Everton vs. QPR

Mynd: Everton FC.

Everton fékk heimaleik gegn QPR í 3. umferð FA bikarsins og verður sá leikur spilaður í dag kl. 15:00. Stjóri okkar manna, Martinez, á margar góðar minningar úr þessari keppni en hann er ekki bara núverandi bikarmeistari heldur var hann á sínum tíma fyrsti Spánverjinn til að skora í þessari keppni. Jafnframt vill svo skemmtilega til að í hópnum núna eru ansi margir sem léku úrslitaleikinn í fyrra, eins og: Gareth Barry, James McCarthy, Antolin Alcaraz, Joel Robles og Arouna Kone.

QPR eru sem stendur í 3. sæti Championship deildarinnar (enska B deildin), í svokölluðu play-off sæti en þá vantar aðeins eitt stig og tveggja marka betra markahlutfalli til að ná öðru sætinu. Það er helst útileikjaformið hjá þeim sem kemur í veg fyrir að þeir séu hærra í deildinni en þeir hafa aðeins unnið einn af síðustu átta í deild. Þeir voru í fantaformi í byrjun tímabils en hafa síðan dalað. Þeir léku nú síðast við (og unnu reyndar) Doncaster, sem eru í fallsæti, en það var jafnframt fyrsti sigurleikur þeirra í síðustu fjórum leikjum. Þeir fengu til sín sóknarmann í sumar, Charlie Austin, sem er þeirra helsta uppspretta marka en hann hefur strax skorað 12 mörk fyrir þá. Síðast þegar þessi lið mættust á Goodison, undir lok síðasta tímabils, fóru Everton með sigur af hólmi, 2-0 með mörkum frá Gibson og Anichebe.

Hópurinn er óbreyttur frá síðasta leik: Distin og Jagielka eru enn frá þannig að Alcaraz og Stones halda líklega áfram sínu striki. Spurning er hvort Robles fái séns í markinu og ekki ólíklegt að Jelavic fái tækifæri til að láta ljós sitt skína í framlínunni og sýna væntanlegum kaupendum hvað hann geti.

Birt var á Barkley’s Premier League síðunni lið ársins árið 2013 og þar má finna hvorki meira né minna en fjóra Everton menn! Fjögur önnur lið náðu inn manni en ekkert þeirra náði fleiri en tveimur leikmönnum inn. Leikmenn okkar fjórir eru Howard, Baines, Jagielka og Coleman. The Echo tímaritið valdi sömu menn í Merseyside lið ársins 2013 og Distin og Mirallas að auki!

Í öðrum fréttum er það helst að Heitinga fór til West Ham að skoða sig um, með það fyrir augum að semja við þá. Þegar að því kom var hann þó ekki tilbúinn að skrifa undir og er því mættur aftur á Finch Farm til æfinga. Ekkert hefur frést meira af Jelavic en Martinez var búinn að segja fyrir nokkru að tvö tilboð hefðu borist í hann og hann ítrekaði það á blaðamannafundi að öll tilboð í hann yrðu skoðuð. Hann var jafnframt spurður hvort Everton gæti staðist 50M punda tilboð í Barkley frá United og svaraði að slíkur lánssamningur myndi ekki eiga upp á pallborðið hjá sér!! 🙂

Í lokin má geta þess að Everton lánaði þrjá ungliða á dögunum en Hallam Hope fór til Northampton, Matthew Pennington til Tranmere og lánið á John Lundstram hjá Yeovil var framlengt til loka tímabils.

Leikurinn við QPR er ekki sýndur í beinni (Rochdale – Leeds varð fyrir valinu). En hver er ykkar spá?

4 Athugasemdir

 1. Halli skrifar:

  Ég væri til í að fara til London í lok Apríl eða byrjun Maí á Bikarúrslit. ég spái 2-0 Alcaras og mirallas með mörkin

 2. Baddi skrifar:

  Er mæting upp a Blastein ? Kv Baddi

 3. þorri skrifar:

  hvar er blásteinn

 4. Finnur skrifar:

  Það er frjáls mæting. Ég næ ekki leiknum, er tvíbókaður.