West Ham – Everton 2-3

Mynd: Everton FC.

Everton mætti West Ham á útivelli í mjög kaflaskiptum leik þar sem fyrri og seinni hálfleikur voru eins og svart og hvítt hvað skemmtanagildi varðaði.

Uppstillingin:  Howard, Baines, Distin, Jagielka og Coleman. Barry og Osman á miðjunni, Naismith og Mirallas á köntunum og Barkley fyrir aftan Jelavic frammi. Sama sigurlið og byrjaði gegn Chelsea og Lukaku því ekki í byrjunarliðinu. Bekkurinn: Robles, Heitinga, Oviedo, Deulofeu, McCarthy, Lukaku, Stones.

Fyrri hálfleikur var eiginlega bæði leiðinlegur og tíðindalítill og þó Everton væri með boltann rúmlega 60% og yfirleitt á vallarhelmingj West Ham eða þar um bil náðu þeir aðeins að skapa sér eitt dauðafæri, en það kom strax á 6. mínútu. Mirallas brunaði upp vinstri kantinn og inn í teig, stoppaði snöggt og lék þannig á varnarmann West Ham og náði þéttingsföstu skoti með hægri á markið sem Jaaskelainen varði en Naismith var þar mættur eins og hrægammur í teiginn og var aðeins millimetrum frá því að skalla frákastið í opið markið. Þarna hefði staðan átt að vera 0-1 fyrir Everton.

Jarvis átti góðan sprett tveimur mínútum síðar inn fyrir vörnina en Distin hljóp hann uppi og hreinsaði. Lítið annað gerðist þangað til á 31. mínútu að West Ham skoruðu gegn gangi leiksins með skoti utan teigs, Howard mættur í rétt horn til að verja auðveldlega en boltinn í fæturna á Jagielka, breytti stefnu og fór í hitt hornið. 1-0 fyrir West Ham — heilmikill heppnisstimpill á markinu, en þau telja jafn mikið.

1-0 í hálfleik og bæði lið aðeins átt eitt skot á markið allan hálfleikinn og West Ham nýtt sitt en Everton ekki. Lukaku inn fyrir Jelavic, McCarthy inn fyrir Naismith og þær breytingar skiluðu árangri. Lukaku virkaði mjög frísklegur alveg frá upphafi. Hann kom með ferskan blæ inn í liðið og það verður mjög spennandi að fylgjast með honum í vetur og vor, svo mikið er víst.

Lukaku byrjaði snemma í seinni hálfleik á að senda stungusendingu inn fyrir vörn West Ham þar sem Mirallas kom á hlaupinu og náði að komast framhjá markverði West Ham en snertingin því miður aðeins of föst og of langt til vinstri þannig að West Ham menn náðu að eyða hættunni.

Osman fór meiddur af velli á 51. mínútu og McCarthy kom inn á í staðinn en Osman hafði verið nokkrum sinnum sparkaður niður eða hrint aftan frá en Lee Mason sá enga ástæðu til að flauta.

Nokkrum mínútum síðar kom stórsókn Everton, Baines þræddi boltann milli varnarmanna vinstra megin, eins og hann gerir svo vel og var felldur innan teigs, en ekkert dæmt. Hann náði þó að vinna boltann aftur stuttu síðar og senda fyrir en fyrirgjöfin aðeins of föst fyrir Mirallas sem hefði getað skallað boltann í autt markið ef boltinn hefði verið aðeins lægri. Það kom þó ekki að sök, því Everton var búið að jafna aðeins tveimur mínútum síðar.

Baines tók aukaspyrnu rétt fyrir utan D-ið á vítateignum, og negldi boltanum í hliðarnetið innanvert vinstra megin, algjörlega óverjandi fyrir Jaaskelainen. Þarf eitthvað að ræða þetta frekar?

West Ham reyndu aðeins að sækja í sig veðrið, áttu hornspyrnu á 69. mínútu en skölluðu vel framhjá. Það var eina færið sem mig minnir að þeir hafi fengið fram að þeim tíma (í seinni hálfleik). Everton svaraði strax er Baines komst inn í vítateig vinstra megin og reyndi fyrirgjöf en boltinn í varnarmann West Ham og stefndi í marknetið á nærstöng og Jaaskelainen þurfti að hafa sig allan við að verja. Það hefði samt verið ákveðið réttlæti í því að skora með skoti sem breytir um stefnu, líkt og West Ham í fyrri hálfleik.

West Ham tóku Matt Jarvis út af á 72. mínútu og maður eiginlega klóraði sér í hausnum yfir þeirri skiptingu því hann var sá sem allt gott virtist koma frá West Ham í sókn þeirra. Jæja, ekki grátum við það.

Everton greinilega staðráðnir í að ná í þrjú stig og voru búnir að ná upp mjög þungri og góðri pressu á West Ham, sem komust varla fram yfir miðju. Nema hvað á 74. mínútu fengu þeir víti þegar McCarthy felldi Nolan inni í teig. Noble skoraði örugglega úr vítinu og West Ham aftur komnir yfir þvert gegn gangi leiksins (2-1). Andvarp! Og þá sljákkaði heldur betur í manni, en maður er búinn að læra það að Everton gefst aldrei upp!

Lukaku átti skot af löngu færi á 78. mínútu en hátt yfir en í næstu sókn Everton náði Barkley að komast á sprettinn upp að vítateig (rétt utan við D-ið) og er felldur aftan frá. Gult spjald og ekkert annað — á Noble (vítaskyttuna) sem var þegar kominn með gult og var því rekinn út af. Hetja þeirra að breytast í skúrk og allt í einu fór maður að velta aftur fyrir sér möguleikanum á því að ná þremur stigum úr leiknum.

Þessi aukaspyrnan var eiginlega á nákvæmlega sama stað og síðasta aukaspyrna og við vitum það að svona aukaspyrnur eru eins og víti fyrir nokkurn Leighton Baines. Síðasta aukaspyrna hans var uppi í vinstra og nú sá hann markvörðinn stíga of langt til vinstri, þannig að hann smellti boltanum bara í samskeytin hægra megin og inn. Maður hélt að síðasta aukaspyrna hefði verið flott — en þessi var enn betri. Aftur algjörlega óverjandi fyrir Jaaskelainen. Staðan orðin 2-2 eftir 82. mínútna leik og nú leit þetta mun betur út. En Everton voru alls ekki hættir — manni fleiri og staðráðnir í að nýta sér getumuninn á liðunum líka, sem var nokkur áður en West Ham misstu manninn út af.

Lukaku byrjaði sóknina með því að senda Mirallas inn fyrir, Mirallas hleypur upp en stoppar og sendir fyrir þar sem Lukaku er mættur og skallar í netið. 2-3 fyrir Everton aðeins tveimur mínútum eftir jöfnunarmarkið!! Lukaku lá reyndar óvígur á vellinum eftir, líklega rotast um stund þar sem hann skallaði fyrst boltann en svo varnarmann West Ham. Báðir út af nokkuð lengi, en bæði lið búin að skipta þremur inn á þannig að West Ham léku níu og Everton tíu. Þeir komu þó báðir inn á aftur og 7 mínútum bætt við.

West Ham, máttu eiga það að þeir reyndu að jafna þó þeir væu manni færri og fyrir vikið opnuðu þeir vörnina sína aftur og aftur og oft skall hurð nærri hælum hjá þeim. Lukaku náði að leika laglega á varnarmann West Ham og komast einn inn fyrir en náði ekki að nýta sér það. Mirallas komst líka einn inn fyrir en var dæmdur rangstæður. Everton fékk svo enn eitt tækifæri til að bæta við, á 95. mínútu, með þrjá Everton menn inni í teig en Mirallas reyndi að senda til hliðar á Lukaku í stað aftur til Oviedo sem var dauðafrír í teignum.

Leikurinn endaði því 2-3 fyrir Everton, sem sótti öll stigin þrjú af harðfylgi og sitja nú í fjórða sæti eftir leikinn (þegar umferðin er ekki búin), aðeins stigi á eftir efsta liðinu (sem tapaði í dag).

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 9, Distin 6, Jagielka 6, Coleman (vantar einkunn), Naismith 6, Barry 6, Osman 5, Mirallas 8, Barkley 7, Jelavic 5. Varamenn: Lukaku 8, Oviedo 7, McCarthy 6. Hjá West Ham fékk Nolan 8, þrír voru með 7 og restin aðallega í fimmum (nokkrar sexur).

Baines var algjörlega frábær í leiknum — besti maður vallarins, mjög frískur upp kantinn og ekki að sjá að hann saknaði Pienaar mikið. Mirallas var einnig mjög sprækur á miðjunni og Lukaku átti frábæran leik og kórónaði hann með því að skora sigurmarkið. Það eina sem hefur skort í hópinn að undanförnu er einhver til að klára færin og ég get ekki betur séð (miðað við þennan leik) en að Lukaku eigi eftir að klára fjöldamörg færi á tímabilinu og jafnvel leggja upp þó nokkur mörk.

Annar sigurleikurinn í röð og Everton hér með eina taplausa liðið í deildinni. Roberto Martinez hefur því ekki enn tapað keppnisleik með Everton. Vonandi heldur það áfram um langa hríð.

26 Athugasemdir

 1. Gunni D skrifar:

  Glæææææsilegt!!!!!

 2. Gunni D skrifar:

  Hvernig er það með hann Bjarna?Ætli honum sé ekki farið að hlýna greyinu????!!

 3. Albert Gunnlaugsson skrifar:

  Er nokkuð annað hægt en elska þatta lið 😀

 4. Finnur skrifar:

  Yndislegur rússíbani, þessi leikur. Tveir sigurleikir í röð, ekki hægt að kvarta yfir því! 🙂

 5. Gunnþór skrifar:

  Baines er ekki að fara neitt,þó hann hafi viljað fara í sumar þá vill hann vera kóngurinn á goodison eftir þessa frammistöðu og vinna titla með Everton og spila í meistaradeildinni með Everrton á næsta ári.Þvílík endurkoma í dag er bara stórliði sæmandi.

 6. Halli skrifar:

  Þessi seinni hálfleikur þvílík skemmtun og frábært að ná í 3 stig á útivelli. Það að eiga leikmann eins og Baines er stórbrotið hann er langbesti Leftback í ensku deildinni. Mirallas frábær á boltanum. Barkley mjög solid. Miðverðirnir öruggir Distin hraður og Jags góður á boltanum Coleman, Osman og Jelavic frekar tíndir Barry tapaði boltanum ílla í fyrsta markinu en annars öruggur Lukaku frábær MaCarthy og Oviedo ekki áberandi. Þetta er mitt mat og þarf ekki að endurspegla mat þjóðarinnar

 7. Gunnþór skrifar:

  sorry hef verið full gr….b á rrrinnu,vonandi er mér fyrirgefið.

 8. Teddi skrifar:

  Skál fyrir „My Left Foot“ ! 🙂

 9. Gunnþór skrifar:

  Halli þetta er málið snilllld.

 10. Hólmar skrifar:

  Eina taplausa liðið í deildinni. Lítið hægt að kvarta. Framherjinn sem vantaði fyrstu þrjá leikina er mættur.

 11. Finnur skrifar:

  West Ham fengu á sig 1 mark í fjórum fyrstu leikjum sínum en Everton skoraði þrjú í dag. Nokkuð gott gegn vel skipulögðu varnarliði.

 12. Finnur skrifar:

  Tveir skemmtilegir frasar sem ég fann á BBC vefnum.

  Lukaku sagði um markið: „I remember nothing about it. I did not even know I had scored, that was the first thing I asked the doc. I said ‘who scored?’ He said ‘you’…“

  Einnig:

  Osman lét Baines vita að hann hefði fjarlægt hann úr fantasy liðinu sínu þar sem sá síðarnefndi skoraði ekki nógu mikið. Baines: „so I put that right today“. 🙂

 13. Finnur skrifar:

  Eitt í viðbót og svo er ég hættur — maður bara getur ekki hætt að lesa sér til um svona skemmtilega leiki… 🙂

  Ef einhver hefur áhyggjur af því að meiðsli í herbúðum Chelsea verði til þess að Lukaku hverfi allt í einu heim á leið þá rakst ég á þetta: „Martinez also clarified the Belgian’s situation at Everton, stating that Chelsea could not recall the striker.“

  Það lítur því út fyrir að hann verði allt tímabilið hjá Everton, sem er hið besta mál.

 14. Sigurbjörn skrifar:

  Þetta var algerlega frábært. Innkoman hjá Lukaku gerði gæfumuninn og maður er nánast i sjokki yfir hversu mikill munur er á honum og Jelavic. Eftir nokkrar mínútur í seinni hálfleik var Lukuku búinn að gera meira en Jelavic allan fyrri hálfleikinn. Ég sá í tölfræði um leikinn að Lukaku átti 40 snertingar en Jelavic 15 og það segir sína sögu fyrir utan að manni fannst skapast hætta nánast í hverri snertingu hjá Lukaku. Vonandi nær Jelavic sér þó á strik einn góðan veðurdag en ég held að hann sé ekki að fara að spila mikið næstu vikurnar.

  Nú er bara að halda þessu striki og taka Fulham í deildbikarnum á þriðjudaginn. Breiddin er fín í hópnum og margir góðir leikmenn sem spiluðu ekki í gær koma líklega til með að spila þennan leik.

 15. Elvar Örn skrifar:

  Frábær seinni hálfleikur og það væri reyndar mjög gaman að sjá Lukaku og Jelavic saman í framlínunni, hef trú á að það myndi virka enn betur.
  Geri ráð fyrir að liðið verði eilítið breytt í bikarnum en vona að breytingarnar verði ekki meiri en svo að 3 nýjir menn fái að spila.
  Deulofeu, John Stones og Ovieido t.d., þá ásamt Lukaku.

  • Sigurbjörn skrifar:

   Ég væri alveg til í að sjá meiri breytingar. Það eru þarna menn til viðbótar þessum þremur sem þurfa að spila til að halda sér í leikformi eða eru að kom úr meiðslum. Menn eins og Kone, Gibson , Robles, Heitinga, Hibbert ! og jafnvel eitthvað af ungu strákunum eins og Vellios og Duffy.

  • Finnur skrifar:

   Ég er alveg sammála Sigurbirni — það er aftur leikur á laugardaginn og því mjög líklegt að leikmenn á jaðrinum fá tækifæri gegn Fulham. Grunar að Kone og/eða Vellios verði í framlínunni gegn Fulham. Gæti verið að Distin og/eða Jagielka verði hvíldir fyrir Heitinga og/eða Duffy og vona mjög að Gibson fái leik. Ekki ólíklegt að Robles verði í markinu í stað Howard, til að halda þeim fyrrnefnda skörpum og þeim síðarnefnda á tánum.

   • Teddi skrifar:

    Reyndar mánudagsleikur gegn Newcastle en breytir litlu, hvíla sem flesta lykilleikmenn.

    • Finnur skrifar:

     Ah! Mikið rétt, Teddi. Takk fyrir innleggið. Þetta er mánudagsleikur gegn Newcastle, sem tekur smá pressuna af hópnum — en sama gildir þó: rétt að hvíla lykilmenn. Bæti við: Oviedo inn á fyrir Baines. 🙂

 16. Finnur skrifar:

  Bjartsýnin er greinilega að aukast með hverjum leiknum sem líður… http://www.nsno.co.uk/everton-news/2013/09/mooning-over-martinez/

 17. Elvar Örn skrifar:

  Hvaða „merki“ viljið þið sem næsta Everton merki, þ.e. frá og með næsta ári?

  http://www.evertonfc.com/news/archive/2013/09/22/crest-vote-to-begin

 18. Diddi skrifar:

  ég mun kjósa A, að mínu mati flottasta merkið. Kveðja frá Grænlandi, okkar menn að standa sig 🙂

 19. Finnur skrifar:

  Klárlega miðjumerkið, en höldum þeim umræðum hér:
  http://everton.is/?p=5600

  Það sem ég ætlaði að segja var að Baines og Lukaku voru í liði vikunnar að mati BBC:
  http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/24199069
  (Goal tímaritið ekki búnir að gefa út lið vikunnar, svo ég viti.