Naismith framlengir + fréttir úr meiðsladeildinni

Mynd: Everton FC.

Þrjár jákvæðar fréttir bárust af klúbbnum okkar seint í gærkvöldi og í morgun en Martinez tilkynnti (sjá vídeó) að meiðsli Mirallas og Osman væru ekki jafn alvarleg og talið var. Mirallas missir þó af næsta leik (gegn Southampton) en ætti að vera klár í jólavertíðina að öðru leyti því búist er við að hann nái þarnæsta leik (gegn Stoke). Einnig sagði Martinez að meiðsli Osman væru mun léttvægari en talið var en áður var óttast að hann þyrfti uppskurð, sem nú þykir ólíklegt.

Í gærkvöldi var það svo tilkynnt að Naismith hefði framlengt samning sinn við félagið um þrjú ár en hann verður því samningsbundinn til sumarsins 2019. Naismith skoraði 9 mörk á síðasta tímabili og er (ásamt Mirallas, þegar tímabilið er uþb. hálfnað) næst-markahæsti leikmaður Everton með 6 mörk (einu marki á eftir Lukaku). Naismith hefur átt það til að skora mörk í stóru leikjunum eins og í derby leiknum fyrir nokkru en nú hefur hann skorað gegn Manchester United, gegn Arsenal (tvö tímabil í röð) og Chelsea (seinustu þrjú tímabil í röð!)

Naismith kom á frjálsri sölu frá Rangers þegar þeir fóru á hausinn og átti pínulítið erfitt uppdráttar til að byrja með undir Moyes en er farinn að sýna sitt rétta andlit í uppstillingu Martinez. Hann fór beint í byrjunarliðið gegn QPR eftir að hafa jafnað sig á meiðslum og launaði Martinez traustið með marki.

5 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Hefur einhver tekið það saman hvert að liðið vinni fleri leiki sem kallinn spilar eða hvort hann spilar ekki

  2. Finnur skrifar:

    Mig hefur dauðlangað til að taka þetta saman – og ekki bara til að sjá hans tölfræði. En hef ekki haft tíma.

  3. Ari G skrifar:

    Frábær leikmaður og mjög duglegur. Hvað er að frétta af Mirallas hvenær spilar hann næst?

  4. Orri skrifar:

    Ég er mjög ánægður að Naismith sé búinn að skrifa undir nýjann samning,góður leikmaður þar á ferð.