Mynd: Everton FC.
Yfirmaður sjúkraþjálfunar hjá félaginu, Danny Donachie, staðfesti í gær að Oviedo hefði farið í gegnum sérlega vel heppnaða aðgerð við beinbrotinu sem hann hlaut í bikarleiknum gegn Stevenage. Engar beinflísar hefðu brotnað frá við meiðslin sem vill stundum hægja á batanum og hann fékk málmstöng í gegnum tibia beinið þannig að hann ætti að koma sterkur aftur til baka. Garbutt var afturkallaður úr láni sínu hjá Colchester til að fylla í skarð Oviedo, svona til vara ef Baines skyldi meiðast.
Fréttirnar af Lukaku eru öllu verri en við vonuðum því hann meiddist illa á ökkla í leiknum í gær og gæti verið lengi frá, jafnvel til loka tímabils. Martinez sagði jafnframt að hann muni nú skoða möguleikann á að styrkja framlínuna áður en félagaskiptaglugginn lokar á föstudaginn. Uppfært 29.1 kl 15:30: Meiðsli Lukaku eru ekki jafn alvarleg og talið var. Hann verður frá í einhverjar vikur en ekki einhverja mánuði, eins og fyrst var óttast.
Að öðru leyti ekki mikið að frétta annað en það sem fram hefur komið: Barkley, Pienaar, Jagielka, Alcaraz allir komnir aftur úr sínum meiðslum og Distin væntanlega ekki langt undan. Deulofeu ætti að vera orðinn góður fyrir Tottenham leikinn (eftir tvær vikur) og enn óljóst með Coleman — líklega verður hann þó ekki mjög lengi frá, miðað við það sem maður hefur lesið.
Ég tel að Lukaku verði frá í um 5 vikur og ég held að klúbburinn komist ekki hjá því að kaupa framherja nú í Janúar-glugganum. Við megum ekki fá fleiri lánsmenn svo sá kostur er úr stöðunni.
Kone er meiddur út leiktíðina og í raun eini alvöru framherjinn okkar og Traore sem lánsmaður getur ekki einn haldið uppi framlínunni tel ég (amk væri verið að taka stóran séns með því).
Naismith klárlega ekki Everton framherji en menn tala um að Mirallas geti spilað sem framherji enda gert það með sóma með fyrri liðum. Þess má þó geta að Mirallas hefur verið að spila vel á kantinum í undanförnum leikjum og ég held að miðað við meiðsli að þá megum við ekki við því að missa hann af kantinum.
Það er alveg klárt að kominn er tími á að klúbburinn fjárfesti í 20 m punda framherja hvort sem það er gert núna eða í sumar.
Þrátt fyrir ömurlegt tap í gær þá hefur Everton liðið verið að spila skemmtilegan bolta í vetur og komið mörgum á óvart svo það er engin ástæða til að örvænta.
Hvenær lokar annars leikmanna glugginn?
þarna er ég alveg sammála þér , Everton verður að fara að herða sig í að fara að kaupa 20m mann.
Sylvain Distin búinn að semja um árs framlengingu á samningi og verður því á næstu leiktíð með Everton, allt að gerast.
Leikmannaglugginn er opinn út janúar, sem sagt: Föstudagskvöld er síðasti séns. Þetta er ekki langur tími til að bæta við leikmanni/mönnum en það má alltaf reyna.
Coleman verður ekki í leikmannahópi Everton á laugardaginn gegn Aston Villa en er líklegur í næsta leik þar á eftir. Sama má líklega segja um Deulofeu en hugsanlega gæti hann vermt bekkinn um helgina. Distin virðist líklegastur af þeim þremur að geta tekið þátt um helgina, en ef ekki þá eru þessir þrír líklegir til að koma inn um aðra helgi, svo þetta er allt að koma. Barkley náttúrulega kominn til baka svo reikna má með því að hann verði með gegn Aston Villa.
Veit einhver hvernig staðan er á Traore, hann átti við smávægileg meiðsl að stríða en spurning hvenær við fáum að sjá kappann. Hver verður fremsti maður um helgina ef hann er ekki með? Naismith? Grrrr…
Traore er sagður þurfa 1-2 vikur. Naismith Róbertsson er líklegastur, nema kannski hann ákveði að McGeady geti leyst Mirallas á kantinum og setji Mirallas á toppinn.