Leicester vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Næsti leikur Everton er á útivelli við verðandi Englandsmeistara Leicester. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta Leicester lið enda hefur það og glæsilegur árangur þess verið stanslaust í fréttum á tímabilinu. Til hamingju með titilinn, Leicester stuðningsmenn!

Það er auðvelt að falla í þá gryfju að halda að þeir eigi loksins eftir að stíga feilspor, nú þegar þeir geta leyft sér að slaka á — en þeir koma örugglega til með að gefa allt í leikinn til að ná fram sigurleik á heimavelli fyrir framan eigin áhorfendur, svo veislan þar haldi áfram. Hlutverk okkar manna á laugardaginn er þó að koma þeim á jörðina aftur.

Enn er nokkuð um meiðsli í herbúðum Everton en Gerard Deulofeu og Phil Jagielka eru frá og Seamus Coleman og Gareth Barry metnir tæpir. Deulofeu meiddist á dögunum og missir af restinni af tímabilinu en vonir standa til að Jagielka nái lokaleiknum. Coleman og Barry eiga báðir séns í leikinn við Leicester.

Líkleg uppstilling: Robles, Baines, Stones, Pennington, Coleman (skulum við vona), McCarthy, Barry/Besic, Cleverley, Barkley, Lennon, Lukaku.

Í öðrum fréttum er það helst að Robles var valinn leikmaður apríl mánaðar en stuðningsmannaklúbbarnir völdu Barry leikmaður tímabilsins og mark Lukaku gegn Chelsea í bikarnum mark tímabilsins.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U21 enduðu tímabilið á 0-0 jafntefli á útivelli við Chelsea U21 (fimmti taplausi leikur Everton í röð) en ljóst var fyrir leikinn að úrslitin skiptu litlu máli, Everton liðið búið að tryggja sér þriðja sætið í U21 deildinni (sjá stöðu) og gátu ekki farið hærra. United U21 urðu Englandsmeistarar U21 árs liða og Sunderland U21 í öðru sæti.

Everton U18 sigruðu West Ham U18 4-3 eftir að hafa lent 0-2 undir í fyrri hálfleik en Shayne Lavery og Nathan Broadhead jöfnuðu fyrir hálfleik. Broadhead skoraði svo úr víti í seinni hálfleik og sjálfsmark West Ham manns innsiglaði sigur Everton. Sigur í leiknum þýddi að Everton liðið átti enn séns á að landa Englandsmeistaratitlinum með því að sigra Man City U18 í síðasta leik tímabilsins en City liðið var á toppi töflunnar. Það tókst því miður ekki því sá leikur fór 4-4 eftir töluverða dramatík. Nathan Holland skoraði tvö mörk fyrir Everton og Nathan Broadhead og Callum Lees eitt mark hvor. City U18 því Englandsmeistarar og Everton U18 í öðru sæti — ekki slæmur árangur þar. Sjá lokastöðu í deild.

Við óskum Manchester ungliðunum annars til hamingju með árangurinn.

Í lokin má svo geta þess að ungliði okkar Morgan Feeney var að komast í enska U17 landsliðið í fyrsta skipti en hann var valinn í hóp sem mætir Azerbaijan í Evrópumóti U17 ára liða.

2 Athugasemdir

 1. Diddi skrifar:

  Flott svunta sem ég fékk í dag, takk fyrir 🙂 Held að við vinnum Leicester um helgina 🙂

 2. Finnur skrifar:

  Þú verður flottur við grillið í sumar. 🙂

  Mörkin gegn West Ham sem U18 ára liðið skoraði eftir að hafa lent 2-0 undir eru hér (unnu leikinn 4-3):
  https://www.youtube.com/watch?v=JwigiH16ao8

  Mörkin í síðasta leik þeirra, gegn City U18, eru svo hér (4-4 jafntefli):