Everton framlengir samning Martinez

Mynd: Everton FC.

Stóru fréttir dagsins eru þær að klúbburinn beið ekki boðanna eftir fyrsta tímabil Martinez við stjórnvölinn, heldur framlengdi samning hans um tvö ár. Enda fór árangur hans á fyrsta tímabili sínu með Everton fram úr björtustu vonum — metstigafjöldi í Úrvalsdeild frá stofnun og Everton komið aftur í Evrópuboltann í fyrsta skipti síðan 2009/10. Martinez er því samningsbundinn til loka tímabilsins 2018/19 og er það vel. Martinez var að vonum kátur í viðtali stuttu eftir tímabilið en hann er nú á fullu að leita tækifæra að styrkja hópinn fyrir næstu átök í deild, bikar og Evrópukeppni og segist vera með á hreinu hverja hann vill.

Hann fylgist því grannt með HM mótinu, sem loksins er byrjað — eins og varla hefur farið framhjá neinum. Undirbúningur Englands hefur gengið nokkuð vel en þrír leikmenn Everton eru í lokahópnum (Baines, Jagielka og Barkley) og Stones að auki á standby listanum ef meiðsli koma upp. Stones lék sinn fyrsta leik með aðallandsliðinu, sem er ekki slæmt frá leikmanni sem kom úr C deildinni ensku í janúarglugganum á þarsíðasta tímabili. Sá leikur var merkilegur fyrir þær sakir að fjórir leikmenn Everton komu við sögu, sem hefur ekki gerst síðan 1988 (þegar Steven, Stevens, Reid og Watson spiluðu saman). Einnig er eitthvað um Everton leikmenn í öðrum landsliðum á mótinu, eins og við þekkjum.

Í öðrum fréttum er það helst að Everton stökk upp um 13 sæti í töflunni yfir verðmætustu vörumerki í fótboltanum í heiminum og eru nú í 20. sæti en voru í fyrra í 33. sæti. Þrjú lið teljast því hástökkvarar tímabilsins, Everton, Atletico Madrid og PSG, samkvæmt þessum lista.

Og samkvæmt öðrum lista (frá The Football Observatory — sem er partur af Center for Sports Studies í Sviss) er Barkley orðinn 16. verðmætasti knattspyrnumaðurinn í heiminum — með verðmiða á sér einhvers staðar á bilinu 36,8 til 42,8 milljónir punda. Ef rétt er, er hann rétt á undan Thomas Muller hjá Bayern og Wayne Rooney hjá United en erfitt samt að segja samt hvernig þetta er reiknað út og hvort eitthvað sé að marka. Skemmtilegar pælingar engu að síður.

Klúbburinn kláraði yfirlit sitt yfir tímabilið 2013/14 en aðeins vantað apríl-maí (áður birt: ágúst-septemberoktóber-nóvemberdesember-janúar og febrúar-mars).

Og tvennt athyglisvert hefur heyrst frá Lukaku nýlega. Annars vegar lét hann hafa það eftir sér að hann þyrfti líklega að fara frá Chelsea og hins vegar sagði hann að ákvörðun hans að fara til Everton að láni hefði verið það besta sem hefði getað komið fyrir feril sinn og að hann hefði batnað mikið sem sóknarmaður. Hann kemur þó væntanlega til með að bíða fram yfir HM til að ákveða framtíð sína.

3 Athugasemdir

  1. Ari G skrifar:

    Frábært að hann haldi áfram næstu 5 árin. Núna væri mjög gott að gera 5 ára samning við bestu leikmennina líka.

  2. Halli skrifar:

    ÞETTA ER ALGJÖR SNILLD

  3. Orri skrifar:

    Þetta eru frábærar fréttir fyrir okkur.