Everton vs. Arsenal

Mynd: Everton FC.

Heimaleikurinn við Arsenal er næstur á dagskrá en það er hádegisleikur á laugardaginn (kl. 12:45). Rétt er að minna á takmarkaðan sætafjölda í Íslendingaferðina í lok apríl að sjá Everton mæta Bournemouth en salan í þá ferð gengur vel og mjög svo skemmtilegur kjarni sem hefur skráð sig til leiks nú þegar. Ekki missa af þeirri ferð!

Síðasti leikur Everton, sigurleikurinn í FA bikarnum við Chelsea á dögunum, var ansi magnaður en áhorfendur hjálpuðu til við að skapa ólýsanlega stemmingu þar sem hávaðinn fór upp í 117db á leiknum (hávaðamörkin eru 125db). Dregið var í undanúrslitum í byrjun vikunnar og verða Man United/West Ham mótherjar Everton á Wembley og mætir sigurliðið í þeirri viðureign annaðhvort Watford eða Crystal Palace í úrslitaleiknum.

Þó Everton liðið sé taplaust í síðustu þremur viðureignum á heimavelli gegn Arsenal er árangur liðsins gegn þeim ekki góður undanfarin ár en síðast þegar þessi lið mættust, í október, varð Arsenal fyrsta liðið til að sigra Everton á útivelli á tímabilinu. Sigur þeirra þá færði þeim fyrsta sætið en Everton liðið hefur ekki tapað útileik síðan. Og formið hefur verið fínt í undanförnum leikjum hjá okkar mönnum — 6 sigrar í átta leikjum í bæði deild og bikar, með markatöluna 18-5. Hjá Arsenal hefur, hins vegar, hvorki gengið né rekið í undanförnum leikjum, ef 4-0 sigur gegn Hull í FA bikarnum er undanskilinn — sem þeir fylgdu svo eftir með því að detta úr leik gegn Watford á heimavelli í næsta leik. Frá því þeir unnu Leicester í deild um miðjan febrúar hafa þeir tapað 5 leikjum af átta (!), gert tvö jafntefli og unnið einn leik. Satt best að segja virkar þetta svolítið kunnugleg staða hjá þeim svona í febrúar/mars og eiginlega það eina sem vantaði var að heyra í Wenger í janúar að stæra sig af því hversu mörgum vígstöðvum Arsenal væru að keppa. Þeir eru á örskömmum tíma fallnir úr leik í Champions League, FA bikarnum og við það að missa af lestinni í titilbaráttunni líka. Everton hefur því, aðra vikuna í röð, tækifærið í röð á að enda tímabilið hjá öðru London liðinu í röð því ef Arsenal tapa um helgina eru þeir ekki að fara að vinna upp 11 stiga mun í titilbaráttunni í síðustu átta leikjunum. Næsta víst, eins og Arsenal maðurinn, Bjarni Fel, myndi orða það. Þetta gæti þó virkað sem extra hvatning á þá en helsta spurningin, hvað Everton varðar, er hvaða Everton vörn mætir til leiks um helgina (vörnin sem mætti Chelsea eða sú sem mætti West Ham?) en það getur brugðið til beggja vona þar. Ef áhorfendur styðja jafn vel við bakið á liðinu og í síðasta leik er þó ekkert að óttast.

Barry er í tveggja leikja banni í leiknum vegna rauða spjaldsins sem hann fékk gegn Chelsea og Oviedo er tæpur en hann missti af leiknum við Chelsea vegna öndunarfærasýkingar. Líkleg uppstilling: Robles, Baines, Mori, Jagielka, Coleman, Besic, McCarthy, Cleverley, Barkley, Lennon, Lukaku.

Hjá Arsenal eru Alex Oxlade-Chamberlain, Aaron Ramsey, Jack Wilshere, Mikel Arteta, Tomas Rosicky og Santi Cazorla allir frá og Petr Cech líklega ekki orðinn nógu góður til að standa vaktina í markinu hjá þeim og því mun David Ospina líklega halda þeirri stöðu.

Í öðrum fréttum er það helst að Moshri birti ávarp sitt í matchday programe fyrir Chelsea leikinn. Þar sagði hann meðal annars: „I can confirm that I have committed to providing additional funds for transfers and retaining our key players to ensure that we have a strong core to build on for the future. We will also be looking at the best options in relation to our stadium. Hann bætti síðar við: „For me, I’ve bought into a family. That’s what’s special for me, and I’ll give them whatever I have. I think you can never take over a club. You can be part of a club and I think that’s what I’m hoping, to be part of a club.“

Flestir fréttamiðlar virðast túlka orð hans sem svo að líkurnar á að Andriy Yarmolenko gangi til liðs við Everton hafi aukist, en Martinez ku hafa verið á pöllunum að njósna þegar Man City – Dynamo Kiev áttust við á dögunum.

Nokkrar fleiri hraðsoðnar fréttir:

– Sóknarmaðurinn Leandro Rodriguez fór að láni til Brentford í einn mánuð.
– Robert Elstone og Alexander Ryazantsev voru gerðir að stjórnarmeðlimum á dögunum.
– Aron Lennon var valinn leikmaður febrúarmánaðar.
– Verið er að skoða samningamál hjá nokkrum leikmönnum sem nálgast lokin á núverandi samningi sínum, til dæmis: Leon Osman, Steven Pienaar, Darron Gibson, Tony Hibbert og bakvörðurinn Felipe Mattioni sem hefur verið á láni í neðri deildum.
– Everton hyggur á endurbætur á Finch Farm æfingasvæðinu með það fyrir augum að byggja mini-stadium þar sem ungliðarnir geta spilað heimaleiki sína.

Barkley, Stones og Jagielka voru valdir í enska landsliðshópinn fyrir vináttuleiki liðsins við Holland og Þýskaland og miðað við formið sem Aaron Lennon er í hlýtur að vera stutt í kallið. Spurning hvort Cleverley fari ekki að banka á dyrnar aftur hjá landsliðinu líka?

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U21 árs liðið tapaði 0-2 fyrir Reading á dögunum.

Galloway var hins vegar kallaður til liðs við enska U21 árs hópinn og Ryan Ledson, Jonjoe Kenny og Callum Connolly, til liðs við enska U19 ára landsliðið fyrir svokallað Elite Round í Evrópumeistaramóti U19 ára liða. Tom Davies, Anthony Evans og Nathan Holland eru í U18 ára hópnum.

En, Arsenal eru næstir á laugardaginn. Hver er ykkar spá?

Ekki gleyma heldur að skrá ykkur í Íslendingaferðina á Goodison Park.

3 Athugasemdir

 1. Georg skrifar:

  Þetta er mjög áhugaverð viðureign. Þetta eru bæði lið sem nauðsynlega þurfa sigur, Everton að reyna koma sér upp töfluna og Arsenal til að halda sér í einhverjum séns í að vinna deildina.

  Arsenal er að koma með tap á bakinu og dottnir úr meistaradeildinni á meðan við vorum að taka Chelsea og komast áfram í FA Cup. Við ættum því að mæta fullir sjálfstrausts í þennan leik.

  Ég spái þessu 2-1, Lukaku og Barkley með mörkin.

  P.s. komið með okkur á Everton-Bournemouth

 2. Einar Gunnar skrifar:

  Ég verð á Akureyri um helgina; vildi kanna hvort að Norðanmenn ætluðu ekki að horfa á leikinn á morgun á einhverjum góðum stað. Væri gaman að taka góða „Ölver-stemmingu“ fyrir Norðan!!