Man City – Everton 3-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti City í dag á Etihad leikvanginum í Manchester. Ég var hálf smeykur þegar ég sá að þeir hefðu tapað illa gegn Bayern Munchen í meistaradeildinni því það var ljóst að þeir myndu mæta dýrvitlausir til leiks í dag og reka af sér slyðruorðið. Og það var akkúrat það sem gerðist en þeir börðust um alla bolta og þrír leikmenn þeirra fóru meira að segja blóðugir af velli (þar af einum skipt út af).

Uppstillingin í leiknum: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. McCarthy og Osman á miðjunni. Naismith og Mirallas á köntunum, Barkley fyrir aftan Lukaku frammi. Ein breyting frá síðasta leik, Naismith inn fyrir Barry, sem mátti ekki spila í þessum leik. Og hans var sárt saknað. City menn fengu loks Silva aftur úr meiðslum og hann var lykilmaður þeirra í þessum leik og var valinn maður leiksins að leik loknum — sýndi af hverju City menn hafa saknað hans mikið.

Everton byrjaði þó fjörlega og Lukaku var næstum búinn að skora á fyrstu mínútu – ef hann hefði bara náð að reka stórutána í boltann. Stuttu síðar komust Everton í skyndisókn, Mirallas upp vinstri og hafði tækifæri á að senda fram fyrir miðverði City þar sem Lukaku (sem kom á hlaupinu hinum megin við þá) hefði verið kominn einn á móti markverði. Sendingin frá Mirallas þó ekki nógu góð.

City settu þá pressu á Everton, fyrst náði Toure skoti sem var varið í horn og svo fengu þeir aukaspyrnu fyrir ekkert brot sem þeir settu í utanvert hliðarnetið. City menn náðu flottu samspili í gegnum vörn Everton en Osman náði að redda okkur þegar síðasti maður hefði verið kominn í dauðafæri einn á móti markverði.

Everton svaraði strax: Naismith komst inn eftir stungusendingu en tapaði boltanum. Maður hélt að málið væri dautt því boltinn virtist á leið út af hægra megin við markið en þá kom Lukaku á spretthlaupinu og hafði betur gegn Hart með að ná boltanum en Hart varði skotið frá honum.

Á 15. mínútu tók Jagielka við boltanum frá Howard, sá Lukaku á hlaupinu, sendi langa stungusendingu fram á við. Lukaku tók frábærlega á móti boltanum, klobbaði Lescott í vörninni og skoraði framhjá Hart. 1-0 fyrir Everton.

Maður var varla hættur að fagna þegar City voru búnir að jafna aðeins 90 sekúndum síðar. Toure sendi stungusendingu inn fyrir vörnina á Negredo sem kom í hlaupinu inn í teig vinstra megin, Negredo með skot í fyrsta sem Howard varði en heppnin með City og boltinn lak inn áður en Jagielka náði til hans.  Staðan 1-1 á 17. mínútu.

City menn efldust nokkuð við þetta og reyndu nákvæmlega sama hlut aftur á 25. mínútu, og það heppnaðist næstum því hjá þeim. Kun Aguero í þetta skiptið vinstra megin en brenndi af hægra megin.

Nokkrum mínútum síðar sendi Barkley háa fyrirgjöf á Mirallas inn í teig en Hart nær að verja (skalla að mig minnir) — en hefði verið rangstæða hvort eð er. Kompany út af meiddur örskömmu síðar, sá ekki af hverju — lagðist bara allt í einu í jörðina.

City menn náðu svo fyrirgjöf frá vinstri sem fór framhjá öllum, bæði Howard, vörninni og sókn City. Fór pínulítið um mann þar sem vantaði bara mann á endanum til að setja í netið.

Stuttu síðar stoppaði Silva skyndisókn Everton með broti en slapp við gult, einhverra hluta vegna. City menn voru duglegir að brjóta fljótt og koma í veg fyrir skyndisóknir og manni fannst dómarinn (Jon Moss) sleppa þeim alltof létt á tíðum. Til dæmis þegar Millner fór í glórulausa tæklingu til að stoppa skyndisókn og tók niður ekki bara einn heldur tvo leikmenn Everton í einu. Þetta var umtalsefni sjónvarpsmannana í hálfleik og voru þeir á því að hann hefði verið heppinn að sleppa með gult.

Naismith vildi víti stuttu síðar þegar hann var felldur inni í teig og það var vissulega snerting en hefði talist vera soft víti. Ekki eitthvað sem dómarinn hefði þorað að gefa á heimavelli City og maður skildi það nú svo sem.

Kun Aguero hefði getað komist í algjört dauðafæri þegar hann fékk sendingu inn í teig og var óvaldaður. Hann ætlaði sér að gera eitthvað svakalega flott með boltann en sparkaði svo bara í sjálfan sig og boltinn einfaldlega rúllaði framhjá honum og Everton. Maður hugsaði með sér: „ekki hans dagur greinilega“, en það reyndist ekki svo.

Á 40. mínútu fékk Lukaku boltann inn í teig vinstra megin og Nastasic einfaldlega keyrir hann niður að aftan frá. Glórulaust hjá honum og ekkert annað en púra víti. En dómarinn greinilega, því miður, staðráðinn í að dæma ekki víti á City á Etihad. Gjörsamlega óþolandi. Þetta hefði getað reynst vendipunktur í leiknum, því það er aldrei að vita hvað hefði gerst ef Everton hefði aftur komist yfir í leiknum á þessum tíma.

En í staðinn skora City menn. Kun Aguero hitti loksins boltann eftir að hafa fengið frábæra stungusendingu frá Silva inn fyrir hægra megin og skaut í innanvert hliðarnetið vinstra megin framhjá Howard. City komið 2-1 yfir í stað Everton. Ó-þol-andi.

Rétt fyrir lok hálfleiks sýndi Jagielka hvað hann er að gera í enska landsliðinu þegar hann hljóp uppi sóknarmann City sem var að komast einn gegn markverði og einfaldlega át hann glæsilegri tæklingu. 2-1 í hálfleik fyrir City.

City settu pressu á Everton frá upphafi, náðu fyrirgjöf fyrir markið frá vinstri en aftur skoppaði boltinn framhjá öllum, enginn til að taka á móti eða hreinsa. Þeir reyndu svo að spila sig í gegnum vörn Everton og tókst, en alltaf einhver mættur á síðustu stundu að bjarga.

Á 51. náði Barkley glæsilegri stungu á Mirallas (Barkley er farinn að gera þetta reglulega núna í leikjum), þar sem Mirallas var kominn einn á móti Hart en fyrsta snertingin brást Mirallas — missti hann aðeins of langt frá sér og Hart fyrri til knattarins.

Lítið gerðist næstu 10 mínúturnar en svo komu Gibson inn fyrir Osman og Deulofeu fyrir Mirallas á 62. mínútu.

Á 67. mínútu gerðist það að City menn fá víti fyrir það sem dómarinn sagði að væri brot hjá Coleman en ég ætlaði varla að trúa eigin augum. Fannst það mikið vafaatriði að þetta hafi verið brot og nú var maður algjörlega æfur yfir því að hafa ekki fengið víti hinum megin vallar, þar sem klárt brot átti sér stað. Það er nógu erfitt að mæta á Etihad leikvanginn og sigra rándýrt lið City þó maður hafi ekki dómarann á móti sér líka. Gjörsamlega óþolandi. Sjónvarpsmönnum fannst greinilega líka svolítil lykt af þessu því þeir sýndu bæði brotin í endursýningu og spurðu hvers vegna seinna brotið hefði verið víti en ekki fyrra brotið.

Howard tók sig til og las vítaskyttuna vel, kastaði sér í rétt horn og varði… en boltinn í innanverða stöngina, í hausinn á Howard og boltinn lak inn. 3-1 fyrir City.

Það var eins og allur vindur væri úr Everton mönnum við þetta — reyndu eitthvað að klóra í bakkann síðustu 20 mínúturnar en það var eitthvað hálf máttlaust. Distin átti lausan skalla að marki City upp úr aukaspyrnu og Kone (sem kom inn fyrir Lukaku á 82. mínútu) átti í skyndisókn algjöran æfingabolta á Joe Hart af löngu færi — þegar hann hefði getað gefið til hliðar á mann í betra færi.

City fengu tvö góð færi til að bæta við, fyrsta á 80. mínútu þegar þeir brjóta á miðjumanni Everton (ekkert dæmt) og bruna í sókn en Howard varði vel og svo á lokasekúndunum aftur frá Silva.

Fyrir leikinn sagði ég að maður yrði sáttur við eitt stig út úr þessum leik enda City með mjög sterkt lið sem var mjög skeinuhætt í leiknum og skapaði sér mörg góð færi. Maður vonaðist þó alltaf til að Everton liðið sýndi gamla takta á Etihad og næði allavega jafntefli eða stæli sigrinum. Hefði verið gaman að sjá hvað hefði gerst ef Lukaku hefði fengið víti. Þetta er nú í annað skipti í röð sem þessi tvö lið mætast og úrslitin ráðast á umdeildum vítaspyrnudómum (þeir stálu af okkur tveimur stigum á síðasta tímabili með vítaspyrnu sem var mjög „soft“).

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 6, Distin 6, Jagielka 6, Coleman 6, Naismith 6, Osman 6, McCarthy 6, Mirallas 6, Barkley 6, Lukaku 7. Toure, Silva og Negredo með 8 hjá City.

Ég er ekki sammála einkunn Jagielka og Coleman, þeir voru báðir frábærir í leiknum. McCarthy átti líka nokkrar glæsilegar tæklingar sem enduðu sóknir City manna. Gaman að sjá Barkley ná vel saman með Mirallas og Lukaku en sá síðastnefndi var frábær fyrsta hálftímann en dalaði svo þegar leið á.

Það hlaut annars að koma að því að Martinez tapaði sínum fyrsta deildarleik en það hefði klárlega átt að dæma vítaspyrnu í leiknum á City, sem hefði breytt gangi leiksins all verulega. Barry var mjög sárt saknað í leiknum en hann á örugglega eftir að spila stóra rullu í liði Everton á tímabilinu og vonandi lengur.

Hull næst á heimavelli.

14 Athugasemdir

 1. Gunni D skrifar:

  Af hverju fáum við AAALDRRREYY víti???Það hringdi í mig púllariá meðan leiknum stóð, og hann talaði um tvö,jafnvel þrjú víti sem við áttum að fá.Og honum fannst eins og mér öll þau tilvik frekar víti heldur en atvikið sem þeir fengu vítið útá.En; fyrsta tapið staðreynd.Góðar stundir.

 2. Ingi Þór Eyjólfsson skrifar:

  ég er nú ekki vanur að kvarta yfir dómgæslu en þessi dómari var hræðilegur. Ekkert samræmi í neinni dómgæslu. 🙁

 3. Finnur skrifar:

  Neil Warnock var þulur á einhverri sjónvarpsstöðinni og hann hélt því fram í leikslok að „Jonathan Moss dómari sé ekki hæfur til að dæma í úrvalsdeildinni“…

  http://www.nsno.co.uk/everton-news/2013/10/jonathan-moss-not-fit-to-referee/

  Neil Warnock liggur aldrei á skoðunum sínum. 🙂

  Martinez sagði að þessi ákvörðun dómarans að dæma víti á Coleman hafi verið „footballing disaster“ og sagði að dómarinn þyrfti að horfa á leikinn aftur og reyna að útskýra fyrir sjálfum sér af hverju hann hefði dæmt vítið en sleppt vítinu hinum megin, fyrir mun verra brot.
  http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/24410262

 4. Ari G skrifar:

  Mér fannst leikur Everton góður í fyrri hálfleik en mjög lélegur í seinni hálfleik. Furðulegt að fá dæmt viti á sig fyrir lítið brot allavega átti Everton að fá 2 viti ef þetta var viti sem city fékk gefins. Fannst enginn leikmaður bera af of margar feilsendingar en vonandi lagast það með tímanum.

 5. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Enn eitt dæmið um hversu dómgæslan í enska boltanum er yfirleitt hliðholl þessum svokölluðu „stóru liðum“.
  Við fáum ekki víti fyrir augljósa bakhrindingu á Lukaku en city fær eitt gefins fyrir ekki neitt. Þetta er algjörlega óþolandi en verður trúlega alltaf svona.

  Fyrri hálfleikur fannst mér alveg ágætur hjá okkar mönnum en það er áhyggjuefni að þriðja leikinn í röð erum við varla með í þeim seinni. Vonandi að menn leggist svolítið yfir þetta í landsleikjahléinu, því ef okkar menn geta lagað þetta þá er ég bjartsýnn á að við endum a.m.k í Evrópudeildarsæti.

 6. Finnur skrifar:

  Sammála því. Ef þetta var víti hjá City þá voru þetta _tvö_ víti hinum megin vallarins.

 7. Ari S skrifar:

  Ekki stóru liðunum Ingvar….peningaliðunum.

  Ég er enn að jafna mig, fannst Coleman hræðilegur í þessum leik. Víti eða ekki víti þá var þetta samt klaufalek tækling hjá honum. Og ég vildi að hann hefði betur sleppt því að láta city leikmann æsa sig upp í fíflaææti og slagsmál…. við fengum á okkur 2.markið eftir slíkt atvik. Gjörsamlega óþolandi. 4 í einkunn fær hann frá mér.

  • Ari S skrifar:

   Eða var það 1. markið…….?

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Þess vegna skrifaði ég stóru liðunum innan gæsalappa Ari, því lið eins og man city eða chelsea eru ekki stór.

   • Ari S skrifar:

    Já reyndar tók ég því líka þannig Ingvar…:) ég gleymdi sjálfur að hafa einn lítinn broskall með þá hefði það ekki misskilist…. 😉

 8. Halli skrifar:

  Ég veit ekki með ykkur en ég saknaði Barry alveg gríðarlega í þessum leik þó svo að mér hafi fundist MaCarthy besti leikmaður liðsins þá vantaði töluvert uppá hjálpina frá Osman(sem mér finnst búinn að vera slakasti leikmaður liðsins á þessu tímabili). RM Gerir vel í að reyna að breyta leiknum á 62 mín og setur Gibson og Deulofeu inn en hvað gerist hreinlega ekkert ég man ekki eftir að Gibson hafi komið við boltann og Deulofeu kannski 4 sinnum og það skilaði engu. Ég var mjög spenntur fyir Kone fyrir tímabilið en hann verður að fara að sýna okkur eitthvað. Svo er það með þennan vítspyrnudóm fyrst að hann dæmdi víti á þetta þá var klárlega víti í fyrri hálfleiknum á brotið á Lukuaku en ég er þeirrar skoðunar að hvorugt var víti, og mér fannst við aldrei líklegir til að jafna í seinni hálfleik svo að 2-1 eða 3-1 var ekki stóra málið í þessu.

  • Ari S skrifar:

   Já algerlega sammála með Barry, við getum allir verið sammála um það og ég hefði veirð tilí að sjá hann spila einn landsleik í hléinu…. þetta verður langt stopp hjá honum eftir frábæra byrjun hjá okkur.

   Deulofeu er búinn að sýna hvað hann getur og vonandi springur hann út fljótlega… 🙂 Það verður líka flott að fá Gibson aftur á fulla ferð. Það verður flott að hafa þá tvo í liðinu Barry og Gibson… Barry Gibb -son ???

   :o)

   Spurning hvernig þeir eru saman inná? Veit ekki með það en mér finnst þeirra hlutverk í liðinu vera það sama….. er kannski ekki pláss fyri þá báða inná í einu? Hvað finnst ykkur?

  • Finnur skrifar:

   Ari, er ekki alltaf sagt að gott combo sé að hafa annan miðjumanninn góðan í að brjóta niður sóknir andstæðinga (þar er Barry fyrsti kostur hjá okkur í augnablikinu) og hinn góðan í að senda (af Gibson, Osman og McCarthy þá sýnist mér Gibson einnar bestur á því sviði)?

   • Ari S skrifar:

    Jú þetta er rétt, ég myndi lika velja Barry, hann er góður í því að brjóta niður sóknir andstæðinga og líka góður í „pabba“ hlutverkinu sem að Gibson hefur séð um hingað til. (Barkley þarf „pabba“ með sér á vellinum 🙂 )

    Ég hlakka til að sjá þá Gibson og Barry byrja saman byrja inná, verður forvitnilegt.