Helstu fréttir og lykildagsetningar

Mynd: Everton FC.

Það er gott að vera Everton stuðningsmaður þessa dagana og maður einfaldlega hlakkar til að fá að sjá meira. Árangurinn hingað til hefur farið fram úr björtustu vonum en aldrei hefði maður trúað því að Everton yrði taplaust eftir 6 leiki og í Champions League sæti. Sérstaklega eftir að hafa misst Fellaini og í raun frábært að sjá hvað við höfum saknað hans lítið í undanförnum leikjum og liðið í raun að spila mun betur í síðustu leikjum án hans en leikjunum þar á undan með hann í liðinu. Ekki bjóst maður við því eftir að missa markahæsta manninn úr liðinu en það er skrýtið hvernig þetta virkar stundum. Minnir að vissu leyti á Gary Lineker á sínum tíma: markahæstur í deildinni þetta eina tímabil sem hann spilaði með Everton, 30 mörk í 40 og einum leik, en með hann innanborðs spilaði liðið einfaldlega ekki jafn vel og tókst ekki að verja meistaratitilinn. Howard Kendall áttaði sig á því að liðið væri einfaldlega að spila betri bolta án hans og tók kjarkmikla ákvörðun, seldi Lineker — og vann enska deildarmeistaratitilinn strax tímabilið á eftir. Ekki það að maður sé að gera sér vonir um það núna. 🙂

Barkley var valinn leikmaður ágústmánaðar og er vel að því kominn eftir að hafa skorað tvö glæsileg mörk og sýnt frábæran leik frá upphafi tímabils en þessi 19 ára gutti spilaði sig inn í enska landsliðið með frammistöðunni á tímabilinu, sem ekki margir unglingar hafa leikið eftir í seinni tíma. Barkley sagðist hafa dreymt um það frá því hann var lítill polli að skora mark fyrir Everton á Goodison Park og sá draumur rættist í gær. Hann hlakkar jafnframt til að þróa samvinnu sína við Lukaku og sagði: „I love playing with Rom. We link up well and I can run beyond him and I know he’ll find me. We’ve got a good relationship on the field and it’s good having a top player like him in the side“.

Greining Executioner’s Bong á Newcastle leiknum er hér og Martinez var að vonum kátur með liðið í viðtali strax eftir leik. Maður fær aldrei nóg af því að lesa um sigurleiki, er það nokkuð?

En fyrst skulið þið athuga að síðasta tækifæri til að kjósa um nýtt merki Everton er til 23:00 í kvöld. Endilega nýtið ykkur það. Þegar þið eruð búin að kjósa um merkið getið þið valið mark ágúst og septembermánaða en valið stendur á milli 6 flottra marka sem er hvert öðru glæsilegra.

Minnum einnig á að síðasti séns til að bóka sig í ferðina á Goodison Park er á morgun (miðvikudag) og ekki gleyma heldur félagsgjöldum Everton á Íslandi en þið ættuð að finna gíróseðil í heimabanka ykkar. Þökkum öllum sem hafa borgað hingað til kærlega fyrir stuðninginn.

Í lokin má geta þess að Gibson hefur aftur gefið kost á sér í írska landsliðið eftir nokkra fjarveru og var strax valinn í írska hópinn, ásamt James McCarthy og Seamus Coleman.

Comments are closed.