Everton vs. Man City (deildarbikar)

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að undanúrslitum enska deildarbikarsins en Everton mætir þar liði Man City bæði heima og heiman. Fyrri leikur liðanna er á Goodison Park núna á miðvikudagskvöldið (kl. 20:00) en sá síðari verður leikinn í lok mánaðar (27. janúar).

City menn hafa farið nokkuð sannfærandi áfram í hverri umferð þessarar keppni en þeir unnu Sunderland 1-4, svo Crystal Palace 5-1 og í síðastu umferð Hull 4-1. Sem sagt, markatalan 13-3 gegn tveimur Úrvalsdeildarfélögum og einu liði sem er ofarlega í Championship deildinni. Þeir eru í augnablikinu í þriðja sæti deildar, aðeins einum sigri frá toppsætinu þannig að það er alltaf spurning hversu mikla áherslu þeir koma til með að leggja á þessa keppni. En þeir eru með flottan og sterkan hóp og það verður stórt verkefni að slá þá út.

Það þarf vart að fjölyrða um Man City, við þekkjum þá stærð ágætlega; Everton mætti þeim í september á Goodison Park og töpuðu 0-2 — sem reyndist eini tapleikur Everton (á tímabilinu) alveg fram í miðjan október. Form City manna á útivelli hefur þó verið lélegt undanfarið, ef síðasti leikur þeirra gegn Watford er undanskilinn (1-2 sigur), en þar á undan náðu þeir aðeins einum sigri í 7 leikjum (sá var gegn Sevilla) og áttu í mesta basli með að skora (markalausir í 5 leikjum af 7). Þó maður vilji alltaf að síðari leikurinn í bikarnum sé heimaleikur þá er kannski ekki slæmt að mæta þeim á Goodison núna, áður en þeir laga útileikjaformið sitt. En ljóst er að það þarf góð úrslit úr þessum leik til að komast áfram því heimaleikjaformið City er búið að vera svakalegt, nánast ekkert nema sigrar og oftar en ekki skora þeir þrjú mörk eða fleiri á heimavelli. Þetta verður því eitthvað.

Martinez sagði í blaðamannaviðtali að sama lið og hann hafði fyrir Spurs leikinn væri til reiðu fyrir bikarleikinn; engin ný meiðsli hefðu litið dagsins ljós. Hann minntist einnig á að Jagielka væri ekki tilbúinn í leikinn gegn City, en myndi vera heill fyrir næstu helgi, líklega. McCarthy, hins vegar, nær ekki næstu tveimur leikjum (a.m.k.) en ætti að vera góður í lok mánaðar. Smá umræða skapaðist einnig um af hverju Mirallas hefði svo lítið spilað en Martinez benti á að Mirallas hefði átt flott pre-season, hafi byrjað gegn Watford en verið að glíma við meiðsli eftir það sem og náttúrulega þriggja leikja bann sem hann fékk fyrir Swansea.

Líkleg uppstilling: Robles, Baines, Mori, Stones, Coleman, Barry, Cleverley, Lennon, Barkley, Deulofeu, Lukaku. Annar vinkill á þetta er að Besic fái séns á miðjunni og kannski Lennon verði þá fórnað og Cleverley settur á vinstri kantinn í hans stað. Ekki er heldur ólíklegt að Martinez velji kantmann hægra megin sem getur betur hjálpað Coleman að stöðva Raheem Sterling en það hlutverk hentar líklega ekki Deulofeu — spurning með Lennon? Einnig á eftir að koma í ljós hvort einhver í liðinu sé kominn á tíma með hvíld líka. Sá á kvölina sem á völina.

Hjá City er allavega Kompany frá og hann skilur eftir sig stórt skarð í vörninni. Mangala verður líklega í vörninni hjá þeim — en hann er veikur hlekkur í liði þeirra, að mínu mati, svolítill „loose-cannon“ eins og Englendingurinn kallar það og við höfum séð hann vera stálheppinn að sleppa við rautt í fyrri leik(jum) við Everton. Það verður fróðlegt að sjá hvort hann hafi það sem til þarf til að stoppa Lukaku.

Í öðrum fréttum er það helst að David Henen framlengdi lán sitt hjá Fleetwood fram til loka tímabils, og Ryan Ledson sitt lán hjá Cambridge um mánuð.

En, Man City annað kvöld (miðvikudag) kl. 20:00 og er leikurinn í beinni á Ölveri. Ekki missa af honum.

13 Athugasemdir

  1. Gunni D skrifar:

    Hann hlýtur að nota Kone til að stoppa hraðar sóknir.

  2. Orri skrifar:

    Þó að ég sé ekkert sérlega spenntur fyrir þessari dollu,þá væri nú sammt í lagi að vinna hana.

  3. Teddi skrifar:

    hahaha, góður Gunni D.

    1-1 er spáin fyrir kvöldið, Barkley skorar okkar mark og Sterling þeirra.

  4. Ari S skrifar:

    Gunni D kemst í neikvæða klúbbinn í dag. Sögulegt húmorsleysið nær hæstu hæðum. 😉

    Ég held að við höfum þetta í dag 2-1. Með mörkum frá Lukaku og Deulofeu. Seinni leikurinn verður jafntefli 1-1.

  5. þorri skrifar:

    er leikurinn á ölveri í kvöld

  6. Diddi skrifar:

    4 -0 Mangala fær rautt!!!!! Valdi frekar Star Wars í bíó ! Þó hef ég aldrei fílað Star wars ?

    • Ari S skrifar:

      DIDDI!!! Hvað ertu að segja??? En samt var þetta hálgert sjörnustríð á Goodison í kvöld……. 😉

      Þetta er einhver besti leikur sem ég hef séð til okkar manna. Margir hafa talað um að við eigum fjórar STÓR-stjörnur í þeim Stones, Barkley, Deulofeu og Lukaku… það bættis ein við í kvöld sem ber nafnið Muhamed Bešić. Hann hélt Yaya Touré í skefjum í leiknum… 🙂

      Frábær leikur hjá allflestum ef ekki öllum Everton leikmönnunum. eitthvað fannst mér samt Cleverley ósýnilegur í fyrri hálfleik, (getur verið vitleysa hjá mér.) hefur sennilega verið með flensu.

      Og síðustu tvær mínúturnar þegar okkar menn héldur boltanum var hreinlega bara alger snilld… þettavar virkilega glæsilegur sigur en þetta er samt bara fyrri leikurinn. En svo sannarlega tími til að gleðjast!

      kær kveðja, Ari.