Helstu fréttir

Mynd: Everton FC.

Everton áttu 14 fulltrúa úr aðalliðinu sem tóku þátt í landsleikjahelginni (en leikið er einnig næstu daga). Barkley spilaði sinn fyrsta leik með A landsliðinu þegar þeir unnu Moldóvu 4-0 í vináttuleik en Barkley var ekki langt frá því að skora (sjá helstu atvik leiksins á Youtube) — ekki slæmt í sínum fyrsta landsleik! Stjarna hans hefur skinið skært undanfarið og maður veltir fyrir sér hvort þetta sé allt að gerast aðeins of hratt en Martinez er á öðru máli:

„Ross is the first one to understand he is still in the middle of his development and getting that call from England will be great for him to train with the senior side, even though he knows full well that his role is with the Under-21s at the moment, and to carry on at club level performing in the role he has been for the last four games“. Gamla kempan Peter Reid er líka á því að Barkley eigi eftir að standa sig en John Stones, varnarmaður okkar ungi, sagði auk þess í viðtali að Barkley væri ákveðin fyrirmynd fyrir sig.

Baines og Jagielka léku einnig fyrir landslið Englands (sá síðarnefndi sinn 20. landsleik) en Coleman og glænýi leikmaður okkar, James McCarthy, léku allan leikinn fyrir Íra gegn Svíum. Mirallas kom inn á sem varamaður fyrir Belga og skoraði gegn Skotum í 2-0 sigurleik (Lukaku og Naismith báðir á bekknum) og Jelavic kom inn á í lokin í jafnteflisleik gegn Serbíu. Oviedo og Howard mættust sem andstæðingar og Oviedo hafði betur: 3-1 (Kosta Ríka gegn Bandaríkjunum).

Ekkert hefur bæst við í meiðsladeildinni eftir landsliðsleikina hingað til (svo vitað sé), sem er mjög jákvætt.

En víkjum þá aðeins aftur að félagaskiptaglugganum því maður hafði litlar væntingar fyrirfram, sá jafnvel fram á að missa bæði Fellaini og Baines rétt við lok gluggans og ná því ekki að styrkja liðið fyrr en í janúarglugganum. En Martinez hafði aðrar skoðanir á því máli, náði að halda Baines (sem er að mínu viti mun mikilvægara en að halda Fellaini) og náði, að flestra mati, að standa við stóru orðin og enda gluggann sterkari en við byrjuðum hann sem kom nokkuð á óvart. NSNO orðaði þetta svona í grein sinni um félagaskiptagluggann:

„There is now adequate cover in central midfield with McCarthy, Gibson and Barry competing for two holding or central spots. This means we don’t need to play Osman or Barkley further back and they can compete with Naismith for a role further up the field. We have options on the flanks with Pienaar, Deulofeu and Mirallas all competing for a place. Up front we finally have a striker who should score goals and may give Kone and Jelavic the kick up the ar*e they sorely need and defensively we have able cover across the back line.“

Eins og fram kom í kommentakerfinu okkar átti Mirallas ríkan þátt í því að sannfæra Lukaku um að taka augljóslega rétta ákvörðun og er það hið besta mál.

Búið er að úthluta nýju mönnunum númeri fyrir tímabilið: James McCarthy fær númer 16, Romelu Lukaku númer 17 og Gareth Barry númer 18.

Martinez fór mjög fögrum orðum um McCarthy en hann telur að hann eigi mjög bjarta framtíð fyrir sér og komi til með að réttlæta verðmiðann. Hann fjallaði einnig um John Stones sem er einn af þeim leikmönnum sem hann hefur gríðarlegt álit á og ætlaði að kaupa til Wigan en Everton varð fyrri til. Martinez spáði því einnig að Lukaku ætti eftir að hafa mjög jákvæð áhrif á Everton á tímabilinu og Graeme Sharp rifjaði upp þegar hann sá Lukaku í fyrsta skipti og heillaðist mjög. Unsworth lét sitt ekki eftir liggja og mærði Gareth Barry mjög.

Martinez ræddi einnig um lokadag félagaskiptagluggans og brottför Fellaini og Anichebe en hann þakkaði báðum fyrir vel unnin störf. Viðbúið var að Fellaini myndi fara — hann hefur nú talað nógu mikið um það undanfarin ár, stundum gegnum pabba sinn, þannig að það var bara tímaspursmál. Brottför Anichebe kom aftur á móti meira á óvart og ekki síst verðmiðinn á honum en 6M punda var meira en maður átti von á að fá fyrir hann. Sama má reyndar segja um Fellaini en United kaus að bíða og borga þar með 4M punda meira en þeir hefðu getað keypt hann á í júlí.

Martinez sagði jafnframt að til stæði að láta Leighton Baines finna vel fyrir því hversu mikið álit allir hjá klúbbnum hafi á honum og bjóða honum nýjan samning. Enda er hann mikilvægari í augum Martinez en Fellaini. Það að halda Baines er í mínum augum eins og að fá nýjan leikmann til að skrifa undir.

Í öðrum fréttum er það helst að…

– 125 ár eru liðin síðan Everton spilaði sinn fyrsta deildarleik í enska fótboltanum með 2-1 sigri á Accrington Stanley, þann 8. september 1888 fyrir framan 12 þúsund áhorfendur á Anfield. Everton er eins og kunnugt er eitt af aðeins 12 liðum sem stofnuðu ensku deildina það árið.

– Everton U21 árs liðið sigraði Reading U21 3-1 með tveimur mörkum frá Chris Long og einu frá varnarmanninum Tyias Browning, en sá síðarnefndi var að prófa sig áfram í stöðu varnarsinnaðs miðjumanns og stóð sig frábærlega, skoraði (eins og áður sagði) og lagði upp annað markið fyrir Long. U18 ára liðið, aftur á móti, tapaði 1-0 á útivelli gegn litla bróður en aðeins mark úr víti skildi að liðin tvö.

Og í lokin má geta þess að nú er hægt að forpanta þriðju treyjuna.

3 Athugasemdir

  1. albert gunnlaugsson skrifar:

    Frábær umfjöllun Finnur. Takk Takk

  2. Georg skrifar:

    Flott umfjöllun að vanda Finnur.

    Ég horfði á megnið af leiknum hjá Englandi eftir að Barkley kom inn á. Hann var ótrúlega yfirvegaður á boltanum og var að dreifa spilinu vel. Hann leit ekki út fyrir að vera að spila sinn fyrsta landsleik, bara mjög flottur fyrsti leikur sem hefði kórónast ef hann hefði farið inn boltinn. Þá hefði hann klárlega fangað alla athyglina.

    Flott að sjá Mirrallas skora fyrir Belgíu, vonandi að hann komi sterkur til baka þvi hann hefur að mínu mati verið að spila undir pari í fyrstu leikjum tímabilsins, hann á mikið inni og hann á eftir að vaxa, ég er alveg 100% á því.

  3. Georg skrifar:

    http://www.mbl.is/sport/fotbolti/2013/09/11/trapattoni_haettur/

    Þá er Trappatoni hættur eftir tapið hjá Írlandi í gær. Spurning hvort að Gibson muni ekki fá loksins séns með landsliðinu með nýjan þjálfara. Eflaust áhugavert fyrir Írland upp á framtíðina að Gibson og McCarthy spili saman á miðjunni hjá Everton og Írlandi.