Everton – Aston Villa 4-0

Mynd: Everton FC.

Everton mætti botnliði Aston Villa í dag og var um algjöra einstefnu að ræða og risavaxið verkefni framundan hjá nýjum stjóra þeirra að halda þeim uppi í Úrvalsdeildinni.

Uppstillingin Aston Villa leikinn: Howard, Galloway, Stones, Mori, Coleman, McCarthy, Barry, Deulofeu, Barkley, Kone, Lukaku. Varamenn: Robles, Gibson, Mirallas, Naismith, Osman, Cleverley, Lennon.

Everton átti fyrri hálfleikinn allan og varla að Villa menn næðu að sparka í bolta nálægt vítateig Everton, Everton með boltann 66% fyrri hálfleiks, áttu 6 skot að marki, þar af 5 sem rötuðu á rammann.

Fyrsta mark Everton kom á 17. mínútu. Stones gaf fram á Barkley sem tók hælspyrnu á Lukaku og hljóp fram. Lukaku tók flick-on á McCarthy sem kom á hlaupinu í árás á vörnina. McCarthy fékk í sig mann þegar hann nálgaðist teiginn og sendi því til hægri á Deulofeu sem skaut á mark. Guzan varði til hliðar, beint á Barkley sem var mættur á fjærstöng og skoraði í autt markið. 1-0 Everton.

Deulofeu stal boltanum á hægri kanti stuttu síðar, hljóp inn í teig, tók skærin á varnarmanni og sendi út í teig á Kone sem skaut á mark en Guzan varði glæsilega. Þar hefði staðan átt að vera 2-0 en það kom þó ekki að sök því Everton skoraði örfáum mínútum síðar.

Coleman komst upp við endalínu með boltann og sendi fyrirgjöf fyrir mark, beint á kollinn á Lukaku sem skallaði inn. Einfalt og auðvelt. Staðan 2-0 fyrir Everton á 28. mínútu. Lukaku þar með orðinn aðeins fimmti leikmaðurinn sem skorar 50 mörk eða meira í Úrvalsdeildinni fyrir 22ja ára aldur, hinir: Christiano Ronaldo, Robbie Fowler, Michael Owen og Wayne Rooney.

Villa menn höfðu náðu einu sókn á 21. mínútu og annarri eftir rúmlega hálftíma leik en fengu það næstum því í andlitið strax því þeir töpuðu boltanum og Everton liðið komst í stórhættulega skyndisókn og vantaði bara hársbreidd upp á að Deulofeu næði stungu á Lukaku sem var einn á móti markverði en varnarmaður náði að komast inn í sendinguna.

En Everton hélt áfram að bæta við mörkum. Lukaku potaði hárri sendingu á Kone sem vann vel úr henni, náði skoti á mark sem Guzan varði en boltinn fór aftur til Barkley sem skoraði framhjá varnarmönnum Villa með Guzan í grasinu. 3-0 eftir 42. mínútna leik og Villa menn áttu engin svör.

Og það var staðan í hálfleik. Umfjöllunin um seinni hálfleik kemur eftir leik.

Howard reddaði Mori vel strax á upphafsmínútum fyrri hálfleiks þegar sá síðarnefndi átti slaka sendingu aftur á Howard sem sóknarmaður Villa komst í en Howard varði við jaður vítateigs þegar Villa maðurinn reyndi að komast framhjá honum.

Villa menn náðu loks fyrsta skoti sínu á rammann eftir 55 mínútna leik, Richardson með flott skot utan sem tók sveig og gerði Howard erfitt fyrir að verja en tókst þó.

Everton svaraði hins vegar með marki. Deulofeu fékk boltann við miðju, sendi á Barkley sem sendi stungu í fyrstu snertingu á Lukaku sem komst upp að marki og skoraði framhjá Guzan. 4-0. Alltof auðvelt.

Villa menn voru ekki langt frá því að skora með flick-on eftir horn en Howard vel á verði. Þeir fengu einhver hálffæri í seinni en náðu ekki að ógna marki Everton nægilega.

Tvöföld skipting á á 72. mínútu, Mirallas inn á fyrir Deulofeu og Osman inn á fyrir Barkley. Gibson kom svo inn á fyrir McCarthy á 83. mínútu en leikurinn búinn fyrir löngu síðan náttúrulega. 4-0 sigur Everton staðreynd. Kannski að norðlensku bræðurnir Elvar og Goggi fái að mæta aftur á Ölver að horfa með okkur.

Einkunnir Sky Sport: Howard (6), Coleman (6), Stones (6), Funes Mori (6), Galloway (6), Barry (6), McCarthy (6), Deulofeu (8), Barkley (8), Kone (7), Lukaku (8). Varamenn: Gibson (4), Mirallas (5), Osman (4).

Leikmenn Villa fengu fimm á línuna, fyrir utan markvörðinn (Guzan) sem fékk 6 og Kieran Richardson sem fékk 4.

12 Athugasemdir

 1. Diddi skrifar:

  4-0, 5-1, 6-2 hvaða máli skiptir þetta, jú auðvitað alltaf best að halda hreinu 🙂

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Snilld!! Engin aumingjagæska í gangi í dag. Þannig á það að vera.

 3. Teddi skrifar:

  Algjör snilld.
  Nú þarf bara að tækla þennan leikaraskap úr spánverjanum okkar and we’ll be laughing!

 4. Finnur skrifar:

  Barkley og Lukaku í liði vikunnar að mati BBC:
  http://www.bbc.com/sport/0/football/34895404

 5. Orri skrifar:

  Sælir félagar.Ég held að nú sé Evertonliðið komið á sigurbrautina og að það séu bjartir tímar framundan.Ég el þann draum með mér að við verðum í topp 4 um áramót,en til þess að svo megi verða verður margt að liggja með okkur.

 6. Elvar Örn skrifar:

  Það er greinilegt að ég og Georg erum ný lukkudýr Ölvers (amk á Everton leikjum). Gaman að hitta ykkur félagar og takk Finnur fyrir skutlið.
  Everton að spila fantavel í þessum leik og skemmtilegt að sjá liðið skora mörg mörk eins og seinustu leikjum.
  Auðvelt, ef auðvelt má kalla, prógramm framundan og gaman að sjá hvort Everton nái lengra í deildabikarnum, það væri gríðarlega gaman að fara að skella dollu í hús.
  Lukaku, Barkley, Deulofeu og Kone virðast ná einstaklega vel saman og væri ég einnig til í að sjá meira af Mirallas, fannst hann koma vel inn í þennan leik þótt hann fengi lítinn tíma.
  Verð í New York næstu helgi og er búinn að melda mig á MrDennehys sem er Everton bar með Írskum stæl á Manhattan.

 7. Finnur skrifar:

  Ekki málið. Alltaf gaman þegar þið lítið við. 🙂

  > Lukaku, Barkley, Deulofeu og Kone virðast ná einstaklega vel saman

  Já, ég get ekki betur séð en að að ýmsir leikmenn séu að ná mjög vel saman. Deulofeu og Lukaku, til dæmis — alveg brilliant. Stones og Mori virðast ná ágætlega saman í vörninni. McCarthy og Barry flottir á miðjunni — Barry átti slakt tímabil í fyrra en er hratt að vinna það upp. Og svo framvegis.

  Framhaldið í bikarnum (fyrst þú nefnir deildarbikarinn) er alltaf svolítið random en leikjaplanið framundan í deild er allavega meira spennandi en það sem að baki er.

 8. Halldór skrifar:

  Sælir félagar,

  Snilldar leikur um síðustu helgi og ég vona að það verði svipað upp á teningnum þá næstu.

  En eitt hérna, ekki vitið þið hvar ég get fengið Everton treyju án þess að þurfa að senda hana frá Englandi?

 9. Finnur skrifar:

  Sæll Halldór Boga,

  Myndi byrja á að spyrja Jóa Útherja og svo Sports Direct. Heyrði á sínum tíma af einhverri síðu á Facebook (Ódýrar Fótboltatreyjur) en ég er ekki viss um að hún sé virk lengur, miðað við kommentin þar inni.

  En þá er best að finna einhvern sem er að fara á Goodison Park og láta hinn sama kaupa fyrir sig. Það er alltaf einhver slæðingur af fólki að fara á eigin vegum en klúbburinn hér heima er ekki að fara í skipulagða ferð fyrr en í vor.

 10. Halldór skrifar:

  Jói selur ekki tengt Umbro. Takk samt ég kíki á þetta.