Everton – Tottenham 0-0

Mynd: Everton FC.

Meistari Georg sá um leikskýrsluna í fjarveru okkar sem vorum 15 á pöllunum í geðveikri stemmingu aftan við annað markið! Gef Gogga orðið:

Uppstillingin: Howard, Baines, Jagileka, Distan, Coleman, McCarthy, Barry, Pienaar, Mirallas, Osman og Lukaku. Bekkurinn: Robles, Jelavic, Oviedo, Deulofeu, Naismith, Barkley og Stones.

Fyrri hálfleikur var mjög bragðdaufur af okkar hálfu. Tottenham voru að halda boltanum vel án þess þó að skapa sér almennilega færi. Besta Færi Everton kom á 27. mín. þegar Leon Osman átti fínt skot rétt yfir markið. Vörnin okkar hélt vel í fyrri hálfleik og Tottenham átti lítið af góðum færum.

Strax í upphafi seinni hálfleiks kom meira líf í Evertonliðið og var greinilegt að Martinez hafi breytt áherslum á liðinu þar sem liðið pressaði mun hærra á vellinum.

Á 62. mín komu Deulofeu og Barkley inn á fyrir Mirallas og Osman. Ross Barkley var fljótur að minna á sig með fínu skoti á 64. mín. eftir að hafa byrjað á bekknum í fyrsta skiptið á þessari leiktíð í deildinni. Á 65. mínútu hefðu Everton geta fengið víti þegar Vertonghen fór aftan í Coleman sem dettur en stendur strax upp og skítur framhjá. Eflaust hefði hann fengið vítið ef hann hefði ekki staðið upp aftur og sást vel í endursýngunni að víti hefði átt að vera niðurstaðan.

Á 69. mín á McCarthy flott skot sem fer í Gylfa nokkurn Sigurðsson og rétt framhjá. Á 72. mín átti McCarthy flotta sendingu fyrir á Lukaku, Lukaku var hársbreidd frá því að ná boltanum. Á 88. mín fór Deulofeu framhjá 4 leikmönnum Tottenham og vippar boltanum sem Lloris ver.

Leikurinn fjaraði út í lokin og gerðist fátt markvert í lokin. Leikurinn endaði 0-0 sem má segja að hafi verið sanngjörn úrslit miðað við gang leikins. Þó gerði Everton tilkall til vítaspyrnu sem hefði velt geta ráðið úrslitum. Everton var 52% með boltann og átti 8 skot, þar af einungis 1 skot á rammann.

0-0 því niðurstaðan.

23 Athugasemdir

  1. Gunni D skrifar:

    Ekki lýst mér á þetta!!!

  2. Diddi skrifar:

    ömurlegur fyrri hálfleikur þar sem menn voru að leika langt undir getu og við stálheppnir líkt og í Aston villa leiknum að fá ekki á okkur mark. Seinni hálfleikurinn mikið betri þó að við höfum ekki komið skoti á rammann, en 1 stig er jú alltaf næstbestu úrslitin og líklega bara sanngjarnt í þessum leik

  3. Orri skrifar:

    Hræðilegur fyrri hálfleikur,en áttum seinni hálfleikinn.Hefði viljað sjá skiptingar fyrr í leiknum.En 1 stig er betra en ekkert stig.Sendi síðan hópnum okkar góðar kveðjur þarna út.

  4. Finnur skrifar:

    Takk, skila því! 🙂

  5. Elvar Örn skrifar:

    Þetta var leikur tveggja sterkra varna verð ég að segja.
    Everton átti aðeins eitt skot á rammann og var það frá Deulofeu þar sem hann prjónaði sig fallega í gegnum eina 4 leikmenn Tottenham og Loris varði skot/sendingu frá Deulofeu, annað hitti ekki á rammann frá Everton leikmönnum.
    Tottenham áttu 6 skot á rammann en ég tók eftir því að þau voru öll utan við vítateig svo þeir voru ekki mikið að komast í gegnum vörnina hjá Everton.

    Leitt að fá ekki mark frá Everton í þessum leik fyrir ykkur félagar sem voruð úti á leiknum og aðeins 2 leikir í c.a. síðustu 26 á Goodison höfðu verið markalausir ef hálfu Everton svo þetta er ekki algeng sjón.

    Tökum neðsta liðið Crystal Palace í næsta leik og komum liðinu í top 4 um næstu helgi. Erum nú bara einu stigi frá öðru sæti eftir þessa umferð svo þetta er ekki alslæmt.

    Sjáumst svo á árshátíð Everton í lok Nóvember þar sem við byrjum daginn á Ölveri þar sem Everton flengir erkifjendurna í Liverpool á Goodison Park.

  6. Finnur skrifar:

    Jæja, við sóttum þó eitt stig á nær öll liðin fyrir ofan og aðeins eitt stig í annað sætið. Það er ekki slæmt eftir 10 leiki með nýjan stjóra og nýtt leikskipulag. 🙂

  7. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Eftir fyrstu 25 mínúturnar var maður orðinn skíthræddur um að þetta yrði rassskelling, en þá fóru okkar menn loksins að byrja að spila smá. Var samt rosa feginn að sleppa með 0-0 í hálfleik. Seinni hálfleikur allt annar og maður var hundsvekktur að við skyldum ekki vinna. Áttum klárlega að fá víti þegar Coleman var felldur en Kevin Friend sýndi enn og aftur að hann er ekki vinur okkar. Ansi margir leikir sem hann hefur dæmt hjá okkur síðustu ár og alltaf verið alger pappakassi.

    Talandi um pappakassa.
    Arnar Björnsson er alger pappakassi. Það var hundleiðinlegt að heyra hann staglast á því að með sigri kæmist Tottenham í annað sætið, heyrði hann aldrei minnast á að það sama gilti um Everton.
    Kannski bara smámunasemi í mér.

  8. Finnur skrifar:

    Nei, algjörlega sammála.

  9. Orri skrifar:

    Ég er sammála Ingvari og Finni um þetta bull í Arnari.

  10. Elvar Örn skrifar:

    Hvenær koma ferðasögurnar? Eða er kannski ekki eins gaman þegar við Norðanpiltar komum ekki með? 🙂

  11. Finnur skrifar:

    Það jafnast að sjálfsögðu ekkert á við það þegar Norðanpiltarnir koma með. 🙂 En jú, það er verið að vinna í þessu — dútlaði aðeins við myndirnar í gær.

  12. Ari S skrifar:

    Mikið er ég feginn að hafa ekki þurft að hlusta á Arnar. En annars í sambandi við þennan leik þá fannst mér alger hneyksli að VillaBóas hafi ekki tekið Lloris útaf eftir að hafa fengið hnéð á Lukaku í hausinn og rotast.

    Það var greinilegt að sjúkraþjálfararnir vildu ekki að hann færi inná aftur en VillaBóas gerði lítið úr sjálfum sér og sýndi hvað hann er enn mikill krakki með þeirri ákvörðun að leyfa Lloris að fara inná aftur. En hvað er ég að tala um þetta hérna.. hehe…

    Já það vantar algerlega einvherjar ferðasögur, var einvher tekinn í tollinum, svaf einvher yfir sig á leikdag……?

    kær kveðja,

    Ari

  13. Halli skrifar:

    Þetta var er ekki nógu góður sóknarleikur til að geta unnið sérstaklega voru Mirallas og Osman ekki nógu góðir Mirallas virtist ekki geta náð sendingu á samherja og Osman virtist skorta kraft á móti sterkum miðvörðum Tottenham. Mér fannst við góðir aftast á vellinum Coleman var í vandræðum til að byrja með en kom svo mjög sterkur inn og hefði altaf átt að fá víti í seinni hálfleik jafntefli sennilega sanngjörn niðurstaða. Það er svo gaman að vera á Gooisonpark að horfa á Everton takk fyrir ferðina allir sem með fóru

  14. Halli skrifar:

    Það eru ekki góðar fréttir af Kone mögulega frá út tímabilið. Þá er hann annar leikmaðurinn okkar í meiðslum út tímabilið á eftir Gibson það eru ekki góðar fréttir í ekki stærri hóp en okkar er.

    • Georg skrifar:

      Sammála þér Halli, þetta eru slæmar fréttir. Maður var alltaf að bíða eftir að hann myndi fara sýna sitt rétta andlit. Hann leit betur út gegn Hull en hann hefur gert hingað til og kom sér í 2 mjög góð færi sem hann hefði reyndar átt að klára, en maður sá smá framfarir hjá honum. Ef hann er frá út tímabilið þá þurfum við væntanlega að fá lánaðan framherja í janúar.

  15. Gestur skrifar:

    Ég hef aldrei skilið að vera að fá leikmann að láni. Það getur jú verið ágætt að fá lánaðan mann til vara en ætla að vera með marga lánsmenn í byrjunarliði getur ekki gengið eins og núna. Það getur ekki þjónað hagsmunum liðsins að ungu strákarnir fá ekki tækifæri. Ég hef þungar áhyggur af framherjum liðsins, Kone virðist vera frá út tímabilið og óvíst með framhand hjá honum vegna aldurs,
    Jelavic sem kostaði bara hálfa millu meira en Kone virðist vera búinn að missa það og aðal skorari liðsins Lukalu er á láni og hverfur í vor. En kannski er Everton að fá framherjan Zaha í staðin fyrir Baines.

  16. Finnur skrifar:

    Ég hef nákvæmlega enga trú á þessum sögusögnum um Zaha — held að þetta sé uppskálduð frétt frá grunni. En við erum hins vegar með tvo að láni í dag:

    Barry, frá City, sem er eiginlega ekki hefðbundin lánssamningur því hann er með lausan samning í lok tímabils og ég lít á það sem formsatriði að hann skrifi undir þegar láni lýkur. Barry er orðinn lykilmaður á miðjunni, sem sést m.a. á því við höfum ekki tapað einum leik sem hann hefur leikið (og reyndar unnið þá alla nema einn, ef ég man rétt) en ekki unnið neinn án hans. Honum var ætlað að stoppa í gatið sem Fellaini skildi eftir sig og hefur gert það með miklum sóma. Hvaða ungliða myndir þú setja í staðinn fyrir Barry? Ég held að sá sem kæmist næst því sé Francisco Junior og ég einfaldlega efast um að hann hafi viðhorfið og getuna til að vera í byrjunarliðinu hjá Everton.

    Hinn lánsmaðurinn er Lukaku, sem hefur verið að leysa brátt vandamál í framlínunni hjá okkur. Það má alveg blóðga einhverja ungliða í framlínunni hjá okkur eins og Vellios eða Hallam Hope endrum og eins, en ég sé þá ekki leiða liðið heilt tímabil í markaskorun. Við einfaldlega _verðum_ að hafa einhvern sem getur breytt öllum þessum færum sem Everton er að skapa og Lukaku hefur verið duglegur við það. Mig hefur lengi langað til að sjá hversu langt liðið getur náð með almennilegan framherja í heilt tímabil (það er orðið svolítið langt síðan það gerðist).

    Auk þess að létta pressuna á nýjum stjóra (við virðumst ekki sakna Moyes mikið í dag), gefa Lukaku og Barry Martinez færi á að kynnast liðinu almennilega og meta þörfina í rólegheitum (finna menn sem passa í hópinn) í stað þess að leggja í einhver panic kaup rétt fyrir lokun síðasta glugga.

    Svo ber að geta þess að Murinho var að fá grænt ljós frá eiganda með að kaupa nýjan framherja til Chelsea í janúar þannig að Lukaku hlýtur að horfa á það og hugsa að hann sé kominn enn neðar í goggunarröðina. Kannski er Everton að undirbúa tilboð í Lukaku í lok tímabils. Maður veit aldrei.

  17. Gestur skrifar:

    Barry getur ekki talist framtíðar maður, hann verður 33 ára á þessu tímabili. En hann hefur staðið sig frábærlega og vonandi getur hann spilað sem lengst. Það var verið að tala um að hann væri með háar launakröfur og ætla að brjóta launaþakið til að semja við svo gamlan leikmann líst mér ekki á.

    Mér líst vel á ef Everton gæti keypt Lukalu af Chelsea því okkur hefur vantað svona öflugan framherja lengi. Síðasti alvöru framherji var keyptur 2008 á 10,5m , þannig að það er komin tími til að bæta það.

    Everton er einnig með Deulofeu á láni og hann hefur ekki fengið mikið að reyna sig. Ef Everton hefur enga unga miðjumenn til að lofa að spreyta sig, þá hefur unglingastarfið hjá klúbbnum eitthvað klikkað.
    Ég þekki ekki til þar , en þegar maður er að horfa á önnur lið þá virðist alltaf vera til ungir leikmenn til að lofa að spreyta sig.

    Ég get ekki sagt að maður sakni Moyes , það virðist
    vera mikið léttara yfir Everton núna. Ég er sammála að vera ekki með panic kaup og auðvitað þarf Martinez tíma til að meta hópinn

  18. Elvar Örn skrifar:

    Hvernig er með mætingu á árshátíðina? Við Norðanpiltar (amk ég, Georg og Gunnþór) mætum. Verður gaman að sjá Liverpool flengda af Everton með ykkur félaga við hlið.

  19. Finnur skrifar:

    Góður punktur, Elvar. Ég þarf að fara að senda áminningu til að fá nákvæmari tölu — hef ekki haft tíma til þess sökum anna. En það eru 17-18 manns sem eru búnir að skrá sig en samt veit ég af fleirum, sem hafa staðfest munnlega en hafa ekki klárað rafræna staðfestingu.

    Hvet ykkur öll sem hafa ekki skráð ykkur ennþá (eða eruð ekki viss hvort þið séuð búin) að gera það hið fyrsta:
    https://docs.google.com/forms/d/1lKMH5pwFuVypF9OpL172dF5l-69LRbymodqei63KBig/viewform

    (sjá allar upplýsingar hér: http://everton.is/?p=5706)

  20. Gunnþór skrifar:

    verð því miður að afboða mig á árshátíðina,verð erlendis þessa sömu helgi.kv Gunnþór

  21. Finnur skrifar:

    Jæja, Elvar (og þið hin) — ferðasagan komin:
    http://everton.is/?p=5842