Bournemouth vs. Everton (FA bikar)

Mynd: Everton FC.

Næsti leikur er á laugardaginn kl. 17:15 þegar Everton mætir á heimavöll Úrvalsdeildarliðsins Bournemouth í fimmtu umferð FA bikarkeppninnar. Everton hefur aðeins tvisvar tapað á tímabilinu á útivelli (Arsenal í deild og City í deildarbikarnum) og þó Europa League sæti sé innan seilingar þá hljótum við að gera kröfu um að áherslan verði öll á FA bikarinn í ár (því sigur í bikarnum gefur líka sæti í Europa League, ef mér skjöplast ekki).

Muhammed Besic er meiddur og spurning hvort Niasse sé tæpur fyrir leikinn en hann hefur ekki verið í leikformi þar sem hann lék síðast í desember (vegna jólafrís í rússnesku deildinni) og er auk þess að glíma við meiðsli á úlnlið. Stones hefur aftur á móti jafnað sig af sínum meiðslum en líklegt er að Mori og Jagielka haldi áfram sínu samstarfi í hjarta varnarinnar enda hafa þeir aðeins fengið á sig eitt mark í síðustu fjórum leikjum.

Líkleg uppstilling: Robles, Oviedo, Mori, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Cleverley, Lennon, Barkley, Lukaku. Hjá Bournemouth eru fyrirliðinn Tommy Elphick tæpur og Callum Wilson, Tyrone Mings og Max Gradel frá vegna meiðsla en Bournemouth þykja líklegir til að rótera vel fyrir leikinn. 

Í öðrum fréttum er það helst að Oviedo skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning á dögunum og er það hið besta mál en sögusagnir voru einnig á kreiki um að Besic, sem var valinn leikmaður janúarmánaðar, myndi einnig fá nýjan samning.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U18 fengu til sín liðsstyrk þegar hinn 16 ára markvörður, Joe Hilton, bættist við akademíuna en hann kom frá Man City og var sagður eftirsóttur.

Everton U18 unnu Blackburn U18 3-2 með mörkum frá Antony Evans og tveimur frá Nathan Broadhead. Þetta var næst síðasti leikur þeirra í deildinni fyrir lokakeppnina en þeir eru þegar búnir að tryggja sér annað sæti í riðlunum og þar með sæti í úrslitum en þeir voru hársbreidd frá því að komast upp fyrir Man City og vinna riðilinn. Þeir reyndar geta það, ef þeir vinna næsta leik með 9 mörkum eða meira, en það verður að teljast ansi ólíklegt — þó þeir séu að spila við liðið í þriðja neðsta sæti riðilsins (Derby).

Everton U21 unnu Southampton U21 3-1 með mörkum frá Brendan Galloway, Sam Byrne og Kieran Dowell. Liðið er í þriðja sæti af 12 í norður-riðli en 10 leikir eru enn eftir.

En, Bournemouth næstir á laugardaginn. Leikurinn er í beinni á Ölveri.

4 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég ætla að giska á að Bournemouth poti inn einu úr föstu leikatriði og haldi því út leikinn.

 2. þorri skrifar:

  auðvita tökum við Bournemouth ekki spurning. Hvort er hann á laugadaginn eða sunnudaginn

 3. þorri skrifar:

  gott að vita að leikurinn sé á ölveri.Maður reinir að mæta með smá kvef.Það gengur ekki annað því þetta er álvöru leikur.Auðvita vinnur Everton leikinn.Erum við ekki á Gudisonn.Ég kvet alla sem erum í klúbnum að mæta á ölver ÁFRAM EVERTON

 4. Finnur skrifar:

  Uppstillingin komin:
  http://everton.is/?p=10693