Everton vs. Swansea

Mynd: Everton FC.

Áður en við hugum að liðinu fyrir Swansea leikinn er rétt að nefna sölu á Naismith til Norwich fyrir ótilgreinda upphæð, sem af flestum er talin vera um 8.5M punda. Það er töluverð eftirsjá eftir þessum leikmanni sem lét oft til sín taka og var ansi naskur við að skora mörk í „stóru“ leikjunum. Nýlegt dæmi: þrenna hans í sigri gegn Chelsea á tímabilinu. Hann hafði þó átt í erfiðleikum með að komast í liðið undanfarið, kannski vegna þess að veikleiki hans var sendigetan sem er klárlega mjög hátt skrifuð í dag hjá Everton liðinu. 8.5M punda sala á Naismith til Norwich verður því að teljast nokkuð góð viðskipti fyrir leikmann sem kom á frjálsri sölu, eins og það er orðað, frá Rangers. Vissulega var hann nokkuð umdeildur meðal stuðningsmanna Everton en ekki er þó hægt að neita því að hann var með hjartað á réttum stað. Við óskum honum velfarnaðar í nýju starfi, ekki síst í sínum fyrsta leik gegn Liverpool um helgina. 🙂

Þær fréttir bárust einnig að Oviedo er ekki jafn mikið meiddur og óttast var í fyrstu en hann ætti að vera orðinn heill fyrir Swansea leikinn. James McCarthy og Seamus Coleman missa hins vegar af Swansea leiknum en ættu að vera orðnir heilir fyrir deildarbikarleikinn gegn Man City. Tom Cleverley er heill (var á bekknum gegn Chelsea). Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Mori, Stones, Oviedo, Barry, Besic, Mirallas, Barkley, Deulofeu, Lukaku.

Í öðrum fréttum er það helst að Gareth Barry er leikmaður desembermánaðar og klúbburinn birti upplýsingar um nýja manninn, Shani Tarashaj, sem var keyptur á dögunum en matið á honum skrifaði blaðamaður sem ku þekkja nokkuð til hans. Einnig er Everton á topp 20 lista yfir þá klúbba sem þéna mest í heiminum og hækkar klúbburinn á þeim lista um tvö sæti frá því í fyrra. Ekki kæmi á óvart þó liðið, ásamt öðrum enskum klúbbum, myndi hækka eitthvað frekar á listanum fyrir næsta ár vegna samnings um auknar tekjur vegna útsendinga frá leikjum. Real Madrid og Barcelona eru annars í efstu tveimur sætunum á listanum í ár.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U21 komust í úrslit Lancashire bikarsins eftir að hafa lent undir gegn Accrington Stanley en svöruðu með mörkum frá Joe Williams og Courtney Duffus og unnu því 2-1 (sjá vídeó). Þess má geta að Matty Foulds, leikmaðurinn sem Everton keypti á dögunum átti stoðsendinguna sem gaf sigurmarkið. Og Everton U18 vann Middlesbrough U18 3-1 í deildinni en mörk Everton skoruðu þeir Nathan Broadhead, Jack Bainbridge og Shayne Lavery.

20 Athugasemdir

 1. Teddi skrifar:

  Ansans vesen að lenda á Swan… afsakið, Gylfa og félögum, í fyrsta leik þeirra undir stjórn nýs stjóra.
  Verður heilhveiti erfitt að vinna þá.
  Sef aðeins á spánni, vill sjá fyrst hvort að Stones verði í hægri bakverðinum.

 2. Gunni D skrifar:

  Þetta verður auðvelt. Skorum miklu fleiri mörk en þeir. Búið í hálfleik.

 3. Gunni D skrifar:

  Sé eftir Naismith. Skoraði á dögunum okkar einu þrennu í mörg ár,og það á móti Chelsea.

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég giska á að við höldum uppteknum hætti og hrifsum jafntefli úr klóm sigurs.
  2-2

 5. Ari G skrifar:

  Sakna Naismith flottur leikmaður 8,5 millur er frábært verð fyrir hann. Vill helst losna við Kone strax tekur sæti frá Mirallas sem er miklu betri leikmaður. Heimta að kaupa alvöru vængmann eða sóknarmann í stað Naismith annars er ekkert gagn að selja hann.

 6. Diddi skrifar:

  ef hann gerir þetta þá læt ég merkja næstu Evertontreyju með hans nafni 🙂 http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/steven-naismith-hopes-thank-everton-10776328?

  • Teddi skrifar:

   Auðvitað kemur Stebbi inná fyrir meiddan Ighalo og skorar. 🙂

   • Diddi skrifar:

    hann fór til Norwich Teddi, Ighalo er hjá Watford, en hver veit kannski getur hann komið inná fyrir leikmann hjá Watford ?? Ég þekki þá reglurnar ekki nógu vel 🙂

  • Diddi skrifar:

   Naismith !!!!!! hann er búinn að skora 🙂

   • Georg skrifar:

    Það er nokkuð ljóst að næsta Everton treyja hjá þèr verður með Naismith 😉

 7. Teddi skrifar:

  Sammála Ingvari, Draw.is
  Gylfi jafnar 2-2 með flottri aukaspyrnu.

  Baines og Lukaku með mörkin fyrir Everton.

 8. Elvar Örn skrifar:

  Verið undirbúnir undir bestu frammistöðu Everton í vetur. Spái 4-0 sigri Everton.
  Sérstakt að sjá Naismith í treyju annars liðs en kappinn stóð sig mjög vel, skoraði og fiskaði vítaspyrnu en dugði þó ekki til.
  Þegar menn eru að segja að við hefðum frekar átt að selja Kone þá verðum við að átta okkur á því að við hefðum aldrei fengið nema brot af þeim 8.5 millum sem fékkst fyrir Naismith enda Kone komin svolítið á aldur.
  Ég er ekkert viss að Everton fái mann inn í stað Naismith því skv. Martinez þá var hópurinn einfaldlega of stór og t.a.m. þá er lítið sem ekkert fjallað um að Yarmolenko sé á leiðinni svo það má teljast ólíklegt að af verði nú í janúar glugganum.
  Sigur í dag og ekkert annað kemur til greina.

  • Diddi skrifar:

   er sammála Elvari, NÚ kæru félagar er komið að því. 4-0 og þessi nýji þjálfari sér strax eftir því að hafa tekið að sér þetta verkefni 🙂

   • Diddi skrifar:

    við hljótum að vera bestu frammistöðu í seinni hálfleik í vetur Elvar, því ekki er hún í þeim fyrri 🙂

 9. þorri skrifar:

  sælir félagar er leikurinn við swonsi ekki í deildinni er hann í bikarnum

 10. Finnur skrifar:

  Hann er í deild, bikarleikur gegn City næstur þar á eftir.