West Brom vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Everton mætir á The Hawthorns annað kvöld kl. 20:00 en þetta er síðasti leikur 22. umferðar þar sem Everton mætir West Brom. Með sigri getur Everton tekið fjórða sætið af Liverpool, sem væri óskastaðan fyrir derby leikinn sem er á Anfield eftir rúma viku.

Það eru töluverðar hræringar í gangi hjá West Brom því þeir ráku stjóra sinn og réðu nýjan á dögunum (Pepe Mel). Sá nýi á í töluverðum vandræðum með framlínu sína, þar sem Shane Long var á dögunum seldur til Hull. Aðrir úr framlínu hans, Anichebe og Sessegnon, eru jafnframt tæpir. Berahino er sá eini í liðinu sem hefur skorað meira en 2 mörk fyrir þá. Með sölunni á Long eru annar af þeim tveimur sóknarmönnum sem skoruðu 30 af 53 mörkum þeirra allt síðasta tímabil farnir annað. Hinn mætir þó á The Hawthorns á morgun en spilar nú með Everton, þeas. Lukaku. Það á eftir að koma í ljós hversu mikinn kraft West Brom fá með nýja stjóranum en það hefur örugglega ekki verið óskastaða hans að mæta Everton í fyrsta leik, sem hafa náð sinni hæsta stigafjölda 21 leik síðustu 30 og fimm ár! Það er reyndar merkilegt til þess að hugsa að Everton varð enskur meistari tímabilin 84/85 og 86/87 með *færri* stig eftir 21 leik heldur en nú.

Distin er sagður heill af sínum meiðslum þannig að líklega stillir Martinez upp sömu baklínunni og í byrjun móts enda hefur hún gefist afar vel: ekkert lið hefur fengið færri mörk á sig af öllum liðunum í deildinni. Nýi leikmaðurinn, Aiden McGeady, er í hópnum en ólíklegt er að hann fái nema í mesta lagi örfáar mínútur í lokin þar sem hann er ekki í leikæfingu. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman, Pienaar og Mirallas á köntunum, Barry og McCarthy á miðjunni, Osman fyrir aftan fremsta mann: Eddie Murphy… ég meina Lukaku (hann ku hafa rakað af sér dreadlock-ana þannig að ég þekkti hann ekki, sjá mynd).

Sá orðrómur gerist æ háværari að sóknarmaðurinn Lacina Traore sé á leið til Everton, mögulega að láni. Traore var fyrir ekki svo löngu sagður á leið til Liverpool fyrir tæpar 10M punda (frá rússneska félaginu Anzhi Makhachkala) en hann ákvað að vera um kyrrt og var svo seldur til Monaco. Þeir hjá Monaco ákváðu að hann myndi ekki í bráð slá út úr liðinu menn á borð við hinn 50M punda Falcao þannig að hann var allt í einu á lausu. Upphaflega var talað um að hann væri að fara til West Ham en það breyttist á síðustu stundu. Traore er stór og stæðilegur sóknarmaður (2 metrar og 3 cm) og hefur verið duglegur að skora með síðustu tveimur liðum sínum. Það á náttúrulega eftir að koma í ljós hvort fótur sé fyrir þessu en þeir hjá NSNO náðu mynd af Traore að reyna að lauma sér inn á æfingasvæði Everton. Það segir reyndar ákveðna sögu að þau hjá BBC eru farnir að flytja fréttir af því að þetta sé að bresta á, en yfirleitt eru þau íhaldssöm í umfjöllun sinni um félagsskiptaorðróma.

Í öðrum fréttum er það helst að Barry segist vilja skrifa undir samning hjá Everton þegar lánssamningi hans frá City lýkur (í sumar) en það ætti að vera okkur miklar gleðifregnir því hann hefur staðið sig algjörlega frábærlega frá því hann kom. Barry sagði einnig í viðtali að það hefði verið samtal við Martinez sem hann átti á heimili sínu sem hefði gefið sér sjálfstraust aftur (eftir að hafa verið hent til hliðar hjá City) og sannfært sig um að það væri rétt ákvörðun að fara til Everton.

Bakverðirnir okkar voru nokkuð í fréttunum líka, því Coleman var orðaður við United og Arsenal, ef ég man rétt, sem ég flokka strax undir hugaróra breskra blaðamanna sem eru einfaldlega að reyna að selja fleiri eintök. Martinez sagði þó að það væri forgangsatriði að semja við Baines. Skulum vona að það gangi eftir.

Og í lokin víkjum við að ungliðunum en hægt er að sjá vídeó-útdrátt hér af 4-3 Youth Cup bikarsigri Everton U18 ára liðsins gegn Birmingham U18. Ég verð reyndar að viðurkenna að því meira sem ég sé af George Green því spenntari verð ég að sjá hann spila með aðalliðinu, en hann skoraði tvö glæsimörk í leiknum. U18 ára liðið náði þó ekki að fylgja þeim sigri eftir því næsti leikur tapaðist 2-0 á útivelli gegn Bolton U18.

En nóg um það. West Brom annað kvöld. Hver er ykkar spá?

11 Athugasemdir

  1. Gunni D skrifar:

    Sælir félagar.Nú verður Lukaku í stuði. Miklu léttari á sér með nýju klippinguna. Setur þrjú. Nenni ekki að bíða eftir því lengur. Nei án gríns, þá held ég að okkar menn verði allir í stuði annað kvöld og taki þetta 4-0. Verður fílabeinsrisinn ekki bara kynntur til sögunnar fyrir leik? Vona það svo innilega.Lukku Láki verður að fara að fá smá samkeppni. Góðar stundir.

  2. Halli skrifar:

    Ég spái 3-1 allan tímann mjög öruggt enda 4 sætið í boði. Osman, Oviedo og Lukaku með mörkin.

  3. Finnur skrifar:

    Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Í heimaleik Everton gegn þeim parkereðu WB menn rútunni fyrir framan markið. Við áttum 20 og eina tilraun, með 8 skot á markið (WB með tvö) en Foster í marki West Brom átti leik lífs síns og tryggði þeim mjög ósanngjarnt 0-0 jafntefli. Það er vonandi að þeir sækji meira á eigin heimavelli, sérstaklega undir stjórn Spánverjans Pepe Mel.

    Þeir hafa ekki unnið leik síðan í byrjun nóvember, ef nýlegur sigurleikur gegn Newcastle er frá talinn. Ég ætla samt að spá því að að þetta verði erfitt en við höfum þetta í lokin: Olsson hjá þeim með sitt annað gula spjald seint í leiknum og Everton vinnur 0-1. Baines með markið!

  4. Sigurbjörn skrifar:

    Þýðir ekkert annað en vera bjartsýnn þrátt fyrir að mér finnist við alltaf vera í ströggli á þesum velli. Spái 2-0. Mjög spennandi að sjá hver lendinginn verður með nýjan sóknarmann. Martinez segir að með komu McGeady þá hafi hann fleiri möguleika með uppstillingu í sókninni og nefnir Mirallas og Naismith þannig að hann virðist ekkert vera neitt sérstaklega stressaður þó Jelavic sé farinn. Það er þó alltaf gaman að fá nýja sterka leikmenn og það sem maður hefur séð af Traore þá virkar hann öflugur. Spurningin er bara hvort Martinez geti lofað honum einhverjum spilatíma. Ef hann kemur að láni þá hljóta bæði hann og Monaco að ætlast til að hann spili talsvert fram á vorið.

  5. Finnur skrifar:

    Sky Sports bentu á að varnarlína Everton hefur skorað 10 mörk á tímabilinu, sem er jafn mikið og öll sóknarlína West Brom — og meira en sóknarmenn 10 annarra liða.

  6. Teddi skrifar:

    Vinnum þetta 1-2. Lukaku og Baines skora.

  7. Diddi skrifar:

    ég er svolítið hræddur við þennan leik vegna þess að það er oft erfitt að fást við lið sem er að spila í fyrsta sinn undir nýjum stjóra, en við erum með gríðarlega sterkt lið og ættum að vinna þetta. Ég segi 0 – 5 og sá nýklippti (Grace Jones sýndist mér í gær á mynd) með 2 og Coleman 1, McGeady með debut mark og verður Gerard ekki með og setur eitt 🙂 sem sagt mjög hræddur 🙂

  8. Finnur skrifar:

    Já, ég sé að þú ert skjálfandi á beinunum! 🙂

  9. Diddi skrifar:

    sennilega skora þeir nú eitt mark, er ekki helvítið hann Anelka með þeim, er hann ekki búinn að skora gegn Everton með öllum ensku liðunum sem hann hefur verið með. Það helvíti 🙂

  10. Finnur skrifar:

    Mikið rétt. Minnir að ég hafi lesið einhvers staðar að ef hann skori setji hann met í fjölda klúbba sem hann hefur skorað með gegn einu og sama liðinu. Man ekki hvar ég las það.

  11. Finnur skrifar:

    Everton hitaði upp fyrir leikinn með stuttu vídeói þar sem Ronnie Goodlass og Darren Griffiths spjölluðu saman um hvað væri í vændum.
    http://www.youtube.com/watch?v=sMOq3tVlr8w

    Tveir tímar í leik.