Swansea vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Á sunnudaginn kl. 16:00 eigast við Swansea og Everton á heimavelli þeirra fyrrnefndu. Varla þarf að fjölyrða um árangur Everton hingað til, sem hafa átt mjög góða byrjun og sitja nú í 5. sæti, aðeins fjórum stigum á eftir liðinu í efsta sæti. Swansea eru, eins og er, í 10. sæti með 20 stig eftir 16 leiki en þeir hafa aðeins unnið einn leik af fimm í öllum keppnum síðustu tvo mánuðina í röð. Þeir hafa jafnframt átt nokkuð erfitt uppdráttar á heimavelli: tap gegn United og Arsenal, jafntefli gegn Hull, Stoke, West Ham og Liverpool en einu sigrarnir sem glöddu stuðningsmenn þeirra í deildinni á heimavelli voru gegn Sunderland og Newcastle. Ekki hjálpar það að Nathan Dyer meiddist í jafnteflisleik við Norwich á dögunum.

Það bárust nokkuð misvísandi fréttir af meiðslum Deulofeu en hann náði sér í skarð í lærvöðva í leiknum gegn Fulham. Forsprakkar Everton sögðu fyrst að meiðslin væru ekki jafn slæm og fyrst var óttast — allt að 5 vikur. En læknateymi Barcelona skoðaði hann líka og mat þeirra var nær tveimur mánuðum. Hvort heldur sem er þá sagði Martinez að þeir myndu fara sér að engu óðslega að gera hann kláran í næsta leik. Þetta er að sjálfsögðu skarð fyrir skildi þar sem hann var rétt að venjast ensku deildinni og við það að brjóta sér leið í aðalliðið enda hafði hann sýnt hversu hann var megnugur, sérstaklega í lok leiks þar sem hann lék sér oft að þreyttum varnarmönnum andstæðinganna.

Það reynir því áfram á Mirallas, sem kom sterkur inn á móti Fulham eftir hvíldina, en Martinez sagði honum fyrir þann leik að Mirallas ætti eftir að spila síðustu 30 mínúturnar og skora mark, sem var nákvæmlega það sem hann og gerði. Martinez sagði einnig að Baines gæti verið orðinn heill fyrir jólavertíðina, sem er fyrr en áætlað var. Það er þó spurning hvort hann komist í liðið aftur eftir frammistöðu Oviedo í síðustu leikjum! 🙂

McCarthy er einnig með Fulham leiknum búinn að taka út eins leiks bann en Barry, Barkley og Howard eru allir einu spjaldi frá því að fara í bann. Þeir þurfa að ná að forðast fleiri spjöld fram að áramótum en þá núllstillist talan. Klúbburinn notaði þetta tækifæri og ræddi við Jagielka en fyrirliðinn fer fyrir sínum mönnum með góðu fordæmi (í þessu sem öðru) en hann hefur aðeins fengið tvö rauð spjöld á ferlinum (bæði fékk hann með Sheffield United). Hann hefur jafnframt aðeins fengið 11 gul spjöld á 6 ára ferli sínum hjá Everton! Félagi hans í vörninni, Distin, er jafnframt aðeins með tvö gul spjöld á tímabilinu þannig að saman eru þeir eitthvert háttvísasta miðvarðaparið í deildinni.

Og fyrst McCarthy var nefndur hér að ofan er rétt að minnast einnig á að hann var valinn leikmaður nóvembermánaðar en Martinez er strax farinn að tala um hann sem fyrirliða framtíðarinnar. McCarthy komst nýlega yfir 250 leikja múrinn (með félagsliðum) þrátt fyrir að vera aðeins 23ja ára að aldri og Martinez sagði hann ótrúlega þroskaðan leikmann miðað við aldur.

Tim Howard var einnig verðlaunaður á dögunum en hann var valinn landsliðsmarkvörður CONCACAF fyrir árið 2013 eftir að hafa haldið hreinu í fjórum af fimm leikjum í undankeppni HM. Hann hefur einnig vakið athygli fyrir frábæra frammistöðu sína í ensku deildinni, en hann hefur haldið hreinu í átta leikjum í deild og aðeins einn (Jussi Jaaskelainen hjá West Ham) hefur náð jafn mörgum. Það er ljóst að það hefur kveikt verulega undir honum að fá nýjan stjóra og hefur verið magnað að fylgjast með honum hafa ekkert að gera lungað úr leik og verja svo frábærlega tvö dauðafæri í röð. Það þarf ansi góða einbeitingu í það.

Líkleg uppstilling í leiknum við Swansea: Howard, Oviedo, Distin, Jagielka Coleman, Pienaar og Mirallas á köntunum, Barry og McCarthy á miðjunni, Barkley fyrir aftan Lukaku frammi.

Lánsmarkaðurinn hefur verið nokkuð á milli tannanna á fólki á tímabilinu en Martinez minntist á að Everton væri orðið heitur áfangastaður fyrir lið að senda sína bestu ungu leikmenn. Eftir að stjórar annarra liða hafa horft á Deulofeu og Lukaku standa sig vel með Everton hafa þeir hugsað sér gott til glóðarinnar og að nokkrir stjórar klúbba utan Englands hafi þegar þegar haft samband fyrir næsta tímabil. Executioner’s Bong greindi árangur Everton á lánsmarkaðnum undanfarið, bæði á núverandi sem og á fyrrverandi tímabilum. Ágætis lesning þar.

Í öðrum fréttum er það helst að U18 ára liðið tapaði fyrir Sunderland U18, 1-3, en George Green skoraði í þeim leik enn eitt markið fyrir Everton. Einnig virðist Heitinga (ennþá) á leiðinni frá félaginu en hann er kominn yfir þrítugt og vill örugglega komast að hjá liði þar sem hann fengi að spila reglulega svo hann eigi möguleika á að spila með Hollendingum á HM. Það tækifæri hefur hann ekki fengið undir Martinez og því kannski rétt að losa sig við hann af launaskrá.

Hver er ykkar spá fyrir leikinn á sunnudaginn?

11 Athugasemdir

  1. Gunni D skrifar:

    Það væri náttúrulega frábært að taka þrjú stig úr þessum leik og resta svo árið með tveimur heimasigrum.En það er kannski bara græðgi.En nú er lag að vinna á liðin fyrir ofan okkur, þau spila mikið innbyrðis fram að áramótum. Annað eða þriðja sætið á nýju ári er alveg raunhæft með lukkudísirnar í liði með okkur. Tökum svo seinni helminginn með trompi eins og undanfarin ár. Gleðileg jól.

  2. Finnur skrifar:

    Mikið rétt, Gunni. Það væri frábært að enda árið í Champions League sæti, sérstaklega þar sem Everton endar tímabilin yfirleitt með stæl.

    Hér eru líka tvær skemmtilegar greinar úr Echo:

    Howard Kendall segir að þetta sé sterkasta Everton liðið sem hann hafi séð mjög lengi:
    http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/howard-kendall-legendary-blue-everton-6434861

    Einnig hrósaði Leon Britton (leikmaður Swansea) Martinez mikið og sagði að Martinez væri búinn að hjálpa Everton að taka næsta skrefið uppávið, og væri þar fátt sem hefði komið honum á óvart:
    http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/i-knew-martinez-would-hit-6433721

  3. Orri skrifar:

    Nú held ég að okkar menn komi dýrvitlausir til leiks á morgun.Ég held að við komum til með að vinna nokkuð öruglega í þessum leik.Ég læt öðrum um að giska markatöluna.

  4. Halli skrifar:

    Jæja þá er blessuð jólatörnin að hefjast hjá okkar mönnum. Fyrirfram eru þetta kannski ekki erfiðustu leikirnir allt lið um eða neðan við miðja deild en leikirnir í EPL eru ekki auðveldir 4 leikir á 11 dögum 12 stig í boði og við tökum þau öll engin pressa. Við byrjum þetta á Swansea á útivelli mér finnst þeir ekki eins sannfærandi og undanfarin ár Michu hefur ekki verið áberandi.
    Eigum við að setja tölu á þetta 0-1 Lukaku

    Sjáumst á ölver

    Kv Halli

  5. Diddi skrifar:

    það sem er að herja á Swansea er að þeir hafa verið í Evrópudeildinni með lítinn hóp leikmanna sem hafa þess vegna verið undir miklu leikjaálagi, það kemur okkur til góða í þessum leik og ég segi að við vinnum þetta 1-3.
    Gleðileg jól félagar !!

  6. Finnur skrifar:

    Þegar markaskorarinn Michu hjá Swansea er farinn að tala um að Iago Aspas sé lausn vanda þeirra, þá hlýtur útlitið að vera svart hjá þeim. 🙂

    Þetta eru annars allt leikir sem eiga að gefa okkur þrjú stig sem gerir mann alltaf pínulítið stressaðan. 9-10 stig úr næstu fjórum væri mjög góður árangur.

    Hvað Swansea varðar hefur Everton mætt þeim 17 sinnum frá upphafi og aldrei tapað (að öllum keppnum meðtöldum): 12 sigrar og 5 jafntefli. Merkileg staðreynd. Síðustu fjórir leikir (síðustu tvö tímabil) hafa verið svipuð: 3 sigrar, 1 jafntefli og markatalan 6-0 Everton í vil. Everton virðist vera nýtt „bogey lið“ þeirra, líkt og Sunderland sem Everton fær í heimsókn þann þriðja í jólum.

    Það er erfitt að vera annað en bjartsýnn fyrir leikinn á morgun — sem er náttúrulega stórhættulegt, eins og sagan (undir Moyes allavega) sýnir. Ég ætla að spá 0-2 sigri — Jagielka og McCarthy með mörkin.

  7. Diddi skrifar:

    rétt að bæta því við að ég hreinlega ætlast til þess að Martinez gefi Jelavic séns ca. 20 mín. til að skora eitt mark og hrista af sér slenið og koma flottur inn í seinni hluta tímabilsins, hef ennþá trú á þeim leikmanni og væri synd að missa hann 🙂

  8. Gunnþór skrifar:

    0-5 fyrir Everton

    • Halli skrifar:

      Gunnþór ertu nokkuð að fá þér en ég er til í þennan sigur hverjir skora

  9. Elvar Örn skrifar:

    Ef Everton vinnur Swansea og Arsenal og Chelsea gera jafntefli á morgun þá er komin upp svakaleg staða efstu liða í deildinni. Everton yrði áfram í 5 sæti en bara 2 stigum frá efsta sæti. Arsenal og Liverpool yrðu efst með 36, City með 35, Chelsea og Everton með 34 og næst lið með bara 30 stig. Er þetta ekki drauma staðan fyrir næstu umferð?
    Verst að öll liðin fyrir ofan okkur hafi unnið fyrir utan leikinn á morgun þar sem einhver missir stig.

    Aðal málið er að vinna Swansea í dag 🙂