Everton vs Stoke

Mynd: Everton FC.

Nú eru innan við tveir dagar í fyrsta leik Everton á nýju tímabili en Everton mætir þá Stoke á heimavelli á laugardaginn kl. 14:00. Everton vann Stoke 1-0 á heimavelli á síðasta tímabili, með marki frá Baines úr víti (markvörður varði boltann í stöng en fékk hann svo í hausinn og þaðan í netið). Ekki ólíklegt að jafn erfitt verði að brjóta þá á bak aftur í þetta skiptið.

Það er helst að frétta af virkni Stoke á leikmannamarkaðnum að þeir fengu til sín Darren Fletcher frá United en hann kemur í stað Whelan á miðjunni. Þeir misstu einnig öflugan mann úr framlínunni þegar Marko Arnautovic fór til West Ham. Þeir eru þó enn með Xherdan Shaqiri sem er leikmaður sem getur ráðið úrslitum í leikjum.

Styrkur Stoke á síðasta tímabili var í háloftunum, en þeir unnu næstflestar skallaviðureignir (líklega leifar af tímabili Tony Pulis). Þeirra veikleiki á síðasta tímabili var hins vegar að verjast langskotum en aðeins þrjú lið fengu á sig fleiri mörk utan teigs en Stoke.

Það er vonandi að Everton haldi uppteknum hætti frá síðasta tímabili á Goodison Park en Everton vann alla heimaleiki sína í deild frá áramótum 2017 að einum undanskildum (gegn verðandi Englandsmeisturum Chelsea).

Koeman staðfesti að Wayne Rooney muni byrja leikinn og að allir væru heilir nema þeir sem eru á „langtímalegunni“: Coleman, Bolasie og Funes Mori. Líkleg uppstilling því: Pickford, Baines, Williams, Keane, Holgate, Schneiderlin/Gana, Davies, Rooney, Klaassen, Calvert-Lewin, Sandro.

Eftirvænting eftir þessum leik og tímabilinu er mikil meðal okkar stuðningsmanna enda hefur Everton keypt marga nýja leikmenn í aðalliðið á tímabilinu (Pickford, Rooney, Keane, Klaassen, Ramirez og Martina) en þó að hver og einn komi til með að auka samkeppni og/eða bæta liðið þá verður að líta til þess að samkeppnin um efstu fjögur sætin er gríðarlega hörð og samkeppnisaðilarnir hafa einnig styrkt sig. Fyrir utan Stoke spilar Everton við City og Chelsea og þess utan er Everton að spila tvo leiki í Europa League, sem þýðir aukið álag. Svo mikið álag að Everton leikur á þriggja daga fresti að meðaltali á fyrstu tveimur vikunum, sem er náttúrulega bilun. Þetta verður því eitthvað.

En, það er allt mögulegt. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta þróast!

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U23 eru enn ósigraðir á undirbúningstímabilinu en þeir unnu Bangor City 2-0 með mörkum frá Bassala Sambou og Luke Garbutt úr víti. Einnig var varnarmaðurinn ungi, Antonee Robinson, lánaður til Bolton fram yfir áramót.

En Everton á leik við Stoke á laugardaginn kl. 14:00. Leikurinn er því miður ekki í beinni útsendingu á Ölveri.

14 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Eigum við, til gamans, að spá fyrir um efstu 7 liðin í ensku deildinni að tímabili loknu? Ég skal byrja! 🙂

  Mín skoðun er sú að félagaskiptaglugginn á að loka *fyrir* fyrsta leik í deild. Ein af (mörgum) ástæðum er sú (og já, þessi er lítilvæg) er að allar spár eru fáránlegar fyrr en ljóst er hvernig liðin verða skipuð, sem verður ekki ljóst fyrr en að nokkrum leikjum liðnum og þá er þetta þegar farið að skýrast svo mikið að spárnar eru ekki spennandi lengur.

  Mín spá er þó að City taki titilinn í ár. Þeir eru hungraðir, þurfa að sanna sig og hafa eytt *fullt* af peningum í að styrkja liðið (uh, waat!? — öflugur bakvörður frá Tottenham á 50M að auki við alla hina, WTF?)

  Grunar að núverandi meistarar Chelsea verði í öðru sæti á tímabilinu. Hungrið ekki til staðar lengur, Costa rotna eplið í búningsklefanum, öflugur miðjumaður (Matic) farinn, Hazard meiddur. Hópurinn sterkur en grunar að Champions League verði aðaláherslan hjá þeim í ár.

  Að sama skapi er alltaf erfitt að keppa við United, sem virðast pissa peningum (sbr. Pogba). Ha, vantar sóknarmann? Ekkert mál, við borgum uppsett verð — allt að 90M punda fyrir Lukaku! Matic á líka eftir að reynast þeim drjúgur og Mourinho er, að sögn, alltaf ótrúlega öflugur á sínu öðru tímabili. United fara úr sjötta í þriðja sæti og eru Dark horse fyrir á að verða Englandsmeistarar.

  Baráttan mun því verða um fjórða sætið í deildinni og þar verða Tottenham, Everton, Arsenal og Liverpool um hituna.

  Tottenham… líklega floppið á leikmannamarkaðnum hingað til. Þeir seldu öflugan bakvörð til City og hafa keypt… ekki einn einasta leikmann (!). WTF? Að auki er heimavöllur þeirra Wembley, sem kemur ekki til með að hjálpa þeim (áhorfendur langt frá velli og stemningin léleg). Hópurinn sterkur en klárlega veikleikamerki þar sem Everton verður að nýta sér.

  Arsenal, jú — nánast í áskrift að CL á undanförnum árum og öflugur sóknarmaður inn (kasettan) en maður sér veikleikamerki, sérstaklega ef Sanchez og Özil eru að hugsa sér hreyfings. Gæti orðið mikil blóðtaka.

  Liverpool — sama þar. Síðasta tímabil öskraði á stærri hóp til að bregðast við álagi og að ekki sé minnst á betri varnarlínu (varnarmenn *og* markmenn) en þar á bæ virðast menn ekki vilja sjá það og bættu við í framlínuna — sem var ekki vandamálið. Þeir rétt skriðu inn í fjórða sæti á síðasta tímabili með afar hagstæðri dómgæslu en ég sé það ekki gerast aftur með því aukna álagi sem fylgir CL. En það er ómögulegt að spá fyrir um gengi Liverpool án þess að vita hvort þeirra eini stjörnuleikmaður (Coutinho) sé á leiðinni til Barcelona.

  Everton? Hmm… Everton hefur bætt við sig töluverðum fjölda af leikmönnum en mig grunar að það þurfi tæpt hálft tímabil til að þeir smelli almennilega sem lið, sem er aðeins of langur tími og Europa League taki sinn toll. Því það þarf ansi mikið að ganga upp til að fjórða sætið sé raunhæfur möguleiki. Ef Sanchez og Coutinho fara í betri lið og Tottenham verða jafn lélegir á Wembley og þeir hafa verið hingað til (og/eða selja fleiri leikmenn), þá opnast möguleiki. En það er við ramman reip að draga.

  Bent hefur verið á að hraða vanti í Everton liðið og þó að Ramirez gæti mögulega slegið í gegn þá er líklegt að hann þurfi aðlögunartíma að ensku deildinni sem og Klaassen (skilst að Ramirez tali ekki almennilega ensku ennþá). Pickford, Keane og Rooney þurfa ekki aðlögunartíma, þeir eru klárir. Hvort að Ramirez (og Rooney/Calvert-Lewin í hjáverkum) geti leitt línuna á eftir að koma í ljós en það vantar klárlega meiri samkeppni þar. Gylfi inn ásamt hágæða sóknarmanni og jú, þá gætum við verið að „tosa saman“, eins og Færeyingarnir myndu orða það, og við getum látið okkur dreyma um 4. sætið. Grunar þó að bikarkeppnirnar spili stóra rullu í ár hjá Everton, ekki síst Europa League sem er líklega besti möguleiki Everton á Champions League að ári.

  Eftirfarandi spá byggist á því að Coutinho og Sanchez fari og að leikmenn Everton smelli saman fyrr en maður myndi ætla. Grunar samt að hópur Tottenham sé það sterkur að þeir nái á endanum að tryggja sér 4. sæti. Ef Sanchez fer ekki þá gæti Arsenal endað í 4. sæti á kostnað Tottenham.

  1. Manchester City
  2. Chelsea
  3. Manchester United
  4. Tottenham
  5. Everton
  6. Arsenal
  7. Liverpool

  Líklegasta „boðflennan“ í topp 7 listann: West Ham. 🙂

 2. Gestur skrifar:

  Hér er mín spá:
  1. Man. City
  2. Liverpool
  3. Tottenham
  4. Man. Utd
  5. Chelsea
  6. Everton
  7. Arsenal

 3. Ari G skrifar:

  Mín spá. 1. Man.City 2. Man.Utd. 3. Chelsea 4. Everton 5. Tottenham
  6. Arsenal 7. Liverpool. Reikna með að Gylfi komi annars er 4 sætið ekki raunhæfur mökuleiki. Héld að Tottenham, Arsenal og Liverpool verði alls ekki eins sterk og áður en þetta verður erfitt að ná 4. sætinu. Spái Sandro verði leikmaður tímabilsins hjá Evereton ásamt Gylfa ef hann kemur. Mundi ekki gráta það þótt að það yrði ekki keyptir fleiri sóknarmenn en það yrði frábært að hafa Barkley áfram þá yrði miðjan rosaleg. Mundi helst vilja Smalling ef þeim sem ég hef heyrt af í vörnina kostar ca 15 millur ekki mjög gamall en meiðsli hans trufla mig samt aðeins.

 4. Elvar Örn skrifar:

  Ekkert tilboð hefur komið í Ross Barkley og klárt að í vor tjáði hann Koeman að hann myndi ekki gera nýjan samning við Everton. Frá þessum tíma hefur Barkley haldið sig utan allra samfélagsmiðla á meðan óvissan hefur staðið yfir.
  Nú er Barkley hinsvegar byrjaður að æfa með aðalliði Everton og viti menn, hann birti af sér mynd á Instagram í Everton gallanum með undirskriftinni „Good to be back out there on the training pitch today. ⚽️???“. Það getur vel verið að hann fari í sumar og nokkuð líklegt en maður spyr sig hvort honum sé að snúast hugur og muni framlengja við Everton, hver veit.

  Annars er spáin mín svona:
  1. Man City
  2. Man Utd
  3. Chelsea
  4. Tottenham
  5. Everton
  6. Liverpool
  7. Arsenal

  Þessi spá miðast við það að Everton er að kaupa Gylfa og tvo menn til (miðvörð og sóknarmann). Annars er ansi erfitt að spá núna þar sem liðin eru ekki komin með lokahópinn útaf félagaskiptaglugganum. Ef Cotinho fer t.d. ekki frá Liverpool geta þeir endað hærra. Ef Arsenal heldur sínum bestu þá geta þeir farið hærra. En stend við þessa spá.

  • Elvar Örn skrifar:

   Svo getur Tottenham hæglega dottið niður fyrir Everton þar sem þeir leika á Wembley þetta árið sem heimavöll.
   Ef það verða miklar breytingar á liðunum þá eiginlega þurfum við bara að henda inn uppfærðri spá 🙂

 5. RobertE skrifar:

  1. Manchester City. 2. Chelsea. 3. Tottenham. 4. Liverpool. 5. Manchester United. 6. Arsenal. 7. Everton

  Annars ætla ég að leggjast í dvala eftir Stoke leikinn og vakna eftir mánuð.

  • Eirikur skrifar:

   Mín spá er þessi
   1. Man City
   2. Man Utd
   3. Arsenal
   4. Chelsea
   5. Tottenham
   6. Liverpool
   7. Everton

   Vona sannalega að ég hafi rangt fyrir mér og Everton verði ofar. Enn því miður eru engin kaup eða sölur á leikmönnum sem gefa tilefni til þess að halda að við verðum ofar. Enn eins og flestir benda á þá er gluggin enn opinn. Við þurfum allavega að breyta jafnteflum í sigra ef við eigum að verða ofar í töflunni. Og já Cotinho fer frá Liverp.

 6. Elvar Örn skrifar:

  Allt að gerast hjá Everton.

  Á heimasíðu Everton er það staðfest að klúbburinn mun styðja við Liverpool borg um að sækja um Commonwealth Games 2022 þar sem nýji Everton völlurinn yrði miðpunktur leikanna. Það staðfestir klárlega að Nýji völlurinn er staðreynd og get ég ekki beðið eftir því að sjá teikningarnar af þeim velli. Það hefur komið fram í viðtali við Rob Elstone að Everton stefnir að því að völlurinn verði tilbúinn í ágúst eftir 4 ár, þ.e. 2021.

  Annars er hér fréttin af þessari umsókn og hver annar en Wayne Rooney er á kynningunni,,,menn vissu alveg hvað þeir voru að gera þegar þeir fengu hann til klúbbsins.

  http://www.evertonfc.com/news/2017/08/11/everton-backs-city-bid-for-commonwealth-games

  • Gestur skrifar:

   Hvernig leikar eru þetta? Passa þeir á fótboltavöll eða verður nýji völlurinn hannaður í kringum svona vitleysu?

   • Elvar Örn skrifar:

    Nei hann verður ekki hannaður með tillit til þessara leika. Nýji völlurinn mun ekki vera í mikilli fjarlægð frá áhörfendum eins og t.d. nýji West Ham völlurinn (það hefur komið skýrt fram). Það er gríðarlega mikill metnaður í hönnun á þessum velli og frábær Arkitekt sem hannar hann í mikilli tengingu við Everton aðdáendur, líkt og þegar nýjasta Logo-ið var hannað.
    Ég fylgist mikið með þessum arkitekt og er ansi hrifinn af því sem hann er að gera.
    Ætli Commonwealth Games kallist ekki Heimsleikar (er alls ekki viss) á Íslensku en eru á 4 ára fresti og eru ansi stórir með 4000-6500 þátttakendum. Stærstu löndin sem keppa þarna eru Ástralía, England, Indland, Kanada, Nýja Sjáland, Suður Afríka, Skotland og Wales.

    Myndi nú alls ekki kalla þetta „vitleysu“ og mun koma Everton bara enn meira á kortið. Það hefur komið ansi skýrt fram að þeir munu gera tímabundnar breytingar á vellinum en ekki breyta upphaflegri hönnun þess, en gert er ráð fyrir að völlurinn fari í notkun í ágúst 2021 en þessir leikar eru sumarið 2022.

 7. Gestur skrifar:

  Það er gott, þú hefur greinilega mikinn áhuga á þessu. Ég vona að völlurinn verði velheppnuð hönnun en ekki alltof dýr.

 8. þorri skrifar:

  mikið er ég spentur fyrir enskaboltanum og leiknum á eftir.ÉG spái okkur náturulega sigur í dag 3-0