Man City vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Everton mætir á Etihad leikvanginn á morgun (lau) til að leika við Man City kl. 11:45. Everton eru ósigraðir í deild eftir 6 leiki, nokkuð sem Martinez verður mikið í mun að halda í en þetta er langstærsta prófið hingað til, því Man City eru af mörgum taldir meistaraefni og eru ósigraðir á heimavelli í deild með markatöluna 10-1! Þeir hafa verið arfaslakir í deild á útivelli hingað til (sem telur náttúrulega ekki) og töpuðu illa fyrir Bayern Munich í meistaradeildinni á heimavelli í vikunni, en það þýðir bara að þeir koma staðráðnir í að hrista af sér slyðruorðið.

Everton virðast þó hafa eitthvað tangarhald á City undanfarin ár, því City hefur aðeins unnið einn af síðustu 6 leikjum þessara liða á Etihad (Everton unnið fjóra og einu sinni jafntefli) og heimaleikjaárangur Everton gegn þeim er enn betri (City aðeins unnið einn af 8 síðustu leikjum í deild, heima og heiman). Martinez þekkir auk þess vel hvernig á að taka á City, eins og sást í FA bikarúrslitaleiknum. Everton menn mæta fullir sjálfstrausts eftir frábæra frammistöðu í deild (þrjá sigurleiki í röð) en fyrir utan að vera eina taplausa liðið í deildinni hefur liðið spilað nægilega vel til að fá þrjú stig í öllum leikjunum hingað til, þó nokkrir þeirra hafi endað með jafntefli.

Barry getur ekki leikið þar sem hann er að láni frá City (og verður þar stórt skarð fyrir skildi) og bæði Pienaar og Alcaraz verða ekki með en aðal spurningin er hvort Gibson og Mirallas verði heilir. Gibson átti við meiðsli í hné að stríða í síðasta leik og spilaði því ekki en Mirallas sneri á sér ökklann í leiknum við Newcastle (þó hann hafi getað haldið áfram). Ég ætla að spá því að Gibson verði með og líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Miðjan: Gibson og McCarthy. Osman og vonandi Mirallas á köntunum, annars dettur Naismith inn. Barkley og Lukaku velja sig sjálfir í framlínuna í augnablikinu. Hjá City eru tveir frá: Martin Demichelis (hnémeiðsli) og Jack Rodwell (tognun á lærvöðva — við könnumst ekkert við það, er það nokkuð?).

Til að ná stigi/stigum þurfum við toppleik frá vörninni, sérstaklega Distin og Jagielka, en Martinez hrósaði þeim í hástert fyrir frammistöðu þeirra hingað til á tímabilinu og hvernig þeir hafa aðlagast nýju leikkerfi sem hann er að innleiða. Vel verður einnig fylgst með baráttu Lukaku við landa sinn Kompany en Romelu Lukaku hefur skorað 6 mörk í síðustu fimm Úrvalsdeildarleikjum sínum. Hann hefur aðeins leikið 220 mínútur í þeim leikjum, þannig að meðaltalið er 37 mínútur per mark! Joe Hart hefur einnig verið á milli tannanna á fólki eftir misjafna frammistöðu í undanförnum leikjum en í fyrsta skipti síðan hann var táningur hefur hann fengið á sig 6 mörk í tveimur leikjum.

Það er orðið ansi langt síðan Everton vann fjóra leiki í röð (það gerðist síðast í mars 2008) en einn af þeim leikjum var einmitt 2-0 sigur á Manchester City.

Greining Executioner’s Bong á leiknum er hér.

Merki félagsinsÍ öðrum fréttum er það helst að Everton kynnti nýtt merki félagsins sem tekur gildi næsta tímabil (sjá hér til vinstri). Merkið minnir mjög á gamla merkið en 78,18% kusu merkið sem varð ofan á. Merkið með gulu röndinni (miðjumerkið) fékk 12,21% atkvæða og hitt fékk 9,61%.

Ross Barkley, Leighton Baines og Phil Jagielka eru í landsliðshópi Enlendinga sem mæta Svartfjallalandi og Póllandi í undankeppni heimsmeistarakeppninnar. Nokkrir af ungliðum okkar verða jafnframt í eldlínunni á næstunni með sínum landsliðum. John Stones er í hópi Englendinga U21, Vellios í hópi Grikkja U21, Matthew Kennedy í hópi Skota U21, George Green verður með Englandi U18, og Ryan Ledson og Jonjoe Kenny með Englandi U17.

Í lokin minnum við fólk á að skrá sig á árshátíðina, svo við vitum hversu mikinn fjölda er um að ræða (ekki bara kommenta að þið ætlið að mæta). Hvet ykkur annars öll til að mæta (líka þau ykkar sem eru að hugsa um að mæta í fyrsta skipti); þetta var frábær skemmtun í fyrra.

4 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Michael Palin spáir Everton sigri, 1-2. Það hlýtur að vita á gott.
  http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/24338311
  😉

  Ég er samt smeykur við þennan leik. Sáttur við jafntefli en vona heitt eftir eins marks sigri — Coleman með sigurmarkið! Segi og skrifa. 🙂

 2. Halli skrifar:

  Ég verð sáttur með stig úr þessum leik en vonast eftir sigri. Êg ætla að spá 1-1 og okkar mark verður sjálfsmark

  • Gunni D skrifar:

   Ég treysti mínum mönnum alveg til að skora sín mörk. Ansi hræddur um að City skori bara fleiri. Vonandi er það bara svartsýnisraus í mér.

 3. Finnur skrifar:

  Vísir að leikskýrslu kominn en þar má finna uppstillingu fyrir leikinn:
  http://everton.is/?p=5738