Everton vs. Aston Villa

Mynd: Everton FC.

Það eru ansi fá lið sem fara í gegnum heilt tímabil án þess að eiga slæman dag og fá skell inn á milli, eins og gerðist í síðasta leik. En sem betur fer er mjög stutt í næsta leik til að lagfæra þetta, þegar Everton taka á móti Aston Villa á laugardaginn á heimavelli kl. 15:00.

Martinez sagði í viðtali að hann ætti ekki von á að fleiri myndu bætast við í leikmannahópinn fyrir lok gluggans en að það væri þó háð því að Heitinga næði samkomulagi við önnur lið um að flytja sig um set. Heitinga er sagður á 60þ punda samningi per viku sem, ef rétt er, gerir 1M punda í launakostnað bara til loka tímabils — sem gæti farið í að greiða laun einhvers annars leikmanns. Martinez hljómaði þó ekki bjartsýnn á að samningar myndu nást milli Heitinga og liðanna sem um ræðir (annað liðanna er mjög líklega Galatasaray í Tyrklandi).

Martinez sagði jafnframt að leikmenn muni koma sterkari til leiks og staðráðnir í að reka af sér slyðruorðið eftir derby leikinn en hann sagði þá hafa farið vel yfir leikinn og vita hvað fór úrskeiðis — sem muni einungis styrkja þá í átökunum sem eru framundan. Ég geri ráð fyrir að lið Aston Villa hafi horft á leikinn og hugsað mér sér (eins og meirihluti hlutlausra) að þetta væri ekki alveg það sem þeir vonuðust eftir. Ég á von á því að leikmenn Everton mæti brjálaðir til leiks og sýni að þeir hafi lært af mistökunum því Aston Villa eru með lið, sem líkt og Liverpool, eru mjög hættulegir í skyndisóknum og koma örugglega til með að reyna að nýta sér það til fullnustu á laugardaginn.

Villa menn litu mjög vel út á útivelli í byrjun tímabils, töpuðu aðeins einum í fyrstu sjö útileikjum (unnu Arsenal í upphafsleik sínum) en eftir að hafa tapað á útivelli gegn Fulham eru einu liðin sem þeir hafa tekið stig af (í fjórum leikum) Sunderland sem og jafntefli gegn litla bróður í síðasta útileik þeirra.

Mistök Everton í derby leiknum voru líklega þau að flýta endurkomu leikmanna sem ekki voru orðnir heilir og skorti því leik-skerpu (e. match fitness) — ásamt því að spila of framarlega á vellinum gegn fljótum framherjum litla bróðurs. Það verður því fróðlegt að sjá hverjir spila næsta leik og hvernig leikskipulagið verður. Ljóst er að Coleman, Distin og Deulofeu verða ekki tilbúnir fyrr en á móti Tottenham og mjög ólíklegt einnig að Traore verði hent í hringiðuna, þar sem hann vantar 1-2 vikur í að verða klár. Ég á því fastlega von á því að annaðhvort Mirallas eða Naismith verði frammi í fjarveru Lukaku, nema Martinez prófi loksins Hibbert í framlínunni, sem hefur margoft sýnt að er hans langbesta staða.

Líkleg uppstilling (miðað við að allir heilir séu með 100% leikskerpu): Howard, Baines, Alcaraz, Jagielka, Stones/Hibbert, Naismith, Barry, McCarthy, McGeady, Osman, Mirallas. Ég þori ekki að spá um hvor þeirra, Mirallas eða Naismith, komi til með að leiða línuna. Jú, ég skýt á Mirallas.

Áður en við hættum að tala um Aston Villa er rétt að minnast á mjög svo skemmtilegan sigurleik Everton (sjá vídeó) gegn þeim á heimavelli árið 2006. En þá að öðrum fréttum:

Ársreikningur Everton fyrir árið 2012/13 tímabilið var birtur í dag (sjá einnig greiningu Toffeeweb) og er margt gott að frétta af þeim vígstöðvum.

• Miðasala jókst um £0,7M og var £17,5M.
• „Turnover“ jókst um næstum £6M.
• Auknar tekjur vegna beinna útsendinga jókst um £2,9M*.
• Annar kostnaður var skorinn niður um nærri £1M en það er 8,4% lækkun frá 2009/10 tímabilinu.
• Hagnaður af rekstri (áður en leikmannakaup og sölur eru teknar með í reikninginn) var £0,7M en var £6,4M tap árið á undan.
• Nettóhagnaður sveiflaðist upp á við um £10,7M.
• Skuldir minnkuðu um £0,7M.

* Tölurnar hér að ofan taka ekki með í reikninginn auknar tekjur vegna nýrra samninga deildarinnar um beinar útsendingar frá leikjum, sem munu birtast á núverandi fjárhagsári.

Get ekki sagt annað en að þetta stefni allt í rétta átt, svipað og spilamennskan á velli á tímabilinu í heild sinni.

Eitt af því sem fórst fyrir að nefna í vikunni voru viðbrögð Leighton Baines við því að nýr samningur væri í höfn en hann sagði eftir að hann skrifaði undir annan langtímasamning við klúbbinn að hann sé hamingjusamur hjá Everton, hafi alltaf verið það og sé spenntur yfir þeim árangri sem hægt sé að ná á næstu árum. Hann hafi elskað hverja einustu mínútu frá því að hann kom, árið 2007, og gæti ekki verið hamingjusamari. Hann sagði jafnframt að hann hefði látið sér fátt um finnast um slúðrið sem birtist í blöðunum um sig og hefði aldrei látið það hafa áhrif á sig þegar á hólminn væri komið. Ég held að við getum öll verið sammála um að honum hafi tekist það prýðilega og rétt að ítreka að það er magnað að þessi besti bakvörður deildarinnar og jafnvel Evrópu hafi framlengt samning sinn.

Martinez sneri einnig athygli fjölmiðla að Barry og sagði að framtíð hans væri hjá Everton en afar ólíklegt þykir að City muni bjóða honum áframhaldandi samning í lok tímabils.

Leikurinn við Villa er annars í beinni útsendingu á Ölveri en athugið að það eru 6 leikir í gangi á sama tíma (United, Barcelona, Everton, Tottenham, Southampton, og Cardiff vs. Norwich) þannig að… ekki mæta seint! Sjáumst!

16 Athugasemdir

  1. Georg skrifar:

    Það er ekkert annað í stöðunni en að rífa sig upp af rassgatinu eftir síðasta leik og koma með sterkan heimasigur. Ég vona að Traore verði orðinn leikfær og væri gaman að sjá hann koma inná í leiknum þar sem ég hef mikla trú á þeim leikmanni. Ég held að allir sem hafa eitthvað vit á knattspyrnu hafi séð að Everton liðið í síðasta leik var bæði að spila langt undir pari og svo voru allt of margir leikmenn hreinlega ekki í standi fyrir leikinn. Það er eitt að vera með 1-2 tæpa menn en að púsla saman mönnum í margar stöður á vellinum og margir hverjir ekki í leikformi var samasem merki á ófarir.

    Nú hafa leikmenn fengið nokkra daga til að koma sér í betra stand fyrir leikinn gegn Villa og ættu að vera í betra formi en á móti Liverpool. Aðal spurningarmerkið fyrir leikinn fyrir mér er hvernig hann ætlar að stilla upp framlínunni. Það er alveg spurning að setja Mirallas fremstan með Barkley fyrir aftan hann. Svo hugsanlega Pienaar og McGeady á köntunum og Barry og McCarthy á miðjunni. Varðandi vörnina þá myndi ég stilla henni svona upp miðað við að Distin er ennþá meiddur. Baines – Stones eða Alcaraz – Jagielka – Hibbert.

  2. Orri skrifar:

    Maður jú alltaf bjartsýnn fyrir leik,þó að illa hafi farið í síðasta leik geta menn ekki lagst í þunglyndi. Ég held að menn komi alveg brjálaðir í næstu leiki. Ég spái okkar mönnum góðum sigri á móti Aston Villa á morgun, 3-0 og málið dautt.

    • Elvar Örn skrifar:

      Bjartsýnin er málið, ég get þó ekki alveg séð hvaðan þessi þrjú mörk eiga að koma með Lukaku fjarverandi. Samt sem áður hefur Lukaku dalað í undanförnum leikjum og kannski best að fá t.d. Mirallas til að fara í framlínuna. Það væri mjög áhugavert einnig að sjá Deulofeu þar þegar hann kemur til baka sem mér skilst sé bara nokkrir dagar.
      Ég held að Everton hafi farið í væna naflaskoðun eftir seinasta leik og eins og ég hef nefnt áður þá er ég mjög spenntur fyrir uppstillingu liðsins.
      Til að væla ekki yfir því eftirá þá ætla ég að henda inn því liði sem ég myndi vilja sjá (miðað við þá sem eru heilir).
      Howard
      Stones-Jagielka-Alcaraz-Baines
      McCarthy Barry
      McGeady Barkley Pienaar
      Mirallas

      Spurning með Stones eða Hibbert en Stones hefur átt frábæra leiki að seinasta leiknum undanskildum og Hibbert kallinn orðinn 33 ára og spurning hvort ekki sé betra að gefa Stones leikreynslu og hrista af sér hrollinn eftir frammistöðu síðasta leiks.
      Vonaði að Distin væri kominn til baka en annars sé ég ekki annan möguleika en Alcaraz sem eins og Stones hefur verið frábær, fyrir utan seinasta leik. Hvað með Duffy, er hann alveg týndur?
      Ég á erfitt með að mæla með Pienaar eftir frammistöðu hans í seinasta leik en með Mirallas frammi þá er annað erfitt.
      Ég get varla sett Naismith inn í liðið, hvorki frammi né á kanti þar sem ég tel að aðrir séu mun meira creative en hann og henti Everton leikstílnum hans Martinez ekki nægilega vel.
      Ef Traore er heill þá myndi ég vilja sjá hann í framlínunni og myndi ég vilja sjá Mirallas og McGeady á köntunum en bara veit að Pienaar er valinn ef hann er í boði.

      Bara svona pælingar. Samt fyndið að ég sé að þetta er nánast sama liðið og Georg nefnir.

      Ég spái 2-0 þar sem Mirallas verður með mark ársins. Get ekki tjáð mig um hinn markaskorarann fyrr en ég sé uppstillinguna 🙂

  3. Finnur skrifar:

    Ég var að átta mig á því að ég gleymdi Pienaar í uppstillingu minni hér að ofan. Kannski var þetta undirmeðvitundin að refsa honum fyrir arfaslakan leik gegn litla bróður. En samt — maður verður að gefa svona mönnum séns strax á að sýna sitt rétta andlit. Spái því að hann verði maður leiksins ef hann spilar.

    Hvaðan koma mörkin, spyr Elvar? Það er augljóst. Hibbert kemur inn á í lokin og setur þrjú.

  4. Finnur skrifar:

    En svona grínlaust, þá er ég smeykur við leikinn á morgun… Við þurfum að finna lausn á þessu með markaskorarana. Vona að Baines setji eitt og það verði nóg. Eða McCarthy. Það er kominn tími á það.

  5. Diddi skrifar:

    Duffy er á láni hjá Yeovil Town, en ég myndi hafa Jagielka og Stones í miðvörðum og Hibbo sem hægri bak. Annars sammála ykkur bræðrunum. Varðandi lánareglur þá held ég að ég hafi lesið um daginn að lið megi vera með 4 lánsmenn svo framarlega að tveir af þeim komi frá félagi sem er í öðru landi 🙂 Ég skýt á 3-1 og Baines, Mirallas og Barkley með mörkin fyrir okkur 🙂

  6. Orri skrifar:

    Sæll Diddi. Verður þetta í fyrsta skipti sem þú hefur rétt fyrir þér með markaskorarana?

  7. Diddi skrifar:

    Ha, ha, ha Orri, hefur þú ekkert verið á þessum spjallþræði áður? 🙂

  8. Orri skrifar:

    Sæll aftur, Diddi. Eitthvað hef ég komið við hérna. Kanski er minnið að bregðast mér.

  9. Diddi skrifar:

    blessaður Orri, það er ekki víst 🙂

  10. Gestur skrifar:

    Everton hefur verið að einblína á gluggan og gleymdi að undir búa liðið. Spái 0-1 fyrir Aston Villa

  11. Hallur skrifar:

    Mér alveg sama hver eða hverjir skora svo lengi sem menn bæti upp fyrir klúðrið í síðasta leik
    svo á ég afmæli og vill góða gjöf frá minu liði

  12. Finnur skrifar:

    Til hamingju með það, kallinn minn. Vonandi færðu sigur í afmælisgjöf.

  13. Halli skrifar:

    2-0 Jagielka og Pienaar

  14. Finnur skrifar:

    Uppstillingin komin :
    http://everton.is/?p=6669

  15. Ari S skrifar:

    Hvað sagðir þú Elvar? Mirallas með mark ársins? Reyndar skemmir hann svolítið fyrir sjálfum sér því hann hefur skorað svona mark áður hehe