Undirbúningstímabilið er hafið

Mynd: Everton FC.

Leikmenn Everton eru mættir á æfingasvæðið eftir sín sumarleyfi og undirbúningur (sjá myndir) fyrir nýtt tímabil því kominn á fullt. Nýju leikmennirnir, Tom Cleverly og Gerard Deulofeu, eru einnig mættir og verður fróðlegt að sjá hvernig þeir blandast hópnum sem og að sjá hvernig leikmenn koma undan sumri, lausir við álagið sem fylgir HM á fjögurra ára fresti.

Everton tilkynnti hópinn sem mun taka þátt í Asíubikarnum en hann lítur svona út:

Markmenn: Tim Howard, Joel Robles, Jindrich Stanek.
Varnarmenn: Luke Garbutt, John Stones, Phil Jagielka, Seamus Coleman, Tyias Browning, Brendan Galloway, Tony Hibbert.
Miðjumenn: James McCarthy, Gareth Barry, Ross Barkley, Leon Osman, Steven Pienaar, Tom Cleverley, Muhamed Besic, Aiden McGeady, Gerard Deulofeu, Kevin Mirallas.
Sóknarmenn: Romelu Lukaku, Arouna Kone, Steven Naismith, Conor McAleny.

Sem sagt, bæði Clevery og Deulofeu í hópnum en Baines, Oviedo og Gibson eru fjarverandi vegna meiðsla. Martinez lét hafa eftir sér að þó þeir myndu missa af Asíubikarnum ættu þeir góðan séns að ná fyrsta leik tímabilsins. Þess má einnig geta að Baines er að jafna sig eftir ökklauppskurð (sem framkvæmdur var í maí og gekk víst vel) en ætlunin þar var að laga smávægileg meiðsli í ökkla sem hann hefur verið að glíma við undanfarin þrjú ár.

Fyrsti æfingaleikurinn er annars strax á laugardaginn, við Swindon Town, eins og fram kom hér. Hægt er að kaupa aðgang að undirbúningsleikjum Everton en nánari upplýsingar um það er að finna hér.

Af ungliðunum er það að frétta að varnarmennirnir Callum Connolly og Josef Yarney eru nýjustu ungliðarnir til að skrifa undir atvinnumannasamning við klúbbinn. Þess má geta að Connolly er enskur unglingalandsliðsmaður en báðir koma þeir úr akademíu Everton. Fjórtán nýir ungliðar bættust svo við akademínu til að fylla skarð þeirra sem útskrifuðust.

Til gamans má geta í lokin að síðasta færslan á everton.is var (skv. núverandi umsjónarkerfi) þúsundasta færslan á everton.is. Líklega myndi þau orð fylla fleiri en eina doktorsritgerð. 🙂

4 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Glæsilegt!

  2. Orri skrifar:

    þetta lítur bara vel út. Ég geri nú samt ráð fyrir að við eigum eftir að styrkja hópinn meira fyrir komandi vetur.

  3. Elvar Örn skrifar:

    Það er enginn smá munur á hópnum sem er að mæta nú á fyrstu æfingu samanborið við sama tíma í fyrra. Það er alveg klárt að þetta mun stór auka líkurnar á að Everton byrji betur en á seinustu leiktíð.

    Ég er alveg viss að Everton mun fá miðvörð til sín áður en leikmanna-skipta-glugginn lokar, ég er síðan ekki viss að það komi fleiri leikmenn en það og spurning hvort það sé ekki bara nægilegt í bili.

    Bara 3 dagar í fyrsta leik á Pre-Season sem er gegn Swindon og ekki spurning að maður kaupir aðgang að þessum leikjum á undirbúningstímabilinu. Ég og Georg verðum í bústað á suðurlandinu um helgina og er viss um að við fáum okkur einn kaldann í tilefni dagsins 🙂