Evrópumeistarar U17 ára landsliða

Mynd: Everton FC.

Ungliðarnir okkar, Ryan Ledson og Jonjoe Kenny, urðu Evrópumeistarar U17 ára landsliða í dag en þeir áttu stóran þátt í að England U17 sigraði Holland U17 í úrslitaleik mótsins sem þurfti vítaspyrnukeppni til að knýja fram sigurvegara þar sem leik lyktaði með 1-1 jafntefli. Okkar maður, Ryan Ledson — sem einnig er fyrirliði landsliðsins, skoraði úr fyrstu vítaspyrnu Englendinga en liðsmenn hans skoruðu úr öllum sínum vítaspyrnum. Hollendingar brenndu hins vegar af tveimur vítaspyrnum og það kom því í hlut Jonjoe Kenny að innsigla sigurinn fyrir Englendinga sem hann og gerði. Glæsilegur árangur hjá ungliðunum.

Af öðrum ungliðum er það að frétta að vinstri bakvörðurinn, Luke Garbutt, lék allan sigurleikinn með U21 árs liðinu gegn Wales U21 en leikar fóru 3-1.

Í öðrum fréttum er það helst að skemmtilegt viðtal (sjá einnig á vídeóformi) við Saemus Coleman var birt þar sem hann fer yfir hvernig Martinez og félagar Coleman í vörninni hafa gert hann að mun betri leikmanni en hann var, sem hjálpaði til við að gera hann að hægri bakverði ársins í vali PFA. Einnig lofaði hann McCarthy, sem dekkar vel svæði sem opnast þegar Coleman fer fram á við. Coleman, Aiden McGeady og Shane Duffy voru allir kallaðir til liðs við írska landsliðið sem mætir Tyrklandi og Ítalíu í lok maí og Kosta Ríku og Portúgal. McCarthy glímir hins vegar við smávægileg ökklameiðsli þannig að hann var ekki valinn í hópinn að þessu sinni.

Samkvæmt fréttum hefur nýr stjóri Barcelona, Luis Enrique, kallað Deulofeu til liðs við aðalliðið og sagt er að hann verði því ekki með Everton á næsta tímabili. Það er líklega of snemmt með að segja af eða á en fréttamiðlar hafa greint frá því að annar ungliði komi í staðinn, ef sú verður raunin.

Og samkvæmt fótboltaklúbbnum Shelbourne er Everton þessa stundina að semja við liðsmann þeirra — næsta Coleman, 18 ára hægri bakvörð að nafni Ryan Robinson, sem hefur þegar sést á Finch Farm, æfingasvæði Everton. Kemur í ljós hvort eitthvað er til í þeim fregnum.

Klúbburinn er annars þessa dagana að setja í loftið yfirlit yfir tímabilið síðasta. Fyrstu tveir hlutarnir eru komnir: ágúst-september og október-nóvember. Klúbburinn gaf einnig mörgum af helstu Everton bloggurum færi á Martinez (eins og áður hefur komið fram) og er þriðji hlutinn aðgengilegur hér (fyrsti hluti er hér og annar hluti hér).

7 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Það lítur út fyrir að þetta með Deulofeu (að hann verði ekki hjá okkur á næsta tímabili) hafi verið staðfest en Deulofeu skrifaði opið bréf til stuðningsmanna (og kvenna) og þakkaði stuðninginn:
  http://www.evertonfc.com/news/archive/2014/05/23/deulofeu-writes-to-evertonians

  Nú er bara að sjá hvort einhver spennandi komi í staðinn. 🙂

 2. Diddi skrifar:

  mig minnir að einhver Finnur hafi staðfest áframhaldandi veru Deulofeu um daginn!!!!!!!! Er þetta að verða álíka áreiðanlegur Everton gluggi og fotbolti.net????? 🙂

 3. Finnur skrifar:

  Ég man ekki eftir að hafa staðfest áframhaldandi veru Deulofeu og skoðaði meira að segja allt sem hefur verið skrifað um Deulofeu í greinum hér síðustu þrjár vikurnar (veit ekki hvað þú kallar „um daginn“), bara til að staðfesta að ég væri ekki farinn að kalka. 🙂 Skemmst frá því að segja að sú leit skilaði ekki þeim niðurstöðum sem haldið er fram.

  Mig grunar að þú sért að rugla Deulofeu saman við Barry (þegar kemur að mínum kommentum) — ég hef verið mikið vissari um að Barry skrifi undir þar sem hann er með lausan samning (kostar ekki mikið), passar vel inn í liðið og fær að spila helling (sem var hans markmið). Ég hef ekki (svo ég muni allavega) nokkurn tímann verið viss um að Deulofeu verði áfram hjá okkur.

  Þannig að… Everton.is hefur náttúrulega enn vinninginn á síðuna fotbolti.net þegar að kemur að áreiðanleika Everton frétta. 😉

 4. Diddi skrifar:

  „Hahahaha! 😀 Það verður ekki af þeim sem styðja Everton tekið; Húmorinn er til staðar! 🙂

  Og mikið rétt! Deulofeu verður hjá okkur á næsta tímabili. Ábyrgist það! 🙂 Þið heyrðuð það hér fyrst.“

  Jæja góði, þetta skrifaðir þú í pistlinum um Everton-Manutd 2-0. Það eru 48 þræðir við þann pistil 🙂

 5. Finnur skrifar:

  Það verður heldur ekki af þeim tekið sem styðja Everton; Minnið er alltof gott! 😀

  Stend samt við það að þetta hefur engin áhrif á áreiðanleika síðunnar! Staðfest! 🙂

 6. Ari S skrifar:

  Þið eruð yndislegir báðir tveir Diddi og Finnur……. 🙂
  (spurning um mánaðarlegan þátt frá ykkur) 😉

  Vera Deulofeu hjá Everton og hversu ánægður hann sjálfur er með dvölina mun hafa góð áhrif á aðra leikmenn í álíka stöðu og hann. Þ.e. unga og efnilega snillinga. Ef við miðum liðið eftir tímabilið og fyrir tímabilið þá er ljóst að virði leikmanna hefur aukist um heilan helling. Þá er ég ekki að tala um peningavirði. Standardinn er orðinn mun hærri hjá félaginu og við erum í Evrópu… geggjað! 🙂

  Þetta er virkilega flott bréf frá Deulofeu og innilega skrifað. Takk fyrir samveruna Deulofeu, við sjáumst í Meistaradeildinni eftir 18 mánuði…

 7. Ari S skrifar:

  Sælir, þó að þetta hafi upphaflega ekki átt að vera um Deulofeu þá ætla ég að bæta aðeins um því ég var að lesa frétt um að Vicente del Bosque hefði bætt um betur og valið Deulofeu til þess að vera tilbúinn (á standby eins og útleningurinn segir) fyrir heimsmeitarakeppnina í Brasilíu í sumar. Það væri nú gaman að sjá hann þar þó hann sé ekki lengur Everton leikmaður.