Everton vs. West Ham

Mynd: Everton FC.

Næsti leikur Everton er gegn West Ham á morgun, laugardag, klukkan 15:00 og ef marka má gengi Everton undanfarna 6 leiki er ástæða til bjartsýni þar sem markatalan er 11-2, Everton í vil. Everton hefur jafnframt unnið West Ham oftast allra liða í Úrvalsdeildinni eða samtals tuttugu og tvisvar sinnum. West Ham, hins vegar, hafa aðeins tapað tvisvar síðan í desember og fengið 20 stig í síðustu 10 leikjum þannig að það er ekkert gefið í þeim efnum. Hvernig sem fer, þá gæti Lukaku með marki á morgun orðið fyrsti leikmaður Everton til að skora í átta leikjum í röð gegn sama andstæðingi frá því að Dixie Dean gerði það árið 1933 en Lukaku hefur skorað í öllum leikjum sínum með Everton gegn West Ham hingað til. Lukaku er jafnframt orðinn markahæsti leikmaður Everton í Úrvalsdeildinni frá upphafi en hann er kominn með 17 mörk, einu fleiri en Tony Cottee og Andrei Kanchelskis og aðeins tveimur á eftir James Vardy hjá Leicester.

Aðeins er að þynnast í meiðsladeildinni — Oviedo, Baines (ökkli) og Cleverley (veikindi) eru tæpir en Besic og Gibson ættu að vera orðnir heilir. Vinstri bakvarðarstaðan því mesti hausverkurinn, þar sem bæði Baines og Oviedo eru tæpir/meiddir. Spurning hvort Martinez reyni þrjá varnarmenn á morgun (ef Oviedo er ekki til reiðu) eða hvort einhver ungliðinn fái tækifæri. Líkleg uppstilling: Robles, Oviedo, Mori, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Mirallas, Barkley, Lennon, Lukaku. Hjá West Ham eru James Collins, Winston Reid og Enner Valencia tæpir en Joey O’Brien, James Tomkins, Carl Jenkinson og Sam Byram allir frá (sá síðastnefndi í banni).

Í öðrum fréttum er það helst að Mo Besic skrifaði fyrir nokkrum dögum undir fimm og hálfs árs samning sem bindur hann félaginu til sumars 2021. Mjög góðar fréttir þar.

Af ungliðunum er það svo að frétta að Callum Connolly fór til Barnsley að láni og Jonjoe Kenny framlengdi lán sitt hjá Oxford um einn mánuð. Sam Byrne, aftur á móti, fótbrotnaði á æfingu með U21 og verður því frá um nokkurn tíma.

En West Ham á morgun kl. 15:00 í beinni á Ölveri. Ekki gleyma heldur Íslendingaferðinni í lok apríl en um takmarkað sætaframboð er að ræða. Sjá hér.

Comments are closed.

%d bloggers like this: