Everton – Dynamo Kiev 2-1

Mynd: Everton FC.

Eftir að hafa lent undir gegn Dynamo sneri Everton taflinu við og setti tvö mörk á þá. Vonandi nóg fyrir mjög svo erfiðan útileik í næstu viku. Jafntefli nægir Everton til að komast áfram en ef Dynamo skora verða okkar menn að svara.

Uppstillingin fyrir leikinn í kvöld: Howard, Garbutt, Jagielka, Alcaraz, Coleman, McCarthy, Barry, Mirallas, Barkley, Naismith, Lukaku. Varamenn: Robles, Browning, Gibson, Besic, Atsu, Osman, Kone.

Dynamo komust vel í takt við leikinn frá upphafi en sama er ekki hægt að segja um Everton, sem náðu ekki skoti á mark lungað úr fyrri hálfleik.

Dynamo áttu tvær hættulegar fyrirgjafir frá vinstri kanti á fyrstu mínútunum, þá fyrri sló Howard frá en þá seinni greip hann en sóknarmaður Dynamo ekki langt frá því að komast í boltann.

Athyglisvert var að sjá að óþolinmæðin var greinilega allsráðandi á heimavelli og áhorfendur strax byrjaðir að kvarta ef boltinn barst svo mikið sem einn sentimetra frá marki andstæðinga. Hvar er 12. maðurinn þegar við þurfum á honum að halda?

Dynamo menn gengu náttúrulega á lagið og skoruðu einfalt mark eftir horn á 13. mínútu. Gusev skoraði það en hann náði að losa sig við Barkley sem hljóp í bakið á Dynamo manni sem steig fyrir hann og Gusev fékk því frítt skot á mark. 0-1 Dynamo. Ekki beint byrjunin sem við vonuðumst eftir og vonandi ekki að þetta reynist of dýrkeypt. Dynamo áttu svo langskot utan af velli sem Howard varði í horn á 31. mínútu.

Lukaku var ekki langt frá því að jafna þegar markvörður Dynamo kom langt út úr teig til að hreinsa en skaut boltanum í staðinn beint upp í loft og hljóp til baka. Lukaku var fljótur að hugsa og skaut áður en markvörður náði að komast inn í teig aftur en hitti ekki markið af löngu færi. Dynamo menn heppnir.

Hjartað tók svo kipp þegar Dynamo voru ekki langt frá því að komast inn í sendingu Alcaraz aftur á Howard.

Lukaku var næstur með skot beint úr aukaspyrnu sem markvörður varði rétt yfir slá í horn. Flott skot og markvörður tók enga áhættu. Jagielka átti skalla úr horninu en varið á línu. Flott pressa. Alcaraz átti svo flott skot innan teigs en varið í horn. Miklu betra frá Everton sem loksins litu út fyrir að vera að spila á heimavelli.

Og pressan skilaði sér loksins þegar Lukaku skýldi boltanum vel frá þremur varnarmönnum sem reyndu hver af öðrum að ná af honum knettinum. Lukaku sendi á Naismith og setti hann í algjört dauðafæri vinstra megin, sem Naismith klikkaði ekki á. Sendi boltann auðveldlega framhjá markverði og staðan 1-1.

Everton voru svo ekki langt frá því að bæta við á 43. mínútu þegar Mirallas komst aftur fyrir markvörð utarlega hægra megin en sendingin fann ekki Lukaku fyrir framan mark því varnarmaður komst fyrir sendingu. Eftir slakan leik til að byrja með var Everton liðið allt í einu óheppið að vera ekki komið yfir.

1-1 í hálfleik.

Everton liðið leit mun betur út í seinni hálfleik en í þeim fyrri og lítið um færi frá Dynamo lengi vel.

Alcaraz átti skot af löngu færi á 47. mínútu á fjærstöng sem markvörður Dynamo varði. Naismith átti skalla að marki á 48. mínútu eftir horn en framhjá marki.

Garbutt átti mjög flott skot úr aukaspyrnu á 53. mínútu en varið í horn. Upp úr horninu skallaði Naismith svo á Lukaku en boltinn í bringuna á Lukaku og beint á markvörð Dynamo. Lukaku hafði engan tíma til að athafna sig.

Dynamo áttu svo skalla yfir mark á 60. mínútu. Líklega engin hætta þó — reyndi ekki á Howard.

Kone inn á fyrir Mirallas á 64. mínútu og hann átti strax skalla að marki sem var varinn (eftir að Coleman vildi víti fyrir að vera felldur — erfitt að segja, sá það ekki). Naismith lagði boltann svo vel til hliðar fyrir Barry inn í vítateig en skot þess síðarnefnda arfaslakt og framhjá marki.

Jarmalenko með skot rétt utan teigs og rétt yfir mark. Lukaku með skot af löngu á 73. mínútu sem markvörður Dynamo varði.

Barkley út af fyrir Osman á 74. mínútu og hann átti eftir að ráða úrslitum. Dynamo áttu reyndar fyrst skot af löngu færi á 77. en auðvelt fyrir Howard.

En svo var komið að Osman. Hann reyndi sendingu fyrir mark en í uprétta hendina á varnarmanni. Víti. Lukaku skoraði og staðan 2-1 fyrir Everton. Skotið beint í miðju marks og í fæturna á markverði sem var búinn að kasta sér of langt og boltinn því í netið. 2-1 Everton og allt í einu leit þetta miklu betur út!

Osman og Naimsith fengu svo dauðdafæri alveg í lokin þegar Osman skallaði rétt framhjá marki og Naismith var ekki langt frá því að pota inn!

En fleiri urðu almennileg færi ekki og Everton fer því með nauma forystu í útileikinn í næstu viku. Það verður erfitt verkefni því Dynamo þarf bara að vinna með einu marki til að komast áfram. En, þetta lítur enn vel út. Sjáum hvað setur.

Árshátíðin alveg að bresta á – sem og nokkrir veðurhvellir. Vonandi gengur þetta allt upp! 🙂

13 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    ég held við höfum aldrei tapað fyrir Dinamov Kiev 🙂 Ha Ha Ha

  2. Finnur skrifar:

    Hahaha! Nákvæmlega!! 😀

  3. Gestur skrifar:

    Furðulegt að nota ekki allar skiftingarnar þegar Martinez kvartar að menn séu þreyttir

  4. Gunnþór skrifar:

    Vorum flottir í kvöld,barátta,vilji og flottur fótbolti svona á þetta að vera,maður leiksins að mínu mati James McCarthy.

    • Diddi skrifar:

      Vorum svolítið lengi í gang en svo mallaði þetta bara býsna vel 🙂

  5. Elvar Örn skrifar:

    Menn að missa sig hér yfir flottum sigri. Kaldhæðni að spjallið sé ofvirkt þegar við töpum en óvirkt þegar við sigrum.

    Frábær frammistaða eftir brösugar fyrstu 25 mínúturnar. Lukaku magnaður í fyrsta markinu og enn er Naismith að bjarga okkur og Osman kom svakalega flottur inn. Vörnin líka heilt yfir sterk og McCarthy flottur og Garbutt að spila líklega sinn besta leik.

    Nauðsynlegt að sigra á heimavelli og sterkt að vinna eftir að hafa lent undir.

    Svo er bara að fagna á Akureyri á laugardaginn og ljúka helginni með sigri á Newcastle.

  6. Ari G skrifar:

    Voru mjög lélegur fyrstu 30 mín svo eftir það ok. Finnst Everton taka oft rangar ákvarðinir inní í vitateig þegar þeir fengu færin. Everton gersamlega yfirspiluðu Kiev í seinni hálfleik en ég er ekki sáttur með úrslitin áttu að geta unnið með meiri mun. Lukaku besti maður Everton, Naismith duglegur og vörnin ok nema í markinu.

  7. Elmar skrifar:

    Vona innilega að ykkar menn haldi heiðri ensku deildarinnar í Evrópukeppnum og sigri þessa keppni! Gangi ykkur vel Kv Manutd stuðningsmaður!!

    • Ari S skrifar:

      Takk fyrir það Elmar. 🙂

      Flottur leikur í síðari hálfleik. Við sáum alveg á köflum hvað liðið okkar getur verið gott. Frábær leikur hjá sumum m.a. Lukaku sem var að mínu mati maður leiksins. McCarthy sömulieðis frábær leikur hjá þeim báðum. Góður sigur í gær og vonandi er þetta viðsnúningurinn (turnaround of the season) þar sem liðið okkar fer loksins almennilega í gang.

      kær kveðja,

      Ari

    • Diddi skrifar:

      Elmar, þú ert alvörumaður 🙂

  8. þorri skrifar:

    sá ekki leikinn en flottur sigur

  9. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Flottur leikur og flottur sigur hjá okkar mönnum.
    Vonandi dugar þetta.