Everton vs. Norwich (deildarbikar)

Mynd: Everton FC.

Næsti leikur Everton er í þriðju umferð deildarbikarsins annað kvöld kl. 18:45, gegn Norwich á Goodison Park, en Norwich leika nú í ensku B-deildinni. Þeim hefur gengið vel í deild í byrjun tímabils (eftir 8 leiki), eru í öðru sæti með aðeins eitt tap en hafa náð fimm sigrum og tveimur jafnteflum. Þeir hafa í sínum röðum fyrrum Everton manninn, Steven Naismith, sem við þekkjum vel — en hann var reyndar í síðasta leikmannaglugga hársbreidd frá því að ganga til liðs við sinn fyrri stjóra, David Moyes, sem nú er hjá Sunderland.

Everton spilaði í síðasta deildarbikarleik með blöndu varaliðs og aðalliðsmanna en þó maður vilji sjá allar dollur í hús þá persónulega væri ég (bara í ár) alveg til í að sjá hversu langt U23 ára liðið kæmist í þessari keppni og hversu langt aðalliðið kæmist í deild. Koeman hefur þó gefið út að hann muni taka þessa bikarkeppni alvarlega, þó það þýði að hann komi ekki endilega til með að stilla upp sínu sterkasta liði hverju sinni.

Ljóst er að Lukaku missir af leiknum vegna lítilsháttar támeiðsla og bæði Gibson og McCarthy eru meiddir (sem og Besic og ungliðinn Pennington). Að öðru leyti eru allir frískir og talið pottþétt að Valencia Enner leiði línuna í fjarveru Lukaku — þrátt fyrir að Oumar Niasse hafi skorað í leik með Everton U23 þegar þeir rústuðu Arsenal U23 á útivelli, 0-5. Mörk Everton skoruðu þeir Kieran Dowell, Liam Walsh, Oumar Niasse og Callum Dyson (tvö). Eftir umferðina er Everton U23 aftur komið í efsta sæti U23 ára deildarinnar (sjá hér — og smella á PL2 flipann).

Það verður erfitt að spá fyrir um uppstillingu en Koeman virðist ekki ætla (ef marka má síðasta deildarbikarleik) að nota Robles sem bikar-markmann, eins og Martinez gerði. Þó er talið víst að nokkrir af jaðrinum séu líklegir til að láta sjá sig, til dæmis: Oviedo, Funes Mori, Holgate, Tom Cleverley, Aaron Lennon, Gerard Deulofeu og fleiri fái að spreyta sig.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U18 rústuðu Derby U18 6-1 á heimavelli með þrennu frá Shayne Lavery, Manasse Mampala, Antony Evans og tveimur frá fyrirliðanum, Callum Lees.

Að lokum má geta þess að alls óvíst er hvort hægt verði að horfa á leikinn í beinni útsendingu. Viðureign Leicester – Chelsea í deildarbikarnum um kvöldið er eini leikurinn sem listaður er í beinni útsendingu á Ölveri.

4 Athugasemdir

  1. Gestur skrifar:

    Þetta verður feiki erfiður leikur. Má ekki vanmeta Norwich. Skil ekki ennþá þá ákvörðun að semja við Gibson en henda Ossi.

  2. Ari G skrifar:

    Ég er sammála Gesti með þetta nema ég hefði látið báða fara en báðir eru samt fínir leikmenn en ég vill frekar byggja upp lið til frambúðar. Spái 3:1 fyrir Everton og ég vill endilega hvíla nokkra leikmenn í þessum leik t.d. Barkley, Mirallas halda þeim ferskum í næsta leik.

  3. Finnur skrifar:

    Sky Sports heldur úti Power Rankings yfir frammistöðu leikmanna og þeir birtu í dag úrvalslið sitt, út frá þeim tölum. Þar eru fimm leikmenn Everton í 18-manna hópnum, þar af tveir í byrjunarliðinu: Stekelenburg og Lukaku sem og þrír á bekknum: Phil Jagielka, Gareth Barry og Idrissa Gana Gueye.
    http://www.skysports.com/football/news/11671/10585710/sky-sports-power-rankings-best-premier-league-xi-so-far

    Gaman að því.

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta er nú ljóta drullan ????