Everton vs. Aston Villa

Mynd: Everton FC.

Þá er landsleikjahléið að baki og næsti leikur viðureign Everton og Aston Villa, sem er sú viðureign sem oftast hefur verið leikin í efstu deildinni ensku. Martinez gaf það út að næstu 12 leikir eða svo koma til með að skipta sköpum varðandi það hvort tekst að gera atlögu að efstu fjóru sætunum eða ekki, því fyrstu 10 leikirnir á tímabilinu voru gegn öllum topp 10 liðunum og nú mætir Everton „minni spámönnum“.

En áður en við víkum að deildarleiknum er rétt að minnast á okkar menn sem voru í eldlínunni með landsliðum sínum. Fyrstan ber að nefna Deulofeu, sem lék með Spáni U21 gegn Króatíu U21 og það er skemmst frá því að segja að hann fylgdi eftir þrennu í síðasta leik með tveimur mörkum gegn Króötum. Skoraði hann fyrsta mark Spánar úr víti (sjá vídeó) og svo sigurmarkið í leiknum (sjá vídeó) sem endaði 3-2 fyrir Spán.

John Stones og Ross Barkley hjálpuðu enska landsliðinu að sigra Frakka, 2-0, í vináttuleik. Funes Mori lék með Argentínu í 1-0 sigurleik gegn Kólumbíu en Tim Howard og félagar í liði Bandaríkjanna töpuðu 1-0 fyrir Kosta Ríka í vináttuleik. Ryan Ledson, Jonjoe Kenny og Callum Connolly léku allir með enska U19 ára liðinu sem tók Japan U19 í kennslustund og unnu 5-1.

Martinez sagði að allir leikmennirnir úr aðalliðinu hefðu komið heilir til baka frá sínum verkefnum með landsliðum og að Besic, sem verið hefur að jafna sig af meiðslum, hefði fengið spilatíma sem eru góðar fréttir. Aðeins þyrfti að meta stöðuna á ungliðunum, Tyias Browning og Brendan Galloway, sem drógu sig út úr enska U21, sem ku reyndar hafa verið varúðarráðstöfun meira en nokkuð annað.

Leighton Baines er ekki langt frá því að að nálgast endurkomu, þó líklegt megi þykja að hann missi af leiknum við Aston Villa. Tom Cleverley, aftur á móti, á séns og sagðist vera að vonast eftir að skora gegn þeim. Hibbert, Oviedo og Jagielka eru sömuleiðis á batavegi (sá síðastnefndi þó enn í spelku). Líkleg uppstilling því: Howard, Galloway, Mori, Stones, Coleman, Barry, McCarthy, Kone, Barkley, Deulofeu, Lukaku.

Hjá Aston Villa eru Jordan Amavi og Jores Okore meiddir og sóknarmennirnir Gabby Agbonlahor og Rudy Gestede tæpir.

Aston Villa menn sitja nú á botni Úrvalsdeildarinnar eftir einn sigur í 12 tilraunum (gegn Bournemouth í upphafi leiktíðar) en eru með nýjan stjóra, Remi Garde, og undar hans stjórn náði Aston Villa — af miklu harðfylgi — jafntefli á eigin heimavelli gegn toppliðinu í deild, Man City. Þess má til gamans geta að síðast þegar Everton mætti Aston Villa á Goodison Park þá skoruðu Jagielka, Lukaku og Coleman án þess að gestirnir næðu að svara.

Í öðrum fréttum er það helst að Everton birti ársreikning sinn sem sýnir meðal annars auknar tekjur af sjónvarpssamningum, aukna aðsókn að leikjum og aukna fjárfestingu í liðinu (til að mynda Lukaku, Barry, Besic, Galloway og Lennon — ásamt tilheyrandi kostnaði). Tap var á rekstrinum upp á 4.1M punda (eftir skatt), samanborið við 28.2M punda hagnað frá árinu áður (mestmegnis vegna sölu á Fellaini). Rekstrarhagnaður áður en kom að kaupum og sölum leikmanna var 16M punda.

Og talandi um fjárfestingu í liðinu þá Everton keypti á dögunum ungliðann Matty Foulds, 17 ára varnarmann frá Bury, fyrir ótilgreinda upphæð en hann er örvfættur miðvörður.

Af öðrum leikmannamálum er það að frétta að Martinez sagði að ekki stæði til að selja leikmenn í janúarglugganum en hann hefur hins vegar verið orðaður við varnarmanninn Ron Vlar hjá Aston Villa, sem fer á frjálsri sölu í janúar. Og jöfnunarmark Phil Jagielka á Anfield gegn Liverpool var valið mark tímabilsins þegar North West Football Awards fóru fram á dögunum. Maður þreytist aldrei á að horfa á þá endursýningu. 🙂

Ný Everton búð opnaði við Goodison Park á dögunum, á horni Bullens Road og Gwladys Street eða alveg hinum megin við Goodison frá fyrri búðinni séð. Það er skyldumæting í hana í næstu ferð.

Af ungliðunum er það svo að frétta að Everton U18 liðið hélt áfram sigurgöngu sinni þegar þeir mættu Stoke U18 og sigruðu þá 3-4 (sjá vídeó) eftir að hafa lent undir í leiknum 2-0. Mörk Everton skoruðu Kieran Dowell, Delial Brewster, Liam Walsh og Antony Evans.

En Aston Villa menn eru næstir, klukkan 15:00 á laugardaginn — og er leikurinn í beinni á Ölveri. Sjáumst!

6 Athugasemdir

  1. Elvar Örn skrifar:

    Við bræðurnir kíkjum líklega á Ölver

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Allt annað en sigur er algjörlega óásættanlegt.
    En það hefur nú oft verið þannig að þegar við mætum liðum í basli þá gerast okkar menn gjafmildir á stig og það er svo sem eitthvað sem gæti alveg gerst í dag.
    1-1 kæmi mér ekki á óvart að yrðu úrslitin.

  3. þorri skrifar:

    kemst því miður ekki. En góða skemmtun í ölveri. Ég er sammála Ingvari um að þetta verði erfiður leikur. En vonandi skemmtilegur. og sigur hjá okkar mönnum. við tökum hann 3-0 fyrir okkur svo erum við á heima velli líka. Þetta á að vera heima sigur og ekkert annað.

  4. Finnur skrifar:

    Uppstillingin komin:
    http://everton.is/?p=10197

  5. þorri skrifar:

    nokkuð sáttur með fyrri hálfleikinn. Lítur vel út