Everton vs. Stoke

Mynd: Everton FC.

Derby leikurinn um helgina var áberandi í fjölmiðlum á síðustu dögum enda bráðfjörugur og skemmtilegur leikur. Það var með ólíkindum að Everton skyldi ekki vinna þann leik eftir öll dauðafærin einn á móti markverði en ef liðið ætlar að taka skrefið fram á við og komast í hóp Champions League liða þá verður einfaldlega að nýta þessi færi. Liðið er nógu gott, eins og sást þar sem Liverpool áttu ekki skot á mark í fyrri hálfleik þegar föst leikatriði eru frátalin. Tækling Mirallas var títtnefnd (réttilega) en Mirallas bað Suarez afsökunar (um það leyti þegar læknateymi Liverpool var að röfla í dómaranum í stað þess að sinna Suarez). Ég gapti þó þegar ég heyrði Brendan Rodgers spyrja eftir leik „hvað dómarinn hefði gert ef Suarez hefði tekið svona Mirallas tæklingu?“ — Svarið var að finna í síðasta leik þegar Suarez tók tvær ljótar tæklingar á leikmenn Everton — og önnur þeirra var verri en tækling Mirallas — en hann slapp með eitt gult spjald. Mér þætti þó fróðlegt að vita hvort Suarez hefði nokkurn tímann beðið Distin og Mirallas afsökunar fyrir þær tæklingar. Ef svo er þá hefur það alveg farið framhjá mér.

Lukaku sagði í viðtali eftir leikinn að derby leikurinn hefði verið besta upplifun hans með félagsliði (allavega í deildinni) frá upphafi en kannski rétt að minna hann á að hann þarf bara að skrifa undir hjá Everton til að upplifa þetta tvisvar á ári.

Tengsl Roberto Martinez við Liverpool voru að sjálfsögðu rifjuð upp í tilefni af derby leiknum (þar sem hann var orðaður við stjórastöðuna þar) en hann sagði að hann hefði ekki haft nógu góða tilfinningu fyrir því starfi. Martinez sagði jafnframt: „The feel we have at [Everton] and the way I am allowed to work here feels right to me. It allows you to work“. Og fyrst Martinez bar á góma…

Martinez (sem eignaðist stúlkubarn daginn fyrir derby leikinn — til hamingju!) lét hafa það eftir sér að 70 stig séu markmið Everton í ár. Ef litið er á lokastöðu síðustu tímabila hefðu 70 stig í fyrra ekki breytt neinu um endanlegt sæti Everton það tímabilið en hefði gefið sæti í umspili fyrir meistaradeild næstu tvö ár þar á undan (og mögulega árið þar á undan líka, ef markatala hefði verið hagstæð). Það vantar þó herslumuninn nú til að það gangi eftir (ef marka má leikina hingað til) því að ef árangurinn verður svipaður endar liðið með ca. 67 stig. En, það má einnig líta svo á að það þarf ekki mikið að breytast til að ná því takmarki.

Það setur þó óneitanlega strik í reikninginn að Baines meiddist eftir tæklingu Liverpool manns í derby leiknum en röntgenmyndir sýndu sprungu í beini (e. fracture) og verður hann frá í minnst 10 daga en allt að 6 vikur. Baines er vissulega ekki jafn mikill burðarás í liðinu og hann var undir Moyes en hann er samt heimsklassa vinstri bakvörður sem við eigum eftir að koma til með að sakna. Það er þó erfitt að segja til um hvort þetta minnki líkurnar á því að hann fari frá okkur í janúarglugganum (eins og slúðrið vill meina, enn eitt árið í röð) en hér er allavega komið frábært tækifæri fyrir Oviedo til að sýna hvað hann getur. Hann hefur komið skemmtilega á óvart í þeim leikjum sem ég hef séð hann en mig grunar að hann sé ekki í nægilega góðri leikæfingu í augnablikinu.

Þær fréttir bárust einnig að Alcaraz og Hibbert væru farnir að spila með varaliðinu og John Stones fékk hálfleik líka en það er mikilvægt að þessir varnarmenn allir komist í form því það eru 10 leikir á næstu 6 vikum og þarf sem flesta heila í það verkefni (sérstaklega með Baines meiddan).

En þá að Stoke sem Everton á leik við á Goodison Park á laugardaginn kl. 15:00.  Stoke menn voru óheppnir að tapa á móti Liverpool í fyrsta leik tímabilsins en unnu svo bæði Crystal Palace og West Ham. Árangurinn í næstu átta leikjum á eftir var hins vegar afleitur: fjögur stig af 24 mögulegum. Þeir unnu reyndar Sunderland um síðustu helgi en ég sé ekki betur en að dómarinn, Kevin Friend (sem við höfum oft glímt við), hafi eyðilagt þann leik með því að reka leikmann Sunderland af velli fyrir litlar sakir.

Enginn nýr bættist á sjúkralistann fyrir utan Baines (fyrir voru Gibson og Kone) þannig að uppstillingin verður væntanlega: Howard, Oviedo, Distin, Jagielka, Coleman, Pienaar og Mirallas á köntunum, Barry og McCarthy á miðjunni, Barkley fyrir aftan Lukaku frammi.

Everton tók fjögur stig af Stoke á síðasta tímabili en þeir eru nú með nýjan stjóra (Mark Hughes) sem er að reyna að breyta þeirra leikstíl frá þeim hundleiðinlega bolta sem Tony Pulis spilaði.

Klúbburinn rifjaði upp nokkra skemmtilega sigurleiki gegn Stoke undanfarið, samanber árið 2008 (sjá vídeó), 2009 (vídeó) og 2010 (vídeó) — og hver getur gleymt markinu sem Mirallas skoraði gegn þeim á síðasta tímabili (vídeó).

En þá að öðru: Jagielka var kjörinn leikmaður októbermánaðar af klúbbnum en hann spilaði lykilhlutverk í tveimur sigrum, gegn Hull og Aston Villa.

Everton U18 ára liðið sigraði Liverpool U18 3-1 á Finch Farm á þriðjudaginn síðastliðinn. Everton komst í 3-0 eftir um klukkutíma leik með mörkum frá Ryan Ledson, George Green og Courtney Duffus en Everton missti svo mann út af á 58. mínútu. Það tók þó Liverpool rúmar 20 mínútur að klóra aðeins í bakkann með marki á 82. mínútu (mark úr víti), þó þeir væru manni fleiri lungað úr hálfleiknum. Kevin Sheedy var kátur með ungliðana í viðtali eftir leikinn.

Everton in the Community heldur áfram að raka inn verðlaunum en forsætisráðherrann David Cameron tilkynnti að samtökin fengju Big Society Awards fyrir árið 2013.

Og að lokum má geta þess að hinn 19 ára miðjumaður, John Lundstram, er farinn að láni til Yeovil og verður fram yfir áramót. Hann hefur staðið sig frábærlega með U21 árs liði Everton og vonandi nær hann að nýta þetta tækifæri til að sýna að hann eigi erindi í aðalliðið áður en langt um líður.

En, Stoke á laugardaginn. Hver er ykkar spá?

8 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    2-0 halda hreinu og vinna leik eftir öll þessi jafntefli Barkley og Distan með mörkin

  2. Orri skrifar:

    Ég vonast eftir sigri í þessum leik.Ég er ákavlega pirraður á öllum þessum jafnteflum á móti liðunum fyrir neðan okkur á töfluni.Er ekki rétt að skjóta á 3-0 fyrir okkur.

  3. Gestur skrifar:

    það væri flott að fá sigur í þessum leik. Vona að þessi flotta spilamennska haldi áfram ekki detta niður á plan andstæðingana. Spái 2-0 Oviedo og McCarthy

  4. Finnur skrifar:

    Lukaku var í viðtali hjá BBC og ræddi um það að lánsamningur við Everton hefði verið það besta í stöðunni hvað feril hans varðar:
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/25156907

    Stuttu síðar heyrðist frá Mourinho, stjóra Chelsea, og ég get ekki betur séð en að hann sé eitthvað pirraður út í drenginn:
    http://www.mbl.is/sport/enski/2013/11/29/lukaku_aetti_ad_utskyra_hvers_vegna_hann_er_hja_eve/

    Ég er allavega farinn að ná í poppkornið því að þetta lítur spennandi út. 🙂

  5. Finnur skrifar:

    Sápuóperan heldur áfram: Lukaku sagði í viðtali að ef Everton næði í Champions League sæti myndi hann skoða þann möguleika að gerast leikmaður Everton.
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/25158153
    Leikmenn Everton þurfa varla hvatningu til að ná svo langt en það sakar ekki að stækka gulrótina sem danglað er fyrir framan leikmennina. 🙂

    Hér er einnig skemmtileg greining frá Savage um það hvernig Everton nær því besta út úr Lukaku (greinin er frá því í október en fjallar um ýmislegt annað skemmtilegt líka).
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/24339775

  6. þorri skrifar:

    Sælir félagar. Með svona góðri spilamennsku eins og gegn Liverpool þá held ég að við vinnum Stoke á laugardaginn.

  7. Ari S skrifar:

    Já þetta er skrýtin fýla í Mourinho að rífast svona við Lukaku. Var að hugsa það í dag þegar ég sá þessa grein á mbl.is.

    Móri er útsmoginn, kannski er hann sjálfur að leggja plan fyrir að Lukaku verði seldur til okkar strax í jan. Það kæmi mér ekki á óvart.

    Ég var á bar á Spáni haustið 2008 í 2-3 sigri Everton á Stoke. Man vel eftir þeim degi, ég spái sigri hjá okkar mönnum gegn Stoke….. segjum 2-0.

  8. Elvar Örn skrifar:

    Ég held að LANDON DONOVAN sé á leiðinni til EVERTON í fricking Janúar, eigum við að ræða það eitthvað?

    http://www.mbl.is/sport/korfubolti/2013/11/30/landon_donovan_eg_sakna_everton/
    (áhugavert að greinin er flokkuð undir körfubolta, hehe.

    En best að hafa þetta frá SkySports líka sem nokkuð áreiðanlegur miðill:
    http://www1.skysports.com/football/news/11671/9049636?

    Ég held að Martinez hafi hellings pening til að eyða í Janúar ef marka má fréttir, spurning hvar við þurfum að styrkja okkur helst?