Everton – Liverpool 3-3

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Liverpool í bráðskemmtilegum derby leik í dag sem var algjör tilfinninga-rússíbani frá upphafi til enda en þetta er líklega einn skemmtilegasti derby leikurinn sem ég hef horft á þó maður sé vissulega svekktur yfir því að sjá Everton fara svona illa með fjölmörg algjör dauðafæri sem og að ná ekki að halda stöðunni 3-2 nokkrum mínútum lengur.

Derby uppstillingin: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Pienaar, Mirallas, Barkley, Lukaku. Sem sagt, okkar sterkasta lið.

Það hefur oft loðað við Everton að koma illa stemmt í derby leikina undanfarin ár (undir Moyes) en það var sko aldeilis ekki raunin í þetta skiptið. Everton byrjaði leikinn af krafti og sýndu mun meiri ákefð, héldu boltanum vel og „settluðu“ sig betur inn í leikinn. Létu boltann ganga manna á milli og leituðu stöðugt að glufum. Lítið að gaufa með boltann.

Það vakti nokkra undrun að sjá Flanagan í vinstri bakverðinum hjá Liverpool en eini Liverpool maðurinn í herberginu (sem sat innan um 20 Everton menn og konur) sagði að þeir gætu alveg eins verið með umferðarkeilu inni á vellinum í stað Flanagan og uppskar nokkurn hlátur fyrir vikið. Ég hefði reyndar vilja sjá Everton sækja mun meira upp hægkari kantinn því þeir Barkely og Mirallas sneru honum auðveldlega á röngunni þegar þeir reyndu.

Þrátt fyrir sterka byrjun Everton náðu Liverpool marki gegn gangi leiksins úr föstu leikatriði strax á fjórðu mínútu. Það slökknaði nefnilega á Barkley sem var að dekka Coutinho á nærstöng og leyfði honum að hlaupa einsömlum hálfhring inni í vítateig yfir á fjærstöng og pota boltanum framhjá Howard þegar boltinn barst þangað. 0-1 fyrir Liverpool.

En Everton hélt áfram að sækja, eins og allan leikinn, og uppskar loks verðskuldað mark aðeins 5 mínútum síðar (á 9. mínútu). Markið kom upp úr aukaspyrnu Baines af löng færi, sem sendi inn í teig. Skoppa/Skrýtla (man ekki hvor) með stoðsendingu (skalla) á Mirallas sem var mættur fremstur (ekki rangstæður en með Gerrard í eftirdragi) og skoraði auðveldlega framhjá Mignolet upp í þaknetið. Staðan orðin 1-1 og manni mikið létt.

Þremur mínútum síðar átti Everton að bæta við marki þegar Pienaar sendi súperflotta stungusendingu af eigin vallarhelmingi inn fyrir vörn Liverpool þar sem Lukaku kom á hlaupinu og komst einn á móti markverði. En því miður bjargaði Mignolet þeim, eins og hann átti eftir að gera margoft í leiknum úr algjörum dauðafærum og Liverpool mátti þakka honum kærlega fyrir að lenda ekki mörgum mörkum undir í leiknum.

Everton hafði áfram yfirburðina í leiknum, Suarez sást varla fyrstu 20 mínúturnar og Everton með boltann 59% á móti 41% hjá Liverpool þann tíma, skv. tölfræði í útsendingu. En aftur skoraði Liverpool gegn gangi leiksins, fengu aukaspyrnu utan teigs á 18. mínútu og Pienaar ákvað einhverra hluta vegna að standa svolítið til hliðar við vegginn, sem gaf Suarez nægilega mikið pláss til að sveigja boltann hægra megin við vegginn og rétt innfyrir stöngina hægra megin.

Miðað við spilamennskuna fram að þeim tíma var staðan 1-2 rán um hábjartan dag því það kom ekkert úr Liverpool sókninni nema upp úr föstum leikatriðum. Þetta voru einu skotin sem rötuðu á mark Everton til langs tíma í leiknum.

Barkley var næstum búinn að svara strax með frábæru skoti frá vítateigshorninu vinstra megin — reyndi skot á fjærstöngina en Mignolet kom þeim til bjargar með því að slá boltann í horn (var á leiðina í stöngina og inn).

Á 25 mínútu labbar Mirallas einfaldlega framhjá Flanagan en skot hans hárfínt framhjá. Barkley átti svo skot á 28. mínútu en yfir. Everton greinilega staðráðnir í að jafna.

Á 34. mínútu var Mirallas stálheppinn að sleppa með gult eftir ljóta tæklingu á Suarez. Þetta var ljótt brot hjá honum, takkar í hnéð og á ekki að sjást; verðskuldaði rautt en dómarinn Phil Dowd sá ekki ástæðu til að kasta honum út af. Mig grunar að Mirallas hafi verið að launa Suarez greiðann úr síðasta leik (sem Suarez mætti í á Goodison), þegar Suarez tæklaði hann svo illa að Mirallas fór meiddur út af og var frá í margar vikur. Kannski rétt að benda á, ef einhver er að tapa sér yfir rauða spjaldinu, að Suarez reyndi að ökklabrjóta Distin í áðurnefndum leik og slapp við rautt, þannig að kannski er tölfræðin að jafnast, eins og fólk heldur stundum fram.

Pienaar átti stungusendingu á Mirallas á 40. mínútu en miðvörðurinn rétt náði að redda þeim og sparka boltanum frá (Mirallas hefði annars verið kominn einn á móti markverði). Dowd hefur kannski séð eftir því að gefa Mirallas bara gult því hann sleppti svo gulu á Gerrard sem stökk upp í skallaeinvígi með olnbogann á undan sér.

Rétt undir lok hálfleiks náðu Pienaar og Baines flottum þríhyrningi inn í teig Liverpool en skotið frá Baines ekki gott. Baines var eitthvað að glíma við óþægindi í ökkla undir lok fyrri hálfleiks eftir að leikmaður Liverpool steig á ristina á honum, en hann kláraði hálfleikinn en var svo skipt út af þegar í ljós kom að hann náði ekki að hrista þetta af sér.

Staðan: 1-2 í hálfleik. Engin breyting á liðunum til að byrja með.

Suarez reyndi að launa Mirallas greiðann með glórulausri tæklingu án þess að nokkur hætta væri á ferð, strax í upphafi seinni hálfleiks, úti við hliðarlínu, með takkana á undan — en sem betur fer fór hann ekki í lappirnar á Mirallas sem stökk upp og lenti hálfpartinn ofan á honum. Stuttu síðar (49. mínútu) var Baines skipt út af fyrir Deulofeu og Barry fór því í vinstri bakvörðinn, því Oviedo var ekki á bekknum. Stórt skarð fyrir skildi að hafa ekki Baines inni á.

Pienaar átti aftur stungusendingu (nú á 53. mínútu) sem splundraði vörn Liverpool, Deulofeu á sprettinum og komst einn á móti markverði en skotið ekki nógu gott. Aftur fór Everton illa með dauðafæri — og Liverpool var næstum því búið að refsa þeim örfáum mínútum síðar þegar misskilningur í vörn Everton leiddi til þess að Allen komst einn innfyrir alla og skaut að marki, Howard valdi rangt horn en það kom ekki að sök því Allen á einhvern undraverðan hátt hitti ekki einu sinni á markið í ákjósanlegu færi undir engri pressu (enginn varnarmaður nálægt).

Lukaku komst tvisvar einn á móti markverði (í seinna skiptið eftir stungusendingu frá Barkley) en vel varið í bæði skiptin og maður var á þessum tímapunkti að verða gráhærður yfir því að sjá þá fara svona illa með dauðafærin. En hann bætti þó um betur með jöfnunarmarki á 72. mínútu. Markið kom eftir aukaspyrnu sem Lukaku tók sjálfur (enda Baines farinn út af) sem Mignolet varði vel til hægri (við sig). Mirallas var duglegur að vinna boltann af honum og koma í leik og eftir að nokkrir Everton manna höfðu sundurspilað vörn Liverpool barst boltinn til Lukaku sem skaut föstu skoti framhjá Mignolet. Staðan 2-2! Þvílíkur rússíbani!

Og færin héldu áfram að koma í röðum! Everton komst í bullandi skyndisókn á 77. mínútu, fjórir sóknarmenn á móti tveimur varnarmönnum. Lukaku hljóp í átt að vítateig með boltann og hafði tvo ef ekki þrjá góða möguleika í stöðunni, en kaus að reyna sendingu til hægri sem reyndist arfaslök og beint á varnarmann Liverpool. Hvað er að frétta?!

Og áður en maður vissi af var Suarez kominn í dauðafæri hinum megin, með frían skalla eftir fyrirgjöf frá hægri en Howard varði í horn. Og svo dauðafæri aftur hinum megin, Deulofeu einn á móti markverði en varið. Hvar endar þetta, hugsar maður?! Jú, með marki frá Lukaku en það mark kom upp úr horni. Eins einfalt og það gat verið, boltinn barst fyrir markið þar sem Lukaku losaði sig við varnarmann (Johnson?) og skallaði föstum skallabolta yfir hausinn á Sturridge sem stóð á línu. Staðan orðin 3-2 og allt brjálað í salnum sem við vorum að horfa á, menn stukku á fætur, öskruðu og féllust í faðma. Nú var bara að halda þessu í nokkrar mínútur í viðbót.  Pienaar og Mirallas út af, Pienaar út og Stones inn.

En, upp úr föstu leikatriði, enn á ný, náðu Liverpool að skora þegar Gerrard tók aukaspyrnu á 88. mínútu og Sturridge skallaði aftur fyrir sig og í netið. 3-3.

Þetta hrikti aðeins í stoðum Everton við þett og kviknaði að sama skapi á Liverpool í lokin við markið, en Moses átti frían skalla úr ákjósanlegu færi (en yfir) og Suarez átti skot sem Howard varði vel í horn. Sturridge skoraði svo rangstöðumark á 92. sem var réttilega dæmt af. Everton náði þó að jafna sig á áfallinu undir lokin og komast í þunga sókn, áttu meðal annars gott skot innan teigs sem var blokkerað.

Staðan því jöfn í leikslok, 3-3, sem virkar á mann sem tvö stig töpuð (þegar litið er á það hvernig Everton spilaði og öll dauðafærin sem liðið fékk) en við vorum heppnir í þetta skiptið að halda Mirallas inni á vellinum þannig að við getum svo sem ekki kvartað mikið.

Meiriháttar derby leikur að baki — líklega sá besti í áraraðir — og við fengum fjörugan og skemmtilegan fótbolta, sem var það sem ég bað um fyrir leik. Algjör tilfinningarússíbani, eins og áður sagði, og bæði lið geta verið stolt af sínum mönnum. Hvað okkur varðar finnst mér frábært að sjá Everton yfirspila Liverpool á löngum köflum og vera mjög áræðnir í spilamennskunni, sem er tilbreyting frá Moyes tímanum þar sem manni fannst Moyes ekki alltaf hafa trú á verkefninu.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 6, Distin 6, Jagielka 7, Coleman 7, Pienaar 7, Barry 6, McCarthy 6, Mirallas 7,  Barkley 8, Lukaku 9. Varamenn: Deulofeu 7, Osman 6 og Stones 6. Liverpool fékk aðeins lakari einkunnir: Allen þótti slakasti maðurinn á vellinum með 5, en fórir aðrir með 6-ur og fjórir með 7-ur. Gerrard og Suarez með 8.

Mér fannst Pienaar stórkostlegur í leiknum og Barry og McCarthy frábærir á miðjunni (Barry þó ekki jafn skilvirkur í vinstri bakverði eftir að Baines fór meiddur út af). Lukaku stóð sig frábærlega en þarf að nýta dauðafærin mun betur. Ákvarðanatakan hjá Barkley er stundum ekki alltaf sem best, en það kemur með meiri reynslu — að öðru leyti var hann mjög góður. Hann og Lukaku ná mjög vel saman og maður vill sjá fleiri stungusendingar frá honum sem og Pienaar á Lukaku. Þeir virðast ná að stilla saman strengina vel þeir þrír.

Þessi leikskýrsla var annars skrifuð í nokkrum flýti og það er hellingur sem mig langar að segja um þennan leik en verð víst að fara að gera mig kláran á Árshátíð Everton á Íslandi! 🙂 Þetta verður legendary! 🙂

17 Athugasemdir

 1. Hólmar skrifar:

  Fer hressilega af stað. Okkar menn líta vel út.

 2. Gestur skrifar:

  þetta verður einhver rasskelling

 3. Holmar skrifar:

  Virðist sem að okkar menn verði að taka fleiri æfingar í að verjast föstum leikatriðum.

 4. Diddi skrifar:

  Frábær grannaslagur að baki, hvað er með það að geta ekki varist í föstum leikatriðum, leggur Martinez ekkert uppúr því?? en framtíðin er björt og liðið okkar spilaði frábæran fótbolta og var sífellt ógnandi 🙂 Góða skemmtun á árshátíðinni í kvöld kæru vinir og félagar 🙂

 5. Holmar skrifar:

  Já góða skemmtun í kvöld félagar. Menn ættu að vera komnir í ágætis stuð fyrir kvöldið eftir að hafa fylgst með þessum thriller. Fer á listann yfir klassíska Merseyside derby slagi!

 6. Ari G skrifar:

  Stórkostlegur leikur. Spilamennska Everton var til fyrirmyndar fyrir áhorfendur. Ég ætla að vera heiðarlegur Miralles átti að fá rautt en Everton miklu betri í leiknum og fengu fleiri færi en Liverpool svo kannski eru jafntefli sanngjörn fyrst Miralles var ekki rekinn útaf.
  Martinez þarf að taka betur á með föstu leikatriðin annars er björt framtíð hjá Everton ef þeir nýta færin sýn betur og spila betur á móti lakari liðunum í deildinni. Markvörður Liverpool besti maður vallarins annars hefði Everton unnið leikinn.

 7. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég sá ekki leikinn (já ég veit það er skandall en ég þurfti að vinna) en fylgdist með textalýsingu svona af og til og miðað við hana og þessa leykskýrslu fengum við nógu mörg færi til að vinna tvo eða þrjá leiki. Skilst að púllararnir séu pirraðir yfir dómgæslunni. Ég segi bara; kominn tími til, það hefur nú verið okkar hlutskipti síðustu ár að tala um lélega dómgæslu eftir þessa leiki.
  Vonandi að liðið fari nú að æfa sig í að verjast föstum leikatriðum.

 8. Finnur skrifar:

  Mjög skemmtileg greining Executioner’s Bong á mörkunum og leiknum: http://theexecutionersbong.wordpress.com/2013/11/24/derby-deconstruction-goal-analysis/

 9. Holmar skrifar:

  Þetta var frábær leikur hjá okkar mönnum, að vel flestu leyti. Auðvitað aldrei gott afspurnar fyrir vörnina að hafa fengið á sig 3 mörk en í svona opnum og hröðum leik, þar sem öll mörkin komu eftir föst leikatriði, er ekki mikið út á vörnina að setja. Hins vegar var unun að fylgjast með liðinu fram á við og Liverpool menn geta þakkað Mignolet fyrir þetta jafntefli.

  Það sem mér fannst einna ánægjulegast við leik okkar manna var miðjan. Ég viðurkenni fúslega að ég var ekki mjög hrifinn af þessum kaupum á McCarthy, fannst þetta lykta af panikki. En það virðist stefna í að efasemdir mínar hafi verið ónauðsynlegar. Hann vex með hverjum leik og mér fannst hann maður leiksins hjá okkur í gær. Þvílík barátta út um allan völl og svo er hann orðinn rólegri á boltanum. Hann og Barkley, sem gæti líka gert tilkall til að vera maður leiksin, náðu vel saman og svo er það auðvitað hinn ósigrandi Barry sem bindur þetta vel saman milli varnar og miðju. Maður var svolítið efins um miðjuna eftir það sem gerðist á lokadegi leikmannaskiptagluggans en þetta lítur vel út! Hvert fór aftur þarna gaurinn með mikla hárið?

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Gaurinn með mikla hàrið, hver er það? Man einhver eftir honum?? Væri kannski réttara að spyrja er einhver sem saknar hans???

  • Finnur skrifar:

   Ég _held_ að Hólmar sé að tala um þennan…
   http://goo.gl/fDHqCS
   … allavega minnir mig að hann hafi spilað á miðjunni hjá okkur. Eða frammi. Eða eitthvað. Hann var alls staðar og dómarinn alltaf að flauta á hann. Líklega vegna hársins. Sýnist sem Martinez hafi leyst þetta ágætlega samt.

 10. Diddi skrifar:

  „hárið“ var ekki góður í dag og frábært að sjá hve miðja manutd er handónýt. Þeir fá þessi stig sín vegna nýtingar á færum enda frábærir framherjar hjá þeim. En ég kvíði ekki að mæta þessu liði, hver er aftur framkv.stjóri hjá þeim ?

 11. Finnur skrifar:

  Lukaku í liði vikunnar að mati BBC:
  http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/25082995

 12. Halli skrifar:

  Þvílíkur leikur. Ég hélt að Lukaku væri að vinna leikinn þegar hann skoraði 3-2 á 83 mín en nei það að fá á sig 3 mörk úr föstum leikatriðum er ekki í lagi og dekkun manna innî teig var bara grín í þessum leik. Mér fannst við hafa yfirhöndina á miðjunni og ráða þar ferðinni þar sem Barry og MaCarthy voru flottir. Barkley ofsalega duglegur, Lukaku skorar 2, Pienaar mjög flottur, Mirallas frábær en mjög heppinn að vera á vellinum eftir brotið á Suarez. Ljótt brot þar hjá honum og á ekki að sjást á fótboltavellinum. Coleman ekki áberandi, Baines séð hann betri, Jags og Distin svona og svona, Howard var bara fínn en samt 3 mörk á sig. Einn besti leikur ársins í epl.

 13. Georg skrifar:

  Þetta var svakalegur leikur og einn fjörugasti leikur þessarar leiktíðar. Svekkjandi að ná ekki að klára þetta eftir að hafa komist yfir og það segir ýmislegt að maður leiksins hjá mörgum miðlum var Mignolet í markinu hjá Liverpool. Everton átti 12 skot á markið vs. 5 hjá Liverpool og í heildina átti Everton 18 skot vs. 8 hjá Liverpool.

  Það jákvæða úr þessum leik var klárlega hvað við vorum að skapa okkur mikið af góðum færum og vorum löngum köflum að yfirspila Liverpool og komumst nokkrum sinnum einir á móti Mignolet. Hinsvegar er agalegt að öll 3 mörk Liverpool komu úr föstum leikatriðum sem er eitthvað sem við verðum að laga. Þeir áttu 2 skot á markið í fyrri hálfleik og 2 mörk. Svo að mínu mati áttum við 3 stig skilið. Margir af okkar leikmönnum með flottan leik eða bara langflestir en föstu leikatriðin fóru illa með okkur.

  Annars vil ég þakka kærlega fyrir frábæran dag með ykkur Everton félögunum. Fyrst yfir þessum stórleik og svo á árshátíðinni sjálfri um kvöldið. Það hefði verið gaman að sjá fleiri mæta þó svo að mætingin var flott. Við Elvar gerðum okkur ferð alla leið frá Akureyri svo að menn sem búa kannski í 10-15 mín fjarlægð ættu að geta gert sér ferð á Ölver í svona tilefnum og líka á árshátíðina. En þetta var gríðarlega flottur hópur sem mætti 🙂

  Nú er bara skyldusigur næstu helgi á móti Stoke á Goodison Park, því að næstu tveir leikir þar á eftir eru útileikir gegn Man Utd og Arsenal sem margir telja tvo af erfiðustu útivöllunum í deildinni. Það er verðugt verkefni framundan hjá okkar mönnum og hef ég bullandi trú á liðinu.

 14. Elvar Örn skrifar:

  Sammála Georg, frábær leikur og frábær árshátíð. Gaman að sjá samt þetta marga á Ölveri og þessi dagur var hreint alveg magnaður.
  Að mínu mati skemmtilegasti leikurinn á leiktíðinni án vafa og áhugavert að Liverpool var að fá á sig flest skot á mark allt frá leiktíðinni 2009/2010 svo það eitt segir ansi mikið.
  Nú er bara að vinna Stoke um næstu helgi og svo eru tveir auðveldir úti-skyldusigrar þar á eftir gegn Arsenal og United 🙂

 15. þorri skrifar:

  Góðan dagin kæru félagar. Því miður komst ég ekki á árshátíðina vegna vinnu. Ég sá leikinn endursýndan í gærkveldi. Þetta var þvílíkur að hálfa væri nóg. Ég hefði ekkert verið á móti því að vera á vellinu þennan dag. Sko liðið í heild var frábært að mínu dómi. Hann Mirallas átti bara að fá beint rautt fyrir þessa ljótu tætingu. Hann var ljón heppinn.