Everton – Chelsea 1-0

Mynd: Everton FC.

Chelsea mætti á Goodison Park og uppskar ekkert stig í dag. Sigurmarkið kom frá Naismith úr skalla rétt fyrir lok hálfleiks, og það á afmælisdegi hans. Fyrsti sigurinn staðreynd og mikill léttir að fá loksins þrjú stig í hús á móti sterku liði Chelsea.

Uppstillingin: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman, Barry, Osman, Naismith, Mirallas, Barkley, Jelavic. Varamenn: Heitinga, McCarthy, Robles, Oviedo, Stones, Deulofeu, Gueye. Fyrsti leikurinn eftir Fellaini en Gareth Barry stóð vaktina vel og var algjörlega frábær. Pienaar og Kone hvergi sjáanlegur en þeir voru lítillega meiddir.

Chelsea átti fyrsta færið á fjórðu mínútu en skallinn hátt yfir eftir fyrirgjöf frá hægri. Everton svaraði á sjöundu með skyndisókn, Naismith gaf fyrir frá hægri og Jelavic náði skallanum en of laus, beint á Cech.

Barkley sýndi snilli sína með einspili upp miðjuna sem minnti örlítið á Mirallas gegn Stoke í fyrra en stungusending hans á Mirallas upp til vinstri örlítið of löng og Chelsea bjargaði í innkast.

Chelsea fékk besta færi sitt í leiknum á 29. mínútu þegar Howard átti glórulausa sendingu beint á sóknarmann Chelsea inni í teig en Barry bjargaði á línu með frábærri tæklingu. Nýi maður þeirra, Eto átti skot innan teigs á 34. en Howard bætti fyrir mistök sín og varði glæsilega í horn.

Chelsea áttu svo  skalla yfir eftir aukaspyrnu á 40. mínútu en þar með voru færi þeirra upptalin í fyrri hálfleik. Everton menn voru þó ekki hættir, því á síðustu sekúndunum sendi Osman fyrir markið frá hægri — aðeins of löng, Jelavic skallaði hann til baka á Naismith sem skallaði framhjá Cech. 1-0 Everton í hálfleik!

Chelsea byrjuðu með miklum látum þegar Schurle komst inn fyrir strax á fyrstu mínútu hægra megin í teig, einn á móti markverði og nær skoti framhjá Howard en í hliðarnetið. Sluppum með skrekkinn. Þeir áttu svo tvö skot að marki, fyrra varði Howard en hélt ekki og seinna (Eto náði frákastinu) framhjá marki. Þeir áttu svo fyrirgjöf og skalla á 54. mín. en beint á Howard. Everton svaraði með sömu tilraun, en Jelavic skallaði framhjá.

Lampard og Oscar inn á á 57. mínútu og maður blótaði þeim fyrra í laumi því hann skorar eiginlega alltaf á móti Everton. Ekki þó í dag. Chelsea með 20 tilraunir fram að þessu, aðeins 7 sem hittu á markið. Everton með 5 á markið úr mun færri tilraunum.

Chelsea menn vildu víti á 60. mínútu — Howard Webb ekki áhuga á því. Maður sagði bull og vitleysa í fyrstu 2-3 endursýningunum en svo hætti maður að vera svo viss. Samt, hefði verið hart.

McCarthy inn á fyrir Jelevic á 65. mínútu og Mirallas settur fremstur og stóð sig bara nokkuð vel í þeirri stöðu.

Chelsea átti skot í hliðarnetið á 68. mínútu en Howard með það allan tímann. Torres inn á. Cole út af. Torres sást varla það sem eftir lifði leiks.

Mirallas með skot úr aukaspyrnu á 70. mínútu en varið. Everton fékk svo strax á eftir þrjú horn í röð og manni fannst komin smá pressa eftir að hafa legið of djúpir í seinni hálfleik og leyft Chelsea að vera mikið með boltann (67% vs. 33%).

Mirallas átti annað skot af löngu færi á 77. mín. en vel varið. Chelsea í sókn þegar Barkley nær boltanum og sendi glæsilega stungusendingu á Mirallas á 81. mínútu og Mirallas snýr David Luiz af sér og er að komast inn fyrir síðasta mann Chelsea en David Luiz rífur hann niður og hlýtur að fá rautt — nei, slapp með gult.

Barkley næstum kominn inn fyrir vörnina á 88. mín en brotið á honum. Stones inn fyrir Naismith á meðan Baines stillir og Baines átti svo glæsilega aukaspyrnu í samskeytun og út. Deulofeu inn fyrir Mirallas á 91. mínútu.

Osman átti skot yfir á 92. mínútu en Everton landaði þessum sigri nokkuð vel í lokin, lítið að gerast hjá Chelsea í sókninni undir lokin.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 7, Distin 8, Jagielka 7, Coleman 7, Naismith 8, Barry 9, Osman 7, Mirallas 8, Barkley 7, Jelavic 6. Varamenn okkar fengu allir 6 (McCarthy, Stones og Deulofeu). Chelsea menn fengu 6 á línuna, fyrir utan þrjár sjöur og tvær fimmur (Eto og Torres). Barry maður leiksins eftir að hafa bjargað marki og átt algjörlega frábæran leik á miðjunni í sínu fyrsta keppnisleik á tímabilinu (lék ekkert með City).

Howard  og varnarmenn voru mjög góðir, fyrir utan mistök Howard sem næstum kostuðu mark (og Coleman kannski að flækja málið stundum of mikið). Osman var slakur í leiknum en Barry einfaldlega stórkostlegur. Naismith átti mjög góðan leik sem og Barkley og Mirallas en greyið Jelavic virðist dauður úr öllum æðum (fyrir utan stoðsendinguna kom afskaplega lítið frá honum).

Eina liðið sem náði að sigra Everton á Goodison í fyrra búið að tapa þar á þessu tímabili. Meira svona!

11 Athugasemdir

  1. Gunni D skrifar:

    Þvílík barátta!!!!

  2. Gunni D skrifar:

    Flottur sigur.

  3. Einar G skrifar:

    Þetta var rosa leikur. Verð að viðurkenna að Chelsea átti meira í leiknum en samt ekki. Okkar menn mættu þeim á réttum stöðum á réttum tíma. Við áttum þessi 3 stig inni og frábært að fá þau í þessum leik. Onwards and upwards 🙂

  4. Ari S skrifar:

    Þetta var glæsilegt í dag. Ég var að vinna og sá ekki fyrri hálfleikinn. Missti síðan af byrjuninni í síðari hálfleiknum en sá síðustu 30 mínúturnar í HD þrívídd það bætti missinn aðeins upp. Mér fannst Everton komast vel frá þessu og vörnin stóð sig vel. Þar sem ég sá ekki allann leikinn þá er ég ekki 100% dómbær á hann en ég sá umfjöllunina á skysport 2 eftir leikinn og þar kom fram að Chelsea hefði átt 21 skot á markið en þó aðeins 6 á rammann.

    Og svo sá ég 113 vælubílsins viðtal við Mourinho eftir leikinn þar sem hann reyndi að koma því að að Chelsea hefði átt skilið að vinna þar sem þeir hefðu verið betri og svo vogaði hann sér að gefa í skyn að Chelsea hefði átt að fá víti þegar Oscar (minnir mig) lét sig detta utan við teig og skutlaði sér inn í teiginn… aldrei víti og gaurinn hefði átt að fá gult fyrir leikaraskap og ýkjur.

    Eins var Ivanovic grófur þegar hann hálfpartinn skutlaði sér á eftir boltanum með hendinni eftir að hafa misst af skalla í góðu færi.

    Og Mourinho hálfgrátandi eftir leik talandi um 21 skot á markið en af þeim fóru bara 6 á rammann… Everton voru með 11 skot og álíka mörg á rammann og Chelsea (6)

    Hann (Móri) hefur aldrei talað svona eftir Everton leik áður að mig minnir og það ber vott um að hann er farinn að líta á Everton sem meir ógn en áður. Sem er gott mál. Kannski hann sé nú þegar farinn að sjá eftir því að hafa lánað okkur Lukaku þar sem að framherjar hans voru afar slakir í dag, bæði það litla sem ég sá til þeirra og einnig öll umfjöllun eftir leikinn (Jamie Redknapp) þar sem kom fram að bæði Eto og Torres voru lélegir.

    Ég var ánægður með allt sem ég sá til Everton liðsins í dag (síðustu 30 mín). Þeir voru bæði heppnir og óheppnir og Barkley var enn og aftur frábær, Barry maður leiksins og allt að gerast…….

  5. Sigurjón Sigurðsson skrifar:

    Barry var frábær í þessum leik og Barkley mjög líflegur, ég var eiginlega alltaf rólegur yfir þessum leik, fannst ekki mikil hætta frá Chelsea.

  6. Ari S skrifar:

    Ég varð rólegri þegar Ashley Cole fór útaf og Fernando Torres kom inná, einhverra hluta vegna. Cole allan daginn líklegri til að skora þó mér líki miklu betur við Torres heldur en Cole sem persónur.

  7. Halli skrifar:

    Barry þvílíkur leikmaður (hvað heitir aftur þessi stóri með hárið?) flottur sigur hjá okkar mönnum. Ósigraðir enn og ekki mark á okkur í þremur leikjum þetta lítur bara vel út

  8. þorri skrifar:

    ég því miður komst ekki að horfa með ykkur .En náði samt að horfa á hann þetta var nokkuð góður leikur og skemtilegur að horfa.Okkar menn virkuðu nokkuð frískir.Markið sem reði úslitu m var vel að verki staðið.Þetta var vel gert hjá jelavic að ná að skala til Naismith sem skoraði þetta flotta mark.Heildina á litið þá var liðið að spila vel í gær.Fyrir udan seinihálfleikin,Þá voru okkar menn góðir.Mér fanst þó 2 bera af Barkley og Barrý.En Howard var ljón heppin að fá ekki á sig mark. Smá einbeitingarleysi. En frábær leikur.

  9. Finnur skrifar:

    Fann skemmtilega greiningu á leiknum á Google+ núna áðan:
    http://outsideoftheboot.com/2013/09/15/everton-1-0-chelsea-tactical-analysis/
    PS. Hún er frá stuðningsmanni Chelsea.