa sem andstæðingarnar fengu og fyrir vikið fengu þeir á sig þrettán fleiri mörk en liðið í öðru sæti (Tottenham). Þeir eyddu risafjárhæðum í að laga það vandamál, til dæmis um 100M punda í tvo bakverði, Kyle Walker og Benjamin Mendy. Þeir keyptu einnig nýjan markvörð, Ederson, varnarmannin Danilo og Bernardo Silva (playmaker).

Everton liðið veit alveg hvernig á að nýta sér veikleika City í vörninni en Everton var taplaust gegn City á síðasta tímabili og fóru illa með þá á Goodison Park (4-0, sælla minninga, en mörkin skoruðu Lukaku, Mirallas, Davies, Lookman). Leikurinn á útivelli endaði með 1-1 jafntefli.

Koeman sagði að Gylfi myndi æfa með liðinu og muni taka einhvern þátt í öllum leikjum næstu viku. Ólíklegt er þó að hann byrji leikinn en gera má ráð fyrir að hann komi á einhverjum tímapunkti inn á í seinni hálfleik. Spurningin er hvort Sandro verði búinn að jafna sig af smávægilegum meiðslum sem hann hlaut í síðasta leik en Bolasie, Funes Mori, McCarthy, Coleman og Barkley missa allir af leiknum vegna meiðsla.

Líkleg uppstilling: Pickford, Baines, Williams, Keane, Martina, Gana, Schneiderlin, Klaassen, Mirallas, Lookman, Rooney.

Hjá City er nýi vinstri bakvörður þeirra, Benjamin Mendy, meiddur ásamt miðjumanninum Ilkay Gundogan og kantmanninum Samir Nasri.

Af ungliðunum Everton er það að frétta að Everton U23 töpuðu sínum fyrsta deildarleik á tímabilinu í vikunni þegar Leicester mættu í heimsókn og unnu 0-1. Everton U18 töpuðu einnig, gegn Derby County U18, 1-3.

En, City á morgun, kl. 19:00. Leikurinn er í beinni á Ölveri! Ekki missa af fyrsta leik Gylfa fyrir Everton!

4 Athugasemdir

  1. Orri skrifar:

    Sigur hja okkur 1-3.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta verður erfitt próf fyrir okkar menn, vonandi standast þeir það.

  3. Gunnþór skrifar:

    Sammála þér Ingvar þetta verður erfitt okkar menn þurfa sýna sitt besta til að ná stigi á móti besta liðinnu í deildinni.

  4. Gestur skrifar:

    Það væri gott að fá 1 stig í kvöld, alvöru törn hjá okkar mönnum.