Norwich vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Fyrsti leikur Everton á tímabilinu 2013/14 er gegn Norwich á útivelli á laugardaginn kl. 14:00. Roberto Martinez sagði í (væntanlega) síðasta blaðamannaviðtali sínu fyrir tímabilið að menn vonist alltaf eftir heimaleik til að byrja tímabilið en það er þó enginn ávísun á gott gengi, þó vissulega hafi Everton byrjað tímabilið vel á heimaleik síðast — 1-0 sigur gegn United. Minni á að tímabilið þar á undan gaf okkur einnig heimaleik, gegn QPR, sem tapaðist 1-0. Líklega skiptir ekki öllu hvort fyrsti leikur er heima eða heiman; það verður óhjákvæmilega einhver spenna í mönnum hvar sem leikið verður.

Nokkuð jafnræði hefur verið með liðunum á heimavelli Norwich frá upphafi, Norwich hefur unnið 9 sinnum, Everton 7 sinnum og 8 sinnum hefur leik lyktað með jafntefli. Norwich misstu í sumar frá sér Grant Holt sem hefur oft verið Everton þyrnir í síðu (hann virkar svolítið á mann sem þeirra Duncan Ferguson) en í staðinn keyptu þeir Gary Hooper frá Celtic sem þeir sjá sem þeirra markaskorara (ásamt Ricky Van Wolfswinkel). Hooper var hins vegar borinn af velli í þeirra síðasta leik (fyrir aðeins tveimur dögum) og þó hann hafi sloppið við langtímameiðsli er ólíklegt að hann verði orðinn góður fyrir helgina. Jafnframt er Leroy Fer í leikbanni og varnarmaðurinn Sebastien Bassong (sem valinn var leikmaður tímabilsins af stuðningsmönnum Norwich á síðasta tímabili) er tæpur. Hjá okkur eru Gibson og Hibbert meiddir, Gibson á séns í leikinn en Hibbert líklega ekki — og væri, að ég tel, ekki fyrsti valkostur Martinez hvort eð er.

Þau ykkar sem misstuð af undirbúningstímabilinu en vilja fá yfirlit yfir leiki Everton, geta séð það stuttlega hér (3-5 mínútna yfirlit hvert vídeó en hægt að sjá lengri útdrætti — jafnvel alla leikina — á Everton TV):

Austria Vín 1-2 tap
Accrington 4-1 sigur
Blackburn 3-1 sigur
Juventus 1-1 jafntefli
Real Madrid 1-2 tap
Valencia 0-1 tap
Real Betis 2-1 sigur

Eftir því sem ég kemst næst spiluðu Norwich eftirfarandi leiki á undirbúningstímabilinu: 3-0 sigur á Club Dorados de Sinaloa, 1-0 tap gegn San Jose, 1-0 tap gegn Portland Timbers, 1-1 jafntefli gegn Real Sociedad og 2-0 sigur gegn Panathinaikos.

En í staðinn fyrir að velta sér upp úr Norwich liðinu og leiknum við þá (læt Exectioner’s Bong sjá um þá greiningu) langaði mig til að kanna væntingar ykkar til næsta tímabils og biðja ykkur um að spá fyrir um gengi Everton á næsta tímabili (með því að leggja inn komment í kommentakerfinu).

– Sæti í deild?
– Árangur í deildarbikar?
– Árangur í FA bikar?
– Leikmaður tímabils?
– Hver þarf að sanna sig?
– Hver kemur mest á óvart?

14 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Ég skal byrja…

    – Sæti í deild?

    Erfitt að segja. Liðið kemur inn með breyttar áherslur og þarf örugglega tíma til að aðlagast því. En á móti kemur að með nýjum stjóra þurfa allir að sanna sig og við höfum séð það til dæmis með Howard og Jelavic (sem virka báðir mjög heitir) að Martinez hefur kveikt svolítið undir mönnum. Ég ætla að spá því að þetta „cancel-i“ hvort annað út og spá okkar mönnum 6. sætinu (enn á ný), einu sæti fyrir ofan litla bróður (enn á ný).

    – Árangur í deildarbikar?

    Ég spáði sneypuför í deildarbikar á síðasta tímabili og hafði rétt fyrir mér (töpuðum fyrir Leeds í 3. umferð). Mig grunar hins vegar að þetta verði okkar keppni í ár og við náum mjög langt, jafnvel vinnum dolluna.

    – Árangur í FA bikar?

    Ég spáði því að við færum alla leið á fyrra en Roberto Martinez (og Wigan liðið) sló okkar menn út á Goodison í fjórðungsúrslitum og fóru alla leið og unnu bikarinn. Ég spái því að við náum svipað langt í ár og í fyrra (fjórðungsúrslit).

    – Leikmaður tímabils?

    Ég vona heitt og innilega að Jelavic verði leikmaður tímabilsins en grunar samt að það verði Mirallas — ef hann nær að halda sér heilum.

    – Hver þarf að sanna sig?

    Kone kemur inn með 5M punda verðmiða á sér en hefur ekki náð að sýna almennilega hvað hann getur á undirbúningstímabilinu. Jelavic verður fyrsti valkostur í sókninni en Kone þarf að veita honum harða samkeppni.

    – Hver kemur okkur mest á óvart?

    Steven Naismith.

  2. Einar G skrifar:

    – Sæti í deild?
    Held að þetta verði annað hvort spútnik tímabil eða algjört bust. Ég spái 5. sæti.

    – Árangur í deildarbikar?
    Held að Martinez láti ungliðana og varamennina spila þessa keppni og þeir vilja sanna sig, förum allavegana í 8 liða.

    – Árangur í FA bikar?
    Úrslitaleikur

    – Leikmaður tímabils?
    Held að Mirallas taki þetta.

    – Hver þarf að sanna sig?
    Howard þarf að koma inn í fyrstu 10 með því að halda að mestu hreinu til að halda sætinu.

    – Hver kemur mest á óvart?
    Verð sammála Finni þarna Naismith mun koma skemmtilega á óvart 🙂

  3. Halli skrifar:

    Sæti í deild. 5 sæti

    Deildarbikar. Sigur

    FA cup. Slakt gengi

    Leikmaður ársins. Mirallas

    Hver þarf að sanna sig. Heitinga

    Hver kemur á óvart. Roberto Martinez

    Við byrjum leiktíðina á útisigri 2-0 og fáum mörkin frá Jelavic og Jags.

    Kveðjan góð

    Halli

  4. Sigurbjörn skrifar:

    Ég verð að viðurkenna að ég er gríðarlega óviss varðandi okkar stöðu gagnvart hinum liðunum í upphafi tímabils en ég spái 6. sæti og þyki það jafnvel nokkuð bjartsýnt.

    Kominn tími á dollu og besti möguleikinn er í deildarbikarnum svo ég spái sigri þar.

    8 liða úrslit í FA

    Vona að Barkley springi út og verði besti leikmaðurinn

    Mér sýnist nýju leikmennirnir fjórir allir þurfa að sanna sig þar sem enginn þeirra virðist geta gengið beint inn í liðið.

    Hef trú á að Oviedo gæti spilað meira en hingað til og komið á óvart

  5. Teddi skrifar:

    – Sæti í deild?
    Mjög erfitt að toppa árangurinn í vor, 8 sæti með nýjan manager er ásættanlegt.

    – Árangur í deildarbikar?
    8 liða úrslit.

    – Árangur í FA bikar?
    Undanúrslit.

    – Leikmaður tímabils?
    Tim Howard.

    – Hver þarf að sanna sig?
    Osman þarf að eiga topp byrjun til að eigna sér sæti í byrjunarliðinu.

    – Hver kemur mest á óvart?
    Fellaini mun láta sölu-umtalið hafa mikil áhrif á sig og verður seldur í janúar!

  6. Sigurjón Sigurðsson skrifar:

    – Sæti í deild?
    1. sæti

    – Árangur í deildarbikar?
    mér er alveg sama

    – Árangur í FA bikar?
    komumst í undanúrslit en töpum fyrir Chelsea

    – Leikmaður tímabils?
    Jelavic

    – Hver þarf að sanna sig?
    Naismith þarf að sanna sig

    – Hver kemur mest á óvart?
    Held að Naismith komi okkur mest á óvart

  7. Elvar Örn skrifar:

    – Sæti í deild?
    Ég er alltaf óþarflega bjartsýnn en ég tel hópinn sterkari (breiðari) og reynslumeiri en í fyrra og ungir fyrnasterkir leikmenn að koma inn.
    Spái 5 sæti

    – Árangur í deildarbikar?
    Dettum út á móti liði í neðri deildum en komumst áfram eftir okkar fyrstu umferð.

    – Árangur í FA bikar?
    Náum drullulangt hér og undanúrslit eru trygg. Dollan gæti komið á Goodison.

    – Leikmaður tímabils?
    Mirallas er agalega líklegur en Jelavic gæti komið mörgum efasemdarmönnum á óvart í ár. Verður gaman að sjá Fellaini aftar á vellinum og má gera ráð fyrir að hann skili ekki eins mörgum mörkum og í fyrra en Barkley kemur þar sterkur inn.

    – Hver þarf að sanna sig?
    Heitinga og Naismith þurfa að sanna sig en eiga ágætis möguleika á að gera það. Osman gæti fengið að spila minna en oft áður og Hibbert gæti átt erfitt með að komast í liðið. Sá sem þarf kannski mest að sanna sig er samt Barkley.

    – Hver kemur mest á óvart?
    Barkley (án nokkurs vafa) sem og Jelavic

  8. Elvar Örn skrifar:

    Er Gareth Barry að koma til okkar sem lánsmaður?

  9. Ari S skrifar:

    – Sæti í deild?

    Við verðum vonandi í baráttunni um 4. sætið og ég segi 4-6 sæti. Mín spá.

    – Árangur í deildarbikar?

    4. umferð.

    – Árangur í FA bikar?

    Úrslit og sigur, Martinez kann þetta 🙂

    – Leikmaður tímabils?

    Barkley (Jelavić kemur sterkur inn þarna)

    – Hver þarf að sanna sig?

    Barkley

    – Hver kemur mest á óvart?

    Barkley

    Ég hugsaði um þetta í hálftíma áður en ég ákvað að skrifa þetta… byrjaði tvisvar sinnum en þurrkaði jafnóðum út. Það er smá grín í þessu en mér datt í hug að hafa Barkley í öllum þremur kostunum því það er ljóst (fyrir mér) að hann verður pínulítið að sanna sig þetta tímabil EF hann ætlar að verða sú stórstjarna sem við höfum verið að búast við að hann verði.

    Hann mun slá í gegn verða leikmaður tímabilsins hjá okkur og með því koma mörgum á óvart.

    kær kveðja og góða helgi 🙂

    Ari

    ps. ég verð því miður að vinna þennan laugardag og kemst ekki á Ölver…. :(o

  10. Elvar Örn skrifar:

    Bara rúmlega 15 klukkutímar í leik, shiiiit ég er farinn með bjórinn í kæli 🙂

  11. Teddi skrifar:

    Spái taugastrekktum fyrri hálfleik hjá báðum liðum, 1-1 verða úrslitin og Baines með mark Everton.

  12. Hólmar skrifar:

    Jæja hvað fannst mönnum um fyrsta leik? Maður sá ekki mikla breytingu frá því í fyrra, enda kannski ekki við því að búast strax. Liðið hélt boltanum vel, 68% skv. tölfræðinni sem ég sá. Ekki mikið um dauðafæri samt. Markið hjá Barkely auðvitað afar glæsilegt. Fannst vörnin virka hálf ótraust oft á tíðum. Heppnisstimpill á seinna marki Norwich skot sem endar sem frábær sending.

    Heilt yfir ágætur leikur hjá okkar mönnum. Jelavic frekar ósýnilegur. Fannst Fellaini finna sig vel sem afturliggjandi miðjumaður og Barkley mjög góður fyrir aftan Jelavic. Barkley maður leiksins að mín mati. Pienaar með óvenju margar misheppnaðar sendingar að mér fannst. Erfitt að leggja mat á Kone þar sem hann var ekki mikið í boltanum. Okkar menn héldu boltanum vel innan liðsins, eins og tölfræðin sýnir, en fannst spilið alltof hægt oft á tíðum og illa gekk að brjóta á bak aftur vörn Norwich. Mirallas fannst mér ekki nægilega sýnilegur en hef mikla trú á honum í vetur.

    Þá að spánni.

    – Sæti í deild?
    Held að við verðum 7 sæti, er hræddur um að grannar okkar endi fyrir ofan okkur ásamt liðunum sem gerðu það í fyrra. Þetta verður auðvitað að einhverju leyti tímabil breytinga en ekki eins stórra og margir virðast halda. Held að þeir sem tjá sig um að Martinez sé með allt öðruvísi stíl en Moyes hafi ekki horft mikið á Everton í fyrra. Þá voru okkar menn mjög léttleikandi að mínu mati, héldu boltanum vel og bakverðirnir voru mikið að taka þátt í sókninni. Spurning hvort Martinez fari einhverja útgáfu af 3-5-2, þá gæti sést munur á milli þeirra.

    – Árangur í deildarbikar?
    Hef trú á því að liðið fari allavega í undanúrslit.

    – Árangur í FA bikar?
    8 liða úrslit.

    – Leikmaður tímabils?
    Held að Baines verði maður tímabilsins, ef hann verður áfram. Annars verður það Mirallas.

    – Hver þarf að sanna sig?
    Jelavic þarf að sanna sig eftir arfaslakt tímabil í fyrra. Ef hann gerir það ekki fyrir jól þarf nauðsynlega að kaupa framherja í janúar.

    – Hver kemur mest á óvart?
    Barkley hefur sennilega komið mest á óvart hingað til! Vonast til að hann haldi áfram að spila svona, frábær leikur hjá honum. Annars vonast ég til að Kone eða Naismith komi á óvart og eigi gott tímabil.

    Að lokum takk fyrir góðan upphitunar pistil. Ætla að reyna að vera aktívur á síðunni í vetur og vona að fleiri verði það. Er kominn með hundleið á að lesa alltaf bara eitthvað eftir Ara og Elvar 😉

  13. Elvar Örn skrifar:

    Everton var mun betri en Norwich í þessum leik.
    Ég man ekki betur en að Howard hafi ekki þurft að verja skot frá Norwich í þessum leik, þ.e. þeirra tvö skot sem ekki enduðu í varnarmanni fóru inn.
    Seinna markið þeirra var grísasending dauðans.

    Útileikur alltaf erfiður sem fyrsti leikur tímabilsins og kannski ekki agalegt að enda með jafntefli.

    Markið hjá Barkley var alveg stórbrotið og þessi drengur mun reynast okkur vel í vetur, eins og ég hef talað um hér áður.

    Hefði viljað sjá skiptingar fyrr og fá t.d. Ovieido fyrir Pienaar þar sem sendingar hans voru oft á tíðum skelfilegar, en átti þó mikilvæg moment í leiknum eins og sendingin á Jelavice sem skaut flottu skoti sem var varið og Coleman fylgdi vel á eftir með marki.

    Fatta ekki alveg skiptinguna þar sem Mirallas fer út og Naismith inn en er ég ekki á móti því að fá Naismith inn en ekki sniðugt að missa Mirallas út á þessari stundu.

    Flottur leikur hjá okkur í seinni hálfleik en hann fjaraði svolítið út hjá okkar mönnum verð ég að segja og því hefði ég viljað sjá öflugri skiptingar fyrr í leiknum.

    Arsenal tapaði á heimavelli sem kemur mjög á óvart og við mætum WBA um næstu helgi á Goodison Park, með sigri þar þá erum við í góðum málum

    Ég hef talað um það áður að með nýtt skipulag, nýjan stjóra og gríðarlega miklar breytingar kringum liðið þá mun það taka nokkra leiki að slípa liðið en fyrstu leikir eru akkúrat gegn liðum sem eru ekki í efstu sætunum að jafnaði.

    Hvernig var á Ölveri strákar?