Góðir straumar

Mynd: Everton FC.

Það er sko alls ekki leiðinlegt að skrifa fréttayfirlit vikunnar því það það eru ekkert nema jákvæðar fréttir sem berast af Everton þessa dagana.

Ekki nóg með að Leighton Baines sé við það að setja met í fjölda stoðsendinga frá stofnun Úrvalsdeildar (er einni stoðsendingu frá því að jafna met Graeme Le Saux og er hvergi nærri hættur) heldur var Stones einn af þeim sem tilnefndir eru til 2014 European Golden Boy verðlaunanna. Fyrri leikmenn til að bera þann titil eru ekki lakari menn en Lionel Messi, Wayne Rooney, Sergio Aguero, Cesc Fabregas og Mario Goetze, svo einhverjir séu nefndir. Jafnframt var Jagielka metinn hraðasti leikmaður Úrvalsdeildarinnar en hann mældist á 36 km hraða á klst á dögunum, sem er eins og við þekkjum nokkuð yfir hámarkshraða umferðar um íbúðarhverfi á Íslandi.

U21 árs liðið vann Norwich U21 3-0 (sjá vídeó) með mörkum frá Long, Henen og Pennington og manni sýnist sem heldur sé að rofa til í meiðsladeildinni hjá Everton en klúbburinn hefur skipulagt leiki fyrir luktum dyrum fyrir bæði Oviedo og Kone sem báðir eru að jafna sig á mjög erfiðum meiðslum. Markmiðið þar er náttúrulega að ná þeim í form fyrir átökin sem framundan eru og veita þeim leikmönnum sem fyrir eru samkeppni.

Það er ýmislegt gott að gerast í stuðnings-klúbbnum hér heima líka en aðalfundur var á dögunum, enda rúm tvö ár frá því að stjórnin tók við og kominn tími á að taka stöðuna. Það þýðir einnig að tími er kominn til að greiða árgjöldin en ykkur til hægðarauka hefur stjórn sent rukkun í heimabanka á alla skráða meðlimi klúbbsins sem hafa náð 18 ára aldri.

Rétt er að vekja athygli á því að þið getið sparað ykkur seðilgjöld í banka með því að leggja beint inn á reikning félagsins (sjá neðst á síðunni). Ef millifært er beint er ykkur að sjálfsögðu frjálst að hunsa eða eyða út kröfunni í heimabanka.

Nú kynni einhver að spyrja hvað fæst með því að greiða árgjaldið? Því er auðsvarað. Með því að borga árgjaldið…

– Ert þú fullgildur meðlimur í Everton klúbbnum á Íslandi og hefur kosningarétt á aðalfundi.
– Getur þú nýtt þér þau fjölmörgu fríðindi sem fylgja því að vera meðlimur í opinberu stuðningsmannafélagi Everton, til dæmis hvað varðar miðakaup og tilboð á ýmissi vöru og þjónustu.
– Hjálpar þú til við að mæta kostnaði við vefsíðuna og allan almennan rekstur á félaginu.
– Sýnir þú stuðning þinn í verki við stjórnina sem sinnir þessu algjörlega í sjálfboðavinnu, til dæmis með reglulegum greinaskrifum á everton.is.
– Máttu eiga von á greiðslugjöf inn um lúguna hjá þér en stjórnin hefur alltaf sent þeim sem greiða smá þakklætisvott fyrir stuðninginn.

… en kannski það mikilvægast af öllu er að þú hefur hér tækifæri til að leggja þitt lóð á vogarskálarnar við að halda uppi öflugu félagsstarfi Evertonklúbbsins á Íslandi. Og við þurfum svo sannarlega á þér að halda. 3000 króna árgjald eru ekki nema um 8 krónur á dag og ef það er ekki nóg til að sannfæra fólk þá er hér listi yfir nokkur helstu atriði sem stjórnin hefur framkvæmt á síðustu tveimur árum (frá september 2012):

  • Eitt af okkar fyrstu verkum var að stofna bankareikning utan um reksturinn og skrá klúbbinn sem félagasamtök hér heima og formlegan stuðningsmannaklúbb Everton ytra.
  • Við höfum hvatt fólk, sem ekki var skráð, til að skrá sig í klúbbinn og náð að stækka klúbbinn um 36% á tveimur árum.
  • Svörun við gíróseðlum fyrir árgjöldum var frábær fyrsta árið — fór eiginlega langt fram úr öllum væntingum — og jókst svo um 30% milli ára (!) en þrátt fyrir árlegar greiðslugjafir og almennan rekstur félagsins hefur fjárhagsstaðan batnað töluvert.
  • Greiðslugjafir höfum við sent út tvö ár í röð fyrir borgandi félagsmenn og gefið meðlimum U18 ára aldri frítt. Sum ykkar fengu meira að segja greiðslugjafirnar keyrðar heim að dyrum af stjórnarmeðlimum.
  • Við höfum staðið fyrir reglulegum fréttum af liðinu okkar á heimasíðu, sem og upphitun fyrir leiki og leikskýrslum á eftir.
  • Miðakaup á leiki Everton eru komin í formlegan farveg, sem er partur af því að vera formlegur stuðningsmannaklúbbur.
  • Fyrir utan milligöngu um einstaka miðakaup til okkar félagsmanna og annarra þá höfum við staðið fyrir formlegum ferðum klúbbsins með fararstjórn á Goodison Park. Á tveimur árum erum við búin að sjá Everton mæta:
    • Wolfsburg, Crystal Palace, Manchester City, Tottenham, Fulham og Newcastle.
    • Inni í þessu eru ótaldir tímar (í sjálfboðavinnu) sem fóru í skipulagning ferða, rútuferða, sameiginlegra máltíða, skoðunarferða um Goodison, ferðir um Liverpool borg og margt fleira.
  • Ekki má heldur gleyma árlegri árshátíð og því að stjórnin hefur samið við ýmis fyrirtæki um afslátt til handa félagsmönnum.

Við hvetjum ykkur öll til að sýna stuðninginn í verki með því að annaðhvort borga gíróseðilinn í heimabankanum eða nýta ykkur afslátt af félagsgjöldum með því að leggja beint inn á reikning félagsins:

Reikningsnúmer: 331-26-124
Kennitala félagsins: 5110120660
Upphæð: 3000

Og ef þú ert ekki skráð(ur) þá er það lítið mál — bara hafa samband.

Með fyrirfram þökk fyrir stuðninginn,

Stjórnin (Haraldur Örn, Halldór, Eyþór, Finnur, Óðinn, Gunnþór og Róbert).

5 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Starfið í kringum klúbbinn hefur verið mjög skemmtilegt og höfum við kynnst mörgu skemmtilegu fólki. Ég hvet fólk til að vera með og virkt í klúbbnum okkar. Endilega ef menn já eða konur hafa einhverjar athugasemdir eða vilja koma einhverju á framfæri endilega notið síðuna eða hafið bara samband við okkur. Við erum allir að vilja gerðir til að gera félagið enn öflugra með ykkar hjálp og eitt af því er að greiða árgjald til að halda utan um dæmið. Svo er alltaf jafn gaman sjá bæði gömul og ný andlit á Ölveri á leikdögum.

  2. Finnur skrifar:

    Tek undir það. Ég er búinn að millifæra beint fyrir mig og mín börn tvö (þó þau séu bæði undir 18 ára aldri).

    Minni jafnframt á bolina til sölu: http://everton.is/?p=8109

  3. Teddi skrifar:

    Þarf að skrifa skýringu eða senda póst við beina millifærslu félagsgjalds?

  4. Finnur skrifar:

    Ekki strangt til tekið nauðsynlegt, nei.

  5. Georg skrifar:

    Þið eruð að gera frábæra hluti og að sjálfsögðu er ég búinn að greiða mitt árgjald.