Southampton – Everton 2-0

Mynd: Everton FC.

Everton liðið sá aldrei til sólar í þessum leik og virkuðu orkulitlir á lokasprettinum í baráttunni um sæti í Meistaradeild. Southampton unnu miðjubaráttuna og flestar sóknir Everton einhvern veginn bara brotnuðu niður þegar nálgaðist vítateiginn. Ekki hefur maður þurft að hafa miklar áhyggjur af vörn Everton í undanförnum leikjum — þrátt fyrir meiðsli lykilmanna — og Southampton hafa þótt bitlausir frammi nýverið (enda markamaskína þeirra, Jay Rodriguez, meiddur). Maður átti því ekki von á mörgum mörkum frá framlínu þeirra enda voru þeir flottir bæði í vörn og á miðju en varnarmenn Everton bættu upp það sem Southampton skorti frammi með tveimur fallegum sjálfsmörkum í fyrri hálfleik.

Uppstillingin var: Howard, Baines, Alcaraz, Stones, Coleman, Barry, McCarthy, Deulofeu, Naismith, Barkley, Lukaku. Varamenn: Robles, Hibbert, McGeady, Osman, Garbutt, Browning, Ledson. Sem sagt, þrír úr unglingaliðinu á bekknum, enginn sóknarmaður og liðið nánast valdi sig sjálft sökum fjölda leikmanna á sjúkralista.

Fyrra sjálfsmarkið kom eftir innan við mínútna leik þegar Alcaraz skallaði fyrirgjöf frá vinstri í eigið net í fyrstu sókn Southampton. Glæsilegt mark, bara vitlausu megin. 1-0 fyrir Southampton og leikmenn Everton greinilega slegnir.

Everton svaraði með skoti frá Lukaku innan teigs eftir fyrirgjöf frá hægri á 3. mínútu en boltinn fór nokkuð yfir markið. Og svo róaðist leikurinn.

Á 20. mínútu áttu Southampton skot framhjá úr ákjósanlegu færi eftir hraða sókn en skutu nokkuð langt framhjá. Hefði getað verið 2-0 þar en nýttu færið illa.

Southampton voru svo stuttu síðar heppnir að sleppa við víti fyrir peysutog upp úr aukaspyrnu Everton þegar varnarmaður togaði niður Barry og kom í veg fyrir að hann næði að skalla fyrirgjöf úr aukaspyrnu. Þetta var eitt af mjög mörgum mistökum sem Michael Oliver dómari og félagar hans gerðu sig seka um en hægt hefði verið að dæma um þrjár til fjórar vítaspyrnur í leiknum (tvær hvorum megin) og eitt dauðafæri tekið af Everton í þokkabót.

En í staðinn fyrir vítið gerist annað slys strax á eftir þegar varnarmaður Everton skoraði annað glæsilegt sjálfsmark. Í þetta skipti á 31. mínútu þegar fyrirgjöf kom frá hægri, þrír varnarmenn í fluglínu boltans en fyrstu tveir náðu ekki til hans og Coleman (sem fékk lítinn tíma til að átta sig á að hann þyrfti að bregðast við) skallaði beint í hornið. 2-0 Southampton. Game over — eftir þetta var þetta aldrei spurning.

Deulofeu skipti yfir á hægri kant og náði fyrirgjöf á Lukaku á 37. mínútu sem hann skallaði yfir úr fínu færi. Líklega aðeins of há sending til að hægt væri að stýra honum í netið.

Southampton vildu víti á 37. mínútu þegar boltinn fór í hendina á Stones. Höndin á Stones vísaði niður þegar boltinn fór í hann en var þó ekki alveg við líkamann. Líklega víti, en ekkert dæmt þar frekar en hinum megin.

Rétt fyrir hálfleik voru Southampton svo heppnir að sleppa við víti (í annað skipti) þegar boltinn fór í hönd varnarmanns. Hönd hans vísaði upp í þetta skipti og því enn augljósara víti en hin tvö. En enn á ný ekkert dæmt. 2-0 í hálfleik og Osman inn á fyrir Barkley, sem hafði ekki náð sér á strik.

Stuttu eftir að dómarinn flautaði leikinn á aftur var Deulofeu kominn inn vörn Southampton eftir stungusendingu frá Naismith, kominn einn inn á móti markverði með varnarmann alveg á hælum sér en var dæmdur rangstæður. Endursýning sýndi að það var líklega rangur dómur og þulurinn hafði á orði að Everton ætti nú líklega meira skilið úr leiknum eftir bæði þetta og skort á víti. Það er reyndar erfitt að vera sammála því eftir spilamennsku eins og í dag en leikmenn virkuðu andlausir og eins og þeir væru svolítið að reyna að fara fram úr sjálfum sér eða reyna aðeins of mikið. Alltaf einum skærum of mikið eða að flýta sér of mikið til að vanda sendingar og áttu oft jafnvel erfitt með að ná saman nógu mörgum sendingum í röð til að byggja upp sókn.

McGeady inn á fyrir Deulofeu á 58. mínútu en mínútu síðar fengu Southampton aukaspyrnu og úr henni kom skot í stöng og út. Flott spyrna en Howard hefði varið hana ef hún hefði ratað á markið, skv. endursýningu, því hann var búinn að kasta sér í hornið og loka því.

Á 62. mínútu var Osman felldur inn í teig, vildi víti en fékk spjald. Það var greinileg snerting en hann var búinn að missa jafnvægið og því líklega rétt að sleppa víti. Gult spjald fannst mér reyndar frekar harkalegt, en hvað um það. En tíu mínútum síðar átti að dæma víti — í þetta skipti á Stones hinum megin, sem fékk boltann í hendina innan teigs.  Maður var farinn að halda að dómarinn vissi ekki af reglunni um að dæma hendi fyrir að handleika knöttinn (hann sleppti einnig einu til tveimur atvikum úti á velli líka).

Lukaku átti skalla stuttu síðar úr ákjósanlegu færi eftir fyrirgjöf frá McGeady en skallinn beint á markvörð.

Á 74. mínútu var Baines næstum búinn að skora beint úr fyrirgjöf þegar boltinn tók óvæntan sveig þannig að markvörðinn misreiknaði flugið á boltanum sem sleikti fjærstöng utanverða. Manni sýndist þetta ekki vera neitt merkilegt alveg þangað til markvörðurinn prísaði sig sælan fyrir að missa hann ekki inn.

Baines fór svo út af á 89. mínútu — greinilega alveg búinn á því og Luke Garbutt, ungliðinn kom inn á. Vonandi bara að Baines hafi ekki náð sér í meiðsli því Everton liðið má alls ekki við fleiri skakkaföllum.

Það vantaði annars meiri ógn — eiginlega frá báðum liðum í öllum leiknum því hvorugt liðið leit út fyrir að vera líklegt til að koma boltanum í mark andstæðinganna. Southampton fengu þó eiginlega sitt besta færi alveg í blálokin þegar Howard varði glæsileg skot innan teigs. En 2-0 tap staðreynd eftir dapurlegan leik þar sem Southampton voru betri aðilinn og lítið hægt að kvarta yfir tapi.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 6, Alcaraz 5, Stones 6, Coleman 7, McCarthy 6, Barry 5, Deulofeu 6, Naismith 6, Barkley 5, Lukaku 5. Varamenn: McGeady, Osman og Garbutt fengu allir 6. Einn með átta hjá Southampton (Davis), fjórir með 7 og restin 6. Nokkuð sammála einkunnagjöfinni, nema hvað Stones var einna skástur hjá okkur — en á móti kemur svo að hann hefði getað gefið andstæðingunum tvö víti.

Arsenal nægir nú að vinna tvo af síðustu þremur leikjum sínum til að tryggja sér sæti í umspili um meistaradeildina á næsta tímabili en við þurfum að bíða þangað til á mánudagskvöld til að sjá hvernig fyrsti sá leikur fer. Þetta er ekki búið, en er ansi hæpið þar sem Arsenal þarf nú að misstíga sig tvisvar til að Everton eigi séns.

28 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Upphitun frá hliðarlínunni, svona á meðan við bíðum — sjá viðtal við Ronnie Goodlass um leikinn:

 2. Diddi skrifar:

  held að leikstíll Southampton henti okkur vel, þ.e.a.s okkur hefur vegnað vel gegn þeim liðum sem hafa haft meiri „possession“ en við í leiknum, samanber síðasta leik, þar sem við höfum eiginlega notað skyndisóknir, þannig að ég held að bæði þessi leikur og eins leikurinn gegn city verði áþekkir og við vinnum þennan leik 0-2, leikurinn gegn hull verður svolítið öðruvísi en við eigum að vinna þá ef við spilum eins og við vitum að við getum. Þannig að í síðustu umferðinni nær norwich í stig gegn nöllunum og við náum 4. sæti, ég er alveg handviss um að McCarthy skorar í dag og það kæmi ekki á óvart að Lukaku gerði það einnig. Áfram EVERTON !!!!!

 3. Elvar Örn skrifar:

  Tvö sjalfsmörk Everton í fyrri hálfleik, svakalegt. Margir meiddir og Það sést nú vel á varamanna bekknum. Spái Everton marki I byrjun síðari hálfleiks eða vona amk.

 4. Diddi skrifar:

  þvílík gjafmildi, þetta þekkist ekki annarsstaðar, á einhver afmæli hjá southampton eða hvað er í gangi ?????

 5. þorri skrifar:

  sælir félagar þetta lítur ekki vel út. Veit einhver skýrínguna á þessu hjá okkar mönnum? Ekki veit ég. En vonandi lagast þetta í seinni hálfleik

 6. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Týpískt! !!! Í annað skiptið á einum mánuði leyfi ég smá bjartsýni á laumast í kollinn á mér fyrir leik og var meira að segja farinn að trúa á að við myndum taka fjórða sætið, og hvað gerist????? Everton mætir í self destruct mode í leikinn alveg eins og gegn crystal palace, sem var hinn leikurinn sem ég leyfði mér bjartsýni fyrir.

 7. Diddi skrifar:

  það er alltaf gaman að lesa þínar athugasemdir Ingvar, þú ert snillingur 🙂

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Takk Diddi 🙂

   Ég lofa að hér eftir skal ekki ein einasta bjartsýnishugsun komast að í hausnum á mér. Aldrei aftur!!!!

   En hvernig er það, verða lið að vera í rauðum búning til að fá víti ef þau koma frá Liverpool. Áttum að fá tvö augljós víti í þessum leik. Annars var þetta bara hræðilegt og fjórða sætið nú endanlega farið, vonandi náum við samt að hanga í því fimmta.

 8. Elvar Örn skrifar:

  Barry á hælunum og Lukaku latur, verðum að bæta spilið.

 9. Diddi skrifar:

  djöfull vorum við hrikalega lélegir og áhugalausir í dag, algjörlega skammarlegt að mínu mati 🙂

 10. þorri skrifar:

  Þarna fór tækifærið hjá Everton. Mér fannst allt liðið virkilega að spila illa. Af hverju þarf liðið að detta svona niður?

 11. Elvar Örn skrifar:

  Versti leikurinn sem ég hef séð á leik tíðinni verð ég að segja og dómarinn var ekki hliðhollur okkur svo mikið er víst. Vantaði ekki framherja a bekkinn?

 12. Gestur skrifar:

  ég segi nú ekki annað en típískt

 13. Teddi skrifar:

  Helgin ónýt fram að jafntefli LIV-CHE !

 14. Finnur skrifar:

  Skýrslan komin.

 15. Ari G skrifar:

  ömurlegur leikur Everton. Dómarinn versti maðurinn á vellinum. Hvernig gat þetta verið dýfa hjá Osman fyrsta vítið. Spánverjinn slapp einn innfyrir ekki rangstæða og honum haldið þarna er annað vitið. Gready haldið inní vitateig þegar hann er að reyna að standa upp 3 vitið. Svo má deila um önnur viti þegar menn fá boltann í hendina ekki viti að mínu viti.

 16. Halli skrifar:

  Hversu svekktur getur maður verið eftir einn fótboltaleik. ALVEG HELVÍTISVEKKTUR. Ekki það að við ættum mikið skilið í dag en það áttu þeir ekki heldur þatta var svona jafnteflisleikur allan tímann menn fannst eins ogmenn héldu að þetta kæmi af sjálfu sér en nei það þarf að vinna fyrir öllum stigum

 17. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Eina vonin er nú að Newcastle vinni Arsenal og það er álíka miklar líkur á því eins og að Vladimir Putin fái friðarverðlaun Nobel.

 18. Ari S skrifar:

  Vitið þið hvað? Held það sé best að reka Martinez strax og selja Barkley, Coleman, Stones og Baines þá þurfum við ekki að hafa svona miklar væntingar og getum þá bara sætt okkur við að vera að berjast um 7-8 sætið.

  Það var ekki svona svekkelsi þegar Moyes var með okkur. Þá var maður bara helv… sáttur við að lenda í 7. hvað þá ef liðið okkar kæmist eitthvað áfram í bikarnum….ég vil fá Moyes aftur.

  Ég sá ekki leikinn í dag, hef ekkert um hann að segja.

  • Teddi skrifar:

   Engar áhyggjur Ari, verðum í miðjumoðinu ef e-ð er að marka önnur ensk lið sem spila í Euroleague. 🙂

   • Ingvar Bæringsson skrifar:

    Allt í lagi að vera í miðjumoðinu, ef við vinnum Europaleague, þá er það CL-bolti næsta tímabil 🙂

 19. Orri skrifar:

  Við skulum nú ekki örvænta alveg í hvelli. Þetta er ekki búið, ég sá ekki leikinn en vonandi tókum við slaka leikinn í dag og góðu leikirnir eru þá eftir. En vonin er kannski ekki mikil en það er enn sjéns.

 20. þorri skrifar:

  Það er enn von en hún er mjög lítil. Mér fannst Southampton vera betri allan tímann. En talandi um dómarann eitt orð yfir hann hann var hræðilegur og misti tökin á honum. Ég held að menn hljóti að vera sammála um að hann átti að dæma minsta kosti 2 víti. Að Everton mönnum: sjálfsmörkin hjá okkur voru hræðileg. Mér fannst Everton liðið spila undir getu í þessum leik. En verum nú bjartsýn og segjum að Arsenal tapi í kvöld á móti Newcastle.

 21. Elvar Örn skrifar:

  Ég er hræddur um að bekkurinn verði svolítið dapur hjá okkur gegn City. Margir í meiðslum og Barry má ekki spila.
  Svakalegt að Everton sé með sigri (og jafnvel jaftefli) að leggja bikarinn í hendurnar á Liverpool, hmmm.

 22. Ari S skrifar:

  Þorri mér finnst það engu máli skipta hvort að vonin sé lítil eða ekki. Hún er til staðar og enn er möguleiki á fjórða sætinu. 😉

  Elvar mér finnst það enn svakalegra ef að við töpum rest og hleypum Spurs og MU upp fyrir okkur. Það er svartasta myndin sem upp getur komið. Við verðum að vinna MC!